Kraftur

Kraftur

Að eiga kraft til að ganga til móts við daglega lífið er ekki sjálfgefið. Að eiga styrk til að halda áfram er ekki alltaf sjálfgefið. Að vera kristinn og halda sig við það er ekki sjálfgefið en þá eigum við hátíð heilags anda, sem er hreyfiaflið, höndin sem fyllir hanskann – styrkur og kraftur í lífi kristins manns.

Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans. Heimurinn getur ekki tekið á móti honum því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er. Jóh 14.15-21

Biðjum með orðum Valdimars Briem:

Sannleikans andi lát sannleikans ljós þitt oss skína send oss í myrkrunum himnesku geislana þína, sannleikans sól, sjálfs Guðs að hátignar stól. Lát þú oss leiðina sýna

Gleðilega hátíð kæri söfnuður. Í morgunbirtunni á leið til guðsþjónustu á þessari stórhátíð kirkjunnar liggur samfélagið í dvala, göturnar auðar, enginn á ferli en samt skynjar maður ekki þetta yfirbragð helginnar eins og á aðfangadagskvöldi eða páskamorgni, allt miklu hversdagslegra. Hvernig er það vita ekki allir af þessu, eru allir búnir að gleyma hátíðinni fallegu, heilögum anda, krafti trúarinnar.

Á hvítasunnudegi lifum við heiðríkju trúarinnar. Við getum rakið okkur eftir þræði þar sem lífið fær nýja merkingu á meðal manna í boðskap jólanna svo hyllir í dagrenninguna sem við sjáum fæðast á páskum þegar sólin rís. Nú er kominn dagur í heimi trúarinnar, okkur er lofað að sólin gerir meira en að rísa, hún mun verða á lofti – heiðríkja trúarinnar – það birtir – Við þiggjum og höfum þegið kraft til að lifa – vera kirkja fólk á vegferð með Guði. Þetta er hátíð lífsins og þess að horfa fram á veginn og sjá samhengi hjálpræðissögunnar. Erindi okkar og verkefni er að færa þessa atburði árþúsundanna inn í samhengi samtímans og klæða lífið helgi stórhátíðarinnar.

Efni hvítasunnunnar og litbrigði er ekki líf, dauði og upprisa einsem tilheyra öðrum stórhátíðum kristninnnar, heldur krafturinn til að vera og lifa áfram. Rétt eins og hanski sem er lífvana, mótaður af hendi sem verður klædd í hann og þá getur hanskinn gert margt. Það er ekki hlutverk hanskans að hreyfast heldur handarinnar sem er klædd í hanskann. Það mætti nota sömu líkingu um okkur og heilagan anda. – Við, ég og þú erum hanskinn en heilagur andi er höndin sem er hreyfiaflið – vinnur vinnuna - færir fingrunum líf og höndinni kraft. En við erum þau sem gefa rými fyrir höndina – fyrir styrkinn og kraftinn.

Að eiga kraft til að ganga til móts við daglega lífið er ekki sjálfgefið. Að eiga styrk til að halda áfram er ekki alltaf sjálfgefið. Að vera kristinn og halda sig við það er ekki sjálfgefið en þá eigum við hátíð heilags anda, sem er hreyfiaflið, höndin sem fyllir hanskann – styrkur og kraftur í lífi kristins manns. Við undirbúning prédikunar er oft leitað fanga í annarra orðum - já og alltaf þegar maður ætlar að koma merkilegum boðskap í orð þá leitar maður orða hjá þeim sem hafa orðað svo miklu betur fyrr það sem máli skiptir. En það laukst upp fyri rmér að þegar kemur að undrum lífsins þá tjá ekki annarra orð þína eða mína hugsun betur því við vitum best, við sjálf, þetta varðar trú okkar –löngun okkar til að halda áfram. Mitt líf og þitt býr vafalaust yfir frásögu af undri Hvítasunnunnar. Þegar kraftinn hefur þrotið og þú finnur að þú megnar að rísa upp aftur. Þegar þú hefur verið vanmegna en í trausti til Guðs hefur lífið haldið áfram og það á eftir að halda áfram þó að það syrti að og við sjáum ekki útleiðir. Því Guð gerir meira en við biðjum um, Guð hefur kraft heilags anda.

