Landið sé blessað af Drottni

Landið sé blessað af Drottni

Hin heildræna hebreska hugsun sem fléttar mannlegt allt í einn traustan þráð brýnir fyrir okkur heilindi og trúverðugleika á öllum sviðum. Allt líf kristinnar manneskju á að mótast af trú hennar og þar eru fjármálin á engan hátt undirskilin.

Gleðilegt ár, kæru vinir, og þakka ykkur innilega fyrir liðna árið – og liðnu árin.

Á nýársdag 2001 – þegar tuttugasta öldin hafði fyllt síðasta tug sinn og sú tuttugasta og fyrsta tekið við – koma fram í prédikun hér í Hallgrímskirkju áhyggjur af sinnuleysi í þjóðfélaginu, “sinnuleysi um það sem gott er og fagurt og fullkomið, sinnuleysi um sálarheill, sinnuleysi um náungann”. Og áfram segir:

Mörg eru þau sem séð hafa ástæðu til að þakka við aldamót – og þess vegna almættinu – þakka fyrir aukna velsæld íslensku þjóðarinnar, gjörbyltingu íslensks samfélags á tuttugustu öldinni. Og er vissulega þakkarvert, þegar litið er til vosbúðar og vesældar á heimsmælikvarða, sem víða var að finna á landinu okkar góða við upphaf tuttugustu aldar. En vegurinn frá vesæld til velsældar getur fært með sér vansæld, þegar allt sem skiptir máli er hagnaður einstaklingins og ef til vill hans nánustu fjölskyldu...

“Já, velsældin á sér ýmsar hliðar”, segir áfram í þessari tíu ára gömlu prédikun, en hér í Hallgrímskirkju hef ég prédikað reglulega í rúman áratug. ”Við þurfum að gæta að okkur, Íslendingar, á nýrri öld, gæta þess að við missum ekki það sem við eigum dýrast, og þá á ég ekki við efnahagslega velsæld. Við höfum kallað okkur kristna þjóð eitt árþúsund. Nú er samtengingu þeirra orða ógnað. Ógnin kemur ekki að utan, vegna margbreytilegra menningaráhrifa og trúarbragða, sem “nýir” og “gamlir” Íslendingar kunna að flytja með sér. Nei, ógnin kemur að innan, vegna sinnuleysis þjóðarinnar, vegna kæruleysis og hálfvelgju, að við segjum já og meinum nei”.

Svo mörg voru þau orð í upphafi árs 2001. Átta árum síðar, á nýársdegi 2009, veturinn sem efnahagskerfið hrundi, voru flutt eftirfarandi hvatningarorð í prédikun í Seltjarnarneskirkju:

Með því að fela Guði allt okkar, bæði hið liðna og það sem framundan er, fær tilveran öll nýjan grundvöll. Mistök og vandamál verða ekki lengur óyfirstíganlegar hindranir heldur viðfangsefni sem hægt er að leysa með Guðs hjálp. Veraldleg gæði, auðsöfnun og eiginhagsmunagæsla missa gildi sitt og í staðinn koma varanlegri gildi með náungakærleikann í fyrirrúmi.

Þessi orð voru sögð í ljósi þess hugarfars sem þá hafði nýlega beðið skipbrot, hugarfar gróðahyggju, að mikið vill meira. Í staðinn benti prédikarinn á að nægjusemi skyldi hafin til vegs og virðingar að nýju, með orð postulans í huga: “Því ekkert höfum við inn í heiminn flutt og ekki getum við heldur flutt neitt út þaðan. Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja... Fégirndin er rót alls ills” (1Tím 6.6-10). Uppgjör Nú er útlit fyrir að framundan sé einhverskonar uppgjör vegna þeirra efnahagsþrenginga sem dundu yfir íslensku þjóðina fyrir rúmum tveimur árum. Mörgum þykir hafa gengið hægt í þeim efnum en mikilvægt er að sú vinna sé vönduð. Skýrslan mikla sem kom út á síðastliðnu ári var viðurkenning á því að mjög margt hafði farið úrskeiðis í íslensku þjóðfélagi árin á undan og hljóma varnaðarorðin úr áramótaprédikuninni frá 2001 nánast sem spádómsorð í því samhengi eins og fleira sem prestar fluttu í ræðu og riti á árunum fyrir hrun.

