Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Kirkjan stundar kærleiksþjónustu vegna þess að henni er það bæði skylt og ljúft. Fagnaðarerindið snýst um kærleika – Guð réttir heiminum kærleiksríka hönd sína í Jesú Kristi. Allt líf hans mótaðist af kærleika – af hugsun um aðra – um mennina í margvíslegum aðstæðum. Og hann gengur veg kærleikans til enda á krossi – og opnar dyr til upprisunnar. Þetta er kærleikur Guðs. Kærleikur sem okkur mönnunum gengur oft harla illa að skilja – og að breyta í anda hans enda þótt við tilheyrum kirkju sem reist er á grunni kærleikans. Guð er kærleikur, segjum við. Við trúum því. Og guðspjall dagsins er afdráttarlaust: Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hvert annað. Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað. Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars. Þetta finnst mörgum ekki verið mikið mál. Að elska hvert annað. Og vissulega er hægt að elska fólk – en hve djúp er sú elska þegar hún er skilin frá sjálfselskunni? Er hún í orði eða á borði. Nema hvort tveggja sé. Það er auðvelt að tala um kærleikann – auðvelt að segjast ganga fram í honum. Stæra sig – berja sér á brjóst. Hér er ég, kærleikshetjan. Eflaust telja allir sig geta talið upp einhver óeigingjörn kærleiksverk sem unnin hafa verið – og þakka oft sjálfum sér þau fremur en Guði. Reynslan hefur sýnt okkur að kærleikurinn getur átt sér margan mótstöðumanninn – og kannski býr sá mótstöðumaður stundum í sjálfum okkur þegar öllu er á botninn hvolft. Okkur þykir það vissulega óþægilegt – og reynum að reka hann af höndum okkar. Og það tekst iðulega og jafnvel með glæsibrag. En hann snýr undarlega oft við og sest að um lengri eða skemmri tíma. Á þeim dögum er kærleikurinn oftast nær niðurlútur og má sín lítils andspænis þessum þóttafulla og sjálfselska mótstöðumanni – sem hefur gleymt því að heilnæm elskan er syndabót (Vísnabók Guðbrands Þorlákssonar, bls. 66, R. 2000). Leyfið mér að kalla fram á sjónarsviðið þann mann sem stundum er kallaður sjötti guðspjallamaðurinn. Við vitum öllum hver sá fimmti er – það er tónskáldið Bach. Og hina fjóra þekkjum við aldeilis vel, þá Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes. Já, það eru margir sem vilja komast í hóp guðspjallamanna. Rússneska skáldið Fjodor Dostojevskí (1821-1881) er stundum kallaður sjötti guðspjallamaðurinn. Hann er ekki aðeins einn frægasti rithöfundur Rússlands heldur má segja að hann sé í raun og veru guðfræðingur sem fáir standa á sporði. Í skáldsögum sínum – sem eru langar og með urmul af persónum – glímir hann við lífið og Guð. Í skáldsögu hans, Karamazov-bræðrunum, er á einum stað stórmerkilegt samtal um kærleikann. Veikur öldungur talar við konu nokkra – hún háði baráttu við sjálfa sig og leitaði ráða hjá hinum vísa gamla manni. Konan vildi fá að vita hjá honum hvernig hún gæti endurheimt trúna. Sálarangist hennar var mikil. Reyndar trúði hún þegar hún var barn að aldri – þá kom trúin af sjálfu sér, sagði hún, – en ekki núna. Hvað gat hún gert? Hvernig gat hún fengið trúarsannfæringu? Öldungurinn svaraði henni ekki með því að ryðja út úr sér guðfræðilegum og heimspekilegum hugtökum. Nei. Hann sagði við konuna sem glatað hafði trúnni að hún gæti endurheimt hana: „Með því að ástunda kærleika. Reynið að elska náungann yðar af einurð og staðfestu. Því betur sem yður vegnar í því efni, því sannfærðari verðið þér um tilvist Guðs og ódauðleika sálar yðar. Og ef ást yðar á náunganum leiðir yður til fullkominnar sjálfsafneitunar, þá öðlist þér trú, og þá mun enginn efi leita á sál yðar. Þetta hefur verið reynt, þetta er öruggt.