Maðurinn mettast órósemi

Maðurinn mettast órósemi

Þegar litið er á Guðspjall dagsins má sjá að það er visst uppgjör í orðum Drottins. Þar kemur fram að þeir sem trúa orðum hans þeir hafa skapað sér vissa sérstöðu. Þetta spurning um líf eða dauða. Þetta er líka spurning um dóm.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur. Jh.5.24–27

Í dag er síðasti sunnudagur yfirstandandi kirkjuárs og nýtt hefst næsta sunnudag, fyrsta sunnudag í aðventu.

Þegar litið er á Guðspjall dagsins má sjá að það er visst uppgjör í orðum Drottins. Þar kemur fram að þeir sem trúa orðum hans þeir hafa skapað sér vissa sérstöðu. Þetta spurning um líf eða dauða. Þetta er líka spurning um dóm.

Þeim sem er allt vald falið á himni og jörðu, honum er falið að halda dóm. Við þekkjum dóma vel við erum stöðugt að fella dóma og flest verðum við fyrir því að vera dæmd með einum eða öðrum hætti, mat lagt á frammistöðu okkar á flestum sviðum.

Lífið er dýrt, dauðinn þess borgun... segir í einum söngtexta. Þetta kallast á við orð Jobs í fyrri ritningarlestrinum, maðurinn lifir stutta stund og mettast órósemi. Þetta myndu margir segja að ekki ætti síður við í dag en forðum. Þetta orð órósemi er kannski góð lýsing á lífsstíl margra í nútímanum. Órósemi, óþreyja, ... drekkum í dag, iðrumst á morgun.

Og þá mætti spyrja, hvers vegna ekki. Er hún endilega eftirbreytniverð sú gamla lenska að lifa trist og spara, láta sem minnst eftir sér, leggja fyrir til mögru áranna. Kaupa ekkert nema eiga fyrir því og þá jafnan það sem ódýrast finnst og helst með afslætti.

Deyja svo frá digrum sjóðum fyrir erfingjanna að bítast um. Er ekki lífið til að njóta þess, sjá sig um í heiminum. Bragða góðan mat og veigar. Klæðast vönduðum fötum. Keyra spræka bíla. Lifa fyrir líðandi stund, það verður nógur tími til að hafa hægt um sig þegar heilsa og kraftar dvína.

Órósemi óþreyja, látum vaða, lífið er stutt.

Hvar kemur boðskapur trúaninnar inn í þessi viðhorf? Það hefur vissulega lengi talist til kristilegra dyggða að vera nægjusamur að geta komist af með lítið. En síðan græðgin og óhófið flokkað með löstum, talið falla undir syndsamlegt líf. En segir ekki Jesú samt á einum stað verið ekki áhyggjufull, hverjum degi nægir sín þjáning?

Ég spyr: Hvers vegna má hinn kristni maður ekki njóta þess sem veröldin hefur að bjóða, sem hin góða sköpun guðs réttir honum í hendur? Er eitthvað ókristilegt við það að finna gott bragð á tungu höfgan ilm í lofti, fagra hljóma í eyrum, sjá og skoða margt stórkostlegt sem fyrir augu ber? Já er eitthvað ókristilegt við það að njóta lífsins?

Kristin trú er vissulega boðuð með fyrirheiti, komið til mín allir sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld. Kristur segir þannig berum orðum að lífið með honum verði léttara en áður.

* * *

Að sjálfsögðu þekkjum við vel að í ljósi sögunnar þá hefur hinn kristni skilningur ekki verið á þessa lund. Líklega hefur undanfari og fyrirmynd klausturlífs verið hinir svokölluðu eyðimerkurfeður, menn sem drógu sig í hlé frá skarkala lífsins, settust að í hellisskútum eða hreysum fjarri mannabyggðum og stunduðu þar föstur og bænahald, hugleiðingu um líknarverk Jesú Krists, þjáningu hans og dauða.

Hugmyndin að baki, sú að hefja andann yfir efnið skilja sig frá öllu því er tengir manninn við sitt synduga jarðneska líf.

Menn hafa fært rök fyrir því að þarna hafi komið til forn lífssýn sem oft er kölluð tvíhyggja þar sem barátta góðs og ills er sett í það samhengi að andinn sé æðri efninu. Að allt hið jarðneska, efnislega, holdlega sé af hinu illa. Makmið mannsins eigi því að vera að hefja sig yfir allt slíkt, verða ósnortinn af öllum þeim listisemdum og vellíðan sem hið líkamlega veitir. Hámark hins illa varð því í þessu ljósi það sem veitti manninum mestan unað, sem sé kynlífið. Að ástunda slíkt sé ekki til annars en leiða mannin afvega og fá hann til að gleyma hinum háleitari markmiðum. Sá sem mestur vill verða er þá sá sem skilur sig fullkomlega frá öllu því líkamlega, holdlega, hafnar því með öllu. Stundar skírlífi og föstur, á ekkert veraldlegra eigna og ástundar jafnvel að pynta eigin líkama.