Uppgjör hefur farið fram, er að fara fram og þarf að fara fram og umfram allt þurfum við, íslenska þjóðin, að læra að fara betur með og leggja enn ríkar stund á gjöf nægjuseminnar. Nægjusemin er náðargjöf, “lausn undan þeirri byrði að þurfa sífellt að eiga meira, borða meira, ferðast meira, kaupa meira, vinna meira”, svo aftur sé vitnað í téða prédikun frá 2009. Því fylgir sannarlega mikill léttir þegar við getum látið okkur nægja það sem við höfum – og vera þannig umkomin þess að gefa af okkur í auknum mæli.

Nýtt upphaf Og nú erum við hér á nýjum upphafsreit. Fyrsti áratugur 21. aldarinnar hefur fullnað sitt skeið. Nýr áratugur tekur við með árinu 2011. 1.1.11 er í dag. Hvar erum við stödd á því Herrans ári – þeim Herrans degi? Getum við látið gærdaginn vera það sem hann er, liðinn, og metið stöðu dagsins í dag með von í brjósti? Talan 1 merkir í mínum huga nýtt upphaf á meðan núllið eins og rúnnar af hið fyrra. Á hvern hátt getum við sem einstaklingar og sem þjóð lagt af stað í ferðina inn í framtíðina með báða fætur vel reimaða í þeim degi sem við þiggjum í dag?

Sem veganesti eru okkur gefin blessunarorðin til íhugunar á nýársdegi, þessi árþúsundagömlu orð sem Guð bað Móse að gefa Aron og prestunum til að leggja yfir lýð sinn, breiða yfir fólkið sitt eins og hlýja og styrkjandi værðarvoð, fótfestu, traustan stað að standa á, en líka til að ganga út frá í þjónustu lífsins. Blessunarorðin er að finna í 4Mós 6.22-27:

Drottinn talaði til Móse og sagði: „Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn: Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur, Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið. Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“

Annan traustan grundvöll fáum við í orðum Postulasögunnar 10.42-43 um fyrirgefningu syndanna fyrir trú á Jesú Krist:

Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“

Jesús Kristur veit sjálfur hvað í okkur býr og þarfnast engra klögumála eða kröfugerða í því sambandi, eins og lesa má í guðspjalli dagsins, Jóh 2.23-25:

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.

Guð er Guð hins nýja upphafs: “Ef einhver er í Kristi er hann orðinn nýr maður, hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til” (2Kor 5.17). Þessi orð Páls postula minna okkur, kæri söfnuður, á hver við erum í Kristi, hverju hinn nýi veruleiki kærleika Guðs sem Heilagur andi miðlar til okkar hverja þá stund sem við viljum þiggja kemur til leiðar í lífi okkar. Við erum þarna minnt á að “sleppa tökunum og leyfa Guði”, eins og eitt slagorð 12-spora hreyfingarinnar hljómar.

Það er ekki þar með sagt að hið liðna eigi að vera þurrkað út úr huga okkar, því vissulega getum við margt lært af þeirri “veröld sem var” og sannarlega er margs góðs að minnast sem ekki verður frá okkur tekið. En boðskapurinn er sá að með Guði getum við horfst í augu við nýjan dag og nýtt ár með eftirvæntingu í hjarta, gengið inn í lífið með fyrirgefningu Guðs sem grundvöll og þar með hinn góða ásetning að vilja lifa lífi í eftirfylgd við Jesú.

Ég fyrir mitt leyti tek heils hugar undir orð fyrsta barns árins 1991, Carls Jóhanns Árnasonar, sem sagði í blaðaviðtali í vikunni:

Nýárið leggst vel í mig og ég kveð það gamla sáttur því það hefur verið vandræðaár. Því fylgir góð tilfinning að verða tvítugur í nótt og ég fer inn í nýja árið með ferska byrjun.
Blessun Guðs auðgar Eitt uppáhaldsversið mitt í Orðskviðum Salómons er að finna í 10. kaflanum (vers 22): “Blessun Drottins auðgar og erfiði mannsins bætir engu við hana”. Blessun Drottins auðgar og erfiði mannsins bætir engu við hana. Auðvitað erum við mannfólkið sífellt að puða og strita til að hafa í okkur og á. Meira að segja þegar við teljum okkur vera í fríi er sífelld vinna hlutskipti okkar. Það þarf að búa til mat og búa um rúm, kaupa inn og halda hýbýlunum hreinum. Téð biblíuvers er engin afneitun á því, enda stendur fáeinum versum ofar hið þekkta spakmæli: „Iðjuleysi færir örbirgð en auðs aflar iðin hönd“ (Ok 10.4).

