Tafla, tala eða tungl?

Tafla, tala eða tungl?

su dag einn að tala allt of lengi. Aðspurður um ástæðuna svaraði hann að hann hefði jafnan þann háttinn á að setja upp í sig Opal töflu og láta hana bráðna smátt og smátt. Hún dugar yfirleitt í korter, sagði hann.

Presti nokkrum varð það á við messu dag einn að tala allt of lengi. Aðspurður um ástæðuna svaraði hann að hann hefði jafnan þann háttinn á að setja upp í sig Opal töflu og láta hana bráðna smátt og smátt. Hún dugar yfirleitt í korter, sagði hann. En í dag gerði ég þau mistök að setja óvart upp í mig tölu af jakkaerminni!

Þú getur líka hlustað á ræðuna með því að smella hér.

Með hverju mælir maður tímann? Opaltöflu, ermatölu eða tungli?

Hvað líður tíma? Þannig spurðu vökumenn gjarnan forðum daga þegar engar klukkur voru til en sól og tungl gáfu til kynna tíma og tíðir. Mörg okkar sáu tunglmyrkvann á dögunum sem í fyrsta sinn í tæp 400 ár bar upp á vetrarsólstöður. Til forna mældu menn árið út frá tunglmánuðum en lentu yfirleitt í vanda með árið því 12 tunglmánuðir eru ekki jafnlangir árinu sem það tekur jörðina að fara umhverfis sólu. Það var ekki fyrr en Júlíus Sesar kynntist Kleópötru og heillaðist gjörsamlega af hinni fögru konu suðrænna sanda og lærði að mæla tímann að hætti Egypta að nýtt tímatal var tekið upp í Rómaveldi 1. janúar árið 45 f. Kr. Egyptar mældu ekki árið út frá tunglinu. Í raun er það hulinn leyndardómur með hvað hætti þeir komust svo nærri réttri mælingu. Egyptar voru fyrstir hinna fornu menningarþjóða til að leiðrétta villuna sem stafaði af viðmiðun við gang tunglsins. Líklegast er að áin Níl hafi leitt þá á sporið. Herodótus kallaði Egyptaland „gjöf Nílar“ en áin gerir það að verkum að hluti landsins, landið meðfram ánni, er gróðursæl vin, meðan restin er nánast ein sandauðn. Fornegyptar kölluðu ána einfaldleg hafið (e. the sea). Reglan sem fljótið laut, var svo nákvæm, að menn gátu mælt tímann eftir hegðun fljótsins, sem var mun auðveldara að lesa í en tunglið. Stjarnfræðingar uppgötvuðu þó annan mælikvarða til viðbótar við Nílarmælinn sem gerði mælingu sólarársins enn nákvæmari. Síríus, skærasta stjarnan á himinfestingunni, sést einu sinni á ári á morgunhimni í beinni línu við rísandi sól. Þannig fundu þeir lengd ársins. Til viðbótar þessu mældu Egyptar skuggann frá pýramídunum til að segja fyrir um jafndægur, vor og haust.

Það var svo ekki fyrr en á 14. öld að árið var endanlega reiknað rétt á grundvelli útreikninga munksins, Rogers Bacon, sem fann út að bæta þyrfti við einum degi til leiðrétta gamal skekkju í fyrri útreikningum.

Þessi langi inngangur ræðu minnar er þó ekki nema örstutt yfirlit yfir árþúsunda leit mannsins að hinu rétt reiknaða ári.

Og nú er nýtt ár hafið með nýrri von og trú, árið 2011 eftir Kristsburð.

Gleðilegt nýtt ár!

Í dag eru liðin 70 ár frá því fyrsti sóknarprestur Nesprestakalls tók til starfa en það var séra Jón Thorarensen. Prestakallið var stofnað árið 1940, gengið var til prestskosninga um haustið og tók nýr prestur við 1. janúar.

[heyra má viðbót í innskot á hljóðupptöku]

Með árunum sem yfir mann færast verður manni ljóst að tíminn er afstæður því hvert ár er nú mun fljótara að líða en þegar maður var barnungur og beið óþreyjufullur eftir framtíðinni. Nú eru viðmiðin önnur og afstaðan breytt. En tíminn lætur sig engu varða hvernig ég eða þú upplifir hann. Árferði á Íslandi eða í heiminum skiptir hann engu. Hann kærir sig kollóttan um kaup og kjör og lætur sem hann viti ekki af hruninu sem skekið hefur allt okkar líf og þjóðfélag. Og þá liggur beinast við að spyrja: Er hið stóra í veröldinni algjörlega kalt og afskiptalaust hvað varðar kjör okkar manna og líf?

Tíminn er algjörlega tilfinningalaus og himintunglin sömuleiðis. En mitt í þessum tilfinningakulda og afskiptaleysi grær innra með mönnum vitundin um að í veröldinni sé eitthvert æðra afl til sem hefur hjarta sem slær, huga sem finnur til og elskar.

Um það snýst starf kirkjunnar, að boða kærleikann sem grundvöll alls lífs. Boðskapur hennar neita því að allt í heimi hér sér kalt og tilfinningalaust.

