Þekktu sjálfa/n þig

Þekktu sjálfa/n þig

Guðspjall: Lúk. 17. 5-10 Lexia: Hós. 2. 19-21 Pistill: Heb. 11.1-3,6

Lúkas skrifaði sitt guðspjall til þess að uppörva þá kristnu menn sem hann þekkti. Í því ljósi verðum við að hugleiða guðspjall dagsins sem er tekið úr 17 kaflanum. Í upphafi kaflans talar Jesús við lærisveina sína. Þar fræðir hann þá um hneykslun, fyrirgefningu, trú og laun.

F ólkið sem hlustaði á Jesú og fylgdi honum fylkti sér um hann og talaði til hans á þessa leið: “Viltu gera svo vel að gefa okkur meiri trú en okkur skortir trú. Við getum ekkert gert eins og við erum á okkur komin. Við eigum svo erfitt með að fyrirgefa þeim bróður okkar sem brýtur gegn okkur aftur og aftur. Það er svo erfitt að gæta sín í nærveru sálar og komast af í ranglátum heimi og vera trúr í þeim aðstæðum sem er hlutskipti okkar, hvað þá að segja skilið við allt og fylgja þér. Viltu hjálpa okkur. Við erum svo vanmáttug. Þú ert svo heilagur. Við erum það ekki en við vildum svo gjarnan vera eins og þú!”

Það mátti líkja þessu fólki við viðskiptamann sem segir: “Ég hef ekki næga peninga. Bíðið þar til ég fæ næga peninga og þá mun ég byrja”. Þar sem hann stendur ekki í neinum viðskiptum eru litlar líkur á því að hann hefji þau!

Það mátti e.t.v. einnig líkja þessu fólki við bónda sem segir: Ég á ekki nægilega mikið af sæði til þess að geta sáð í allan akurinn. Bíddu þangað til ég hef meira og þá mun ég byrja”. Þar sem hann hefur ekki sáð sæðinu sem hann á eru litlar líkur á því að hann muni eignast meira og því mun hann hungra.

Guðspjall dagsins lýsir því þegar lærisveinarnir komu til Jesú og sögðu við hann: “Auk oss trú”, gef okkur meiri trú að við getum unnið kraftaverk. Þannig gáfu lærsveinarnir til kynna að trú þeirra væri svo lítil að þeir gætu ekki gert nokkurn skapaðan hlut.

Jesús lofar þeim ekki meiri trú. Hann lofar þeim engu. Þess í stað segir hann við þá: “Jafnvel þótt trú ykkar væri mjög smágerð, smærri en smæsta sáðkorn þá gætuð þið flutt fjöll, flutt tré, jafnvel þetta tré þarna, sagði hann, og benti á mórberjatré sem er frægt fyrir aldur sinn en það getur orðið 600 ára gamalt. Það hefur einnig seigar og sterkar rætur sem geta klofið steinbjörg í sundur.

Jesús sagði aðeins: “Byrjið með það litla sem þið hafið og þá munið þið geta gert allt sem ykkur langar til að gera”.

Jesús fletti grímunni af þeim og okkur er það ekki? Hversu oft reynum við ekki að skorast undan ábyrgðinni? Við segjumst ekki geta beðið vegna þess að við höfum ekki næga trú. Við getum varla verið góðgjörn vegna þess að við erum ekki nægilega hjartahrein. Við getum varla stuðlað að réttlæti þegar við erum ekki réttlát sjálf. Við getum ekki hætt að drekka vegna þess að við höfum ekki nægilega mikinn sálarstyrk.

Ég er viss um að Jesús myndi andmæla þessum orðum okkar og biðja okkur um að tala ekki svona. Hann myndi ráðleggja okkur að biðja ekki um meiri trú, von, kærleika eða hvað það nú heitir heldur byrja með það sem við höfum en það er einmitt meira en við höldum oft á tíðum. Við kunnum hins vegar ekki alltaf að spila úr því á uppbyggilegan hátt í því hjartnanna samfélagi sem við lifum og hrærumst í.

Eitt sinn heyrði ég sagt frá kaþólskri konu, Dorothy Day að nafni sem átti sér marga aðdáendur vegna góðra verka sinna í þágu fólks, svo mjög að mörgum fannst að þar færi lifandi dýrlingur. Margir heimsóttu hana,horfðu á hana, lofuðu hana, töluðu til hennar og gerðu sér far um að snerta hana.

