Hin konunglega íþrótt-Landsmót UMFí á Húsavík 1987

Hin konunglega íþrótt-Landsmót UMFí á Húsavík 1987

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
09. október 1987
Flokkar

Guðspjall: Lúk. 6. 36-42 Lexia: Jer. 7. 1-7 Pistill: Rm. 14. 7 - 13

“Lifandi bær”. Það er ekki hægt að segja annað um Húsavík þessa dagana en að bærinn sé lifandi. Hér ríkir hátíðarstemning vegna þess að landsmót ungmennafélaganna er í fullum gangi í fögru sumarveðri. Aldrei hafa svo margir heimsótt Húsavík á jafn skömmum tíma sem nú þessa landsmótsdaga. Landsmótið hefur laðað til sín fjölmargt fjölskyldufólk sem skemmtir sér vel enda hefur margt verið gert fyrir yngsta fólkið. Undirbúningur þessa landsmóts hefur tekist framúrskarandi vel og er þeim til sóma sem að því stóð.

Íþróttafólk af öllu landinu hefur hér reynt með sér í margs konar íþróttagreinum sér og öðrum til skemmtunar. Sjálfsagt hafa margir alið með sér von um sigur sem síðan hefur brugðist. En við vitum sem er að ekki geta allir farið með sigur af hólmi. Ég tel mest um vert að fá tækifæri til þess að vera með og fá að kynnast ungu íþrótta – og æskufólki af öllu landinu.

Íþróttir eru til margra hluta nytsamlegar. Þær stuðla að vexti og viðgangi líkama og sálar. Þær efla samheldni fjölskyldna en við vitum að það eru til margs konar fjölskylduíþróttir eins og t.d. sund, hjólreiðar, hestamennska að ógleymdum skíðum.

Landsmót ungmennafélaganna í landinu eru nú haldin þriðja hvert ár í því augnamiði að efla áhuga æskunnar á íþróttum og gefa ungu íþróttafólki tækifæri til þess að spreyta sig gegnu öðru íþróttafólki víðs vegar aað af landinu. Þetta er góðra gjalda vert og ekkert nema got um það að segja. Það er fátt skemmtilegra en að eiga samneyti við ungt og hressilegt íþróttafólk sem hefur sett sér það markmið að lifa heilbrigðu lífi á sálu og líkama. En íþróttir stuðla að slíku líferni. Þær stuðla að varðveislu lífsins, þess lífs sem Guð hefur gefið okkur til þess að fara vel með. En við kristnir menn erum hvattir til þess að varðveita lífið í sinni fegurstu mynd. Við erum hvött til þess að þroska líkama okkar og sál í samfélagi við annað fólk. Með hollri hreyfingu stuðlum við að viðgangi og varðveislu lífsins og njótum skemmtilegs samneytis við annað fólk. Þetta eitt ætti að vera nægilegt markmið þeim sem íþróttir stunda.

En oft hefur mér fundist að metnaður íþróttafólks hafi orðið þeim fjötur um fót og skilið eftir sárindi sem seint hafa gróið. Menn hafa svo sem lengi reynt með sér í aldanna rás til þess að vita hver sé fremstur í flokki. En þegar metnaður íþróttafólks verður áhuganum á íþróttagreininni yfirsterkari þá er oft stutt í öfgarnar. Þá getur svo farið að leikreglurnar á íþróttavellinum séu ekki alltaf í heiðri hafðar heldur vanvirtar. Í þessu sambandi verður að gæta hófs eins og öðru.

Vænlegast til árangurs í öllum íþróttagreinum er að virða leikreglurnar og reyna að gera sitt besta af drengskap. Og sýna öðru íþróttafólki tillitssemi og virðingu.

Flestir keppendur hafa lagt mikið á sig til þess að ná sem bestum árangri á þessu móti. Þeir hafa undirbúið sig vel og kostgæfilega. Til þess að góður árangur náist þarf mikla sjálfsögunk keppenda og mikla þolinmæði.

Allir hafa gott af því að kynnast aga á einn eða annan máta. Íþróttamenn aga líkama sína og neita sér um ýmislegt, allt vegna ákveðins markmiðs sem þeir hafa sett sér. Í þessu sambandi koma upp í huga minn orð Páls postula í Kortinubréfinu en þar segir hann: “Sérhver sem tekur þátt í kappleikjum neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegar sigursveig en vér óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær. Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum”.