Kirkjan er barn tímans og er þar með þessa heims, en hún fylgir honum sem menn sannfærðust um að væri í senn barn tímans og eilífðarinnar, af þessari veröld og hinni handanverandi, í senn jarðarbarn og himinssonur. En kirkjan er jafnframt fyrir upprisu hans orðin samfélag þeirra sem hér lifa og hinna sem horfin eru og gista himinn Guðs. Hún sameinar allar kynslóðir. Altarisgangan tengir saman þessa tvo heima, heim tímans og heim tímaleysisins, hérveru og handanveru, jörð og himinn, þetta líf og hina komandi veröld. Altarisveggurinn er tákn þeirra skila sem eru á milli tveggja heima, tímans og eilífðarinnar. Guð er hið stóra samhengi sem tengir allt.

Við erum hér í heimi tímans og eigum jafnframt tengingu við himininn í orði Guðs og sakramentum.

Gott er að ítreka þessi trúaratriði á tímamótum og ekki síst þegar á brattann er að sækja í lífi þjóðarinnar. Sumir sjá þau teikn á lofti að brekkan verði ekki jafn brött á næstu misserum og hún var eftir hrunið. Guð láti gott á vita. Við erum vonandi á réttri leið. Nú þurfum við að horfa fram á veginn í von og trú, halda áfram að trúa á Guð og treysta hvert öðru. Þannig komumst við út úr hvaða veðri sem er.

Blessað hrunið. Blessað hrunið olli því að við erum komin niður á jörðina eftir æðið sem greip um sig upp úr aldamótunum. Hrunið hefur knúið marga til að endurmeta stöðu sína, horfa til grunngilda og róta. Hrunið er líklega dýrasta lexía sem þjóðinni hefur verið veitt, einskonar námskeið í „hugrænni atferlismeðferð“. Sagt er að í mörgum tilvikum þurfi einstaklingurinn að finna botninn í vanda sínum til þess að geta spyrnt sér aftur upp á yfirborðið til að ná í súrefni. Við náðum botni og höfum spyrnt okkur upp.

Nýtt ár gefur ný tækifæri. Eyðimerkurfeðurnir svo nefndu voru menn sem yfirgáfu hefðbundið líf og fóru út í óbyggðir til að íhuga og leita Guðs og reyna að þroskast og breyta sjálfum sér. Einn þeirra, Abba Poeman sagði um Abba Prin að hann hefði hafið hvern einasta dag á því að byrja upp á nýtt og Arsenios sagði á 5. öld: „Guð minn, yfirgef mig eigi. Ég hef ekki gert neitt gott fyrir augliti þínu, en gef mér af mildi þinni, kraftinn til að hefjast handa.“

Nýtt ár gefur ný tækifæri og nú er það bæn okkar að Guð gefi okkur kraftinn til að hefjast handa, byrja nýtt á með nýjum hætti og í nýrri von.

Skv. gyðinglegri hefð hefst nýtt ár á tíu daga ferli, Dögum lotningar. Þá hugleiða Gyðingar samskipti sín við náungann á liðnu ári, skoða það sem kann að þarfnast leiðréttingar og sáttargjörðar. Þeim er ljóst að til þess að geta haldið áfram með góðu móti þarf að gera upp það sem miður fór. Þess vegna er spurt: Er einhver sem þú særðir á liðnu ári með orði eða athöfn? Er möguleiki á að biðjast fyrirgefningar? Er einhver sem særði þig með orði eða athöfn? Getur þú boðið honum eða henni fyrirgefningu?

Ef þjóðinni auðnaðist nú að vinna á þessum nótum sáttargjörðar þá mun hún ná settu marki fyrr og með betri líðan í sál og sinni en ella.

Fyrir dyrum stendur að halda stjórnlagaþing þar sem kosnum fulltrúum verður falið að semja nýja stjórnarskrá sem leggja á fyrir þjóðina í fyllingu tímans. Vonandi mun þinginu takast vel til í vandasömu verkefni. Hver er sinnar gæfu smiður, segir máltækið. Nú er það þjóðarinnar að marka sér nýja framtíð með nýjum leikreglum á nýjum tímum.

Guð, gef okkur kraftinn til að hefjast handa hvern nýjan dag og halda áfram að vinna að heill þjóðar og heims. Nýtt ár er hafið með nýrri von og trú. Lífið heldur áfram og verkefnin mun aldrei þrjóta. Tíminn líður og lætur sig engu varða hvað við gerum eða hugsum. Við erum háð tímanum en hann óháður okkur. Við hverfum og þá koma aðrir í okkar stað. Lífið heldur áfram. Mesta undrið er að fá að taka þátt í því um stund.

Vonandi telur Guð daga okkar, öndvert við prestinn, með tölu í munni fremur en Opal töflu. Vonandi gefur hann okkur marga góða daga á þessari jörð, því þrátt fyrir allt er lífið dásamlegt í fjölbreytileika sínum og verkefnin mikilvæg til öflunar visku og þroska.

„Guð minn, yfirgef mig eigi . . . [en] gef mér af mildi þinni, kraftinn til að hefjast handa.“

Með Jesú byrja ég, með Jesú vil ég enda, og æ um æviveg hvert andvarp honum senda. Hann er það mark og mið, er mæni’ eg sífellt á. Með blessun, bót og frið hann býr mér ætíð hjá.

Í fylgd með honum, sem hlaut nafni Jesús á áttunda degi, skulum við nú hefjast handa á nýju ári, studd af honum sem var í senn barn tímans og eilífðarinnar, honum sem tengir himinn og jörð, tíma og eilífð og mælir tímann með tölu eilífðarinnar í munni sér!

Við erum örugg undir leiðarstjörnu hans. Með honum mun þjóðin finna hinn rétta veg, hið góða líf og fagra.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður uma aldir alda. Amen.