Svipmyndir raunveruleikans

Svipmyndir raunveruleikans

Í gær var lögreglukona, fimm barna móðir skotin til bana við skyldustörf sín hér í Englandi. Aðfararnótt síðastliðins fimmtudags fékk 16. ára gamall íslenskur unglingur heilablóðfall og var gerð 5 tíma skurðaðgerð á honum á Landsspítalanum til að reyna að bjarga lífi hans og er honum nú haldið sofandi í öndunarvél. Þessir erfiðu svipmyndir raunveruleikans eru aðeins brotabrot af því, sem átti sér stað í síðustu viku í þessum heimi.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur. Jh.5.24–27

Í gær var lögreglukona, fimm barna móðir skotin til bana við skyldustörf sín hér í Englandi.

Aðfararnótt síðastliðins fimmtudags fékk 16. ára gamall íslenskur unglingur heilablóðfall og var gerð 5 tíma skurðaðgerð á honum á Landsspítalanum til að reyna að bjarga lífi hans og er honum nú haldið sofandi í öndunarvél.

* * *

Þessir erfiðu svipmyndir raunveruleikans eru aðeins brotabrot af því, sem átti sér stað í síðustu viku í þessum heimi.

Ótal hlutir áttu sér einnig stað í þínu lífi.

Sumt manstu.

Öðru ertu búinn að gleyma.

Því nýtt tekur stöðugt við.

Nýir tímar, nýjar aðstæður.

Fréttirnar sem maður sér í sjónvarpinu, heyrir um eða les um snerta mann misdjúpt en dýpst þegar sorgin verður manns eigin þá ristir hún djúpt og hið daglega amstur, sem stundum stjórnar miklu í lífi manns víkur til hliðar og það sem skiptir máli fær alla manns athygli og einbeitingu.

Og stundum heyrist andvarpað þungt:

“Af hverju?”

“Af hverju er Guð að leggja þetta á mig?

“Hvar, hvar ertu eiginlega?”

Aðstæður lífsins eru stundum skrítnar, flóknar og erfiðar og maður veit ekki hvernig maður á að bregðast við þeim.

Eins og til dæmis þegar nánir vinir eða ættingjar eru í vanda og erfiðleikum eða maður sjálfur og þá grípur maður stundum til frasanna, segir eitthvað, sem passar ekki við af því maður veit ekki hvað maður á eiginlega að segja eða gera, af því orð og athafnir sýnast einhvern veginn svo einskis virði.

* * *

Guð í kristinni trú er ekki Guð örlaga, sem ákveður að þetta eða hitt eigi sér stað því maður hafi hagað sér svona eða einhvern veginn öðruvísi.

Guð, er Guð kærleikans, náðar og óendanlegrar elsku, og hann lítur inn í hjartað og sér það, sem þar er.

Stundum finnst manni í of mörg horn að líta í lífinu og maður ráði ekki við hraðann í kringum sig.

Maður fer jafnvel að gleyma að gera það sem maður hefur lofað fyrir all löngu og eða maður reynir að stytta sér leið í gegnum hlutina, en skemmri leiðirnar eru oft lengri en mann grunar.

* * *

Job, sem talað er um í lexíu dagsins þurfti að upplifa mikla raun.

Missa nánast allt sitt.

Jafnvel trúna á Guð.

Jobsbók fjallar um glímu Jobs við Guð.

Og í textanum í dag virðist Job vera að biðja Guð um að vera í friði að Guð líti af honum á meðan reiði hans rennur sitt skeið.

“Þú þarft endilega að muna eftir mér aumum þjóni, lít þú af mér svo ég fái hvíld.”

Viðbrögð Jobs eru ekki óalgeng í erfiðum aðstæðum lífsins.

Farðu og gefðu mér frið.

* * *

Í dag er síðasti dagur kirkjuársins og næsta sunnudag hefst nýtt kirkjuár með fyrsta sunnudegi í aðventu, þar sem undirbúningur hefst fyrir fæðingu frelsara þessa heims, Jesú Krists.

Þegar hið gamla er kvatt og hið nýja er í þann veginn að heilsa þá lítur maður gjarnan um öxl, vegur og metur það sem er liðið og sumt vill maður muna öðru vill maður helst gleyma. Kristin trú hvetur til þess að við lítum í okkar eigin barm, sjáum það sem þar er í sinni fegurstu og tærustu mynd.

