Mirjam, María og Mjallhvít

Mirjam, María og Mjallhvít

Þetta val Maríu er meira að segja kallað voða flottu nafni í dag: Tengslanet! Hún var klár hún María að átta sig á því að það skipti máli að hafa Jesús í sínu tengslaneti. Og athugið svo að VALIÐ felst í því að geta skipt um hlutverk eftir efnum og aðstæðum.
fullname - andlitsmynd Arna Grétarsdóttir
19. júní 2011
Flokkar

Við sem búum hér á Óslóarsvæðinu höldum upp á þjóðhátíðardaginn okkar í dag, 19. júní er einnig kvenréttindadagur okkar Íslendinga (1915 fengu konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til alþingis) og í kirkjunni heitir þessi sunnudagur þrenningarhátíð. Við erum því hér að fagna þrefalt. Þess vegna langar mig að strjúka þrjá strengi samhliða þeim fiðlustrengjum sem Hjörleifur Valson styrkur fyrir okkur. Þessir strengir sem hljóma í dag í tali og tónum eru þrjár kvenpersónur sem hafa hver með sínum hætti haft áhrif á hugmyndir okkar þó misjafnlega sé. Þetta eru þær Mirjam, María og Mjallhvít.

Mirjam var systir Móse og Arons. Hún var spákona mikil, leiðtogi, foringi. Hún var líka söngkona, forsöngvari og fór fyrir stórum söngflokki kvenna. Ég sé hana fyrir mér sem mikinn kvenskörung, kraftmikla konu. Kannski svona íslenska Fjallkonu. Mirjam fær ekkert sérlega mikið pláss. Hún er nefnd svona inn á milli í Mósebókunum fimm, samt var hún útvalin ásamt bræðrum sínum til þess að leiða þjóðina út úr þrælahúsinu Egyptalandi inn í nýtt land. Móse bróðir hennar fékk nefndar eftir sér heilar FIMM bækur en um Mirjam eru skrifaðar nokkrar setningar svona inn á milli. Það vekur athygli að það er ekkert minnst á Mirjam þegar Móse var eitt sinn í burtu og Aron stóri bróðir tók við leiðtogahlutverkinu. Auðvitað var það ekki Mirjam sem tók við heldur Aron. Og hvað gerðist? Jú, dansinn í kringum gullkálfinn hófst. Aron safnaði eða tók af fólkinu allt gullið – alla skartgripina af konunum og bræddi og smíðaði þennan fína gullkálf sem dansað var í kringum, mikið partý. Hljómar þetta eitthvað kunnuglega? Þessi dans eins og aðrir líkir þessum enda náttúrulega með hruni. Allir dansar og öll dýrkun sem dregur fólk frá augliti og anda Guðs enda með hruni. “Þið hafið gert ykkur Guð úr gulli!“ Móse var reiður og Guð var reiður. En hvar var Mirjam meðan á öllu þessu stóð? Jú, hún hefur líklega dregið sig í hlé, horft á úr fjarlægð, kannski ekki komist að, kannski bað hún fyrir fólkinu, við vitum það ekki. Það er alla vega ekkert minnst á hana í frásögunni um gullkálfinn. Enda eiga konur ekki að koma nálægt peningum, þær eiga ekki tilkall til eigna eða peninga, eiga svo að hafa lægri laun en karlar og svona, er það ekki? Þeim sæmir heldur enginn forstjórastóll. Eiga helst að vera heimavinnandi. Þetta er ekki einu sinni grín. Könnun sem gerð var í vetur á Íslandi meðal íslenskra ungmenna afhjúpaði þessar undirliggjandi skoðanir. Það er alvarlegt umhugsunarefni ef samfélagið hleypir ekki fleiri konum að en raun ber vitni í atvinnulífinu með kraft sinn, kjark og visku. Örlög Mirjamar, þessarar flottu konu sem sagt er frá í GT voru þau að henni var refsað, eiginlega fórnað. Hún dó snjóhvít í framan af holdsveiki. Hún gerði ekkert af sér annað en það að gagnrýna Móse fyrir að fara á kvennafar með útlenskri prestsdóttur sem hann reyndar giftist.

