Að horfa til góðs

Að horfa til góðs

,,Ég mun líta hann til góðs“ segir í texta Jobsbókar. Kristin trú snýst um það að líta til góðs, að sjá lífið í réttu ljósi. Að horfa á sköpunina með jákvæðum augum og skynja þar vettvang starfa okkar

Hér efnum við til ljósamessu í Keflavíkurkirkju – svona í tilefni ljósanætur í Reykjanesbæ, sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Á ljósamessu er okkur ljósið hugleikið, það er ekkert annað. Haustið er gengið í garð og ljósið fær nýja merkingu fyrir okkur. Nú fer daginn að stytta, húmið sækir að og birtan lýsir ekki lengur upp næturhiminn. Við kveikjum því á kertum eða jafnvel skjótum upp flugeldum eins og gert var í Keflavíkinni nú í nótt. Já eða lýsum upp Bergið svo það fær á sig dulúðlegan blæ – sem er jú tilefni ljósanæturinnar hér í bænum.

Í öðru ljósi Og í kirkjunni efnum við til ljósamessu sem send er út á bylgjum ljósvakans. Sálmarnir fjalla um ljósið með einum eða öðrum hætti – og í anda skapandi tónlistarstarfs hér í Keflavíkurkirkju langar okkur til þess að leyfa ykkur að heyra suma í nýju ljósi. Við höfum gert svolítið af þessu nú þegar í haust. Fermingarbörnin sungu hér í messu um miðjan mánuðinn nokkra hefðbundna kirkjulega sálma. Þegar sálmarnir voru kynntir,  mátti heyra sterk viðbrögð frá hópnum sem fyllti kirkjuna hérna. Þau voru þó ekki neikvæð eins og einhver kynni að ætla. Nei, þvert á móti. Krakkarnir fögnuðu því heilshugar þegar kynnirinn, sem reyndar var úr þeirra hópi, sagði hvaða sálmur væri næstur á dagskránni. Þetta voru meðal annars sálmarnir: ,,Ó, þá náð að eiga Jesú“, ,,Ó, faðir gjör mig lítið ljós“ að ógleymdri perlu sr. Hallgríms ,,Son Guðs ertu með sanni“.

Hvers vegna var þeim slík ánægja að syngja þessa sálma? Af hverju voru viðbrögðin ekki mæðuleg og þreytt eins og ef til vill hefði mátt búast við? Jú, vegna þess að útsetningunni var breytt örlítið. Svolítill blús settur í þetta, örlítið meiri innlifun sem hæfir gestahópnum og skarinn dillaði sér í takt við hrynjandina. Þetta höfðum við æft vel áður og þau vissu sannarlega hverju var von á. Já, við fluttum sálmana í nýju ljósi.

Ýmsu fleiru er hægt að breyta með þessum sama hætti. Þarf ekki að snúna því á haus – ekki að setja það í algerlega nýtt samhengi. Innihaldið er enn það sama en sitthvað í túlkuninni, tjáningunni og framsetningunni er nýtt. Við sýnum á því aðra hlið. Með þeim hætti má leiða ýmislegt í ljós – já, með réttu ljósi er hægt að greina ýmislegt. Vitaskuld er ekki hægt að sjá nokkurn hlut nema að ljósinu sé beint að honum. Allt sem fyrir augun ber er ekkert annað en endurkast ljóss af viðkomandi hlut. Já, og því skiptir sannarlega miklu máli hvernig við meðtökum það sem augu okkar nema.

Líta til góðs Kristin trú er í raun óður til þessarar hugsunar. Hún fjallar um ljós og myrkur – skuggaskil. Hún snýst líka um það að sjá lífið í réttu ljósi. Vissulega greina kristnir menn sömu þætti lífsins og og aðrir. Augu þeirra og önnur skynfæri skynja það sama og við öðrum blasir. Sjónarhornið er hins vegar annað og túlkunin er að sönnu frábrugðin. Nei, úrvinnsla þess sem er kristnum mönnum mætir er mælikvarði á trú þeirra. Hún sker úr um það hvernig þeir meta umhverfi sitt og túlka það.

Textar dagsins fjalla um þennan veruleika. Í lexíunni talar Job um hinn grimma dauða og hvernig hrörnunin leikur það sem lokið hefur jarðvistardögum sínum. Lýsingin er ekki fögur frekar en við er að búast. Húðin sundurtætt og holdið allt farið af. Vissulega er það sú sama sýn á dauðann og aðrir hafa. En þar lýkur ekki  frásögninni. Nei, sjónarhornið er annað – öðru ljósi er beint að endalokunum svo að útkoman verður ekki vonleysi og sorg heldur þvert á móti – trúartraust og gleði. ,,Ég mun líta hann til góðs“ segir í textanum.

Sorgarganga og sigurganga Þetta er kjarni málsins. Að líta til góðs – er að túlka veröldina með þeim hætti að niðurstaðan leiði til blessunar. Slíkt er vitaskuld fjarri því að vera sjálfgefið. Tilveran getur búið yfir margvíslegum víddum. Endir tilverunnar – dauðinn – er ekki síst háður því hvernig kristnir menn vega og meta veruleika sinn og aðstæður. Guðspjallið bendir til þeirrar áttar. Þar er að sönnu talað um ljósið og myrkið. Kristur og lærisveinar hans ganga fram á sorgargönguna er þeir komu inn í borgina Nain. Þar var að sönnu myrkur yfir öllu. Dauðinn hafði höggvið skörð í hópinn og drungi sorgarinnar grúfir yfir öllu.

Sú sorgarför breytist hins vegar skjótt upp í sigurgöngu. Kristur er nærri og honum fylgir líf, von, kærleikur – já allt ljósið í sínu veldi. Mikil gæfa felst í að fylgja því sigurliði. Hið sanna ljós sem lýsir hefur sömu áhrif og nálægð Krists með göngumönnum. Þar breytist harmur í gleði, dauði í líf.

Herra Sigurbjörn Einarsson Og um leið og við hugleiðum líf og dauða – og hugsum til þess hvað það þýðir að fylla raðir kristinna manna er mér heiður að fá að minnast herra Sigurbjörns Einarssonar er borinn var til grafar frá Hallgrímskirkju í gær. Sigurbjörn miðlaði dýrmætum boðskap ritningarinnar til þjóðarinnar á því mikla umbreytingarskeiði sem einkennir þá tæpu öld í sögu hennar sem þjónustuferill hans varði. Var hann í senn kjölfesta og leiðsögumaður. Og ekki síst þýðandi – þar sem hann kunni þá list öðrum fremur að yfirfæra hið forna tungumál ritningarinnar á tungumál samtímans sem bæði ungir og aldnir fengu skilið og meðtekið – og hrifist af.

Í Skírnisgrein sem hann ritaði í byrjun níunda áratugar síðustu aldar hugleiðir hann stöðu kristinnar trúar á tækniöld. Þar segir:

 ,,Nú byggist tilvera kristinnar trúar frá fyrsta fari á þeirri auðmjúku vitund, að hún hafi þegið gilt svar við frumspurningu mennskrar hugsunar og mannlegs lífs. Það er sjálfsvitund hennar, líf hennar. Frá Gyðingum tók hún þá vissu í arf, að skapari himins og jarðar, hinn huldi hugur að baki alls veruleiks, hefði gert sig kunnan, opinberað sig, talað. Ekki aðeins spurt ráðalausan mann: Hvar ert þú, hvað hefur þú gjört? Heldur sagt: Hér er ég, ég kalla á þig, þú ert minn. Ég hef skapað þig mér til eignar, þú ert það duft, sá leir, sem ég hef lagt anda minn í, greypt mynd mína í, og ætla að móta samkvæmt þeirri frummynd af þér, sem ég geymi í huga mínum. Ég kalla þig til vakandi vitundar um og þjónustu við það markmið, sem ég hef sett sköpun minni.“ (Sigurbjörn Einarsson: ,,Kristin trú á tækniöld“ Skírnir: Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags (haust 1987), s. 341.) Tilvitnun lýkur.
Lífið í réttu ljósi ,,Ég mun líta hann til góðs“ segir í texta Jobsbókar. Kristin trú snýst um það að líta til góðs, að sjá lífið í réttu ljósi. Að horfa á sköpunina með jákvæðum augum og skynja þar vettvang starfa okkar, fyllast von yfir þeirri hugsun að ,,skapari himins og jarðar, hinn huldi hugur [er] að baki alls veruleiks“, svo vísað sé aftur til orða Sigurbjörns. Og sú hugsun er ekki bara fjarlæg hugdetta sem sækir okkur heim endrum og eins. Hún er sjónglerið sem við höfum fyrir auganu og litar allt það sem mætir þeim – í gleði og raun, í erli daganna og hvíld næturinnar. Nei, kristinn maður á sér ljós sem vísar honum veginn. Það gefur honum ómetanlegt forskot því líf hans og ákvarðanir eru ekki eins og krampakennd ósjálfráð viðbrögð við hverju áreiti. Nei, þau byggja á sannfæringu á grundvelli hverrar hann vegur og metur svar sitt við og hegðun við þeim aðstæðum sem lífið býður upp á.

