Þrenningarhátíð

Þrenningarhátíð

Íhugunarefni þrenningarhátíðar er eðli Guðs og hvernig Guð mætir okkur í lífinu. Nafn þrenningarhátíðarinnar er dregið af því að Guð birtist okkur á þrennan hátt, sem þrjár persónur. Þessi birting Guðs í heiminum hefur frá fornu fari verið kölluð heilög þrenning.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
05. júní 2009

Sunnudaginn 7.júní ber að þessu sinni upp á þrenningarhátíð. Þrenningarhátíðin er síðasta hátíð þess hluta ársins sem við í kirkjunni gjarnan köllum hátíðartímabilið. Það tímabil hefst með aðventunni, síðan koma jól, páskar, uppstigningardagur, hvítasunna og loks þrenningarhátíðin. Næstu 25 sunnudagar kallast síðan sunnudagar eftir þrenningarhátíð og ná allt fram til fyrsta sunnudags í aðventu þegar nýtt kirkjuár hefst.

Á sunnudögum eftir þrenningarhátíð eru kirkjurnar skrýddar grænum lit , tákn gróanda og gróðurs og þeirrar hátíðar sem náttúran heldur yfir sumarmánuðina.

Íhugunarefni þrenningarhátíðar er eðli Guðs og hvernig Guð mætir okkur í lífinu. Nafn þrenningarhátíðarinnar er dregið af því að Guð birtist okkur á þrennan hátt, sem þrjár persónur. Þessi birting Guðs í heiminum hefur frá fornu fari verið kölluð heilög þrenning.

Mörgum finnst þetta tal um þrenningu frekar torskilið hjá kirkjunni. En það þarf í raun engar djúpar heimspekilegar pælingar til þess að skilja hvað átt er við með þessu orðalagi. Það er komið til okkar frá þeim tíma þegar kristnir menn fyrst reyndu að setja í orð þá upplifun sem þeir urðu fyrir þegar þeir mættu Guði sínum í öllum aðstæðum lífsins.

Við mætum Guði sem skaparanum, í hvert sinn sem líf verður til. Þar er Skaparinn að störfum, sem eins og hin blíðasta móðir gefur okkur lífið, sem viðheldur lífinu, og sem elskar okkur eins og við erum hvert og eitt með öllum okkar kostum og göllum. Þannig er Guð bæði Faðir okkar og móðir – skapari okkar.

En Guð er ekki bara einhver fjarlægur sköpunarmáttur sem stjórnar stjörnum og sólkerfum. Guð kemur til okkar í Jesú. Jesú sýnir okkur hver Guð er. Það er það einstaka við fæðingu, líf og dauða Jesú, einstaka í veraldarsögunni. Í Jesú er Guð kominn til okkar. Og ekki nóg með það. Þar sýnir hann okkur að hann er sá Guð sem elskar okkur það mikið að hann er tilbúinn til þess að gefa líf sitt fyrir okkur, tilbúinn til þess að deyja fyrir okkur á krossi. Þar með er ekki allt upp talið, því hann sem dó braut vald dauðans á bak aftur og reis upp, til þess að við mættum líka rísa upp þegar dauðinn kallar okkur. Það er hinn mikli gleðiboðskapur kristinnar trúar, það sem í raun og veru skiptir okkur megin máli, að Guð kom til okkar í Jesú Kristi, að hann dó fyrir okkur á krossi og sigraði með upprisu sinni dauðann. Og þetta allt til þess að ekkert muni geta gert okkur viðskila við kærleika hans.

En hvar mætum við þessum Guði í dag? Jú, við mætum Guði í Honum sem Jesús kallar Hjálparann, huggarann eða einfaldlega heilagan anda. Þegar við finnum andann hríslast um líkama okkar, þá þurfum við engin orð til að tala við Guð. Guð er þá eins og tónaflóð sem fyllir sálina, yndislegur ilmur, blíður sumarvindur eða óendanleg ástartilfinninng. Við finnum nærveru þessa anda Guðs líka í náttúrunni, þegar við verðum hugfanginn af fegurð himinsins á fögrum sumardegi og á veturna þegar tindrandi og snæviþakin fjöllin glóa eins og gimsteinar. Og svo finnum við nærveru andans í bæninni, þegar Guð og við rennum saman í eitt. Hann er nærri þegar barn er skírt, þegar ungmenni fermist, þegar hjónaefni eru vígð saman í hjónaband og þegar við kveðjum látinn ástvin. Andi Guðs er eins og andi ástarinnar sem ríkir milli tveggja elskenda. Þá ást er ekki hægt að útskýra, en sá sem elskar veit nákvæmlega um hvað er að ræða og þarf ekki skýringar við. Þannig er samband Guðs og þess sem hann snertir með heilögum anda sínum.

Og þá er aðeins lítið eitt nefnt af öllum þeim tilfinningum sem andinn vekur ef við opnum hjartað fyrir honum. Gleðilega þrenningarhátíð .