Á fljúgandi ferð

Á fljúgandi ferð

Það er eitthvað magnað við það að velta því fyrir sér að við skulum vera stödd á þessum hnetti sem hringsnýst úti í svörtu tóminu utan um brennheita stjörnuna.

Nú er tími furðuverka, ljósa og láta. Á þessum tíma kenndi þjóðtrúin að álfar færu á stjá, huldufólk og ýmsar vættir komi upp úr fylgsnum sínum og upp á yfirborðið. Núna er kvöldið þegar við horfum á lífið með öðrum hætti en venjulega, ekki satt? Einu sinni var aðeins einn íslenskur grínþáttur í sjónvarpinu og það var einmitt á gamlárskvöld. Það þótti viðeigandi að velja þetta kvöld til þess að sjá allt í ljósi furðunnar, grínsins og hins öfugsnúna. Gamlárskvöld er sannarlega óvenjulegt.

Breytt út af venjunni

Það er því hefðinni samkvæmt að breyta aðeins út af venjunni. Það mun ég og gera héðan úr stólnum og predika með öðrum hætti en endranær. Við ættum eiginlega að hafa sætisólar á bekkjunum og benda á neyðarútganga ef einhverjum skyldi ofbjóða! Nei, svo hressileg erum við nú ekki orðin í þjóðkirkjunni hvað sem síðar verður.

Hvað er það annars við gamlárskvöld sem kallar á það að við horfum á lífið öðrum augum en vanalega? Ef til vill hefur það eitthvað með það að gera að við erum minnt á hið stóra samhengi sem við erum hluti af. Já, við höfum ferðast einn hring í kringum sólina síðan við héldum upp á áramótin síðast. Ef til vill er tilefnið það að við skoðum okkur sjálf í ljósi hins óendanlega. Það er eitthvað magnað við það að velta því fyrir sér að við skulum vera stödd á þessum hnetti sem hringsnýst úti í svörtu tóminu utan um brennheita stjörnuna.

Á fljúgandi ferð

Hér þar sem við sitjum sem fastast, æðum við engu að síður á ótrúlegum hraða: um miðju jarðar, í sporöskju í kringum sólina, í óhemjulöngum ferli í kringum miðju vetrarbrautarinnar ásamt sólinni og hinum plánetunum í sólkerfinu og loks þeytist vetrarbrautin okkar í burtu frá miðjunni stóru, þaðan sem upphafið varð!

Já, mest af þessu hafa menn vitað frá dögum Newtons en senn er fyrsti áratugur 21. aldarinnar liðinn og mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Newton reyndi að ráða í huga skaparans. Eftir því sem fræðunum vindur fram verðum við stöðugt meira og meira gáttuð á því hversu margt er þarna á huldu. Newton vann öll sín verk til dýrðar Guði, en nú þykjast menn hafa fundið skýringar sem geri Guð óþarfan.

Ég hef aldrei getað skilið vísindamenn sem lýsa slíku yfir. Þvílík fásinna! Þeim mun fleiri tjöld sem þeir draga frá þeim gáttum sem fyrr voru luktar, koma í ljós aðrir salir með fleiri gáttum. Nú tala menn jafnvel um fleiri og fleiri víddir og jafnvel nýja alheima. Eftir því sem þekkingunni vindur fram, þeim mun meira vitum við um það sem við vitum ekki um.

Hver getur gert sér í hugarlund hvernig það er að lifa í fleiri víddum? Hvernig væri að geta skoðað fyrirbærin eins og þau líta út á ólíkum tímum, rétt eins og við getum horft á þau úr ýmsum áttum? Væri hægt að virða vini sína fyrir sér á ólíkum æviskeiðum, frá fæðingu til dauða? Svona spyrja menn í dag og horfast í augu við takmörk sín – sem verða æ ljósari eftir því sem þekkingunni vindur fram.

Fjórða víddin

Ritningin talar inn í þennan veruleika:

Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“

Þessi hugsun leitar á okkur á kvöldinu sem helgað er tímanum, þessu kvöldi sem markar skil hins gamla og hins nýja. Kvöldinu sem minnir okkur á víddina fjórðu – tímann sem erum sannarlega bundin í og ferðumst eftir honum eins og gríðarstóru færibandi. Hugur okkar getur samt mótað einhverja sýn á þessar hliðar. Skáldið forna sem yrkir þessar línur, innblásinn af heilögum anda, horfir ennfremur á hina hliðina á tilverunni:

Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

Já, hér er komin sú hugsun sem virðist nærri fálmi nútímamannsins í átt að skilningi á óravíddum heimsins. Við mennirnir stöndum á þessum kletti og það eitt að virða fyrir sér stjörnuhvelfinguna yfir höfði okkar minnir okkur á smæð okkar í tíma og rúmi.

