Farísear og fyrirgefning

Farísear og fyrirgefning

...Ég þakka fyrir að ég er ekki eins og aðrir menn; að ég er ekki eins og þessir kristnu trúar-nöttarar, sem standa að “Hátíð vonar” í Laugardalshöllinni og þaðan af síður er ég eins og þessi Franklin Graham, sem er ekkert annað en atvinnuhommahatari og mannfyrirlitningur. Ég berst fyrir sönnum mannréttindum og gegn öllum fordómum því sjálfur er ég fordómalaus og hef fundið hinn eina sanna grundvöll til að byggja allt lífið á....

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen!

Í guðspjalli dagsins mæta okkur tvær týpur, sem eru fulltrúar ólíkra lífshátta, ef svo má að orði komast. Annars vegar er það faríseinn Símon, sem er strangtrúaður Gyðingur sem leitast eftir að fara í einu og öllu eftir því sem hann telur lögmál Gyðinganna fela í sér um vilja Guðs, og hins vegar er það bersynduga konan, sem samkvæmt orðanna hljóðan hefur lifað gáleysislegu lauslætislífi og jafnvel stundað vændi eða eitthvað í þá veruna. Segja má, að þessi farísei í frásögunni standi sem einskonar samnefnari fyrir þau öll sem telja sig þekkja vilja Guðs betur öllum öðrum og sem fyrir vikið telja sig honum þóknanlegri en annað fólk. Bersynduga konan er aftur á móti samnefnari þeirra, sem sjá líf sitt brotið og brogað á svo margan hátt og þar með aðskilið frá vilja Guðs, en sem skynja í Kristi fyrirgefningu alls þess, sem áður hefur misfarist, og eygja þannig nýjan grundvöll og nýja möguleika til að byggja líf sitt á.

Atvinnuhommahatari og mannfyrirlitningur Þessi frásögn í guðspjalli Lúkasar kallast í rauninni á við aðra frásögn í því sama guðspjalli og sem einmitt er oft notuð í lestrum kirkjunnar á þessum 11. sunnudegi eftir þrenningarhátíð. Í þeirri frásögn segir einnig frá farísea. Sá gekk inn í helgidóm til að biðjast fyrir en bæn sína gerði hann með þeim hætti, að hann þakkaði Guði fyrir að vera ekki eins og aðrir menn: “Guð, ég þakka þér,” sagði hann, “að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.” Tollheimtumaðurinn sem þar stóð hjá og einnig gerði þar bæn sína, var hins vegar ekki eins upplitsdjarfur, heldur barði hann sér á brjóst í angist og iðran og sagði einfaldlega: “Guð vertu mér syndugum líknsamur.” Líkt og faríseinn Símon í guðspjalli dagsins þá telur sá farísei, sem hér er nefndur til sögunnar, sig líka vera guði einstaklega þóknanlegan. Hann álítur m.ö.o. að sín trú, sínar skoðanir og sínir lífshættir, standi vilja Guðs mun nær en lífshættir allra annarra. Ef þessi farísei væri á meðal okkar í dag – og það er hann svo sannarlega í margvíslegum skilningi – þá gæti hann hugsanlega horft djarflega upp í himininn og sagt: “Guð, ég þakka þér fyrir að ég er ekki eins og aðrir menn. Ég er ekki eins og þessir hommar eða þessar lesbíur og allra síst er ég nauðgari eða barnaníðingur, og ekki er ég útrsásarvíkingur eða bankabófi, heldur greiði ég alla mína skatta og sinni öllum mínum skyldum eins og orð þitt og lög mæla fyrir um.” Þessi farísei nútímans gæti líka verið af svolítið öðru tagi og með öðruvísi rétttrúnað og sjálfsréttlætingu í farteski sínu, og þá gæti orðræða hans við þann mátt, sem hann mögulega kynni að álíta grundvöll lífsins, verið á þessa leið: “Ég þakka fyrir að ég er ekki eins og aðrir menn; að ég er ekki eins og þessir kristnu trúar-nöttarar, sem standa að “Hátíð vonar” í Laugardalshöllinni og þaðan af síður er ég eins og þessi Franklin Graham, sem er ekkert annað en atvinnuhommahatari og mannfyrirlitningur. Ég berst fyrir sönnum mannréttindum og gegn öllum fordómum því sjálfur er ég fordómalaus og hef fundið hinn eina sanna grundvöll til að byggja allt lífið á.” Einhvern veginn með þessum hætti gæti einræða sálarinnar farið fram í hjarta þeirra sannfærðu “farísea,” sem í nútímanum láta hvað mest að sér kveða, en orðið farísei set ég hér innan gæsalappa og nota líkt og Biblían gerir um þá, sem vegna trúar sinnar og sannfæringar álíta sjálfa sig og sínar eigin skoðanir öllum öðrum fremri og betri.

