Erum við svefngenglar?

Erum við svefngenglar?

Við þurfum að stofna nýjan banka sem ásamt Blóðbankanum stuðlar fyrst og síðast að velferð manneskjunnar, mætir þörfum hennar í stað þess að nýta sér þær. Inn í þann banka leggjum við hæfileika okkar og félagslegar aðstæður og úthlutum svo viðskiptavinum eftir þörfum án þess að tortryggja aðstæður þeirra því við getum ekki byggt upp samfélag þar sem allur tíminn fer í að greina sauðina frá höfrunum.

Að sönnu rerum við einhvers staðar. En útverin, hvað hétu þau? Yfir það fyrntist. Erum við máski undir niðri svefngenglar? Og ekki hafa sofendur svefninn á valdi sínu. (Hannes Pétursson)

„Erum við svefngenglar?“ Spyr ljóðskáldið Hannes Pétursson. Erum við undir niðri svefngenglar, þjóðin sem eitt sinn réri einhvers staðar án þess að vita hvað hún í raun og veru vildi fiska, spurningin sem við spyrjum okkur þessa dagana er, hvert við viljum róa og hvað við viljum fanga. Sú spurning er stór og afdrifarík en um leið er hún ómetanlegt tækifæri fyrir okkur sem samfélag því staðreyndin er sú að ekki hugnaðist öllum sú leið sem þjóðin var að stefna og ekki reyndist heldur öllum auðvelt að róa með. Síðastliðinn sunnudag var haldið málþing hér í safnaðarheimilinu í samstarfi við öryrkjabandalag Íslands þar sem leitast var við að greina þann vanda sem öryrkjar búa við í dag og í því samhengi var kallaður til siðfræðingur sem fór yfir mannréttindahugtakið og jafnframt talaði einn af starfsmönnum Hjálparstarfs Kirkjunnar og dró upp þá stöðu sem jaðarhópar samfélagsins hafa lifað við bæði fyrir og eftir hið margumtalaða góðæri. Sú mynd rennir stoðum undir þann grun skáldsins að við séum undir niðri svefngenglar. Við þurfum að vakna og sjá tilveru okkar frá öllum sjónarhornum og réttlætið verður að bera nafn með rentu. Það var mjög áhugvert að hlýða á siðfræðingin Dr.Sólveigu Önnu Bóasdóttur fjalla um réttlætishugtakið á málfundinum og í erindi sínu kom hún einmitt inn á réttlætiskenningu John Rawls sem er gríðarlega mikilvægt framlag til umræðunnar um mannréttindi.

Sú hugsjón sem Rawls leitast við að móta snýst í grófum dráttum um að líta á samfélagið “sem sanngjarna skipan á samvinnu frjálsra jafningja” eins og hann orðar það sjálfur. Þessi hugsjón er grundvölluð á siðferðislegum jöfnuði sem á að vera áttaviti allra lýðsræðisþjóðfélaga. Rawls hugar að skilyrðum þess að þessi sjálfsagða hugsjón megi virka. Þegar hann talar um frjálsa jafningja á hann við fólk sem “er fært um að hugsa og breyta í samræmi við lykilhugmyndir lýðræðismenningarinnar.” Og að baki þessu búa tvö siðferðisöfl sem Rawls lýsir út frá tvenns konar lágmarkshæfileikum það er annars vegar að vera meðvitaður um hvað felst í réttlæti og sanngirni og hins vegar hæfileikinn til að huga að eigin farsæld og móta hana. Ef að menn hafa þessa lágmarkshæfileika þá eru þeir jafnir (Vilhjálmur Árnason, Farsælt líf, Réttlátt samfélag, s. 273-274)

Kenningar Rawls um réttlæti geta gagnast okkur gríðarlega vel til að skapa farsælt samfélag úr þeim efnahagsrústum sem við okkur blasa, það sem til þarf er að þau sem með völdin fara kalli til þá sem besta þekkingu hafa á siðferðisstrúktúr heimspekinnar og guðfræðinnar. Það er ekki nóg að kalla bara til hagfræðinga og lögfræðinga þó að þekking þeirra sé vissulega dýrmæt og gagnleg því staðreyndin er sú að sérhvert samfélag verður að mótast af mörgum sjónarhornum, þau gegna í raun svipuðu hlutverki fyrir samfélagið og líffærin í mannslíkamanum, sem er ekki heill nema þau starfi öll.

„Meginviðfangsefni réttlætis er grunngerð samfélagsins” segir Rawls,

„eða nánar tiltekið, með hvaða hætti helstu stofnanir þess kveða á um grundvallarréttindi og skyldur og ákvarða skiptingu gæða sem spretta af félagslegri samvinnu. Þegar talað er um helstu stofnanir í þessu samhengi er átt við stjórnarskrá og grundvallarskipan efnahags- og félagsmála. Stofnanirnar skilgreina réttindi manna og skyldur og hafa áhrif á lífshorfur þeirra, hvað þeir geti vænst að verða og hve vel þeim muni farnast. Grunngerð samfélagsins er meginviðfangsefni réttlætis því að áhrifin eru svo djúpstæð og viðvarandi frá upphafi.” (Vilhjámur Árnason, Farsælt líf, Réttlátt samfélag).

