Verndarinn

Verndarinn

Ég hljóp út í ofboði með prik á lofti og reyndi að bæja kjóanum frá hreiðrinu. Bannsettur kjóinn hafði birst margoft áður en nú fyrst varð ég hræddur um lóueggin í hreiðrinu. Ég hafði vakandi auga með honum í kringum sumarbústaðinn minn og taldi mig vera verndara hinna fuglanna sem þessa dagana eru margir með egg í hreiðri.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Karl Helgason
23. maí 2007

Ég hljóp út í ofboði með prik á lofti og reyndi að bæja kjóanum frá hreiðrinu. Bannsettur kjóinn hafði birst margoft áður en nú fyrst varð ég hræddur um lóueggin í hreiðrinu. Ég hafði vakandi auga með honum í kringum sumarbústaðinn minn og taldi mig vera verndara hinna fuglanna sem þessa dagana eru margir með egg í hreiðri. Ég sá fjögur lóuegg í hreiðrinu þarana í móanum og breiddi yfir þau stráum til að hylja fyrir dökkfiðraða óvininum. Það virtist takast því kjóinn kom fljótt aftur og sveif framhjá. Ég setti prik til að merkja betur hvar hreiðrið væri.

Þegar ég var kúasmali á sumrin austur á Síðu hafði ég oft haft með mér prik þegar ég sótti kýrnar. Þar var kjóinn oft sveimandi nærri þar sem ég þurfti að fara um og ég hræddist hann. Ég hafði séð hann svífa niður að litlum lömbum og angra aðra fugla sem lágu á eggjunum sínum og mér þótti vænt um. Mér var sagt að hann gæti með vængjum sínum slegið til fugla og auðveldlega rotað þá. Síðan þá hefur kjóinn aldrei verið vinsæll hjá mér, þvert á móti. Spóinn, lóan, hrossagaukurinn, jaðrakan og allir hinir eru vinir mínir, af því að ég veit að þeir búa ekki yfir þessu eðli að ráðast að eggjum annarra til að gæða sér á þeim.

Nokkrum dögum áður fæddi ein dóttir mín yndislega litla stúlku. Hún kom í heiminn bjargarlaus að mestu eins og öll börn gera og treystir á umhyggju, vernd og skjól sinna nánustu. Bróðir hennar sem er aðeins þremur árum eldri en vart við mælandi þessa dagana. Hann er meira að segja ekkert sérstaklega glaður þegar við afi og amma komum í heimsókn. Hann víkur ekki frá litlu systur eitt augnablik og nánast hrekur okkur á brott ef við ætlum að fara yfir ákveðin mörk sem ég reyndar veit ekki alveg hvar liggja. Hún á sinn verndara þótt lítill sé. Hann veit heldur ekki að við viljum henni allt það besta og óskum þess heitast að henni farnist vel í lífinu sem bíður hennar. Við erum tilbúin að leggja okkar að mörkum til að svo verði. Samt veit ég að það verður ekki alltaf auðvelt hjá henni eða foreldrum hennar að leiða hana áfram á vegi hins góða lífs. Ekki er allt gott sem er á sveimi yfir mannlífinu. Samt vil ég ekki hugsa svo þegar ég sé hana liggja sofandi í fanginu á mömmu sinni þar sem litli bróðir hennar kyssir látlaust og gleðst yfir tilkomu hennar.

Mér finnst óþægilegt að vita að svona er lífið stundum harkalegt í náttúrunni og í mannlífinu, þegar ég vil helst fagna og gleðjast yfir fuglum himinsins sem liggja á eggjum sínum og yfir börnum sem fæðast - á þessum yndislegu vordögum.

“Hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita” (Sálmarnir 91:4)