En tíminn er og verður okkur alltaf að einhverju leyti ráðgáta. Ágústínus kirkjufaðir orðaði það vel er hann sagðist skilja tímann svo fremi hann þyrfti ekki að útskýra hann fyrir nokkrum manni. Og þó hafði hann ekki hugmynd um þær ótrúlegu tölur sem við okkur blasa þegar tíminn er annars vegar. Rómverska talnakerfið sem var við lýði í hans tíð hefði ekki einu sinni getað skráð þessar löngu runur í tíma og rúmi, að alheimurinn skuli vera í kringum 13,7 milljarða ára gamall. Já, ekki bara fyrirbærin sem við sjáum á stjörnuhimninum, heldur líka það sem nær okkur er. Þessi hönd er þá ekki bara 42ja ára gömul. Nei, þegar á allt er litið þá er hún 13,7 milljarða ára gömul.

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar, hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess?

Vissulega getum við ekki séð og skilið tímann, víddina fjórðu. Þó sjáum við löngu liðna atburði gerast. Við þurfum ekki annað en að lyfta upp höfðinu og rýna í stjörnuhimininn. Við getum skoðað myndir frá sjónaukum og möstrum sem nema ljós og bylgjur sem lögðu af stað fyrir milljörðum ára.

Upphafið

Við sjáum jafnvel glampann frá því þegar allt þetta varð til í upphafinu. Og við vitum að þetta er ekki bara upphafið að þessum glóandi himinhnöttum sem við sjáum í gegnum ljósmengun og þokuslæðu borganna. Nei, glampinn geymir líka upphafið að okkur, efninu sem við erum búin til og allt það sem í kringum okkur er. Já, við sjálf. Þessi hönd!

Efnið sem myndar hana hefur farið langa leið. Það hefur verið hluti af ógnarlegum massa, það hefur myndað stjörnur sem hafa lýst í langa tíð, stækkað og sprungið með ótrúlegum mætti. Þá kallast þær súpurnóvur og þær þeyta efninu óravegu út í tómið. Þaðan hefur það svo smám saman orðið þéttara að nýju og mótast í þennan hnött sem við stöndum á og svífur í kringum sólina. Einn hring á einu ári.

Í upphafi.

Við þekkjum framhald þeirra setninga í ritningunni: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð“, segir í Mósebókinni. Er þetta frasi eða tugga? Nei, þetta er yfirlýsing um það að allt er af sömu rótinni spunnið. Himininn og jörðin, ég og þú, allt er þetta hluti af órofa heild, sköpunarverki. Þekkjum við aðra setningu sem hefst á þessum orðum? „Í upphafi... var orðið“. Orðið? „Verði ljós“? Eða eitthvert lögmál sem býr að baki öllu – eins og dýrmæt og óhagganleg stjórnarskrá sem þenur sig út yfir himinhvolfið, gegnum tómið og inn í massa þess sem þar svífur. Það nær inn í allra minnstu eindirnar sem allt er búið til úr. „Í upphafi var Orðið“. Já, þetta lögmál sem er skráð í veruleikann okkar og því betur sem við þekkjum það þeim mun betur skiljum við hvað við vitum lítið. Hvaðan kemur þessi skipan? Er það sjálfgefið að lögmálin skuli vera svo óhagganleg mitt í allri hringiðunni?

Það er ekkert sjálfgefið, en trú okkar á skapara himins og jarðar, „sem stýrir stjarna her og stjórnar veröldinni“ lifir og dafnar í þessu umhverfi. Hann stýrir mér „í straumi lífsins“ með styrkri hendi sinni.

Ný hringferð

Nú er tími furðuverka. Ljósin eiga eftir að fylla næturhimininn þegar klukkurnar hringja inn miðnættið. Við föðmum þá sem næstir okkur standa og hringjum í þá sem eru ekki með okkur og óskum þeim gleðilegs árs.

Nú er ný hringferð í uppsiglingu. Ein af milljörðum sem þessi pláneta hefur ferðast um sólina. Allt samkvæmt þeim æðstu lögmálum sem við teljum okkur stundum hafa ráðið til fullnustu en svo skiljum við það fljótlega að sköpunarverkið er alltaf flóknara og margræðnara svo við getum ekki annað en beygt kné okkar í auðmýkt:

„Hvað er þá maðurinn að þú minnist hans og mannins barn að þú vitjir þess?“

„Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár og góðar og blessaðar tíðir“

Þetta er eitt ár af ótalmörgum í sögu þessa gríðarlega alheims sem við erum hluti af. Samt bendir margt til þess að þetta ár sé algerlega einstakt. Hér þar sem plánetan jörð þeytist um tómið og hringsnýst um sólina hýsir hún þessar lífverur sem við erum. Við höfum vit í kollinum, trú í hjartanu og berum ábyrgð á því sem við gerum. Við erum einstök og eigum að fagna hverjum ári, hverjum degi í þeirri vitnesku og í lotningu fyrir frelsara okkar og skapara.

Guð helgi allar liðnar stundir og blessi hinar komandi. Amen.