“ (Karamzov-bræðurnir, fyrra bindi, þýð. I. H., R. 1990. bls. 67). Konan taldi sig ástunda kærleika – já hún sagðist elska mannkynið svo heitt að stundum langaði hana til að fleygja frá sér öllum eigum sínum og barninu sínu. Hún væri til í að vaka yfir sjúklingum, binda um sár þeirra, kyssa sárin og þvo með eigin höndum. En hún efaðist um sjálfa sig – að hún gæti haldið það út: sjúklingurinn sem hún hjúkraði myndi sýna henni vanþakklæti, öskraði á hana, heimtaði frekjulega, sæi ekki kærleika hennar – myndi kærleikur hennar lifa slíkt af? „Ef eitthvað er til sem gæti slævt ást mína á mannkyninu þá er það vanþakklæti,“ segir hún. „Í stuttu máli sagt vil ég fá umbun fyrir vinnu mína, ég krefst umbunar samstundis, ég vil að mér sé hrósað og ást mín endurgoldin. Að öðrum kosti er ég ófær um að elska nokkurn mann!“ (Bls. 68). Við getum tekið undir með henni og sagt: Er ekki sjálfsagt að hver sá sem nýtur kærleiksþjónustu, þakki fyrir sig? Og umbuni jafnvel þeim sem auðsýnir kærleikann. Fái hrós. Allt sé endurgoldið - ef ekki þá, gef ég kærleikanum langt nef. En Dostojevský hafði ekki lokið þessu samtali. Hann segir öldunginn minnast svipaðs viðhorfs hjá lækni einum og kona þessi hafði. Sá læknir sagðist vissulega elska mannkynið. Einn hængur var þó á: „…því meira sem ég elska mannkynið yfirleitt, því minna er mér gefið um fólk, í stykkjatali, það er að segja einstaklinga.“ (Bls. 68). Og læknirinn bætir við: „Á einum sólarhring get ég fengið hatur á jafnvel besta manni … Ég breytist í óvin manna…um leið og þeir koma nálægt mér. En ævinlega hefur það farið svo, að því meira sem ég hef hatað einstaklinga, því heitari hefur ást mín orðið á mannkyninu í heild.“ (Bls. 68). Hvað átti konan að gera sem þráði umbun og hrós? Og læknirinn sem óbeit hafði á manninum en ekki mannkyninu? Ekki áttu þau að fyllast örvæntingu heldur gera það sem þau gátu. Þau áttu að minnast þess að þau voru á réttri leið. (Bls. 69): Fyrst og fremst skyldi forðast sjálfslygina: „Veitið sjálfslyginni athygli, horfist í augu við hana hverja stund, hvert andartak. … Forðist óttann, þótt óttinn sé ekki annað en afleiðing lyginnar í öllum hennar myndum. Verið ekki hræddar þótt kjarkleysið tefji yður í leit að kærleikanum, óttist ekki einu sinni yðar eigin misgjörðir þegar svo stendur á.“ (Bls. 69). Eflaust getum við í huga okkar kallað fram myndir af fólki, stofnunum og samtökum, sem rétta fólki hjálparhönd, og vilja láta aðra vita af því. Vilja umbun. Hrós og þakklæti. Eymd annarra á hins vegar ekki að vera sviðsljós til að baða sig í – hvorki af hálfu þess sem í eymdinni situr né hins er réttir hjálparhönd. Er ekki nóg að elska og auðsýna kærleika og vera þekktur sem lærisveinn meistarans frá Nasaret? Hvað þarf meira? „… Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað….“ Eins og ég hef elskað yður…Hvar birtist elska hans til manna? Kærleikurinn? Við gætum talið margt upp – þarna er kærleikurinn, nýr dagur að morgni, fæði og klæði, börn, heimili, atvinna, góðir vinir… listinn verður aldrei tæmdur. En kærleikurinn birtist líka annars staðar og þar er hann mjög ögrandi. Svo ögrandi að við viljum jafnvel ekki við hann kannast – út með hann, segjum við. Hann truflar samkvæmið. Lífið. Á krossinum. Í þjáningu. Það er þversögn trúarinnar – óvænt skref sem Guð stígur í heiminum – út úr hlýrri stofu og samkvæmi prúðbúinna manna þar sem borðin svigna og spekiorðin hrjóta af vörum milli hláturskviða þeirra sem telja sig vera á öruggum stað í lífinu. Sá sem tekur þjáningu annarra að sér sýnir kærleika – sér þjáninguna og gengur óttalaus inn í hana – og væntir engrar umbunar eða þakklætis – ; sá sem styrkir fátækt barn til náms sýnir kærleika…Þar er Guð – í hinum