Hún var ekki hrifin af því að vera líkt við dýrling. Ef hún heyrði þetta sjálf þá sneri hún sér jafnan að þeim sem sagði þetta og mælti til hans á þessa leið: “Ekki segja að ég sé dýrlingur. Ekki gera þetta of auðvelt fyrir þig. Ekki flýja á þennan hátt. Ég veit hvers vegna þú segir að ég sé dýrlingur. Þú segir þetta til þess að sannfæra þig um það að þú sért öðruvísi en ég, og að ég sé öðruvísi en þú. Það er auðvelt. Í því tilviki getur þú farið þína eigin leið. Ég er ekkert öðruvísi en þú. Ég er ekki dýrlingur. Ég er eins og þú. Þú getur auðveldlega gert það sem ég geri. Þú þarft ekki meira en það sem þú hefur nú þegar.

Í guðspjalli dagsins segja lærisveinarnir um sjálfa sig: “Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt sem vér vorum skyldir til að gjöra”. E.t.v. hafa þeir sem heimsóttu konuna áður nefndu álitið sig vera ónýta þjóna, einungis nýta til þess sem skylduræknin bauð þeim að framkvæma hverju sinni.

Hvenær höfum við gert nóg, eða rétt svo að það sé Guði föður okkar til dýrðar og samferðamanni okkar til blessunar?

Þessari stóru spurningu verður ekki svarað með upptalningu á því góða, fagra og fullkomna sem við höfum hugsanlega látið af okkur leiða í mannlegu samfélagi. Við erum hins vegar leidd fram fyrir spegil sjálfsprófunar. Hvað sérð þú í þeim spegli? Ert þú þjónninn sem gerir margfalt meira en hann er skyldur til eða ert þú þjónninn sem getur gert miklu meira en þú hefur gert til þessa?

Það skiptir miklu máli að þekkja veikleika sína og styrkleika því að þá auðnast okkur að takast á við veikleikana og bæta í brestina í fari okkar með hjálp Guðs og góðra manna. Margir hafa átt við áfengisvandamál að stríða sem hefur verið mikill bölvaldur hér á landi. Því betur hafa fjölmargir íslendingar farið í áfengismeðferð hér á landi eftir að hafa viðurkennt fyrir sjálfum sér að þeir hafi átt við áfengisvandamál að stríða. Þeir sem þekkja til meðferðarinnar tala allir um hversu trúin skipar veigamikinn sess í meðferðinni. Þar getur trúin svo sannarlega flutt fjöll ef 12 spora kerfinu er fylgt til hlítar en þar er talað um trú á æðri mátt. Þjóðkirkjan hefur á undanförnum árum staðið fyrir námskeiði sem byggir á tólf spora kerfinu þar sem þátttakendur líta í eigin barm og skoða stöðu sína frammi fyrir Guði og fjölskyldu sinni og vinum. Þar lýkst upp fyrir þáttakendum að þeir hafa andlegan hæfileika til að trúa, fyrirgefa og vona.

Trú okkar er sífellt undir smásjánni. Verði okkur það á sem hneykslar þá dregur það fyrst og fremst úr áhrifamætti kristinnar trúar í umhverfinu. Við sjáum þetta um þessar mundir t.d. umræðunni um málefni Byrgisins. Félagsmálaráðuneytið birti nýverið skýrslu þar sem kemur í ljós veruleg óreiða á fjármálum starfsseminnar. Auk þess er fyrrum forstöðumaður borinn þungum sökum. Allt verður þetta nú væntalega rannsakað betur af lögreglunni en minnumst þess þó að enginn er sekur fyrr en sekt hans er sönnuð. Þórarinn Tyrfingsson, yfirmaður á meðferðarstöðinni Vogi hefur bent á það að notendur þjónustunnar í Byrginu þurfi fyrst og fremst á faglegum stuðningi að halda frá félagsráðgjöfum, læknum og sálfræðingum. Það sé ekki forsvaranlegt að ríkið leggi til fjármagn í þágu trúfélaga sem komi að slíkum rekstri. Þá var hann að visa til Samhjálpar sem hefur boðist til að taka við rekstri Byrgisins fáist rekstrarfé frá ríkinu. Hann gagnrýnir að ofsatrúarsamtökum eins og hann nefnir Hvítasunnukirkjuna skuli vera veitt fjármálalegt liðsinni af hendi ríkisvaldsins í þessum málaflokki. Forsvarsmenn Samhjálpar hafa svarað því til að samtökin séu hvorki kirkja né trúfélag heldur kristileg meðferðar,-forvarnar,- og hjálparsamtök þar sem leitast sé við að vinna á sama kærleiksríka hátt og Kristur vann, þ.e. að líkna þeim sem þjást og stríða. Á heimasíðu Samhjálpar kemur fram að alkoholismi sé sjúkdómur sem sé líffræðilegur, andlegur og félagslegur og sé með tilstyrk þeirra meðhöndlaður á öllum stigum af menntuðu fagfólki.