Nú hafa margir orðið til að benda á það að þessi tvíhyggja sé hreinlega ekki í samræmi við hina kristnu heimsmynd. Samkvæmt kristinni trú er sköpunin góð frá upphafi, hún er handarverk Guðs og Guð sá að það var gott. Sagan um syndafallið túlkar þá hugmynd að syndin, hið illa komi að utan frá en sé ekki byggð inn í kerfið ef svo má segja.

* * *

Spurningin um gott og illt um syndugt eða fagurt líf er þannig ekki sett fram sem átök holds og anda heldur er hún skoðuð í ljósi spurningarinnar um ábyrgð. Allt sem á jörðinni hrærist er dýrmætt sköpunarverk Guðs. Í krafti yfirburða okkar að vera sköpuð í Guðs mynd er okkur falið ráðmansshlutverk á jörðinni. Virðing og ábyrgð eru lykilorðin. Samtímis er það líka ljóst að um leið og saðning og fullnæging hvata okkar er í sjálfu sé ágæt þá getur hún aldrei orðið að takmarki í sjálfu sér. Það er þó einmitt á þeirri ranghugmynd sem viðskiptalífið keyrir sig áfram. Maðurinn mettast órósemi

“Þú ert alls ekki saddur, þú þarft bara að prófa nýjan rétt. Þetta er vissulega góður bíll en við eigum annan sem er miklu betri, hann kostar að vísu aðeins meira en ég lofa þér það er þess virði”.

Það sem hefur gerst í nútímanum er að við höfum nánast haft endaskipti á gömlu viðhorfunum. Allt hið jarðneska, holdlega sem bar að forðast og hefja sig yfir er nú orðið að takmarki í sjálfu sér. En um leið er séð til þess að það næst aldrei til hlítar. Það er sama hversu ríkur þú ert, það verður alltaf eitthvað sem þú hefur ekki efni á. Um leið er markvisst stefnt að því að gera allar okkar þarfir og hvatir að verslunarvöru, ekkert er lengur heilagt á því sviði.

Það sem við þurfum að læra í þessu samhengi er að meta hlutina fyrir það sem þeir eru en ekkert umfram það. Hvað eru föt annað er tæki til að forða okkur frá því að krókna? Hvað er bíll annað en tæki til að bera sig milli staða? Maður sem ætlar að klífa fjall veit að hann þarf að borða orkuríkan mat til að halda orku á leið sinni á tindinn. Ef maturinn væri aðal málið þá hefði hann lagst niður við fjallsræturnar og étið allt nestið og aldrei komist lengra.

Markaðurinn spilar stöðugt inn á þrá okkar eftir viðurkenningu og virðingu, löngun til að vera meðtekin, þetta þarft þú að eignast viljir þú verða maður með mönnum.

Allt væri þetta svo sem gott og blessað, rétt eins og hver annar leikur, ef ekki vildi svo til að við lifum í heimi takmarkaðra gæða.

Í veislunni miklu höfum við gleymt lykilorðunum ábyrgð og virðing.

Sköpunin sjálf, jarðarkringlan okkar er einsog tjóðruð kýr á bás,með soghólka mjaltavélanna fastar á spenunum, það er farið að renna blóð eftir pípunum. Það vofir yfir okkur jarðarbúum dómur, stór og mikill dómur sem við höfum sjálfir kallað yfir okkur. Hvenær hnígur kusa niður örmagna?

* * *

Það er ekkert rangt við það að borða sig saddan en ef við gerum það með því að hrifsa brauðið úr munni sveltandi barna þá er það rangt. Það er ekkert rangt við það að klæðast dýrindis loðfeldi en ef hann er saumaður úr skinni síðasta pandabjörnsins þá er það rangt.

Þannig verða hófsemi og nægjusemi dyggðir í heimi takmarkaðra gæða. Og gæðin eru takmörkuð og þeim er misskipt. Þetta er staðreynd þótt talsvert sé gert til að fá okkur til að gleyma því.

Maðurinn mettast órósemi vegna þess að sama hversu veislan er góð þá kemur að því að okkur fer að leiðast. Lífið er meira en fæðan og klæðin, sálin hún þráir takmark og tilgang og það er einmitt þar sem trúin kemur inn í, Sá sem trúir orðum Krists og tileinkar sér þau, sá hinn sami eignast líf, líf í fullri gnægð, líf sem einkennist af virðingu, kærleika og ábyrgð. Það er ekkert að því að njóta þess góða sem lífið hefur að bjóða, aðeins að við gleymum ekki að það getur aldrei orðið takmark í sjálfu sé., Við viljum setja okkur háleitari markmið, við viljum ekki liggja við fjallsræturnar og éta upp nestið. Fjallið bíður, tindurinn skýjum hulinn er markið.