Ljósið finnur leið

Ljósið finnur leið

Á jólum horfum við á litla kertið, fylgjumst með loga þess dansa á mjóum kveik, finnum að ljós þess er sömu ættar og sama eðlis og ljós hinnar miklu sólar. Í allri sinni veiku smæð er það fært um að reka myrkrið úr hjörtum okkar.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
25. desember 2014
Flokkar

„Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það.Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ Jóhannes 1, 1 - 14
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Gleðilega jólahátíð, kæri söfnuður! Hraði ljóssins mun vera um þrjúhundruð þúsund kílómetrar á sekúndu og á þessum ógnarhraða er ljósið ekki nema átta mínútur að berast frá sól til jarðar.

Ljósið er með öðrum orðum á að giska jafnlengi að ferðast frá sólinni að augum mínum og ég er að keyra frá Akureyri fram í Kristnes. Ljósið er magnað. Samkvæmt sköpunarsögunni í Fyrstu Mósebók lét Guð verða sitt fyrsta verk að skapa það. Þá var jörðin auð og tóm, myrkur grúfði yfir djúpinu og allt var í óreiðu. Til þess að koma skikkan á þá ringulreið lét Guð ljósið streyma inn í hana. Ljósið var forsenda þess sem fylgdi.

Í hvert sinn sem dimmir erum við minnt á mikilvægi ljóssins, hættur myrkursins og ringulreiðina sem ríkir áður en Skaparinn hefst handa.

Á hinn bóginn bendir hver morgunn okkur á mikilvægi ljóssins fyrir veruleika okkar mannanna og hina hugsandi sístæðu sköpun. Það gera jólin líka. Þá skín ljósið í myrkrinu, eins og segir í jólaguðspjalli Jóhannesar. Þá fer daginn að lengja á ný. Þá fer ljósið að ná yfirhöndinni en myrkrið að láta undan síga. Og þá kemur sá í heiminn sem kristnir menn segja vera ljós heimsins. Ljósið er öflugt og hraðskreitt en oft þarf það að fara langa leið og erfiða. Myrkrið þvælist fyrir því, hindrar það og er því til trafala með ýmsum hætti. Skammdegismyrkrið hér á norðurhjara er til dæmis svo þétt að það tekur ljósið nokkra mánuði á hverju ári að sigra það. Þykkar skýjahulur geta stöðvað framgang ljóssins jafnvel svo vikum skiptir með þeim afleiðingum að við fáum ekki notið sólarbirtunnar nema að hluta. Á meðan er ljósið að keppast við að brjóta sér leið í gegnum skýin. Þó er fátt fundvísara á smugur og sprungur en ljósið. Það er meistari í smugusmeygingum.

Ekki er alltaf þörf á að opna miklar dyr til að hleypa birtu inn í dimman klefa. Stundum nægir ljósinu eitt þröngt skráargat til að komast að auga innilokaðrar manneskju og sigra óttann sem í brjósti hennar býr.

Ljósið er fylgið sér. Það teygir anga sína inn í skúta, hella og niður í dauðadjúpar jökulsprungur, það finnur leið í gegnum þéttvaxna laufskóga, alla leið niður á botninn þannig að þar þrífast hin vænstu grös og marglit blóm. Léttur bjarmi ljóssins sekkur djúpt niður í höfin þar sem líf kviknar og helst við fyrir vikið. Ljósið hefur í nógu að snúast á jörðinni og verkefni þess eru ærin. Víða eru skot sem þarf að lýsa upp, krókar, afkimar og holur þar sem ljóss er þörf. Kjörlendi myrkursins er þó ekki einungis að finna í landslagi og það myndast ekki bara af gangi himintungla. Myrkrið er líka til staðar í sálum okkar mannanna. Þaðan geta streymt dimmar hugsanir og við ávörpum hvert annað myrkum orðum. Engin skepna á jörðinni hefur gert sig seka um að breiða út jafn mikið og þétt myrkur og mannskepnan. Myrkraverk mannkyns sjást víða og þau eru mörg hver óhuggulegri en orð fá lýst; glæpir, grimmd, stríð, níðingsháttur, sóun, mengun, rányrkja, umburðarleysi, rógur, baknag, ójöfnuður, ranglæti og hatur, svo nokkuð sé nefnt.

Versta myrkrið er í sálum mannanna og það er stundum svo ógurlegt og máttur þess svo skelfilegur að manni fallast hendur. Við lesum fréttir, við sjáum myndir, við heyrum frásagnir og oft skiljum við ekki hvernig maðurinn getur fengið af sér að vera eins og hann er. „Ljósið skín í myrkrinu,“ segir í jólaguðspjalli Jóhannesar. Andspænis öllu þessu óumræðilega myrkri, þessum þétta, svarta, kalda og botnlausa sorta, sést lítið skínandi ljós, blaktandi logi og flöktandi bjarmi. „Ljósið skín í myrkrinu,“ segir Jóhannes við mannkyn sem er innilokað í dimmum klefa eigin myrkraverka, hrætt og skelft og trúir ekki sínum eigin augum þegar það sér afleiðingar illsku sinnar og heimsku. „Ljósið skín í myrkrinu,“ er staðhæft í öllu þessu botnlausa myrkri; það lifir engu að síður ljós, myrkrið er ekki hið endanlega svar, sortinn er ekki örlög þín, þér er ekki ætlað að sogast inn í svartholið. „Ljósið skín í myrkrinu,“ heyrir þú þegar þú sérð ekkert nema svart og allar þínar vonir hafa dofnað og allar þínar verstu martraðir ræst. Ljósið skín og það mun að endingu finna leið til þín. Þessi átta mínútna fjarlægð sólarljóssins frá augum þínum er það sem sköpum skiptir. Væri jörðin nær sólu og tæki það ljósið þó ekki væri nema örlítið skemmri tíma að fara leiðina frá uppruna sínum til þín er ekki víst að þú þyldir sólarljósið. Ljósið er grundvöllur lífsins en ef þú ferð of nálægt því brennur þú upp.

Og þannig er Guð. Enginn mannleg vera fær staðist frammi fyrir honum. Enginn getur séð Guð. Þess vegna birtist Guð manninum ekki í öllu sínu veldi, ekki frekar en okkur er unnt að horfa beint í sólina. Nú, á hátíð ljóssins, horfum við ofan í jötuna, í allsleysi fjárhúss og umkomuleysi fátækra foreldra, í smæð og veikleika ósjálfbjarga ungbarns og þar sjáum við Guð.

Á jólum horfum við á litla kertið, fylgjumst með loga þess dansa á mjóum kveik, finnum að ljós þess er sömu ættar og sama eðlis og ljós hinnar miklu sólar. Í allri sinni veiku smæð er það fært um að reka myrkrið úr hjörtum okkar. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.