María var systir Mörtu. Munið eftir þeim systrum, vinkonum Jesú. Marta var þessi duglega sem hljóp um húsið og þjónaði, eldaði og þreif. María var sú sem settist bara við fætur Jesú og hlustaði. Marta var alveg gáttuð á þessari leti í systur sinni. Setjast bara niður og hlusta á Jesú tala og spjalla við hann. Marta kvartaði og klagaði í Jesú. Hann svaraði henni með skilningi, hann sagðist heyra að hún væri þreytt því hún hefði svo mikið á sinni könnu “Marta, Marta þú mæðist í mörgu” sagði hann. En svo hélt hann áfram og sagði. “María valdi góða hlutskiptið.” María VALDI. Nákæmleg þessi sögn “að velja” er svo mikilvæg. Hvað var það svo sem María valdi sem var svo gott. Jú, hún valdi að læra, fræðast, valdi að verða lærisveinn/lærimey. Takið líka eftir því að hún valdi hlutverk gestgjafans sem var og er enn þann dag í dag frekar á hendi karlmanna. Það er að hafa ofan af fyrir gestunum meðan konan uppfartar. Þetta val Maríu er meira að segja kallað voða flottu nafni í dag: Tengslanet! Hún var klár hún María að átta sig á því að það skipti máli að hafa Jesús í sínu tenglsaneti. Og athugið svo að VALIÐ felst í því að geta skipt um hlutverk eftir efnum og aðstæðum. Þessi mikilvægu skilaboð Jesú, mikilvægu skilaboð kristindómsins til kvenna allra tíma, þessi viðhorfsbreyting sem Jesús boðaði hefur því miður ekki fengið að heyrast sem skyldi í þeirri sögu sem skrifuð er af körlum.

Mjallhvíti þekkið þið vel. Sagan um hana var líklega lesin fyrir okkur flest öll sem börn eða við lásum hana sjálf eða sáum á DVD. Hvaða myndir og hlutverkaskipan tókum við inn í undirmeðvitundina í þeirri sögu. Sagan er ekki eins saklaus og hún lítur út fyrir að vera. Mjallhvít kemur fram sem algjörlega bjargarlaus, hún er fórnarlamb, getur enga björg sér veitt þar til hún bjargast inn í það hlutskipti að þjóna sjö dvergum, HALLÓ! Sjö lj... köllum sem fara út að vinna á daginn og koma sveittir og svangir heim á kvöldin – Samt heldur hún áfram að vera fórnarlamb og veikburða og auðvelt skotmark illra afla. ÞAR TIL ….. að prinsinn fallegi kemur á hvíta hestinum og kyssir hana og bjargar henni úr dásvefni og glerhúsi. Skilaboð sögunnar eru svo þau að nú er Mjallhvít örugg í faðmi prinsins sem alltaf mun halda verndahendi yfir henni. Ég elska þessa sögu og þær fleiri sem enda svona vel. Þegar ég las í vetur um þessi mótuðu kynjahlutverk sem sagan boðaði runnu hins vegar á mig tvær grímur.

Árið 2011 þegar við fögnum lýðveldi, frelsi og jafnrétti okkar Íslendinga, kvenna og karla getum við þakkað fyrir það val sem við höfum nú í dag. Val og frelsi til að búa þar sem atvinnu er að fá. Frelsi til trúar, til að móta eða endurskoða guðsmynd okkar. Frelsi til að brjóta með samtakamætti þau glerhús sem við festumst inn í. Frelsi til að vera meðvituð og endurskoða kynímyndir og kynjahlutverk. Notum þetta frelsi til góðra verka, hvort öðru, landi og þjóð til blessunar.

Takið líka eftir því að gullkálfurinn er ekki ósigrandi, hann er bara kálfur.

Biðjum Guð að blessa okkur samveruna í dag, landið okkar Ísland og landið sem við lifum og störfum í Noreg. Megi fagrir tónar fiðlunnar fylgja okkur inn í sumar og sól. Amen.