Þjóðkirkjan, hvar er hún stödd?

Þjóðkirkjan, hvar er hún stödd?

Þjóðkirkjan hefur alla kosti og burði til þess að ná vel til almennings. Boðskapur kirkjunnar á ekki síður erindi nú en áður ekki síst þegar tekið er tillit til þess fjölmenningarlega samfélags sem nú er í mótun. Þjóðkirkjan gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki og er opin öllum almenningi.

Eitt af þeim málum sem fjallað er um á Kirkjuþingi hefur kallað fram umræðu í fjölmiðlum, málið snýst um það að á Kirkjuþingi 2014 var ákveðið að skipa þriggja manna starfshóp sem myndi gera tillögur um það hvernig megi fjölga meðlimum í þjóðkirkjunni. Í frétt á visir.is undir fyrirsögninni ,,Þjóðkirkjan setur 150 milljónir í sálnaveiðar“ kemur fram að skýrsla ofangreinds starfshóps hafi verið lögð fram á Kirkjuþingi um helgina. Í henni er bent á að þjóðkirkjufólki hafi fækkað mikið á undanförnum árum. Árið 2000 voru nálægt 89% þjóðarinnar í Þjóðkirkjunni en í apríl 2015 var hlutfallið komið niður í rétt um 73%.  Í skýrslu starfshópsins kemur eftirfarandi fram: „Boðun og predikun kirkjunnar nær ekki til almennings með nægilega áhrifamiklum hætti, þegar hún er orðin hornreka hjá RÚV og lítt áberandi á öðrum fjölmiðlum og á mannamótum öðrum en kirkjulegum athöfnum og messum.“Samkvæmt niðurstöðum rannsókna undirritaðs sem birtar eru í MA ritgerðinni ,,Helgun og afhelgun opinbers rýmis, rannsókn á prédikunum íslenskra presta“[1] kemur fram að Þjóðkirkjan sem stofnun er ekki í takt við tímann þegar kemur að framsetningu á boðskap hennar í hinu almenna opinbera rými samtímans.

Í ljósi þess hver staða Þjóðkirkjunnar virðist vera á meðal almennings í landinu, eftir hringiðu efnahagshruns og vegna annarra vandamála til dæmis þeirra er tengjast sýn þjóðarinnar á kirkjuna, hlýtur það að vera forgangsmál kirkjunnar að ná betra sambandi við almenning í landinu. Framsetning á prédikunum í hinu opinbera rými kirkjunnar sjálfrar er margreynt og gengur vel upp. Prestarnir hafa flestir áþekkar aðferðir við undirbúning prédikana sinna. Þeir hafa hins vegar tileinkað sér mismunandi tækni og aðferðir við flutning eða framsetningu prédikananna í kirkjum og eru öruggir og vel þjálfaðir með sitt þar. Þegar kemur að því að setja fram prédikanir og/eða boðskap prestanna á öðrum miðlum blasir allt annað við.

Hið opinbera almenna rými samtímasamfélagsins, sem Jürgen Habermas kallar ,,eftirafhelgað“, felur í sér tækifæri til framsetningar á samtali, prédikunum, boðskap og málefnum Þjóðkirkjunnar. Prestar almennt hafa áhuga á að nýta hið almenna opinbera rými og gera það hver með sínum hætti. Þeir hafa þó ekki fengið fræðslu eða ábendingar um hvernig best sé að nálgast viðfangsefnið. Langflestir þátttakenda rannsóknarinnar sem hér er vísað í nota blogg vef kirkjunnar trú.is, en þar birta þeir prédikanir sínar yfirleitt óbreyttar frá því að þær voru skrifaðar til flutnings í kirkjunni.

