Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig.Jóh. 14. 15-21
Lúðrar himins blása þennan dag. Drunurnar eru miklar, rétt eins og þegar þrumuveðrin ganga yfir. Leiftur eldingarinnar lýsir upp himinhvolfið og gnýr þrumunnar fylgir á eftir. Sá sem finnur sig undir þrumum og eldingum finnur til smæðar sinnar. Uggur og aðdáun fléttast saman í mikilfenglega upplifun. Náttúran talar sýnu máli og hún hefur stundum hátt og máttur hennar á sér engin takmörk.
Á hvítasunnudag urðu drunur af himnum. Það þýðir að himininn opnaðist og miðlaði heimsbyggðinni af mætti sínum. Hann hafði líka opnast þegar Jesús fæddist og englar himneskra hersveita birtust mönnunum og sungu lofgjörðarsöng. Það kann að hafa verið öllu mildari kveðja, en sú sem heyrðist á hvítasunnudag. Enda var það aðeins forsmekkurinn af því sem koma skyldi.
Lesið af vörum
Ég er svo heppinn að eiga bandarískan vin, sem er spastískur og algjörlega hreyfihamlaður og getur það eitt að reka út úr sér tunguna, sem af hans munni þýðir já. Nei, segir hann með því að gera það ekki. Með þessum hætti hefur honum auðnast með hjálp foreldra sinna og annarra velgjörðarfólks að menntast vel, eiga samskipti við aðra, eignast vini, njóta viðburða íþrótta, tónlistar og annarrar menningar, jafnvel ferðast. Hann kom til Íslands og fór austur í Jökulsárlón í Öræfasveit og sigldi þar undir þungum skýjum og ógnarlegum ísjökum. Allt var grátt og kaldranalegt. Skyndilega opnaðist himinninn og sólstafir dýrðarinnar opinberuðust af þvílíku ríkidæmi að allt varð með himneskum blæ. Þá renndi hann augum sínum til móðurinnar og stafaði með sínu tungutaki: “Mamma, þessu mun ég aldrei gleyma”. Hún las þessa mögnuðu yfirlýsingu af vörum hans, og fyrir okkur hinum varð þessi atburður ógleymanlegur.
Postularnir töluðu tungum. Þeir boðuðu fagnaðarerindið um Drottin. Allir þeir er voru saman komnir skildu þá. Skilningur manna í millum er sennilega meira bundið við vilja, áhuga, umhyggju og kærleika en nokkuð annað. Orðabókin er ágætt verkfæri, en löngunin til að skilja, leggja á sig að meðtaka og hæfileikinn til að nálgast einstaklinginn, þar sem hann er hverju sinni er það sem gerir gæfumuninn. Þannig opinberast nýr heimur, nýr sýn, nýjir möguleikar.
Umskipti í anda Guðs
Það er með þessum hætti sem andi Guðs verkar í lífi mannanna. Umskipti eiga sér stað frá myrkri til ljóss, frá depurð til fagnaðar, frá óvissu til eindrægni, frá sinnuleysi til hugsvölunar, frá þróttleysi til þrekvirkja, já, og þjóða í millum. Andi hvítasunnunnar er staðfesting Guðs á því, að átt hefur sér stað sáttargjörð milli himins og jarðar. Það er mikil brúarsmíð. Jesús er brúarsmiðurinn. Þessi smíð er svo stórtæk að henni verður ekki jafnað við neitt, nema helst regnbogann. Hann birtist okkur einmitt, þegar sólin kveikir á litskrúði daggardropans í regnskýinu. Og sérhver dropi, stór og smár, er jörðinni svölun og lífsmöguleiki.
Brúarsmíð
Sagan segir að Guð almáttugur skapari himins og jarðar hafi sent okkur regnbogann til þess að minna okkur á, að hann muni ávallt halda sáttmála sinn við manneskjuna og aldrei bregðast henni á nokkurn hátt. Saga Jesú bætir þar um og opinberar kraft af hæðum í mannsmynd, sem kennir okkur elska hvert annað á alveg nýjan hátt og sameinar okkur til góðra verka. Það er alveg sérstök brúarsmíði manna í millum, sem er bæði mikil list og þeim einum lagið, sem treystir á forsjón Guðs og leitar að hinu besta í sjálfum sér og öðrum mönnum. Hvítasunnan opinberar blástur himinlúðranna, þar sem kraftur af hæðum himins streymir um hjarta mannsins og fær hann til þess að sjá ljómann í augum frelsarans, finna ilm orða hans og hrífast af anda lífsins, sem í honum býr.