þjáða, í barninu, í útigangsmanninum, í fanganum, í hinum sjúka og þreytta – þeim sem týnd eru í elli sinni. Hvenær sáum vér þig…hungraðan, þyrstan, gestkominn, nakinn, sjúkan, í fangelsi – og komum þér til hjálpar? (Mt 25.37-39). Svo spurðu hinir réttlátu og fengu svar um hæl: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. (Mt 25.40). Fangelsi og kærleikur. Þau orð eru andstæð í hugum margra. Hvaða erindi á kærleikur í þessi hús sem hýsa brotamenn? Morðingja, þjófa, nauðgara og aðra ofbeldismenn – og þannig mætti lengi telja. Eru augu þeirra ekki lokuð fyrir kærleikanum? Er kærleikurinn ekki brottrækur úr fangelsi? Við heyrum annað slagið fréttir af voðaverkum sem unnin eru innan fangelsa? Fangi ræðst á annan fanga. Fangi ræðst á fangavörð. Maður deyr í fangelsi. Veikt fólk á geði í fangelsi sem ekki á þar að vera – veikt fólk sem enginn vill eiga – hvorki elska né hata. Fangelsi eru hús þjáningar – og kristin kirkja gengur inn í hana – vísar veg. Og við höfum önnur orð um fanga sem segja margt – kannski tjá sum þeirra vanmátt okkar: við tölum um ógæfumenn, ólánsfólk, skuggabörn og ólánsræfla. Auðnuleysingjar – og landeyður. Illmenni og hrakmenni. Hver vill umgangast slíkt fólk? Á það ekki skilið að vera bak við lás og slá? Fólk sem brýtur landslög – vinnur öðrum mein sem stundum hefur skelfilegar afleiðingar í för með sér – sumt verður ekki aftur tekið. Hvað á það gott fólk skilið? Er hægt að sýna því kærleika? Í fangelsi er fólk. Það kemur úr ýmsum áttum. Fangar eru flestir karlmenn – fangelsi er karlaheimur – strákaheimur. Uppeldi þeirra sumra hefur verið sem eldur – kærleikur þar fjarri en hatur svifið yfir vötnum – hatur á samfélaginu og þeim er því stýra hvort sem útstöð þess heitir skóli eða félagsmálaskrifstofa í hverfinu. Þau sem þar starfa vita að í mörgum tilvikum er þakklætið fjarri og enga umbun að fá. En þau vita sem öldungurinn í sögubroti Dostojevskýs að þau eru á réttri leið – örvænta ekki. Margir fanganna hafa snemma gefist upp í skóla – og skólinn gefist upp á þeim. Allt námið var átakatími – lítill skilningur á báða bóga. Lítill kærleikur enda verið að mæla annað þar – og nemandinn gengur út með hatur í huga til skóla – til samfélags. Hann býr um sig á jaðri samfélagsins – þar gilda oft önnur lögmál en innan hin sómakæra samfélags. Fangelsið er viðkomustaður. Stundum eins og hvert annað mannlífstorg, þar koma menn og fara. Sumir staldra stutt við en aðrir híma lengi. Svo eru þeir er koma aftur og aftur. Það sér á þeim í hvert skipti. Fæstir þeirra eru á uppleið. Skuggasund mannlífsins hafa sterkt aðdráttarafl kannski vegna þess að kærleikurinn er þar fjarri. Og margir eru fastir í viðjum sjálfslyginnar. Í fangelsi er fólk – og fangarnir vilja snúa við af braut óhamingju og voðaverka. Innst inni vilja þeir eins og við verða þekktir sem lærisveinar meistarans frá Nasaret af því að þeir bera elsku til hver annars. Þeir glíma við sjálfa sig – líkt og konan í sögubroti Dostojevskýs sem glatað hafði barnatrúnni – og læknirinn sem hafði óbeit á einstaklingum en ekki mannkyninu. Þegar þeir vinna kærleiksverk án þess að þrá umbun eða hrós, þakklæti eða viðurgjörning, þá eru þeir á réttri leið. Það gerist oftar en við vitum. Þegar það gerist þá er sú frétt lágvær – kannski ósögð því hún selur ekki eins og frásögn af ótíðindum og hörmungum. En þeir eru margir sem taka sig á og ef vel er að gáð má sjá að þeir ekki fjarri því að vera lærisveinar meistarans frá Nasaret. Þeir eru að minnsta kosti á réttri leið. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Prédikun flutt í Háteigskirkju 14. september 2014: Texti: Jóhannes 13.34-35 13. sd. e. trinitatis