Almennt talað er óvissan óhjákvæmileg En hvernig er það annars, kynni nú einhver að spyrja: Ef Jesús Kristur er sannarlega einkasonur Guðs, og ekki bara það heldur Guð sjálfur í heiminn kominn í holdi til að frelsa og endurleysa, og til að veita sérhverjum þeim, sem á hann trúir eilíft líf, er þá ekki hægt að draga þá ályktun, að þau sem á annað borð trúa á hann hafi komist til réttrar og sannrar þekkingar á lífinu og tilverunni og geti því borið höfuðið tiltölulega hátt miðað við alla aðra, sem láta alls konar villuhugmyndir heimsins blekkja sig og afvegaleiða? En þá komum við að því, að í þessari spurningu er einmitt kjarna málsins að finna. Jesús Kristur er EKKI SANNARLEGA einkasonur Guðs. Það, að Jesús Kristur sé sonur Guðs, er setning sem ekki verður sönnuð með neinni vísindalegri aðferð eða mannlegri röksemdafærslu heldur byggir hún á túlkun trúararfs og trúarsannfæringu, sem ávallt stendur frammi fyrir ákveðinni óvissu. Og þessi óvissa er algjörlega óhjákvæmileg því hún gildir um allar lífsskoðanir hverju nafni sem þær nefnast – líka þær sem segjast byggja á vísindunum - því það verður aldrei hægt að færa óyggjandi og almenn rök fyrir neinni heimsmynd eða lífsskoðun, því sérhver heimsmynd og lífsskoðun sækir alltaf kraft sinn í einhverjar forsendur sem við mennirnir þurfum ávallt að gefa okkur. En einmitt vegna þess að við þurfum alltaf að gefa okkur einhverjar forsendur fyrir lífsviðhorfum okkar þá verður óvissan alltaf óhjákvæmileg. Og af því að óvissan er óhjákvæmileg þá verður trúin lífsnauðsynleg – a.m.k. þeim sem vilja gera sér einhverja heildstæða mynd af heiminum. Að trúa er í rauninni andadráttur vitsmunalífsins.

Hverjir hljóta náðina? Í þeim guðspjallstextum, sem hér í dag (kvöld) hafa verið gerðir að umræðuefni, þá sjáum við hins vegar að það eru ekki hinir rétt-trúuðu farísear, með alla sína nákvæmu bókstafs- og lögmálsþekkingu og fullvissu um hvað sé rétt og hvað rangt, sem hljóta náð fyrir augum Guðs, heldur eru það tollheimtumaðurinn og bersynduga konan, sem eru í raun táknmyndir hinna niðurlægðu, jaðarsettu og útskúfuðu. Og hver er ástæða þess, að þau hljóta náð fyrir augum Guðs í þessum frásögnum? Jú, ástæðan er sú, að þau fara ekki með trúna sem feng sinn; þau hreykja sér ekki upp vegna trúar sinnar eða gera tilkall til að allir trúi eins og þau, heldur eiga þau til í hjarta sér auðmýkt og iðrun – og síðast en ekki síst syndavitund, en að vita sig syndugan er að skynja sig sem aðskilin frá Guði en um leið í ríkri þörf fyrir leiðsögn hans. Við, sem skilgreinum okkur sem kristin, teljum okkur fá þessa leiðsögn með hvað skýrustum hætti í trúnni á Jesú Krist, því við finnum hvernig orð hans og líf ná til hjartans og upplýsa það – en ekki í eitt skipti fyrir öll, því ef við raunverulega gefum okkur að boðskap Krists - komum að honum aftur og aftur og leitumst þannig eftir að opna hjarta okkar fyrir honum - þá áttum við okkur á, að boðskapur hans er sífellt að koma okkur á óvart, því aftur og aftur er hann að opna á nýjar leiðir og nýjan skilning og gefa okkur til kynna nýtt og óvænt samhengi hlutanna. Með þessum hætti má líka segja, að hann geri alla hluti stöðugt nýja. Kjarni málsins fyrir okkur sem kristin erum, er svo sá, að í boðskap hans teljum við okkur finna þann veg, sannleika og líf, sem við trúum að í fyllingu tímans færi okkur hvað næst uppsprettu okkar sjálfra og þar með heim til föðurins, eins og það er kallað á tungutaki Biblíunnar, þannig að í fyllingu tímans finnum okkur ekki framar syndug eða aðskilin frá Guði.