Hvað er til ráða

Framsetning Þjóðkirkjunnar í hinu opinbera almenna rými er ómarkviss og að mörgu leyti tilviljanakennd. Þjóðkirkjan sem stofnun hefur greiðan aðgang að fjölmiðlum en virðist ekki seilast út í hið nýja rými nema að mjög takmörkuðu leyti og óhætt að fullyrða að tungutakið sem kirkjan notar sé í besta falli illskiljanlegt fyrir þorra fólks. Áður en texti er settur fram á samfélagsmiðlum þarf að spyrja spurningar eins og þeirrar hvað gæti verið áhugavert í texta prédikunar fyrir þá áheyrendur sem ekki eru að leita að biblíulegri prédikun og hafa enga þekkingu eða jafnvel engan áhuga á kristinni trú. Texti sem notaður er við boðun og framsetningu kirkjunnar þarf að vera skiljanlegur öllum, óháð menntun eða þjóðfélagsstigi. Það þyrfti að vinna texta sérstaklega og laga þá að ólíkum samfélagsmiðlum. Vefurinn býður upp á margs konar miðlun, samfélagsmiðla, fréttamiðla og blogg. Jónas Kristjánsson, margreyndur blaðamaður, segir kannanir sýna að orð séu mikilvægari en hljóð og mynd á vefnum. Hann segir mikilvægt að málsgreinar séu einkar stuttar á vefmiðlum og feli í sér þættina frumlag, sögn og andlag. Fyrirsagnir eiga að vera málefnalegar, efnislegar og endurteknar í inngangi. Greinarhöfundur er meðvitaður um að hann fylgir ekki þessum reglum Jónasar hér enda grein þessi fyrst og fremst ætluð þeim er láta sig málefni kirkjunnar varða.

Kirkjan hefur enga stefnu um notkun samfélagsmiðla eða það hvernig starfsmenn hennar setja fram efni í fjölmiðla almennt. Sameiginleg stefna um notkun vef- og samfélagsmiðla með ítarlegum leiðbeiningum í dúr við það sem aðrar stofnanir í landinu gera væri stórt skref til bóta. Einfaldar leiðbeiningar og stutt námskeið fyrir presta og starfsmenn kirkjunnar um framsetningu efnis á vefnum gætu falið í sér byltingu í samtali, boðun, framsetningu á prédikunum og málefnum Þjóðkirkjunnar og aukið aðgengi hennar að þjóðinni til mikilla muna.

Samskipti við fjölmiðla

Í yfirstandandi rannsókn sem tengist doktorsnámi undirritaðs þar sem viðmælendur rannsóknarinnar, rétt eins og í fyrri rannsókn, eru prestar, sem ýmist starfa á vegum Þjóðkirkjunnar eða hafa gert það, kemur fram að flestir gera ráð fyrir því að sem stofnun sé Þjóðkirkjan veik og hugsanlega stefnulaus í framsetningu á efni á sviði fjöl- og samfélagsmiðla. Viðmælendur rannsóknarinnar telja það flestir afleitt að kirkjan hafi ekki fjölmiðlafulltrúa sem talar máli hennar gagnvart fjölmiðlum. Að sama skapi nefndu flestir að kirkjan virtist hljóma margradda um trúmál og afstöðu til þjóðmála. Í rannsókninni kemur fram að flestir tengja traustsvanda kirkjunnar allt aftur til kristnitökuhátíðarinnar árið 2000, en nefna allir jafnframt málefni samkynhneigðra og afstöðu kirkjunnar til þeirra og mál er varða kynferðisbrotamál innan kirkjunnar. Einnig kom fram í rannsókninni að Þjóðkirkjan væri enn í hugum margra holdgervingur valdsins og þar sem fólk gæti ekki sagt sig úr samfélagi við ríkið væri kirkjan stundum valin þess í stað, þannig mætti að einhverju leyti halda því fram að úrsagnir úr Þjóðkirkjunni tengdust traustsvanda gagnvart yfirvöldum almennt.

Að lokum

Þjóðkirkjan hefur alla kosti og burði til þess að ná vel til almennings. Boðskapur kirkjunnar á ekki síður erindi nú en áður ekki síst þegar tekið er tillit til þess fjölmenningarlega samfélags sem nú er í mótun. Þjóðkirkjan gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki og er opin öllum almenningi. Það er mikilvægt að kynna það sem fram fer í Þjóðkirkjunni og það sem stendur öllum almenningi til boða þar. Þjóðkirkjan á stórt rými í hjörtum þorra fólks á Íslandi. Engin stofnun önnur gæti leyst kirkjuna af í  því samfélagslega hlutverki sem hún gegnir í hjálparstarfi, sálgæslu, félagsstarfi og öllu því sem öflugt net hennar bíður upp á. Þjóðkirkjan sem flaggskip kirkjunnar á Íslandi hefur alla burði til að styrkja stöðu sína og koma fram sem raunveruleg kirkja fólksins í landinu. Kirkja sem segir sannleikann og tekst á við þau vandamál er við henni blasa.

Fritz Már Jörgensson

Mag.theol & MA