Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“ Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“ Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“ „Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“ Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“ Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“ En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“Lk 7.36-50
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Í vikunni sem leið hitti ég konu sem er ljósmyndari. Hún hefur í starfi sínu ferðast um allan heim, frá heimalandi sínu Bandaríkjunum, og unnið að fjölbreyttum verkefnum. Starf hennar núna felst í því að hitta einhverf börn og ljósmynda þau. Í því skyni hefur hún farið til ólíkra landa, sett sig í samband við fjölskyldur einhverfra barna og fengið að fylgjast með þeim í lífi og leik í stuttan tíma.
Hingað kom hún frá Jakarta í Indónesíu og frá Indlandi. Hvar sem hún kemur reynir hún að setja sig inn í hvernig aðstæðum hinna einhverfu er háttað og hvaða aðstoð og hjálp er í boði fyrir börnin og þeirra nánustu. Því er vitaskuld farið með mjög ólíkum hætti eftir því hvaða lönd er um að ræða og aðstæður barnanna því afar misjafnar.
Þrátt fyrir það segir hún að einhverf börn séu alls staðar eins. Þegar hún mætir þeim og kynnist þeim og fylgist með þeim í gegnum linsuna, hættir að skipta máli hvort þau eru í Texas, Teheran eða á Tálknafirði. Sömu hindranir einkenna þau, foreldrarnir eru jafn streitt og uppgefin, sama ringulreiðin skapast í félagsumhverfinu þeirra vegna þess að þau fara eftir allt öðrum brautum en þau sem eru ekki einhverf, og styrkleikarnir þeirra leynast og bíða eftir að fá að blómstra.
Sumstaðar hefur einhverfum börnum fjölgað svo mikið að í Bandaríkjunum er talað um faraldur. Vitaskuld er leitað að ástæðum fyrir þessum faraldri - sem ekki eingöngu er hægt að skýra með betri greiningartækni og hirðusamara skráningarkerfi. Hvað er það í umhverfinu sem veldur svona mikilli aukningu á flóknu ástandi sem er að vissu leyti eins og heilkenni með enga eina skýringu?
Í leit að skýringu á hlutum eins og þessu, veltum við steinum sem leiðir í ljós að hegðun eða menning hefur bein áhrif á heilbrigði og líðan. Þetta á við um alla hluti. Sumt rekjum við til umhverfisins sem við erum hluti af en annað rekjum við beint til þess sem við sjálf höfum gert. Stundum er orsakasambandið alveg ljóst - ef við étum of mikið fitnum við, og þar fram eftir götunum.
En í fæstum tilvikum er orsakasamband hlutanna einfalt, hvort sem um er að ræða fötlun eins og einhverfu, sjúkdóm eins og alkóhólisma, ástand eins og siðblindu eða yfirgengilega sjálfhverfu. Leit að skýringu á því hvers vegna heimurinn er eins og hann er og hvers vegna fólk hagar sér eins og hann er hefur alltaf heillað manneskjuna. Leitin hefur fært hana í ýmsar áttir, m.a. hafa hugmyndir þróast í samhengi trúarinnar.
Textar dagsins birta okkur mjög vel þennan trúarlega túlkunarramma á mannlegri tilvist. Hugtök eins og synd, sekt, misgjörð og afbrot eru notuð til að skýra líðan og ástand manneskjunnar. Davíðssálmurinn rekur stutta frelsunarsögu þar sem sá sem talar fer frá ástandi sem einkennist af vanlíðan og kreppu, en gengur í sjálfan sig með því að setja fingur á og orða það sem hrjáir hann.
Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi ég því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju. (Sela) Þá játaði ég synd mína fyrir þér og duldi ekki sekt mína en sagði: „Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni.“ Og þú afmáðir syndasekt mína.Sl 32.3-5
Ég játaði synd mína fyrir þér. Það er vendipunkturinn í sálminum, með játningunni fer manneskjan að réttast upp og verða heil. Að játa synd sína - hvað er það? Er það að þora að horfast í augu við sjálfan sig eins og maður er í raun og veru - ekki eins og maður vildi vera eða ætti að vera? Er það að hætta í feluleik, játa vanmátt sinn? Er það að viðurkenna - og sætta sig við - að maður er ekki fullkominn, hefur aldrei verið það og verður það aldrei?
