Að læra af sögunni

Að læra af sögunni

Inn í þær aðstæður talaði Hitler sem á okkar tímum hefur tekið við af djöflinum sjálfum í orðræðu um illsku og fjandskap. Hann gat hrifið fólk með áróðri sínum.

Ártöl eru eins og afmæli. Þegar dagur rís með nýjum tölustöfum er vissulega nýtt skeið runnið upp – nýr áfangi og mögulega ný viðmið, þótt aðeins sé partur úr sólarhring liðinn frá því að ártalið var annað. Ég minnist þess þegar ég átti síðast stórafmæli fyrir fjórum og hálfu ári – þá bentu vinir og velunnarar mér á það til huggunar að þótt árin mín væru orðin fimmtíu, væri ég þó aðeins deginum eldri en í gær.


Aldarafmæli


Og já, þótt runnið sé upp hið herrans ár 2023 er þó ekki nema dagur liðinn frá því ártalið var annað.

 

En átöl lýsa gangi tímans. Þau gefa líka tilefni til að líta til baka og spyrja að því hvort einhver tímamót séu runnin upp, nú eða hvort árið geymi stórafmæli einhverra atburða. Vitaskuld er raunin sú. Á þessu ári eru fyrirsjáanlega nokkrir atburðir sem vert er að rifja upp.

 

Þannig getum við litið hundrað ár aftur í tímann, til haustsins 1923 þegar uppþot urðu í bjórkjallara í borginni Munchen í Þýskalandi. Já, háreisti og læti sem tengjast bjórdrykkju – það ætti nú ekki að eyða miklu plássi af sagnfræðiritum í að rekja slíkt. Og vísast hefur það á þeim tíma þótt vera harla léttvægt í samhengi óróleikans sem var á þeim tíma í álfunni. Fimm ár voru frá lokum fyrri heimstyrjaldar og vonbrigði sátu í mörgum þeim sem tilheyrðu hinum sigruðu í þeim hildarleik. Atvinnuleysi var í hæstu hæðum og gjaldmiðillinn svo gott sem verðlaus. Þegar Frakkar hernámu iðnaðarhéröðin í Ruhr á sama ári var það sem olía á eldinn.

 

Inn í þær aðstæður talaði Hitler sem á okkar tímum hefur tekið við af djöflinum sjálfum í orðræðu um illsku og fjandskap. Hann gat hrifið fólk með áróðri sínum. Nú stormaði hann út úr Björhöllinni í Munchen ásamt vopnabræðrum sínum og hugðist hrifsa til sín völdin. Allt fór þó úrskeiðis hjá þessum ólánlega hópi og að endingu gómuðu yfirvöld forsprakkann sem mátti hann dúsa í fangelsi fram á næsta ár. Þar skrifaði hann barátturit sitt þar sem hann dró fram þessa fáránlegu heimsmynd um átök milli kynþátta og yfirburði hinna svo kölluðu aría. Sá vaðall hitti í mark hjá mörgum landa hans sem fálmuðu í örvæntingu eftir einhverju því sem þeir töldu geta leitt þá til nýrrar vegsemdar.

 

Og nú erum við reynslunni ríkari, já mannkynið allt. Í baksýnisspeglinum góða sjáum við að lygar og skrum höfðu tilætluð áhrif. Venjulegt fólk, að því er virðist, læknar, kennarar, bændur, húsmæður – áttu eftir að gerast sek um skelfileg ódæðisverk. Öldin sem leið geymir ótal frásagnir af ódæðisverkum sem framin voru í nafni blinds ofstækis.

 

Ég spyr mig stundum að því hvernig ég hefði brugðist við í þeim aðstæðum. Auðvitað hefði ég barist gegn hatrinu og grimmdinni – svara ég sjálfum mér í fljótu bragði. En af hverju var það þá aðeins agnarlítill hluti fólks sem lagði út í þann háska? Eða er það líklegast að ég hefði, eins og langflestir aðrir, legið lágt – látið lítið fara fyrir mér í þeirri von að geta bjargað lífi mínu og minna nánustu? Já, þessi sakleysislegi atburður fyrir sléttri öld var undanfari mikils harmleiks.

 

Að hverju leitaði fólkið sem marseraði í átt til hins skefjalausa ofbeldis? Leitaði það farsældar? Eins fjarstæðukennt og það hljómar – kann sú einmitt að vera raunin.


Blessun og farsæld

 

Textarnir á nýársdag eru ekki langir. Nei, það eru þeir aldrei. Þeir eru stuttir og knappir – eins og tíminn sem liðinn er af árinu. Einn þeirra horfir þó sérstaklega langt aftur í tímann. Þetta er aldursforseti í hinu Biblíulega samhengi. Bæn Arons, er sú elsta sem við eigum í Biblíunni. Og þessi bæn hefur alveg sérstakan sess innan kirkjunnar.

 

Fáar athafnir fara fram innan hennar vébanda þar sem bænarinnar er ekki beðið. Hún er flutt yfir hvítvoðungin sem borinn er að skírnarlauginni. Messugestir heyra hana, fermingarbörn, brúðhjón – já og þegar árin öll eru að baki er hún flutt yfir kistu hins látna. Og yfir moldu hans.

 

Nú hljóða þau orð í upphafi ársins:

 

,,Drottinn blessi þig og varðveiti þig, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,  Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið."

