Drottinn leiðir okkur gegnum erfiða tíma

Drottinn leiðir okkur gegnum erfiða tíma

Guð segist hafa nýja tíma í vændum… já það er óhætt að segja að við lifum mjög óvænt nýja tíma núna… ótrúlegt ástand og það eina sem við getum gert… er að fylgja slóðanum í gegnum eyðimörkina… því að við… þeas hinn almenni borgari… ráðum ekkert við þetta ástand.

   Krútt-messa:                                                                              Jes 43.16-19, Heb 13.12-16, Jóh 16.16-23


Drottinn leiðir okkur gegnum erfiða tíma 

Við skulum biðja… Þakka þér Drottinn að náð þín er ný á hverjum degi og hver dagur er sem nýtt upphaf í trúargöngu okkar með þér. Við lofum þig og þökkum þér. Amen

 Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Já, lesturinn í GT sagði: Svo segir Drottinn sem lagði veg yfir hafið… og… Nú hef ég nýtt fyrir stafni, nú þegar vottar fyrir því, sjáið þér það ekki? Ég geri veg um eyðimörkina… Þennan veg fetum við sem fylgjum honum. Guð segist hafa nýja tíma í vændum… já það er óhætt að segja að við lifum mjög óvænt nýja tíma núna… ótrúlegt ástand og það eina sem við getum gert… er að fylgja slóðanum í gegnum eyðimörkina… því að við… þeas hinn almenni borgari… ráðum ekkert við þetta ástand. Textinn úr Hebr… sagði: gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.  Fallegt ekki satt, er þetta ekki einmitt það sem heldur okkur á floti núna… kærleikurinn til hvors annars… og það sem er svo gleðilegt við þennan texta, er að átta sig á því að við lítum alls ekki á það sem “fórn” að sýna náunganum kærleika… okkur finnst sjálfsagt að hjálpast að… við erum öll á sama báti… við viljum öll haldast á floti og komast heil í höfn… sem þýðir að: við verðum að haldast í hendur –halda utanum hvort annað –og við þurfum að klappa hvort öðru á bakið fyrir að gera góða hluti – en ekkert af þessu má samt gera bókstaflega… en svona er tungumálið okkar… það hvetur til persónulegra og náinna tengsla þegar eitthvað bjátar á… við erum hvött til að umvefja og faðma og okkur sagt að halla okkur upp að hvort öðru… en Guð á að vera haldreipið… Hann gefur okkur það sem þarf til að komast í gegnum áskoranir dagsins.

 Við getum átt náin og persónuleg tengsl við Guð þó við getum ekki snert hann… og textinn sagði að nú hefur Drottinn lagt nýjan veg um eyðimörkina… er eyðimörk öruggur staður? … dýr eyðimerkurinnar eru sporðdrekar og slöngur… dýr sem hafa lífshættuleg eiturefni í biti eða stungu… þar að auki er hættan af eyðimörkinni sjálfri, af hita á daginn og kulda á nóttunni, sandstormi, vatns- og matarskorti eða að villast í auðninni… 

Nei, Guð myndi aldrei leiða sitt fólk gegnum slíkt hættusvæði nema hann ætlaði… annað hvort að leiða það framhjá þessum hættum eða gera það ónæmt fyrir eitri dýranna… Guði er ekkert um megn. Við verðum að trúa því og treysta, að á sama hátt muni Guð leiði okkur út úr þessu veiru-ástandi… framhjá öllum hættum og heil á húfi.  

Í guðspjallinu las ég orð Jesú: Þér munuð gráta og kveina en heimurinn mun fagna. Þér munuð hryggjast en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn.

Meðganga barns er ágætt viðmið við ástandið í dag… Það verður æ erfiðara, það eru allir orðnir þreyttir, okkur finnst komið nóg, sumarsólin er farin að kítla okkur… en við verðum að þrauka aðeins lengur…  Á meðgöngutímanum veit að konan að hún verður að fara vel með sig, þar til barnið er tilbúið að koma í heiminn… síðustu mánuðirnir eru erfiðastir en engin kona vill samt, að barnið fæðist of snemma… því fylgir meiri hætta á veikindum, jafnvel lífshættulegum og umönnum á hjálparlausu kríli tekur á.  Meðganga tekur ákveðinn tíma og þetta veiru-ástand tekur líka ákveðinn tíma… en þegar það er yfirstaðið munum við gleðjast og fagna… eins og hin nýbakaða móðir… og fögnuður okkar verður hreinn og tær frá hjartarótum… og þrautirnar gleymast… Nýtt líf er hafið.

Þegar allt þetta veiru-ástand er yfirstaðið þá skulum við muna að þakka Guði fyrir handleiðslu hans í gegnum þessa tíma og biðja um að við þurfum ekki að lifa svona ástand aftur… Heimurinn verður ekki hinn sami, við metum lífið og tilveruna á annan og nýjan hátt og sjáum einföldustu hluti í nýju ljósi. Verðum þakklát fyrir hluti sem okkur fundust sjálfsagðir áður… en munið að Guð er sá hinn sami… hann er góður Guð og það er gott að geta treyst á hann.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen 

Krútt-messa tekin upp í Tálknafjarðarkirkju á samsung galaxy síma, klippt saman og sett á netið 3.maí 2020
https://www.youtube.com/watch?v=8TI7jerT-ZA&t=319s