Í guðspjallinu um Símon og bersyndugu konuna - sem við vitum ekki hvað heitir - mætum við tveimur týpum af fólki. Önnur týpan er bara býsna ánægð með sig, sérstaklega þegar hún nær að bera sig saman við þau sem eru í krignum hana. Hún er svona "mikið er ég lánsöm að vera ekki eins og þetta agalega lið sem er svona og svona..."
Hin týpan er ekki haldin neinum ranghugmyndum um sig heldur er algerlega alsgáð og auðmjúk. Hún er ekki í samanburðarbransanum heldur er með fókusinn á sér sjálfri og þar sem hún er.
Þessi týpa er konan í sögunni, sem þvær fætur Jesú með tárunum sínum, þerrar þá með hárinu sínu og smurði þá með dýru smyrsli. Hún fann Jesú og upplifði að í návist hans og hvergi annars staðar var hún örugg og gat hún verið hún sjálf.
Konan í sögunni minnir okkur líka á svolítið annað. Það er vanalegt að kvengera kirkjuna þegar við gerumst ljóðræn í guðfræðiiðkun okkar. Kirkjan er þá hugsuð sem kona andspænis Jesú Kristi, og myndir eins og brúður og brúðgumi eru gjarnan notuð til að lýsa sambandinu.
Þessi hefð á rætur sínar að rekja þess hvernig skáld Gamla testamentisins hugsuðu sér samband Guðs og hinnar útvöldu þjóðar. Þá var Ísraelsþjóðin tjáð sem kona og Guð sem elskhugi hennar. Ein fallegasta tjáning þessarar hugsunar er í Ljóðaljóðunum, þar sem samband tveggja elskhuga tekur á sig innilega og ekki síst erótíska mynd.
Ástarjátningarnar ganga á víxl. Hann segir:
Hve fögur ertu, ástin mín, hve fögur, og augu þín dúfur. (1.15)
Og hún segir:
Hve yndislegur ertu, elskhugi minn, hve fagur, og hvíla okkar iðjagræn (1.16)
Samtalið í Ljóðaljóðunum minnir á tilhugalífið, þegar stjórnlaus lukka ríkir og draumar um farsæld og hamingju móta sýn okkar á lífið og ekki síst ástvininn sjálfan. Rósrauð ský umvefja elskendurna og sólin sest aldrei.
Svo gerist lífið. Lífsbaráttan með sínum sigrum og uppgjöfum, skini og skúrum, breytir okkur sjálfum, elskhuganum og sambandinu sem við eigum okkar á milli.
Þegar við hugsum um kirkjuna og Jesú í þessu samhengi, varpar það ljósi á ýmislegt í sambúðinni. Kirkjan - sem við getum skilgreint á þann einfalda hátt, að séu þau sem elska Jesú - er auðvitað aldrei eins og hún á að vera eða eins og hana langar til að hún væri. Stundum hefur hún verið ansi langt úti að aka.
Við höfum undanfarið verið minnt á hvernig fólk getur notað kristna trú sem skjól og yfirvarp fyrir mismunun og mannréttindabrot. Afgreiðir og afsakar eigin fóbíur og ótta í skjóli trú- og tjáningarfrelsis. Kirkjan hefur tekið þátt í því. Við vitum það og við horfumst í augu við það. Og þegar við gerum það, þegar það rennur upp fyrir okkur hvað við höfum gert, viljum við, eins og konan í sögunni, bara gráta og segja fyrirgefðu, vegna þess að við sjáum hvað við flöskuðum illilega á því að vera ljós í heiminum og bera ást Guðs vitni.
Í sögunni um Símon og bersyndugu konuna kemur samt í ljós hvor týpan er betur sett, hvor er frjálsari. Fyrri týpan er svo sannfærð að hún sé betri en aðrir og sé á beinu brautinni, að öll orkan fer í að viðhalda þeirri sjálfsmynd en ekki í að elska. Þannig sjálfsmynd fjötrar. Seinni týpan er frjáls, konan sem elskar er frjáls vegna þess að í návist Jesú getur hún staðið með sjálfri sér. Alveg eins og hún er, eins og hún hefur verið og eins og hún verður.
Verum ekki eins og Símon sem er svo upptekin yfir því sem aðrir hafa gert rangt að hann fór á mis við frelsið sem trúin gefur. Við fætur Jesú erum við frjáls til að vera við sjálf, í margbreytileika og margbrotin eins og við erum eftir lífið. Þannig frelsi getur heldur enginn tekið frá okkur.
Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda. Sá sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.