Má tala um trúmál og peninga í sama andartakinu? Á kirkjan nokkuð að ræða hluti eins og skuldavanda heimilanna, skuldir landsins og álitamál þeim tengd?
Jesús notaði líkingar um skuldir og lánar-drottna í dæmisögum sínum og hann byggði þar á hinum gyðinglega arfi sem viðurkenndi hvernig skuldir geta lamað allt og komið í veg fyrir að manneskjan haldi þeirri reisn sem henni ber. Í Gamla testamentinu sem inniheldur meðal annars lög Gyðinga, eru þau tilmæli að sjöunda hvert ár skuli gefa upp skuldir og leysa menn úr ánauð. Fimmtugasta hvert ár var landi skilað er menn höfðu áður misst vegna skulda.
Af þessum brunni jós kirkjan þegar hún hvatti til þess að skuldir þriðja heimsins yrðu gefnar eftir árið 2000. Frá sjónarmiði kirkjunnar er mikilvægt að muna að tilgangur efnahagskerfis er að stuðla að lífsgæðum fyrir samfélagið. Tilgangurinn á ekki að vera hagnaður eða hagvöxtur sá sem gerir örfáa ríka ríkari. Reynslan af hruninu hér sýnir okkur að hlutverkum var snúið við, í stað þess að samfélagið gætti að markaðinum, gildum hans og verkum, þá setti markaðurinn reglurnar með hrapallegum afleiðingum.
Þegar skuldastaða heimila og þjóðar er rædd eigum við að líta á þær siðfræðihugmyndir sem réðu ferðinni, afsprengi hnattvæðingar og ofurtrúar á markaðinn og spyrja um réttmæti þess hvernig komið er. Þjóðkirkjan tilheyrir samfélagi kirkna um allan heim sem kallast Lúterska heimssambandið. Aðild að því eiga 140 kirkjur í 79 löndum um allan heim, alls um 70 milljón manns. Lúterska heimssambandið hefur verið ötult að styðja kirkjur í Suður Ameríku og Afríku í baráttu gegn því sem kalla má óréttmætar skuldir. Lúterska heimssambandið hefur einnig bent á að margt sé líkt með Icesave skuldunum og óréttmætum skuldum landa í Afríku og Suður Ameríku. Undir þetta hafa lúterskar kirkjur í Hollandi og Bretlandi tekið.
Það kann að vera erfitt fyrir þjóðarstoltið að kyngja slíkri samlíkingu en líkindin eru til staðar. Þess vegna er áskorunin sú að um leið og við glímum við ábyrgð og afleiðingar hrunsins, þar á meðal Icesave skuldirnar, þá þurfum við að skoða þá alþjóðlegu hugmyndafræði sem leiðir til þessarar stöðu, spyrja um gildi hennar og siðfræði og þora að taka á þar sem breytinga er þörf.