Þetta skiptir okkur miklu máli - við eigum ekki alltaf orð um það en sjáum tilganginn kristallast í fyrirbæn – þegar við berum börnin okkar til skírnar og skiljum og skynjum að það fyrirheit sem felst í skírninni er dýrmætt barninu okkar. Þetta er hinnn dýpsti sannleikur og hinn merkilegasti. Það er ekki fyrir sannfæringarkraft okkar mannanna og yfirburði heldur fyrir kraft heilags anda, huggarans.

Í guðspjalli dagsins í dag hljómar síðan það sem í huga mínum er fegursta loforð lífs míns – „Ég lifi og þér munið lifa“ –þetta er hið dýpsta og merkasta svar við tilvistarlegum spurningum manneskjunnar. Mörgu hefur verið lofað af andlegum stórmennum sögunnar en engu eins og þessu. Lífið er ekki í minni hendi heldur í hendi eilífs Guðs og þar býr von mín og eilífið. Djúpt í efnahagsvandræðum sem hafa áhrif á alla okkar lífsafkomu. Við höfum verið minnt óþyrmilega á það að það sem við vorum áður erum við ekki lengur en hljómar þetta síðstæða fyrirheit „Ég lifi og þér munið lifa“ og það sem skiptir máli er lífið mitt – verund mín – tilvera sem nær langt út fyrir það sem daglegar búksorgir og viðurværi eru. Þetta loforð snertir líf mitt, minn huga , sál mín og hjarta mitt, það að vera manneskja og sá sem hjálpar er andinn, andi sannleikans, huggarinn – þessi stórkostlegu orð sem snerta hugsun sem er enn stórkostlegri, kraftur lífsins.

Undur hvítasunnunnar felst líka í tungutaki og málundrum. Það er órjúfanlegur þáttur af boðskap hennar þegar sagt er frá að þau hafi tekið að tala öðrum tungum. Það merkilega er að frásagan segir okkur ekki frá því að allir tóku að tala einni tungu heldur að þau sem viðstödd voru skildu .það sem var sagt – skildu hvort annað – það var ekki að allt væri mótað í sama formið – allir eins, heldur það að geta verið saman og skilja hvert annað. Hvítasunnan skapaði kirkju og samfélag en máði ekki út fjölbreytnina heldur byggði brýr.Það eru ekki aðeins orð tungumálsins heldur líka litabrigði sem skapa misskilning og aðskilnað. Það er ekki aðeins að við þurfum að skilja hvert annað með þeim orðum sem eru tungumáli okkar sameiginleg heldur höfum við smátt og smátt verið að búa til nýtt yfirbragð á tungumál sem aðskilur kynslóðir , þjóðfélagshópa og jafnvel fjölskyldur. Tungutak okkar er gjarnan svo ólíkt að það veldur því að við skiljum ekki hvert annað. Enn á ný skulum við þó minna okkur á að það snýst ekki um að við tölum einni tungu heldur skiljum hvert annað. Það kostar tíma, umburðarlyndi , kærleika – kraft heilags anda sem sameinar. Enn einn flötur á hvítasunnundrinu

Svo margt hefur verið sagt og frætt um heilagan anda s.s. að án heilags anda væri Guð fjarri – Kristur eins og dveldi í fortíðinni-Guðspjallið væri dauður bókstafur, kirkjan væri aðeins stofnun – boðunin aðeins áróður – helgihaldið aðeins til að vekja minningarog hinir kristnu lifðu í ótta þrælsins. En í krafti heilags anda er hinn upprisni Kristur hér mitt á meðal okkar.–Guðspjallið er kraftur lífsins og boðunin er hvítasunna, helgihaldið felur í sér bæði minningu og eftirvæntingu. Gjörðir mannsins og líf fá trúarlega vidd á samferð með heilögum anda. Í fyrir kraft heilags anda er hægt að segja með orðum Jakob Jóhannesson Smári sem orti svo í ljóði sínu Blær

Allt sýnir æðri vilja, vit og sál sem vantar orð að lýsa dauðlegt mál en hugann grunar sem í djúpum draumi hið dulda afl í tilverunnar straumi.

Það er blærinn sem kynnir hið óséða en skynjaða. Þannig er kraftur heilags anda í lífi okkar – kraftur Hvítasunnunar og við skulum ekki láta ógert að leyfa þessum krafti að anda um líf okkar –„[ sýna okkur] æðri vilja, vit og sál.“ Kenna okkur um sannleikann – kraftinn, lífið sem sigrar og kirkju sem lifir.