 

Hvaða friður er það sem hér er rætt um? Er ekki nærtækt að svo sé spurt þegar við lítum til baka og rifjum upp tíma ofbeldis og óréttar?

 

Er það ósk um kyrrð, þögn, hlé á átökum? Oft hafa menn túlkað friðinn með þeim hætti. Pax Romana, hinn rómverski friður, var einmitt af þeim toga sprottinn. Hann komst ekki á fyrr en búið var að eyða allri mótstöðu og brjóta niður alla andspyrnu. Þá var jörðin sviðin og fólkið komið í fjötra. Það var sams konar friður sem illskuöflin nazismans vildu skapa þar sem heilu þjóðirnar skyldu verða undirokaðar.

 

Þetta er ekki sá friður sem Biblían boðar. Þegar við hlýðum á jólaguðspjallið kynnumst við söng englanna í Bethlehem sem sungu: ,,Friður á jörðu og velþóknun Guðs með mönnunum." Þetta er sama orðið þótt frummálið sé annað. Í grískum frumtexta Nýja testamentisins er talað um „eirene“ – en hinn hebreski upp úr hinu gamla testamenti notar orðið „shalom“.

 

Í báðum tilvikum er ekki bara talað um hlé á ófriði heldur nokkuð sem við gætum jafnvel þýtt með orðinu „farsæld“. Þessir textar eru í raun ákveðin pólitísk yfirlýsing. Jú, á þeim tíma þegar Jesús fæddist var Pax Romana í gildi og sá friður hafði verið innleiddur með þeim hætti sem fyrr er lýst.

 

Og þar er vísað í þessa elstu bæn Biblíunnar þar sem friðurinn hefur alveg sérstaka merkingu. Sú bæn var flutt fólki sem var á flótta í eyðimörk. Við þær aðstæður skorti samfélagið reglur og stjórn. Og við getum með nokkrum sanni sagt að stjórnleysi og einræði séu ekki svo frábrugðin eftir allt. Í landi einræðisherrans eru duttlungar hans ofar allri löggjöf.

 

Hinn Biblíulegi friður vísar til heildarinnar, þar sem jafnvægi á að ríkja milli mikilvægustu þátta tilverunnar. Þessi friður snýst ekki um það hvernig við getum náð valdi yfir öðru fólki, heldur þvert á móti - hvernig við komum fram við systkini okkar. Og auðvitað okkur sjálf líka. Hvernig ræktum við huga og anda? Hvað tökum við með okkur á fund skaparans? Hvað skiljum við eftir okkur?

 

Þessi heildræna sýn á tilveruna er ríkur hluti kristinnar lífsskoðunar. Trúarlíf getur aukið sjálfsstjórn fólks og sjálfsaga. Heilbrigt og gefandi trúarlíf auðgar önnur svið tilverunnar og gerir okkur betur kleift að takast á við vandamál daganna.

 

Bæn kirkjunnar á mótum tveggja ára beinist að þessu jafnvægi. Tímamót eru það þegar við göngum úr einu tímabili í annað hvort sem það er ár, mánuður, vika, dagur, klukkustund, sekúnda eða jafnvel sekúndubrot – því öll geta þessi skeið skipt sköpum í lífi okkar hverju sinni.


Að læra af sögunni

 

Og tíminn líður mishratt. Árin eru misgóð og misfögur. Sagan birtir okkur tímabil ógnarstjórnar og við sem njótum þeirrar gæfu að lifa í gerólíku samfélagi þurfum að íhuga hvaða aðstæður það voru sem sköpuðu jarðveg fyrir einræði og grimmdarverk.

 

Hlutverk okkar er að gleyma ekki þeim tímum. Við sýnum fórnarlömbum kærleika og virðingu með því að rifja þá upp, ekki síst á tímamótum þegar við sjáum ástæðu til að rekja atburðarrás sem leiddi til skelfingar. Sú íhugun beinist ekki síst að skilningi okkar á því hvað friður raunverulega felur í sér. Hin elsta bæn Biblíunnar hefur líka hljómað í gegnum margvísleg skeið sögunnar.

 

Vísast hafa gyðingar farið með hana mitt í ofsóknum, hvort heldur það var á tímum þriðja ríkisins eða öðrum ógnarskeiðum sögunnar. Þá hafa þeir getað minnt sig og aðra á það að ofbeldið er ekki hið eðlilega ástand. Því er þveröfugt farið.

 

Og kristnir menn ættu að lifa lífinu í anda þeirrar blessunar sem beðið er um í bæninni gömlu. Boðskapur hennar er jafn sannur í dag og hann var fyrir þeim árþúsundum er hún fyrst var borin fram. Þar er beðið fyrir velsæld okkar til líkama og efna. Líka fyrir því að við getum verið gegnir þátttakendur í samfélagi manna. Ekki síður fyrir hinu að við eigum sannan frið í hjarta, sátt við okkur sjálf og náunga okkar.

 

Lykilatriðið fyrir hinum sanna friði er að taka á móti blessun Drottins með því hugarfari að við séum reiðubúin að láta hana móta líf okkar og breytni. Þá gerir okkur líka næm fyrir því sem við þurfum að berjast gegn og hjálpar okkur í þeirri sístæðu baráttu mennskunnar – að sigra illt með góðu.

 

Guð gefi okkur öllum gleðilegt á og góðar og farsælar tíðir.