Við uppbyggingu nýs samfélags er mjög mikilvægt að hafa þessa skilgreiningu John Rawls í huga. Og það er margt sem við þurfum að hafa í huga í dag, hvernig við ætlum sem einstaklingar að leggja okkar af mörkum til að skapa farsælt samfélag en með farsælu samfélagi á ég við jafnræðissamfélag m.ö.o. kristið samfélag. Í því sambandi gagnast okkur önnur hugmynd Rawls sem fjallar um verðskuldun og því að þeir sem öðlast góðar vöggugjafir, aðstæður og hæfileika, ávaxti þær sem best en séu um leið meðvitaðir um að stuðla að farsæld þeirra sem ekki hafa hlotið slíkar gjafir. Samábyrg er orð sem sprettur upp í því samhengi og jafnframt sú hugsun að þakka fyrir sínar góðu gjafir með því að huga að náunga sínum.

Og þá erum við svo sannarlega komin að guðspjalli dagsins og Guðsríkishugsuninni en í raun held ég að kenning Rawls um réttlæti sé gríðarlega góð ritskýring á guðspjallinu. Það fjallar nefnilega um félagslegt réttlæti og mikilvægi þess að byggja samfélag á siðferðislegum gæðum svo það fái vaxið og dafnið í raun en ekki bara á forsíðum blaðanna. Sýndarveruleiki er nefnilega verri en kreppa vegna þess að þeir sem ekki græða neitt í sýndarveruleikanum eru meira einir þar, en í kreppunni, það góða við kreppuna er að hún afhjúpar veruleikann. Og við fáum tækifæri til að sjá samfélagið í heild sinni, fáum eins konar loftmynd af aðstæðunum, Því ekki hafa sofendur svefninn á valdi sínu.

En hvaða gildi eru það sem við verðum fyrst og síðast að hafa í heiðri við þá uppbyggingu sem er framundan, hvaða mustarðskorni eigum við að sá? Jú það er kærleikanum, virðingunni, frelsinu og jafnræðinu, þessum fjórum þáttum sem með trausti á algóðum Guði er uppskrift að Guðs ríki þar sem allar manneskjur eru sýnilegar og enginn þarf að vera einn. Guðs ríki eða himnaríki er nefnilega jarðtengdur veruleiki sem byggist á vilja manneskjunnar til að hlýða Guði en vera ekki Guð. Góður vinur minn sem sigraðist á áralangri fíkn sinni í vímuefni, sagði “ batinn kom þegar ég hætti að leika Guð.” Gildin sem ég taldi upp, kærleikurinn, virðingin, frelsið og jafnræðið eru forsenda réttláts samfélags þar sem allir finna skjól líkt og fuglar himinsins sem hreiðra sig í skugga trjánna.

Við þurfum að stofna nýjan banka sem ásamt Blóðbankanum stuðlar fyrst og síðast að velferð manneskjunnar, mætir þörfum hennar í stað þess að nýta sér þær. Inn í þann banka leggjum við hæfileika okkar og félagslegar aðstæður og úthlutum svo viðskiptavinum eftir þörfum án þess að tortryggja aðstæður þeirra því við getum ekki byggt upp samfélag þar sem allur tíminn fer í að greina sauðina frá höfrunum. Rök frjálshyggjunnar sem var einn af aðalhöfundum sýndarveruleikans var að hinn sterki einstaklingur myndi lifa af en hið takmarkalausa einstaklingsfrelsi sem átti að skapa gullöld Íslands hneppti ákveðna þjóðfélagshópa í þrældóm, afstaða einstaklingsfrelsisins átti að virka hvetjandi en varð einungis til þess að einangra enn frekar þá sem hallaði á í þjóðfélaginu. Aðstaða öryrkja og atvinnulausra var stundum rædd í dylgjum um leti og aumingjaskap og sumum fannst ekki ástæða til að láta þessa þjóðfélagshópa hafa áhrif á framgang útrásarinnar meira að segja heilbrigðiskerfið var til skoðunar sem viðskiptatækifæri hins sterka og frjálsa einstaklings. Að sönnu rerum við einhvers staðar. En útverin, hvað hétu þau? Það er gjarnan talað um að nú séu erfiðir tímar, orð að sönnu en fyrir talsvert stóran hóp samfélagsins hafa þeir tímar verið síðustu árin og áratugina. Ágætur örorkuþegi sagði á málfundinum fyrrnefnda sem haldinn var hér fyrir viku, að eftir að hann varð fyrir líkamlegu áfalli og var metinn á örorku hafi augu hans opnast fyrir því hversu miklar hetjur þau eru sem vakna til dagsins með skerta heilsu og hæfni til verka en horfast samt í augu við lífið og sjá meira að segja sólina skína suma daga. Þegar við nú tökum til við að byggja upp nýtt samfélag er vert að fylgja eftir orði Krists svo að hið nýja samfélag verði ekki grundvallað á sandi heldur bjargi, já siðferðislegu réttlæti, lýðsræðislegum jöfnuði og andlegu og líkamlegu frelsi. “Grunngerð samfélagsins er meginviðfangsefni réttlætis því að áhrifin eru svo djúpstæð og viðvarandi frá upphafi” eru orð að sönnu sem við verðum að hafa hugfast á næstu vikum, mánuðum og árum svo að hið nýja Ísland verði land farsældar og friðar.