En það grundvallarhugarfar sem þar birtist er sannfæringin um að Guð muni vel fyrir sjá. Það er sama hvað við erfiðum, við komumst ekkert nær lífshamingjunni. En þegar okkur lánast að leggja allt okkar í Herrans hönd verður allt svo miklu léttara, okkur vinnst svo miklu betur við það að koma auga á það sem máli skiptir.

Hreyfiafl kærleikans Í Gamla testamentinu er blessun Drottins, BRKH JHWH, oftast tengd hlýðni við boð Guðs (5Mós 11.27). Og í Nýja testamentinu sjáum við hvernig blessun Guðs er það hreyfiafl sem stuðlar að betri breytni (Post 3.26). Þessi hugsun kann að virðast okkur nútímafólki einföldun á lífinu en þegar betur er að gáð er mikill sannleikur fólginn í hinu einfalda. Við höfum að vísu tamið okkur að kalla boð Guðs tvöfalt – að elska Guð og náungann – en í mínum huga er þetta sami veruleikinn, sem nánar er lýst í boðorðunum tíu. Að elska náunga sinn í elsku Guðs og elska Guð í elskunni til náungans verður ekki aðskilið í lífi hinnar kristnu manneskju. Í sjálfri hlýðninni við kærleiksboðorðið er blessun fólgin, varðveisla, náð og friður.

Ekki kemur á óvart sú hugsun Gamla testamentisins að blessun Guðs fylgi líka veraldleg velgengni, t.d. þegar sagt er frá velsæld Pótífars, hins egypska manns sem Jósef starfaði fyrir (sjá 1Mós 39.2-5). Hin andlega blessun í friði Guðs, þegar hlutirnir eru eins og þeir eiga að vera og allt í jafnvægi, hefur áhrif á allt líf manneskjunnar og hennar heimilishald. Líkingamál um einn bróður Jósefs, Naftalí, tengir þetta saman á fallegan hátt: „Naftalí er saddur af velvild, mettaður af blessun Drottins“ (5Mós 33.23). Og Páll postuli minnir á að þeim sem þiggi andlega blessun beri skylda til að hjálpa öðrum í „líkamlegum efnum“ (Róm 15.27).

Þannig er tvíhyggjan, sem kristindóminum hefur stundum verið lögð til last, upphafin. Skilin á milli hins veraldlega og hins andlega eru engan vegin skýr og eiga ekki að vera það. Hin heildræna hebreska hugsun sem fléttar mannlegt allt í einn traustan þráð brýnir fyrir okkur heilindi og trúverðugleika á öllum sviðum. Allt líf kristinnar manneskju á að mótast af trú hennar og þar eru fjármálin á engan hátt undirskilin, svo minnt sé aftur á nægjusemina.

Friðurinn sem er æðri öllum skilningi Í hlýðni við lögmál kærleikans og trausti til Guðs veitist hinum trúuðu sú blessun og sá friður Guðs „sem er æðri öllum skilningi“ (Fil 4.7). Síðasta sterka hugsun hinna máttugu blessunarorða sem við höfum þegið í arf frá hebreunum miðlar til okkar friði Guðs, SHLM. Shalom er kraftur Guðs að verki í veröldinni, sá kraftur sem gerir allt eins og því er ætlað að vera.

Við erum þátttakendur í því verki. Guð, sem skirrist ekki við að horfa í augu okkar, hann sem sér okkur eins og við erum og hjálpar okkur að gera hið sama, leiði okkur í blessun sinni, friði og fyrirgefningu og veiti okkur kraft til virkrar þjónustu, gegn sinnuleysi og sjálfsupphafningu, til umhyggju og réttlætis með nægjusemi og traust að grundvelli.

Mætti blessun guðsmannsins Móse yfir ættkvísl Jósefs verða orð máttar inn í líf íslensku þjóðarinnar við upphaf nýs áratugar (5Mós 33.13-16):

Land hans sé blessað af Drottni, með gæðum himins, með dögginni og vatni djúpsins sem undir hvílir, með þeim gæðum sem sólin færir, ríkulegum gjöfum mánans, hinu besta frá eldfornum fjöllum, því dýrmætasta af eilífum hæðum, með nægtum landsins og öllu sem á því er, og náð hans sem í þyrnirunnanum býr.