Biðjum og styðjum - samskot í kirkjum fyrir fjölskyldur í vanda

Biðjum og styðjum - samskot í kirkjum fyrir fjölskyldur í vanda

Núna þegar ár er liðið frá efnahagshruninu eiga margar fjölskyldur í miklum fjárhagserfiðleikum. Sumar eiga vart til hnífs og skeiðar. Fyrir ári hefði engan órað fyrir að fólk sem þá var vel bjargálna þyrfti stuðning nú.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
02. október 2009

Núna þegar ár er liðið frá efnahagshruninu eiga margar fjölskyldur í miklum fjárhagserfiðleikum. Sumar eiga vart til hnífs og skeiðar. Fyrir ári hefði engan órað fyrir að fólk sem þá var vel bjargálna þyrfti stuðning nú.

Stofnanir og hjálparsamtök hafa brugðist við stóraukinni þörf fyrir stuðning og hefur aðstoð þeirra margfaldast á einu ári. Aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar hefur vaxið úr rúmlega 900 þúsund krónum í september 2008 í um 8 milljónir króna í september 2009. Hjálparstarf kirkjunnar tekur á móti fólki og býður upp á mataraðstoð, aðstoð við að leysa út lyf, fatnað, skólavörur og fleira eftir aðstæðum. Ennfremur er þar veitt félagslega ráðgjöf.

Næstu tvo sunnudaga 4. og 11. október verður safnað fé í kirkjum landsins til stuðnings við þurfandi fjölskyldur sem farið hafa illa út úr efnahagshruninu. Fólk er hvatt til að mæta í guðsþjónustur og leggja sitt af mörkum . Athygli er vakin á því að leggja þarf fram reiðufé því ekki er hægt að taka við framlögum í kirkjum með öðrum hætti.

Einnig er hægt að leggja inn framlag á reikning Hjálparstarfs kirkjunnar í gegnum styrktarsíðuna www.framlag.is eða heimasíðu starfsins www.help.is og á reikning Hjálparstarfsins kt. 450670-0499, reikningsnúmer 334-26-27.

Samskot í guðsþjónustum Þjóðkirkjusafnaða hafa ekki verið algeng þótt slíkt sé siður í kirkjustarfi um allan heim. Þó hafa nokkrar kirkjur á höfðuðborgarsvæðinu tekið upp þennan háttinn og gefist vel.

Þeim fjármunum sem safnast í þessu átaki verður öllum varið til stuðnings þurfandi fjölskyldum á Íslandi.

Leggjum af mörkum eins og við getum. Biðjum og styðjum.