Í pistlinum í dag, í Pétursbréfinu er höfundur þess að minna lesendur sína að lifa skammlausu lífi í ljósi þess að Kristur komi aftur og að Guði haldi loforð sín.

Ástæðan fyrir því að Kristur er ekki kominn aftur er ekki sökum seinagangs eða vegna þess að hann hafi hætt við.

Fólk verði að vera tilbúið hvern dag fyrir komu Drottins og nota hverja stund til að nota þekkingu sína og vaxa í náð Drottins.

Það er tekið kröftulega til orða eins og til dæmis:

“En dagur Drottins mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.”

Og sumir hugsa ef til vill við þennan lestur eða þegar þau heyra þessi orð:

“Verður þetta virkilega?”

“Stenst þetta í þeim heimi vísinda og tækni sem við lifum í?” Stórt er spurt.

Hvað finnst þér sjálfri eða sjálfum?

Hver er þín afstaða?

* * *

Guðspjallið hjá Jóhannesi kemur svo í kjölfar textans úr Pétursbréfi og segir:

“Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn frá dauðanum til lífsins.”

Hvernig tekur fólk svona orðum?

Er sá sem þetta segir stórbilaður eða raunverulega sonur Guðs?

Er Guð til?

Það er hið raunverulega líf sem við finnum, þegar við lifum með Jesú Kristi, það er það sem verið er að segja hér.

Stundum er eins og fólk sé ekki að hlusta á mann, þegar maður er að tala við það.

Það er jú fyrir framan mann.

Maður sér það, það er bara ekki að hlusta.

Það er eins og það sé einhvers staðar allt annars staðar í huga sínum og hjarta. * * *

Að “Orðið” öðlist líf.

“Ég fer ekki til kirkju, það á ekki við mig”, segja einhverjir og enn aðrir segja ef til vill:

“Það er bara af því að ræðurnar hjá prestinum eru svo þunglamalegar, fræðilegar, þurrar eða bara svo hundgrútleiðinlegar?”

Ástæðurnar eru margvíslegar.

Hvers vegna förum við til kirkju?

Af því að kökurnar í kaffinu á eftir eru svo góðar?

Af því að við verðum að gera það?

Eða af því að við þráum að heyra boðskapinn um hinn lifandi Guð.

Sumir taka svo sterkt til orða að þeir tala um þau sem eru andlega dáin í lífinu, hugsunalaus og eða iðrunarlaus. * * *

Lækningin eða upprisan er einungis ein.

Það er meðvitundin um að Jesús er alltaf með.

Þegar við vitum af honum við hlið okkar þá getum við ekki hugsunarlaust gert eitthvað rangt.

Við erum þá ekki ein með bældar tilfinningar eða dofnar innra með okkur.

Hann er með okkur og vill heyra um okkur.

Við erum ekki ein í hugsanaleysi því nærvera og boðskapur hans hlýtur að vekja okkur hugsun.

Þegar textarnir þrír í dag, “Orð Guðs” eru lesnir saman þá er aðalatriðið það að verið er að hvetja lesendur og tilheyrendur til þess að taka við Jesú í líf sitt og fara eftir boðum hans.

Lifa í vitund þess að hann er nálægur og þegar er tekið á móti Jesú þá tekst okkur vonandi að snúa við þeirri mynd sem Job dregur upp í textanum sínum og að við hættum að upplifa Guð sem dómara en finnum frekar fyrir öryggi og náð hans.

Og þegar við finnum fyrir þeirri nálægð og gleði þá vonandi erum við í stakk búinn til að hjálpa til við að breiða út orð hans og boðskap.

Og það felst ekki í því með að kvarta yfir að þetta sé svona eða hinsegin út af þessu eða hinu, það hefst með því að líta inn í sitt eigið hjarta, leitast við að skilja, samþykkja og fyrirgefa.

“Vakna, Síons verðir kalla ó, vakna, hljómar röddin snjalla. Þú Jerúsalem, borg Guðs brátt. Hyggin vert og hugsa eigi, að hér til hvíldar bjóða megi, þótt yfir standi aldimm nátt. Sjá, Herrann kemur nær, kom, brúður, honum nær. Blys lát brenna og gleðst í lund, á Guðs þíns fund hann leiðir þig við ljúfa mund”.