Að kveðja á tímum
Covid-19
Að
kveðja látinn ástvin felur á öllum tímum í sér að ganga braut sorgar sem er
sannarlega ekki auðgengin eða auðveld.
Stundum erum við viðbúin því að kveðja fólkið okkar eftir erfið veikindi
eða þegar það hefur náð háum aldri og kveður sátt og þakklátt fyrir líf
sitt. Þó við séum viðbúin því að kveðja
og vitum að öll þurfum við einn daginn að kveðja, þá er sorgin alltaf jafn sár
og erfið. Sorgin, þó hún sé þung og
erfið, er hún lituð þakklæti og oftast fallegum minningum tengdum þeim sem við
kveðjum. Sorgin er bundin þeirri ást og
gleði, sem þau sem við kveðjum, veittu okkur með lífi sínu. Við eigum margar gamlar og fallegar hefðir
tengdar því að að kveðja. Þegar við göngum inn í það ferli að undirbúa
kveðjustund ástvinar vitum við nokkurn veginn að hverju við göngum. Við sjálf höfum hugmyndir að tónlist, sálmum
og kirkju sem við viljum að athöfnin fari fram í. Stundum hefur ástvinur okkur verið búinn að setja
fram óskir um eigin kveðjustund.
Athafnir og hefðir tengdar því að kveðja, höfum við lengi átt og eiga að
stuðla að því að hjálpa til við það sorgarferli, sem fer í gang þegar ástvinur
fellur frá. Að kveðja fallega, í
þakklæti og af virðingu er mikil hjálp í sorgarferlinu. Að standa við kistu ástvinar, signa yfir,
kyssa, strjúka vanga, segja takk fyrir allt og allt, fella tár og fallast í
faðma, er þungbært, en í þeirri stund eru ljós huggunar og vonar. Að heyra huggunarrík og falleg orð, að rifja
upp æviferil og minningar, að hlusta á tónlist og sálma sem veita huggun eða
kveikja á minningum er styrkur á vegi sorgarinnar. Að hittast yfir kaffibolla eftir kveðjustund,
fá faðmlag, fá hlýtt og traust handartak með fallegum orðum, er stuðningur og
styrkur við það ferli sem framundan er. Ferlið
felst í að byggja upp nýtt og annars konar líf í ljósi þess að hafa misst. Allt þetta eru leiðarsteinar í átti til
vonarinnar um endurfundi, eilíft líf í faðmi Guðs og í átt til þess að geta
aftur brosað, fundið gleði og tilgang.
Á
þeim tímum sem við erum að ganga í gegnum núna verðum við að kveðja á annan og
öðruvísi hátt en við erum vön. Hvort sem
andlát ástvinar okkar hefur borið að vegna veirunnar eða á annan hátt, getum
við næstu vikur ekki kvatt eins og við erum vön. Ekki kvatt með þeim aðferðum sem
við kunnum og vitum að hafa reynst okkur og kynslóðunum á undan hjálplegar í
sorgarferlinu. Inn í kveðjustundina
blandast það að við höfum kannski ekki getað heimsótt eða átt innilegar
samverustundir með ástvini okkar eins oft og við höfum getað fram að þessu. Við höfum jafnvel ekki getað verið til staðar
í veikindum eins og við hefðum annars gert.
Það er svo margt í kveðjustundinni sem við missum af og það er margt sem
vantar. En aðstæðunum eins og þær eru um
þessar mundir breytum við ekki, heldur þurfum að laga okkur að þeim. Þau sem að skipulagningu við útför og
kveðjustund koma, gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að leiðbeina og
aðstoða aðstandendur. Til þess að
stundin verði sem innihaldsríkust, uppbyggilegust, styrkjandi og mögulegt er en
um leið ber okkur skylda til að fara að fyrirmælum almannavarna og það gerum
við að sjálfsögðu. Við sem komum að
kveðjustundum, viljum styðja sem best við þau sem kveðja, veita þeim styrk
huggun og leiðsögn um hvernig best verður að kveðjustundinni staðið. Hægt er að kveðja jafn fallega og áður, þakka
jafn fallega fyrir það líf sem kvatt er í þeim fámenna hópi sem fær leyfi til að
koma saman, með öllum þeim tamörkunum sem settar eru með fjarlægð og
snertingar. Þá er einnig hægt að halda
síðar þegar allt er um garð gengið minningarathöfn sem er mjög svipuð hinni
hefðbundnu útför. Þau sem kveðja ástvin
sinn á þessum tímum eru að upplifa ýmsar aðrar tilfinningar samhliða hinum
hefðbundu tilfinningum sorgarinnar og þetta þarf að tala opinskátt um. Að þeim eins og öllum sem kveðja þarf að hlúa
sérstaklega að og það jafnvel þegar til lengra tíma er litið. Á þeirri leið sorgarinnar til uppbyggingar
eigum við í kirkjunni mikið af færu fólki með góða reynslu og þekkingu í sálgæslu
og munum við nú sem áður sinna því áfram eins og við erum kölluð til.
Þegar
Jesús vissi að hann var að fara að deyja hughreysti hann vini sína vinkonur með
þeim orðum að hann léti þeim eftir frið í hjarta og hann yrði áfram hjá þeim,
myndi senda þeim heilagan anda til að hjálpa þeim og styrkja. Friður hans er enn með okkur og andi hans enn
til staðar. Með bæði þá þekkingu og
reynslu sem við búum yfir sem og hjálp heilags anda göngum við öll saman þessa
dagana, hjálpumst að og leiðumst án þess að snertast. Við höfum orð á öllum þeim erfiðu
tilfinningum sem fylgja kveðjustund sem er öðruvísi en treystum því líka að
sárin grói.