Skeitari með tilboð

Skeitari með tilboð

Gleðilega jólahátíð! Já, jólin er gengin inn um hlaðvarpa hugans. Eitthvað sem ætti ekki að koma okkur á óvart. Dagar og vikur síðan jólaljósin voru sett upp enn lengra síðan að farið var að huga að jólahlaðborðunum, því vel skyldi gera við sig í aðdraganda jóla á jólaföstunni. Ekki sé talað um á jólunum sjálfum og er það vel.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
24. desember 2013
Flokkar

„Ég trúi því varla“ heyrði ég konu segja fyrir aftan mig, þar sem ég stóð stilltur og prúður og beið eftir að röðin kæmi að mér við afgreiðsluborð bókabúðar á Laugaveginum í gærkveldi, sæll og glaður að ljúka jólagjafakaupum þessi jólin. Það var reyndar sambland af gleði og eftirsjá, því það er viss stemming að arka um borgina dagana fyrir jólin á aðventunni og á Þorláksmessukveldi hvort heldur ljósumprýddri miðborginni eða Kringlunum sem þreytast ekki á að segja að hjá þeim er alltaf gott veður. Rekast á mann og annan í nettbrjálaðri leit af því sem mögulega gleður ástvin/ástvini á jólum. Það er alltaf gaman að gleðja sjálfa sig og aðra um leið. Á Þorláksmessu smellur alltaf eitthvað inn í mér sem vekur einhvern barnslega spennu til jólanna. Í gærkveldi á andliti barnanna skein eftirvænting og fjörleiki fá að vaka lengur, vera með láta sig dreyma og hugan reika um pakkana sem kúra leyndardómsfullir undir slúttandi greinum ljósum prýddu jólatrénu í stofunni heima. Ég gat fyllilega tekið undir orð konunar í röðinni í gærkveldi, sem trúði því varla að „jólin væru að renna í hlað - aftur.“

Gleðilega jólahátíð! Já, jólin er gengin inn um hlaðvarpa hugans. Eitthvað sem ætti ekki að koma okkur á óvart. Dagar og vikur síðan jólaljósin voru sett upp enn lengra síðan að farið var að huga að jólahlaðborðunum, því vel skyldi gera við sig í aðdraganda jóla á jólaföstunni. Ekki sé talað um á jólunum sjálfum og er það vel.

Það er líka vel, að geta sagt að sú var tíðin að hægt var að segja, héðan úr stólnum að þið þekkið jólaguðspjallið. Mörg ykkar þekkja það og geta þulið það utanbókar. „Boð kom frá Ágústusi keisara“...osfrv. eins og lesið var hér áðan frá altarinu.

Í dag skyldi fara varlega í þesskonar fullyrðingar, ef marka má svar eitt þeirra barna sem komu í aðventuheimsókn hingað í kirkjuna núna fyrir jólin. Aðspurð um jólaguðspjallið, svaraði einn strákurinn á að giska 6 ára; á innsoginu lét hann vita að hann væri í fyrsta bekk og búin að missa þrjár tennur og ein fullorðins væri allveg að koma, sagði svo „Var það ekki einhver skeitari sem var með tilboð að skásetja alla heimskingja?“ Þá sló þögn á hópinn. Augljóslega sást á bekkjasystkinum hans að þetta hljómaði einhvern vegin ekki allveg rétt. Engin þeirra var með tilburði að leiðrétta bekkjarbróður sinn, heldur horfðu barnslegum einlægum augum á okkur sem stóðu fyrir framan barnaskarann og hreinlega ætluðust til þessa að við héldum andlitunum. Í kjölfarið var eins og þykk værðarvoð væri sveipuð yfir hópinn, þögnin var algjör. Svipur drengsins; þar sem hann sat á fremsta bekk, brosandi. Augu hans eins og tvær bjartar tindrandi stjörnur á heiðríkum brosandi himni, ljós langt að komið. Það glimmti í tennurnar sem eftir voru í munni hans og þá sem var allveg að koma og hvað er hægt að segja annað við barnaskarann, en muldra fyrir munni sér; um leið þótt erfitt væri að láta ekki á neinu bera, öðru en að brosa góðlátlega „það var ekki „skeitari“ heldur „keisari“ að þeim orðum sögðum, renndum við okkur fótskriðu; eins og á Fylkisvellinum á miðju sumri, því eflaust hefur það ekki tíðkast á Betlehemsvöllum, og við sungum „Í „Betlehem er barn oss fætt“ í framhaldi af söngnum fengum við að vita í óspurðum fréttum að eitt barnanna hafði verið í útlöndum og séð betlara, „kannski átti hann heima í Betlehem“ heyrðist þá í öðru barni.

