Friðarviðleitni í nafni trúar

Friðarviðleitni í nafni trúar

Trúarleiðtogar hafa átt stóran þátt í að hefja viðræður milli stríðandi fylkinga frá Indónesíu til Síerra Leone, Nígeríu til El Salvador og Kosovo til Súdans. Þeir hafa líka veitt hrjáðum samfélögum tilfinningalegan og andlegan styrk og stuðlað að sáttum.
fullname - andlitsmynd Jorge Sampaio
20. september 2017

Styrjaldarátök eiga sér margar orsakir, hvort heldur sem er ásókn ríkja í lönd annara, landfræðilegir- og pólitískir hagsmunir að ekki sé minnst á samkeppni. Samkeppni um náttúruauðlindir, efnahagslegur óstöðugleiki og félagslegt óréttlæti auka líkurnar á árekstrum jafnt innan sem á milli ríkja.

Upp á síðkastið er farið að líta á trúarbrögð sem uppsprettu fjandskapar og haturs. Í dag á Alþjóðlega friðardeginum höfum við hins vegar einstakt tækifæri til að minnast þess að þetta er engan veginn alltaf raunin og að á hverjum degi gegna trúrleiðtogar og trúarleg samtök jákvæðu lykilhlutverki í að leysa deilur.

Vissulega er ekki alltaf auðvelt að verja það sjónarmið að trúarbrögð séu jákvætt friðarafl. Trúarbrögð virðast oft hella olíu á eld ofbeldis frá Írak til Afganistans, Kashmir til Sri Lanka, Indónesíu til Ísraels og Palestínu. En þótt trúarbrögð eigi hlut að máli á mörgum átakasvæðum þýðir það þó ekki endilega að þau séu kveikja átakanna.

Sannleikurinn er sá að trúarbrögð eru alltof oft misnotuð til að réttláta hatur og ofbeldi. Í heimi sem oft virðist stjórnlaus, óréttláttur og gersneyddur traustum gildum, veita trúarbrögðin mörgum öryggiskennd og tilgang sem margir - ekki síst ungt fólk- þráir. Slíkt er oft misnotað af samviskulausum leiðtogum sem nota og misnota trúarbrögð til að skapa andúð á þeim sem deila ekki sömu trú. Trúarbrögð geta valdið áköfum viðbrögðum því þau snerta þann kjarna sem skilgreinir hvern einstakling og slíku er hægt að beina í farveg ofbeldis. En samviskuleysi fárra villuráfandi leiðtoga ætti ekki að koma óorði á friðsamlega og fölskvalausa samvisku mikils meirihluta trúaðra.

Það er ekki aðeins óréttlátt heldur einnig hættulegt að halda því fram að trúarbrögð séu ein helsta orsök tortímingar og ofbeldis í heiminum, því með því er athyglinni beint frá raunverulegum rótum átaka. Með því er ranglega gefið til kynna að efnahagslegt óréttlæti, hernaðarlegur metnaður og pólitískur og landfræðileg samkeppni séu ekki meðal höfuðorskannna og því þurfi fyrst og fremst að glíma við “trúarlegan vanda” til að stöðva átök í framtíðinni.

Til að bæta gráu ofan á svart er með þessu litið framhjá mikilvægi trúfélaga til að skapa forsendur friðar og sáttfýsi. Jákvæð áhrif trúarbragða birtast í megingildum og sameiginlegum hugmyndum hinna miklu trúarbragða sem brýna fyrir trúuðum að virða reisn hverrar manneskju. Þessi meginkenning liggur til grundvallar friðsamlegum samskiptum á milli menningarheima og þjóðfélaga. Hún er meginkjarninn í mörgum alþjóðlegum samningum og sáttmálum – og einna mikilvægast: í Mannréttindayfirlýsingunni.

Trúarleiðtogar alls staðar að leika sífellt stærra hlutverk í að leiða deilur til lykta á friðsamlegan hátt. Í júlí síðastliðnum hvöttu leiðtogar mótmælenda í Bandaríkjunum George Bush, forseta til þess í opnu bréfi að efla friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna og hvöttu til “réttláts, varanlegs samkomulags sem tryggði báðum aðilum raunhæf, sjálfstæð og örugg ríki.” Þáttur leiðtoga múslima í að styðja friðarviðleitni og fordæma hryðjuverk gleymist oft. Um allan heim hafa þeir hvað eftir annað fordæmt ofbeldi sem andstætt kenningum Íslams.

Þar að auki er varla hægt að ofmeta mátt trúarbragða til að fylkja liði. Trú og hefðir eru mikilvægir þættir í menningarlegri sjálfsmynd milljarða manna um allan heim. Trúarlegar stofnanir eru valdamiklar og teygja anga sína í hvert einasta heimshorn. Þetta afl hefur oft ráðið úrslitum í að leysa deilur og byggja brýr á milli menningarheima. Trúarleiðtogar hafa átt stóran þátt í að hefja viðræður milli stríðandi fylkinga frá Indónesíu til Síerra Leone, Nígeríu til El Salvador og Kosovo til Súdans. Þeir hafa líka veitt hrjáðum samfélögum tilfinningalegan og andlegan styrk og stuðlað að sáttum.

Í janúar á næsta ári boðar Bandalag siðmenninga (Alliance of Civilizations) ríkisstjórnum, alþjóðasamtökum, hjálparstofnunum, frjálsum félagasamtökum og atvinnurekendum til ráðstefnu í Madrid á Spáni. Þar er stefnt að því að efna til félagsskapar þvert á menningarheima og efla samvinnu. Sér í lagi er mikilvægt að á þessum vettvangi verður stefnt saman stórum hópi trúarleiðtoga til að brjóta til mergjar hvaða hlutverki þeir og samfélög þeirra geta leikið í þá átt að efla sameiginlegt öryggi.

Þetta og önnur frumkvæði minna okkur á að trúfélög geta ráðið úrslitum í friðaruppbyggingu. Þótt ríkisstjórnir hafi vald til þess að undirrita friðarsamkomulög, eru trúfélög kjörin vettvangur til þess að endurreisa traust, virðingu og skilning á milli ólíkra samfélaga.

–Höfundur er fyrrverandi forseti Portúgals og oddviti Bandalags siðmenninga í umboði Sameinuðu þjóðanna. Þessi grein er birt í tilefni af því að 21. september alþjóðlegur friðardagur Sameinuðu Þjóðanna.