Landakotsspítali var um margra ára skeið rekinn af fólki sem var kaþólskrar trúar og var hluti starfsmanna nunnur sem helgað höfðu sig Guði og unnu afar fórnfúst og kærleiksríkt starf á meðal sjúklinganna. Enginn efaðist þó um að faglegt starf væri unnið á sjúkrahúsinu Landakoti. Ekki má heldur gleyma St. Jósefssystrum sem af miklum myndarskap byggðu sjúkrahús í Hafnarfirði fyrir rúmum 80 árum. Í dag minnast Hafnfirðingar með þakklæti og virðingu framtaks þessara miklu trúkvenna. Þær vildu vinna og unnu faglega.

Í pistli dagsins í Hebreabréfinu segir um trúna: “Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá”.

Trúin er von um frelsi, von um fyrirgefningu syndanna, von um eilíft líf. Samt sjáum við ekkert, þreifum á engu. Er þá nokkuð óeðlilegt að trúin eigi erfitt uppdráttar? En er ekki ótalmargt sem við sjáum ekki en efumst þó ekki um raunveruleika þess?

Sjáum við rafstrauminn? Samt kveikjum við á slökkvaranum og ljósið fyllir herbergið. Sérðu útvarps-og sjónvarpsbylgjurnar? Þó seturðu tækin í samband, raddir berast að eyrum þér og myndir að augum.

Tökum annað dæmi: Er vonin og kærleikurinn ímyndun ein? Svari hver fyrir sig.

Trú á vísindi og framfarir er nauðsyn, annars verður stöðnun á framvindu þekkingarinnar. En þessi trú kemur ekki í stað trúar þeirrar sem postularnir báðu Jesú um. Sú trú kemur frá himni sem gjöf.

E.t.v. er unnt að útskýra flest í framfarasögu mannkyns. Aldrei verður þó skýrt hvað gerist þegar Kristur glæðir trúarneistann sem áður blundaði með okkur.

Við vitum ekki hvort sólin fær blómið til að opna krónu sína eða hvort blómið opnar sig fyrir sólinni eins og vitur maður orðaði það. Enda skiptir það litlu máli. Þannig er einnig með trúna. Aðalatriðið er að hún aukist og eflist, svo að við séum hæf til þess að mæta hverju því sem dagurin kann að færa okkur sælu sem þraut.

Trúin er máttug. Stundum er talað um að hún flytji fjöll. Hér er auðvitað um líkingarmál að ræða. Skipstjóri nokkur íslenskur sigldi skipi sínu öll stríðsárin síðari um mestu hættusvæðin þar sem firn af alls konar morðtólum voru í lofti og sjó. Sjálfur taldi hann sig ekki mikinn trúmann. En samt féllu þessi orð af vörum hans þegar hildarleiknum lauk: “Nú veit ég að trúin flytur fjöll.” Minnumst þess að ekta trú kemur því til leiðar sem reynslan, skynsemin og líkindi segja að sé ómögulegt svo fremi hún sé í samræmi við vilja Guðs. Minnumst þess jafnframt að við getum aldrei átt neitt inni hjá Guði né átt kröfu á hendur honum. Þegar við gerum okkar besta höfum við aðeins gert skyldu okkar. Sá sem hefur gert skyldu sína gerir í öllum tilfellum aðeins það sem hann varð að gera. Drottinn auk oss trú og þökk fyrir þá óumræðilega miklu gjöf. Amen.