Hvað heyrum við á jólum og hvað sjáum við á jólum? Hvað segjum við á jólum? Hvað skynjum við á jólum? Jólafrásagan eða fæðingarfrásagan er yfirfull að táknum sem allar benda á kyrrð og ró umvafin umbúðum ókyrrum myrkum heimi. Einhvern vegin i hrópandi mótsögn við hið venjulega aðfangadagskvöld okkar íslendinga, sem hefur allt nema kyrrð og ró að ekki sé talað um rómantík. Alls ekki eins og jólaplötualbúmi Nat King Cole „Chrismas Album „ æsku minnar, sem mörg ykkar kannast við. Þar situr hann brosandi með óopnaða jólapakka allt í kringum sig. Eitthvað svo ljúft og kyrrt og einmannalegt, fannst mér með öll mín fimm systkini og engin friður.

Fyrri hluti aðfangadagskvöld æsku minnar líktist meira leifturstríði. „Háspenna lífshætta „ Slíkur var hamagangurinn við matarborðið að ég var lánsamur að komast óskaddaður frá borði og í uppvaskið bara þetta eina skipti á árinu. Gjafirnar kúrðu ekki lengi óopnaðar undir trénu og við bræðurnir vorum farnir að stelast til að skilmast með sverðunum sem Gunni frændi gaf okkur áður en jólanóttinn skall á myrkum heimi baðaður birtu þess að barn fæddist í þennan heim. Hvað er svo merkilegt við það? Börn eru alltaf að fæðast í þennan heim. Hversdagslegt? Nei aldrei. Þið konur vitið sem barn eða börn hafa fætt og við feður sem hjá hafa staðið, að það er ekki auðvelt, en samt auðvelt í þeirri gleði sem fylgir og því kraftaverki sem barnsfæðing er. Nýtt líf, tákn þess að Guð þrátt fyrir allt hafi trú á okkur. Aðstæður allar í gripahúsi, fátækir foreldar, barnsgrátur sem sker í hjarta og myrkrið hláturmilt með allt falið í örmum sér um stund stóð tómhent. Hafði ekkert að gefa. Hafði ekkert að gefa nema sem fyrr að hvísla efa sundrungar í eyru. Fyrr þessa nótt hljómuðu raddir engla, að ekkert væri að óttast „Yður í dag er frelsari fæddur...“...sjá ég boða yður mikin fögnuð...“ og heimurinn varð ekki samur.

Manneskjan varð ekki söm. „Það er fallegt og sorglegt að vera manneskja“ eru orð listamannsins Ragnars Kjartanssonar á kærleikskúlu þessa jóla. Hann minnist samtals við föður sinn á jólanótt árið 1988. „Á jólum er aldrei meira talað um kærleika og frið og við hugsum um stóra hluti. En lífið er aldrei annaðhvort eða, aldrei annaðhvort harmþrungið eða gleðilegt, aldrei svart eða hvítt. Eða eins og og listamaðurinn segir. „Við lifum og deyjum á gráa svæðinu. Þar byggjum við okkar bústað. Hlutskipti okkar hvers og eins, er bæði sorglegt og fallegt.“

Á jólum fáum við um stund að dvelja við það fallega. Fallegar einlægar hugsanir barnanna hljóma í eyru. Mynd þeirra af heiminum er það sem stendur þeim næst. Eins og hnátan litla í einum leikskólana sem sótti kirkjuna heim sagði eftir að hópurinn var spurður hvers vegna við höldum hátíðleg jól. „Ég á frænda og hann var gamall og hann er dáinn.“

Jólin mega aldrei vera sem mynd, gulnuð litmynd í albúmi minninga okkar sem eldri erum. Á jólum leyfum við okkur að loka því albúmi og horfumst í augu við þann veruleika sem við óskum okkur helst og sjáum í augu barnsins sem trúir og treystir á allt það besta í manneskjunni og veröldinni.

Einhver álitsgjafi fjölmiðils nú á aðventunni, sagði aðspurður um jólin, að „jólin í hans huga væri klisja“ hann ústkýrði það ekkert frekar. Leyfi ég mér að halda að hann hafi átt við að jólin, jólahátíð nútímans væru rúin merkingu sinni. Á jólum er safnað saman í huga öllum fallegustu orðum íslenskrar tungu. Þeim raðað saman svo úr verða hughrif og við „hugsum um stóra hluti“ eins og faðir listamannsins sagði um árið á jólanótt.

Fæðingarfrásagana er sorgleg og hún er falleg í einfaldleika sínum. Hún er sorgleg vegna mennskunar, þess að foreldarnir höfðu ekki húsaskjól, falleg vegna kærleikans „hann var vafin reifum og lagður í jötu.“ Að horfa í augu barns dagana fyrir og um jólin, sem nýtur umhyggju og ástar er játning jólanna ekki klisja heldur endurnýjast á ári hverju og speglast í auga og huga barna okkar og sannfærir okkur um hvort heldur eða ekki , að við höfum staðið í röð í verslun á Laugaveginum seint í gærkveldi og trúað því varla að jólin væru að renna í hlað vitundar okkar. Hátíðin sem fyrir stundu voru hringd inn af kirkjuklukkum landsins er andardráttur guðs og hjartsláttur. Leggjum við hlustir og leyfum okkur að meðtaka boðskap jólanna. „Yður er í dag frelsari fæddur.“

Guð blessi þig og varðveiti á lífi og sálu og gefi þér frið og fögnuð í hjarta og gleðileg jól.