Af þessum orðum Páls má ráða að hann tamdi sér sjálfsögun og stefndi þrotlaust að markmiði sem hann setti sér. En hann áti sér æðra markmið en að eignast gullverðlaun þessa heims sem væru ofurseld fallvaltleikanum. Páll postuli átt sér það eina markmið að boða fagnaðarerindið um Jesú Krist öllum þjóðum og ferðaðist í því skyni til landanna í kringum Miðjarðarhafið en þau voru sá heimur sem þá þekktist. Hann lék líkama sinn hart til þess að markmiðið næðist. Hann átti við mikla erfiðleika að etja í sínu boðunarstarfi því að ekki voru allir tilbúnir til þess að taka á móti fagnaðarerindinu. En Páll bar ótakmarkað traust til Guðs. Hann gerði sér grein fyrir því að Guð agar þann sem hann elskar.

Guðspjall dagsins sem lesið var frá altarinu fjallar einmitt um það hvernig Guð agar okkur frá degi til dags. “Verið miskunnsamir eins og faðir yðar er miskunnsamur”. Þetta er stöðug dagskipun Jesú til okkar. Okkur er boðið í guðspjalli dagsins að dæma engan mann og sakfella heldur vera tilbúin að fyrirgefa og gefa öðrum allt það besta sem býr með okkur.

Getum við uppfyllt þessa dagskipun? Við finnum öll til vanmáttar gagnvart henni því að okkur er t.d. svo tamt að dæma aðra, jafnvel að ósekju og sakfella. Við eigum ákaflega eriftt með að líta í eigin barm.

Guð hefur rétt öllum mönnum sína sáttarhönd að fyrra bragði. Hann fyrirgefur okkur afbrot okkar gagnvart sér og náunga okkar. Hann er þolinmóður í kærleika sínum og hvetur okkur til þess að feta í sín fótspor. Mér finnst að Guð leggi heiður sinn að veði meðal okkar mannanna með því hve hann er þolinmóður. Margir hafa horfið frá Guði vegna þess að þeim finnst hann ekki gera neitt í heimsmálunum, t.d. gagnvart hryðjuverkamönnum. Það er ekki við Guð að sakast í þessum efnum heldur manneskjuna sem hefur frjálsan vilja og er miskunnarlaus oft á tíðum. Guð dæmir engan mann heldur fyrirgefur og auðsýnir ríka miskunn að því leyti.

Erum við fús að fyrirgefa hvort öðru? Oft erum við það. En þá hugsum við alltof oft sem svo. Ég skyldi glaður fyrirgefa ef sökunauturinn kemur til mín og biðst afsökunar. En að fara sjálfur til hans, skrifa honum eða gera honum orð að fyrra bragði, það get ég ekki. Ég gæti ekki gert svo lítið úr mér.

Við allar sættir er byrjunin erfiðust vegna þess að hvorugur vill gera sig hinum minni með því að byrja. Þannig er það t.d. milli hjóna, hvað þá annarra út í frá. Okkur finnst að við gerum okkur svo lítil með því að stíga fyrsta skrefið. Og þar með bætist svo óttinn við að framboðinni afsökun verði ekki tekið, að slegið verði á þá hönd sem fram er rétt. Þetta tvennti er oft örðugasti þröskuldurinn í vegi fyrir sáttum, milli, hjóna, vina og bræðra hér á jörð.

En Guð lét það ekki standa fyrir sáttum við okkur. Hann bauð allt að fyrra bragði. Hann sendi spámenn sína með orð fyrirgefningarinnar. Hann gaf okkur sinn eigin son til þess að auglýsa hana með orðum, verkum, með dauða á krossi. Guð gerir ætíð að fyrra bragði það sem okkur finnst erfiðast. Það sem við þykjum sjáfl of stór til að gera, það hefur hann gert til þess að frelsa okkur synduga menn.

Páll postuli gerði sér fulla grein fyrir því að fyrirgefning Guðs stæði öllum mönnum til boða, jafnvel sér sem hann áleit vera sístan til þess að eiga skilið að vera fyrirgefið af Guði. Hann fann sig knúinn til þess að segja öðrum frá þessu og var reiðubúinn til þess að leika líkama sinn hart líkt og íþróttamaður til þess að það gæti tekist. Með þessu móti setti hann sér það takmark að eignast þau sigurlaun hjá Drottni sem hvorki mölur né ryð fær grandað.

Páll var íþróttamaður Drottins. Í gamansemi sinni líkti hann sjálfum sér við hnefaleikamann sem engin vindhögg slær. Öllum kristnum mönnum eru einnig ætluð sigurlaun á himnum. En hjörtu okkar verða að slá í takt við vilja Drottins hvar svo sem við eigumst við á íþróttavöllum lífsins. Við megum til með að reyna að haga lífi okkar í samræmi við vilja Drottins.

Göngum nú öll til altaris hér á eftir og þiggjum fyrirgefningu Guðs og lifum í samfélagi við hann sem hefur auðsýnt okkur mikinn kærleika í Jesú nafni. Amen.

Sr. Sighvatur Karlsson flutti þessa prédikun í messu í Húsavíkurkirkju 12. júlí 1987 en þá stóð Landsmót UMFÍ yfir á Húsavík.