Syndavitund = að finna sig þurfa á guði að halda Það er hins vegar athyglisvert að skoða hvernig aðrir ritningartextar dagsins tala um syndina. Í þeim fyrri – lexíunni – heyrðum við eftirfarandi lesið: “Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin. Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki misgjörð og ekki geymir svik í anda.” Og í síðari lestrinum – pistlinum - sagði: “Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er Kristur trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.” Við vitum öll, sem hér erum í dag (kvöld) að það er ekki beinlínis í tísku að tala um synd eða segjast vera syndugur, og sennilega helgast það fyrst og fremst af því að nútíminn trúir ekki á Guð og finnur sig því ekki aðskilinn frá honum með nokkrum hætti. Að þessu leyti er hins vegar líkt á komið með faríseanum og nútímanum, því faríseinn skynjar sig ekki heldur aðskilinn frá Guði heldur lítur hann þannig á, að fyrir tilstuðlan lögmálsins og eftirfylgdarinnar við það, að þá sé hann nánast eitt með Guði og verðugur fulltrúi hans. Rétt eins og nútíminn finnur sig ekki í nokkurri þörf fyrir Guð, þá gerir faríseinn það ekki heldur, því báðir hafa gert sína eigin sannfæringu að guði sínum, og þannig hafa báðir í rauninni gert sjálfa sig að Guði. Hvorki faríseinn né nútíminn eru því í nokkurri þörf fyrir fyrirgefningu. Bersynduga konan og tollheimtumaðurinn skynja hins vegar í hjarta sínu að þau þurfa á fyrirgefningu að halda, en fyrirgefning felur í sér að miskunnsemi, kærleikur og elska séu til staðar en allt eru þetta hugtök, sem eiga þátt í skapa forsendu þess, að rétt samband komist á milli Guðs og manns. Páll postuli segir í einu bréfa sinna, að allir hafi syndgað og að alla skorti Guðs dýrð, og á öðrum stað segir hann að Kristur Jesús hafi komið í heiminn til að frelsa synduga menn, og segist sjálfur vera fremstur í flokki þeirra sem syndugir séu. Og dýrðlingurinn Frans frá Assisi slær svipaðan tón er hann segir að hvergi sé að finna eins mikinn og ömurlegan syndara eins og sjálfan sig. Við sjáum á því, sem hér hefur verið sagt um syndavitund, að hún slær á alla sjálfsupphafningu og undirstrikar að við mennirnir erum í ríkri þröf fyrir að þekkja vilja Guðs og að komast í snertingu við náð hans og kærleika, en þegar við í hjarta okkar skynjum þessa þörf, þá megum við líka vita, að sumarið er í nánd – hið andlega sumar þar sem hin andlegu tré eru tekin að bruma, ef svo má að orði komast – og þegar við stöndum frammi fyrir því megum við líka vita að eitthvað nýtt og stórkostlegt er í vændum.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen!