Kirkjan er fólk

Kirkjan er fólk

Þið eruð farvegurinn fyrir þau kærleiksverk sem Kristur kallar okkur til þess að vinna, því kirkjan er ekki hús, hún er fólk.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
01. desember 2012

Kæri söfnuður.

Ég þakka fyrir að fá að vera með ykkur hér í dag þegar kirkjan ykkar, Keflavíkurkirkja er opnuð eftir endurbæturnar. Hér hafa allir lagst á eitt með að bæta og laga. Kirkjuna sem fyrsti íslenski arkitektinn teiknaði, Dýrfirðingurinn Rögnvaldur Ólafsson. Hann teiknaði alls 25 kirkjur hér á landi. Það er gott að þjóna í Rögnvaldarkirkju. Tvær af mínum sóknarkirkjum, Hvanneyrarkirkja í Borgarfirði og Hólskirkja í Bolungarvík eru teiknaðar af honum.

Nærri öld er liðin síðan Keflavíkurkirkjan var vígð og því vel við hæfi að taka hana í gegn í tíma fyrir 100 ára afmælið árið 2015. Það er gaman að sjá virðinguna sem verki Rögnvaldar er sýnd hér í þessu húsi í útfærslu Páls V. Bjarnasonar arkitekts sem hefur lagt sig fram um að varðveita hið vandaða verk Rögnvaldar en til samræmis við kröfur nútímans.

Skóli er ekki hús. Skóli er fólk sagði Ragnar H. Ragnar fyrrum skólastjóri Tónlistarskólans á Ísafirði og hið sama má segja um kirkjuna. Kirkjan er ekki hús. Kirkjan er fólk. Þessi bygging væri óþörf ef ekki væri fólkið, sóknarbörnin sem hingað leita á stundum gleði og sorgar. Á helgum og hátíðum til að lofa Guð og tilbiðja. Og eins og þessi fallega kirkja hefur fengið nýtt útlit, sem byggt er á þeim grunni er lagður var í upphafi, er starf safnaðarins byggt á gömlum grunni kristinnar boðunar og gilda. Orð Guðs er alltaf nýtt og á við í öllum aðstæðum og á öllum aldursskeiðum.

Hér í Keflavík hefur verið öflugt safnaðarstarf sem tekið hefur mið af þörfum safnaðarins hverju sinni. Þegar atvinnuleysi ríkir og afleiðingar þess setja svip á mannlífið gerir Kirkjan sér grein fyrir því að hlutverk hennar er mikið í samfélaginu. Hún lætur verkin tala um leið og Orðið er boðað. Jakob postuli talar um trúnna og verkin í bréfi sínu í Nýja-testamentinu. Í lok kaflans segir hann: „Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka“. Í Jesú nafni, í krafti trúarinnar á Jesú Krist vinnur Kirkja þessa heims. Hér í Keflavík hefur Kirkjan verið í fararbroddi bæði innan Þjóðkirkjunnar og samfélagsins hér. Hér hefur fólk verið kallað til starfa af honum er sendir og gefur styrk. Af Kristi sem segir: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér..“

Í dag er fyrsti desember, fullveldisdagurinn. Í ár eru liðin 94 ár frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Þann dag ríkti fögnuður yfir náðum áfanga þrátt fyrir frostaveturinn mikla, Kötlugos og spönsku veikina. Við höfum risið upp eftir áföll og það munum við Íslendingar gera enn og aftur. En á meðan atvinnuleysi og allt er því fylgir er til staðar er dýrmætt að eiga trú og Kirkju sem fetar í fótspor Jesú Krists, sem kom fram við fólk af virðingu og kærleika. Kirkju sem minnist ábyrgðar sinnar gagnvart sóknarbörnunum og viðurkennir samfélagslega ábyrgð sína. Hvergi eru áhrif samdráttarins eftir hið efnahagslega hrun skýrari en á Suðurnesjum. Kirkjan hér hefur lagt sig fram um að efla bræður og systur í samfélaginu. Kirkjan hefur verið farvegur fyrir þann kærleika sem í hjörtunum býr og gert fólki kleift að styðja systkini sín á erfiðum tímum. Það hefur verið horft til barnanna og unglinganna sem og fullorðins fólks og nú fá um 50 börn mat í hádeginu á hverjum skóladegi, sem velferðarsjóður kirkjunnar greiðir. Aðventan gengur í garð á morgun. Undirbúningstími jólanna. Þá minnist Kirkjan sérstaklega þeirra sem búa við kröpp kjör eða skort. Í ár er yfirskrift söfnunar Hjálparstarfs Kirkjunnar „hreint vatn gerir kraftaverk.“ Vatn er lífsnauðsynlegt og af því höfum við Íslendingar nóg. Við getum fengið hreint vatn nánast hvenær sem er og hvar sem er. Það á ekki við allsstaðar. Jesús talaði við Samverska konu um vatnið og sagði: „...en hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu.“ Kirkjan flytur þann boðskap er varir að eilífu. Boðskap sem er traustur grunnur til að byggja líf sitt á. Keflavíkurkirkja er líka byggð á traustum grunni. Grunni sem lagður var fyrir margt löngu og byggt var á þetta fallega Guðshús. En þar var ekki látið staðar numið. Í gegnum tíðina hafa endurbætur átt sér stað til að aðstaðan til að lofa Guð og ákalla væri sem best. Þar sem Orð Guðs er boðað, grunnur þess að að sýna trú sína í verki. Í þeim anda er starfið hér í söfnuðinum unnið. Þið eruð farvegurinn fyrir þau kærleiksverk sem Kristur kallar okkur til þess að vinna, því kirkjan er ekki hús, hún er fólk. Til hamingju með endurbæturnar á kirkjunni ykkar. Guð blessi ykkur og allt það góða starf sem hér er unnið í hans nafni.

Flutt í Keflavíkurkirkju, þegar kirkjan var opnuð að nýju eftir endurbætur, 1. desember 2012.