Leiðarljós Það að eiga sér slíkt leiðarljós – er í raun og veru hið eina sanna frelsi. Því það er einmitt þetta sem gerir okkur sjálfstæð og sjálfráð  - ef athafnir okkar og viðbragð grundvallast á djúpri sannfæringu um það sem við vitum að er gott og til farsældar – en eru ekki aðeins ósjálfráðar hreyfingar sem spretta sjálfkrafa við því sem ertir. Er ekki munur á þessu? Að hefna um leið og einhver brýtur gegn okkur, að refsa ef einhver ekki uppfyllir skilyrðin, að útiloka ef einhver á ekki heima í hópnum. Nei, allir vita að boðskapur kristinnar trúar er annar. Boðskapur trúarinnar snýst um það að ,,líta til góðs“. Og um leið að viðbrögð okkar séu í anda þess frelsis sem kristnir menn hafa – einmitt frelsis til þess að athafnir okkar og ákvarðanir stjórnist af okkar eigin fullvissu um hvað er gott og eftirsóknarvert en ekki hömulausum hreyfingum skynlausrar skepnu.

Þau viðbrögð byggjast einmitt á ,,þeirri auðmjúku vitund, að tilveran hafi þegið gilt svar við frumspurningu mennskrar hugsunar og mannlegs líf“ eins og Sigurbjörn Einarsson komst að orði. Slík afstaða kallar á viðbrögð sem græða, sem veita líf, sem skapa birtu: fyrirgefning í stað hefndar, þolinmæði í stað refsingar og kærleika í stað útilokunar. Hið kristna leiðarljós vísar okkur þann veginn. ,,Ungi maður, ég segi við þig, rís þú upp“ sagði Kristur við látna manninn. Þessi orð talar hann til okkar í hverri aðstæðu lífins og miðlar þar lífgefandi ljósi sínu til okkar hvar sem við erum í baráttu daganna, jafnvel frammi fyrir dauðans dyr.

Nýtt ljós Sálmana sungum við í nýju ljósi – hér á dögunum í kirkjunni. Þetta voru gamlir og góðir sálmar sem ég get sannarlega notið bara í sínum hefðbundna takti og með sinni klassísku hrynjandi. En fermingarbörnunum til heiðurs setti Arnór organisti nýja útsetningu í sálmana og uppskar þessa velþóknun sem birtist í því að krakkarnir segja ,,já“ á ensku með mikilli áherslu! Og bærinn okkar er í sviðsljósinu þessa helgina – fjöldi gesta kemur úr öllum áttum til þess að taka þátt í gleðinni og sjá hvað allt dafnar hér og vex. Og hér í kirkjunni, á öldum ljósvakans, höfum við fjallað um hinar ýmsu hliðar ljóssins og vonandi erum við ríkari í anda að hafa hlýtt á helga texta ritningarinnar og hugleitt þann lærdóm sem af þeim má draga.

Megi algóður Guð vernda okkur og leiða í öllum þeim aðstæðum sem við finnum okkur í og gefa að frelsi einkenni athafnir okkar og aðgerðir. Nú hlýðum við sálm herra Sigurbjörns Einarssonar. Fer vel á því að ljúka þessum orðum með tilvitnun í sálminn: ,,Lát trú og verk og vitund mína/ vegsama kærleiks máttinn þinn.“ Þess biðjum við í Jesú nafni. Amen.

Lexía: Job 19.25-27 Ég veit að lausnari minn lifir og hann mun síðastur ganga fram á foldu. Eftir að þessi húð mín er sundurtætt og allt hold er af mér mun ég líta Guð. Ég mun líta hann mér til góðs, augu mín munu sjá hann og engan annan. Hjartað brennur af þrá í brjósti mér.
Pistill: Ef 3.13-21 Fyrir því bið ég að þið látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum ykkar vegna. Þær eru ykkur til vegsemdar.

Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu, að hann gefi ykkur af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með ykkur til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum ykkar og þið verða rótfest og grundvölluð í kærleika. Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu. En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú með öllum kynslóðum um aldir alda. Amen. Guðspjall: Lúk 7.11-17 Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans. En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“ Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.