G8 - Hvert viljum við fara?

G8 - Hvert viljum við fara?

Augljóst er að margir íbúar þessa lands óska þess að góð og jákvæð grunngildi eins og heiðarleiki, jafnrétti, virðing, ábyrgð, kærleikur, réttlæti, sjálfbærni, frelsi og lýðræði móti okkur . Óskin er sú að þau stjórni ferð okkar í ríkari mæli en áður. Þau gildi verði sett á stall í stað óheiðarleika, virðingarleysis, ójafnaðar, hörku, klíkuskapar, misréttis og græðgi.

G8 hópurinn

Margt bendir til þess að samfélagið sé smám saman að síga í gamla farið? Lítil merki þess sjást að harkan milli hópa minnki, heldur haldi sig sem fyrr í gamalkunnum skotgröfum. Það vantar rúm fyrir spurningar um grundvallaratriði. Ætluðum við ekki að breyta einhverju? Ætlum við að hafa ,,nýja“ Ísland eins?

Var hugmyndin sú að reka þá stefnu áfram að fólk þurfi að eiga sínar íbúðir? Ætlum við að hafa þrjá stóra banka? Sextíu og þrjá þingmenn? Fjórflokkinn? Flokksræði? Óglögg skil á milli dómsvalds, framkvæmdavalds og löggjafarvalds? Forseta? Sex háskóla? Óburgðuga landsbyggð? Krónu? Óbreytta stjórnarskrá? Klíkuskap? Kunningjaveldi? Lokaðar nefndir? Stjórnsýslu með þöggunaráráttu? Veika fjölmiðla? Ójafnræði í launum? Sá ótti læðist að okkur að upp sé að rísa það sama Ísland og var.

Í samfélögum þróast fastur valdastrúktúr sem breytist oftast aðeins á löngum tíma. Breytingar sem verða við hrun ganga aftur á móti fjótt til baka.

Hvernig mótast grunngildi?

Augljóst er að margir íbúar þessa lands óska þess að góð og jákvæð grunngildi eins og heiðarleiki, jafnrétti, virðing, ábyrgð, kærleikur, réttlæti, sjálfbærni, frelsi og lýðræði móti okkur . Óskin er sú að þau stjórni ferð okkar í ríkari mæli en áður. Þau gildi verði sett á stall í stað óheiðarleika, virðingarleysis, ójafnaðar, hörku, klíkuskapar, misréttis og græðgi. Fyrrnefnd gildi voru öll í hávegum höfð á þjóðfundinum sem haldinn var í Laugardalshöll fyrir skömmu og endurspegla sennilega vonir og þrár þjóðarinnar.

Vandinn er aftur á móti sá að grunngildi er ekki hægt að velja eins og vörur í stórmarkaði. Grunngildi safnast í sarpinn á löngum tíma. Þjóðir, einstaklingar og fjölskyldur tína þau upp á langri leið. Þau flytjast frá einni kynslóð til annarrar með frásögum, ævintýrum, trúarbókmenntum eða beinni fræðslu en síðast en ekki síst með iðkun þeirra. Börn horfa á atferli mæðra sinna og feðra, nema af þeim, gildin verða inngróin, móta allt lífið og í ljósi þeirra velja þau leiðir á ögurstundum. Grunngildi skipta mestu máli þegar í harðbakkann slær.

Gildarof

Stundum kemst los á hefðbundin gildi. Það getur orðið þegar mikil breyting verður í umhverfi, flutningur úr sveit í borg, við skyndilegt ríkidæmi eða hrap til fátæktar. Los kemst á þegar skil verða milli kynslóða. Eitthvað þessu líkt hefur gerst hjá okkur. Óþarfi er að tala um algjört niðurbrot gilda.

Hafi heiðarleiki, jöfnuður, virðing og ábyrgð verið aðalsmerki okkar áður fyrr verður að játast að þessi gildi og önnur álíka hafa að undanförnu ekki sett eins mikinn svip á okkur sem þjóð og æskilegt væri. Ójöfnuður komst á í þjóðfélaginu og þótti sjálfsagður, harka, klíkuskapur, virðingarleysi og græðgi hafa verið áberandi.

Hér þarf meira að koma til en að breyta stjórnarskrá, fækka bönkum eða styrkja fjölmiðla, þó að við ættum að gera allt þetta og miklu fleira. Við komum aðeins á breytingum með því að temja okkur smátt og smátt hin góðu gildi. Við þurfum að láta þau setja svip á líf okkar, með því að kenna börnum okkar með sögum og ævintýrum hvernig gott er að lifa og með því að fara fram með góðu fordæmi. Við þurfum að kenna þeim að setja sig í spor annarra, að bera virðingu fyrir hvort öðru og fyrir fullorðnum – með því t.d. að segja þeim dæmisögur um hve illa fer fyrir þeim sem ljúga, svíkja og stela. Á löngum tíma, hægt og hægt, smátt og smátt geta vaxið upp kynslóðir sem bera af okkur í heiðarleika, jafnréttishugun, kærleika og lýðræðishugsjón. Þetta er langtímaverkefni, eilíft verkefni einstaklinga, fjölskyldna, þjóða, allra jarðarbúa.

Þessi siðræna bylting þarf að eiga sér stað í foreldrahúsum, í skólum, í kirkjum og alls staðar þar sem ungviði kemur. Það þarf að vera viðfangsefni á fundum fullorðinna, viðfangsefni stjórnmálaflokka, lýðræðishreyfinga, trúfélaga, mannúðarfélaga og kjörinna fulltrúa á löggjafarþingi.

Þjóðkjörnir fulltrúar ættu að skammast til að hætta nú þegar þrasi og þrætum, ávirðingum og dylgjum og fara að tala saman svo sómi væri að. Samræðuhefð eins og hún hefur þróast í okkar lýðræðiskerfi er hvorki til fyrirmyndar eða sjálfsögð.

Aðventan býður upp á val

Nú fer aðventan í hönd, undirbúningstími jólahátíðarinnar. Er það ekki einmitt tíminn til að staldra við og spyrja: Hver eru þau gildi sem hafa dugað mér og mínum best til þessa? Hvernig get ég tryggt raunverulega hagsæld og andlega velferð til framtíðar — fyrir mig, þá sem mér eru kærir, þjóð mína, mannkyn allt. Hvernig vil ég mæta þeim sem standa höllum fæti, mínum minnstu systkinum nær og fjær. Hvernig vil ég vera? Hver er ég? Á hvaða leið er ég? Hvert vil ég fara?

Anna Sigríður Pálsdóttir Arnfríður Guðmundsdóttir Baldur Kristjánsson Hjalti Hugason Pétur Pétursson Sigrún Óskarsdóttir Sigurður Árni Þórðarson Sólveig Anna Bóasdóttir