Skyldi ekki einhver postulanna hafa sagt: “Faðir minn á himnum, þessu mun ég aldrei gleyma”, eins og drengurinn við Jökulsárlón. Það er augljóst af vitnisburði postulasögunnar að lærisveinarnir urðu djúpt snortnir af þessum fyrirgangi himinsins og urðu aldrei samir eftir. Þeir fylltust gleði og nýjum lífskrafti og gátu loks sagt það sem þá hafði langað til, allt til þessa, eftir krossfestingu Krists. Markmið þeirra var nú það eitt að útbreiða orð hins upprisna Drottins Jesú og leyfa heimsbyggðinni að njóta nærveru hans í orðinu, og kærleika hans. Þá sést það sem verður, þegar tekið er á móti því orði og það nær að bera ávöxt í hugsun, framkomu og verkum mannanna. Þess vegna kennum við börnum okkar að Jesús sé leiðtogi, fyrirmynd, sáttargjörð. Þess vegna er opinberun hvítasunnunnar svo stórkostleg. Í henni er hrekjast burt hindrandir skilnings og tungumálavanda og hjálpa okkur til að lesa það rétt af vörum viðmælandans sem tjáð er. Þar er skiptir mestu máli viðleitni kærleikans. Pólitísk sáttargjörð
Leiðtogi nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi segir að hún sé sáttastjórn. Það er eftirtektarvert. Hún er þá væntanlega stjórn þar sem hin pólitísku öfl hafa náð sáttum um eitthvað og eða ætla sér að vera boðberar sáttarinnar. Það er gott. Er það ekki einmitt markmið allrar stjórnsýslu að menn geti lagt fram skoðanir sínar, þótt misjafnar séu, nái sáttum um málefnin, til þess að hægt sé að koma einhverju góðu í verk. Það er ekkert smáræðis vald að fá að kjósa. Þá spyr þjóðin samvisku sína og talar. Nú hefur hún talað og nú tala þingið og stjórnin. Þannig er framgangur lýðræðisins. Gerður hefur verið grundvöllur, sáttargjörð. Hvaða andi skyldi hafa blásið glæðurnar í hana? Er það andi Guðs? Já, því ekki það. Eigum við ekki einmitt að treysta því að andi Guðs sé með okkur í verki, leiðbeini og opni augu okkar fyrir því hvar skórinn kreppir, hvað þurfi að gera, svo að hjálpræðið megi opinberast. Það er að vísu ekki talað mikið um trúarbrögð í sáttmála nýju stjórnarinnar, sem er í sjálfu sér allt í lagi, en það er m.a. talað um réttlæti, og töluvert um velferð fólksins í landinu. Það hljómar nokkuð vel. Aðalatriðið er að lesið sé rétt í það tungumál, sem talað er. Að höfð séu í huga þau sjónarmið, sem Jesús Kristur hefur borið fram í orði sínu, sýnt fram á í verkum sínum og gefið líf sitt fyrir í þeirri sáttargjörð, sem opinberast í dauða hans og upprisu. Kirkjan, kristið fólk í landinu, getur ekki frekar en annar almenningur ráðið um það, hvað gert skuli, en við treystum því, að á Alþing og í ríkisstjórn veljist fólk, sem hefur grundvallarviðmið kærleikshugsjónarinnar í Jesú Kristi að leiðarljósi. Við treystum því að sú menning og sú uppfræðsla, sem er ávöxtur hennar verði þeim það leiðarljós. Menningin í landinu er nefnilega þverskurður þess, sem við hugsum, ræðum, sættumst á og gerum. Þannig hjálpumst við að og þannig vinnum við saman. Stöndum vörð um þau gildi, sem varða heill okkar og framtíð. Og hvar sem ágreiningurinn verður, hvort sem það er nú á Alþingi eða í þjóðkirkjunni, þá gildir að finna sátt um það sem bíður úrlausnar. Sátt, sem tekur mið af fegurð regnbogans. Í þeim efnum megum við aldrei gefast upp.
Snerting dýrðarinnar
“Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín”, segir Kristur. “Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. ... Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa.” (Jóh. 14:15nn).
Regnboginn mun áfram vitna um sáttmála Guðs. Himinninn mun áfram opnast yfir Jökulsárlóni og vekja upp ógleymanleg viðbrögð. Andi Drottins er hér enn sem á hinum fyrsta hvítasunnudegi, kraftbirting himins. Og við erum hér til að opna hjörtu okkar fyrir anda hins ómælanlega kærleika og skilnings á mannlífinu. Njóta lúðrablástursins. Verða snortin af dýrðinni og fyllast krafti af hæðum í nafni Drottins Jesú. Amen.