Siggi var úti

Siggi var úti

,,Ég er góði hirðirinn” segir Kristur og setur sig þar í spor þessarar undirokuðu starfsstéttar sem mátti þola hættur, kulda og einangrun í verkefnum sínum.

Ef einhver stétt manna nýtur vegsemdar og álits í frásögnum Biblíunnar þá eru það líklega hirðarnir.

Abel, Davíð og Bethlehemshirðarnir

Við erum ekki komin lengra en í fjórða kafla fyrstu Mósebókar í bláupphafi Biblíunnar þegar við lesum um þá Kain og Abel, sem færðu hvor um sig Guði fórn. Kain var jarðyrkjumaður og fórnaði hluta af uppskeru sinni en Abel var hirðir og framlag hans var einn af sauðunum, væntanlega. Af ástæðum sem sagan skilur eftir handa ímyndunarafli lesendanna þá líkaði Guði við fórn Abels en leit ekki við þeirri sem Kain færði. Það var eitthvað við hirðinn og framlag hans sem féll almættinu í geð, þótt þessi mismunun hefði leitt af sér fyrsta morð í sögu mannkyns, eins og helgisögnin greinir frá.

Fleiri hirða mætti nefna sem gátu sér gott orð í hinu biblíulega samhengi. Frægastur af konungum Ísraels, Davíð, var einmitt hirðir. Hann var kynntur til sögunnar í hinum nafntoguðu átökum sínum við risann Golíat. Slangan sem Davíð notaði til að þeyta steininum í tröllið var eitt af því sem hirðar notuðust við þegar þeir felldu rándýr sem ógnuðu hjörðinni eða fældu þau frá. Þekktasti sálmurinn af þeim sem kenndir eru við Davíð konung, Davíðssálmar, hefst á orðunum: „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ Boðskapurinn í þessum undurfagra óði er að allir þurfa að hafa einhverja leiðsögn í sínu lífi og fer best á því að sú komið frá Guði.

Nú, og svo sátu þeir í myrkrinu á Betlehemsvöllum, hirðarnir og fengu fyrstir fregnir af fæðingu Jesúbarnsins. Það hefur löngum þótt til marks um það hversu léttvægt allt titlatog eru í augum Guðs en hálfgerðir útlagar skyldu samkvæmt sögunni fá að heyra tíðindin miklu. Þeir hímdu úti í nóttinni fyrir utan við mannlegt samfélag sem lýsti vel hlutskipti þeirra, launin voru lág og verkefnin voru hættuleg.

Hver skyldi vera ástæða þess að þessi tiltekna stétt er í sífellu hafin upp til skýjanna í þessu helgiriti kristinna manna? Nú er það einmitt ekki raunin að hirðar hafi notið sérstakra vinsælda í þessum menningarheimi. Þetta voru ungir menn af litlum ættum sem þurftu að taka þetta hlutskipti á sig, rétt eins og þeir sem hér voru nefndir. Það var einmitt furðan og undrið í sögunni af átökum Davíðs og Golíats að hinn voldugi vígamaður skyldi hafa fallið í valinn fyrir slöngubyssu hirðisins. Þeir þóttu hreint ekki merkilegir.

Siggi var úti

Á Íslandi hér í gamla daga, voru þeir kallaðir smalar, gjarnan kornungir einstaklingar og frásagnir lýsa óblíðri meðferð á þessum börnum. Það var ekki lítil byrði á herðum þeirra að fylgjast með því að hver einasta kind kæmist klakklaust ofan af heiðum og í túnið heima áður en rökkvaði. Ella voru þau sendir aftur frá bænum og út í nóttina til að finna sauðina týndu.

Enn í dag syngjum við um ófarir eins af nafntogaðasta smala Íslands - hans Sigga sem var úti með ærnar í haga. Það var ekki lítið á drenginn lagt og hætturnar voru ýmist af þessum heimi eða öðrum. Hvert erindi endar á þeim orðum að aumingja Siggi hafi farið grátandi heim. Það er hreint ólíklegt að honum hafi staðið til boða að dvelja innandyra ef búsmalinn var uppi á heiði. Líklegra er að honum hafi verið ætlað að bjóða hættunni byrginn og halda upp á fjöll til móts við ærnar.

Martin Luther King

Og Jesús lýsir því í texta dagsins hvernig hirðirinn góði, sem hann líkir sér við, leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Já, það var ekki að ástæðulausu að þeir höfðu steinslöngvu í beltinu eins og Davíð konungur. Þeir þurftu að verja búsmalann fyrir árásum úlfa og annarra rándýra. Það var líka nauðsynlegt að þekkja hvern einasta sauð. Þetta hlutskipti krafðist bæði hugrekkis og umhyggju.

Það er engin ástæða til að ætla að annað hafi gilt um þessa hirða sem Biblían fjallar um. „Ég er góði hirðirinn“ segir Kristur og setur sig þar í spor þessarar undirokuðu starfsstéttar sem mátti þola hættur, kulda og einangrun í verkefnum sínum. Með þessari lýsingu er kveðið við gamalkunnan tón í ritningunni, þar sem hið ákjósanlega líf er ekki endilega það sem felur í sér mest þægindi og munað. Þar er miklu fremur átt við tilveru sem er rík að innihaldi og merkingu.

Já, hirðarnir hafa mikið að segja og nú fyrr í þessum mánuði minntumst við þess að fimmtíu ár voru frá því að einn slíkur var ráðinn af dögum. Það var presturinn Martin Luther King, sá sem leiddi mannréttindabaráttu hörundsdökkra í Bandaríkjunum. Hlutskipti hans var lýsandi fyrir það sem Biblían talar um þegar hún ræðir þessa starfstétt dagsins. Kirkjan þar sem hann þjónaði var í raun einn af sárafáum stöðum í almannarými þar sem þau gátu verið sem ekki voru hvít á hörund. Og þar sem þau komu saman við guðsþjónustu fengu þau að hlýða á boðskap Biblíunnar um alla þá sem stóðu utangarðs, bjuggu við lakari kjör, sátu undir fordómum eða öðru misrétti. Þau skilaboð eru ekki flókin: Hver og einn er dýrmætur í augum Guðs. Einu gildir hver húðliturinn er, kynið, stéttin eða staðan - góði hirðirinn lætur sér annt um hvert og eitt okkar. Og það sem meira er, hann ætlar okkur að gera hið sama við náungann. Það var einmitt inntakið í frægustu predikun þessa leiðtoga. Hann sagðist eiga sér þann draum að fólk geti setið við sama borð og hver sem uppruninn er eða útlitið. Allir eigi að geta notið sannmælis og virðingar náunga síns.

Nú þegar þið, fermingarpiltar, Ari og Steinar, gangið hingað fram og játið að Jesús verði leiðtogi lífs ykkar vona ég að þið gefið gaum að öllum þeim leiðtogum, öllum þeim hirðum, sem hafa talað í nafni kristinnar trúar og barist fyrir bættum heimi. Það er hlutverk okkar allra, hvar sem við stöndum. Það þarf ekki að vera í hinu stóra samhengi hlutanna. Við vinnum og störfum hvert á sínum stað og þar getum við líka staðið með hverjum þeim sem á undir högg að sækja. Þá erum við að sinna því hirðishlutverki sem okkur er ætlað að gera.