,,Er allt í lagi með þig?” Ætli spurning þessi sé ekki algengasta setning kvikmyndanna? Ég hef það fyrir sið að hnippa í sessunaut minn þegar ég horfi á bíómynd og heyri hana borna fram. Heimilisfólkið mitt þekkir tilefnið þegar það fær olnbogann í síðuna. Kenning mín er á þá leið að með þessari spurningi byggi höfundurinn brú á milli vonlausra aðstæðna sem upp hafa komið í sögunni og svo þess þegar allt er komið í lag.
Lykilspurning
Við erum jú vön því að söguhetjur í hvíta tjaldinu þoli álag sem venjulegt fólk gæti aldrei afborið. Högg og spörk, jafnvel skothríð og hnífakast, hrun ofan af húsþökum, bílveltur og alls kyns hremmingar eru ekki óalgengar í þessu samhengi. Þegar lætin eru að baki er kyrrð er komin á er kominn tími til að spyrja þessarar lykilspurningar: ,,Are you OK?” Svarið er jafnan, já, og áhorfandinn samþykkir þá fjarstæðu að söguhetjan skuli enn vera á lífi og sagan getur haldið áfram.
Já, sagan, því sögur eru ómissandi hluti af lífi okkar rétt eins og hefur verið frá öndverðu siðmenningar. Sögur fylgja manninum. Í klaustrum á Íslandi lögðu menn ótrúlegt erfiði á sig til að skrásetja sögur. Þetta voru frásagnir af helgum mönnum og biskupum, konungum Norðurlanda og víðar, sögur af landnámi á þessari eyju og auðvitað sögurnar sem kenndar eru við Íslendinga. Næstum allt sem við vitum um norrænan átrúnað var skrifað í þessum klaustrum og þar eru nú margar skemmtilegar sögur að finna. Fátt sýnir betur áhrifamátt slíkra frásagna en það ótrúlega erfiði sem menn lögðu á sig til að koma þeim á kálfaskinn. Skrásetning þessara sagna og varðveisla þeirra hlýtur að vera það merkilegasta sem gert hefur verið á Íslandi, fyrr og síðar. Slíkur er áhrifamáttur sögunnar.
Stærsta sagan
Í dag safnast kristnir menn saman um sögu. Þetta er upprisufrásögnin sem Páll postuli segir vera prófsteininn á kristna trú. Ekkert okkar getur staðfest það sem þar á að hafa gerst og ekki hún vísindaleg frásögn. Þetta er saga sem eins og aðrar sögur miðlar boðskap. Þetta er sigurboðskapur, óður til lífs og ljóss, endalaus hvatning til dauðlegra og breyskra manna um að láta ekki deigan síga þótt öll sund virðist lokuð. Að öllum sögum ólöstuðum hefur þessi vafalítið vinninginn þegar kemur að því að blása fólki kapp í kinn og hvetja það áfram á leið sinni í lífinu.
Páskafrásögnin rís upp úr ljótleikanum. Aðdragandi hennar eru svik og ótti. Við lesum um réttarmorð, sársauka og niðurlægjandi dauða á krossinum. Uggur og vonleys lifði enn í fólkinu að morgni páskadags þegar konurnar gengu upp að gröfinni. Myndin í huga þeirra var ekki birta himnanna heldur grár steinninn sem lokaði grafarmunnanum. ,,Hver mun velta honum frá fyrir okkur?” spyrja þær - rétt eins og við gerum öll þegar við stöndum frammi fyrir mótlæti lífsins og mætum ofjörlum hvar sem þá er að finna.
Og þá eru það umskiptin stóru sem hefjast á hinum klassíska inngangi sendiboða himnanna þegar þeir mæta jarðneskum mönnum: ,,Verið óhrædd”. Þetta er lykilsetning fagnaðarerindisins. Hún gegnir sama tilgangi og sú algenga, ,,are you OK” þegar við horfum á bíó. Hún snýst um það sem skiptir máli í hinu stóra samhengi - þegar óttinn hverfur og traustið tekur við, þegar angistin víkur fyrir ástríðunni. Þetta sögðu þeir líka englarnir í Bethlehem forðum og þetta segja þeir nú þegar upprisutrúin er á sínum upphafsreit. Fögnuðurinn hefst á óttaleysinu. Og allt breytist. Angistin víkur fyrir ástríðunni. Lífið tekur á sig nýja mynd. Þeir sem áður höfðu brugðist stóðu nú í stafni þeirrar byltingar sem átti eftir að breyta heiminum, upprisubyltingarinnar.
Alla tíð síðan hafa breyskir menn sótt í þessa sögu sem er sú merkilegasta af þeim öllum. Þegar þeir mæta veikleikum sínum og horfast í augu við mistökin þá fallast þeim ekki hendur því boðskapur upprisunnar talar einmitt inn í þær aðstæður. Hann er í raun ekki ósvipaður þeirri spurningu sem handritshöfundar apa hver upp eftir öðrum og birtist okkur í óteljandi frásögnum á skjánum. ,,Er allt í lagi með þig?” svona spyr einhver hetjuna og hún dustar rykið af jakkanum, þurrkar í burtu örmjóan blóðtauminn af hökunni og viti menn, beinin eru óbrotin. Sagan heldur áfram. Svona eru sögur. Þær eru límið í samfélagi og miða að því að flytja okkur mismerkilegan boðskap.
Nema hvað að í birtu upprisunnar er spurningin ekki borin upp heldur fullyrðing: ,,Það er allt í lagi með þig!” Þú þarft ekki að óttast. Svona ertu og þannig tekur á móti kærleikanum. Ekki reyna að vera eitthvað annað. Guð elskar þig nákvæmlega svona og í augum hans ertu eins og hvítþveginn og skær. Í krafti þessarar fullvissu snerist allt við. Sagan hélt áfram og hún heldur áfram. Hópurinn fylltist krafti og dug, mætti ógninni af fádæma öryggi. Og að morgni páskadags tveimur árþúsundum síðar mætum þeim verkefnum sem þar bíða í krafti þeirrar vonar sem upprisunni fylgir.
Góður Guð gefi okkur öllum gleðilega upprisuhátíð.