Röklegt samhengi trúarinnar

Röklegt samhengi trúarinnar

Upphaf kristindómsins er mósaík hugmynda sem kepptust um að skýra áhrif þessarar persónu og svo fjölbreyttar eru þær að það er ógjörningur að segja nákvæmlega til um hverjar þeirrar eiga uppruna hjá hinum sögulega Jesú.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
19. júní 2011

Guðspjall: Mt 11.25-27 Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt. Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.

Gleðilega hátíð, að þessu sinni þrenningarhátíð.

Með stuttu millibili er sett á hið kirkjulega dagatal þrjár hátíðir. Fyrst þeirra er uppstigningardagur, þá hvítasunna og nú þrenningarhátíð. Séu uppstigningardagur og hvítasunna orðnir óþekktir og merkingarlausir dagar í okkar samfélagi er þrenningarhátíð enn fjarlægari. Sú hátíð markar þau skil að þær þrjár birtingarmynd Guðs sem að hjálpræðissaga Biblíunnar boðar eru komnar fram. Mynd föðursins, skapara himins og jarðar, er undirliggjandi sköpuninni allri frá grundvelli heimsins, mynd sonarsins er sagan af Jesú, sem hefst samvæmt guðspjöllunum á þeirri stundu er Guð fæðist sem maður á jólanótt og lýkur með upprisa hans á páskadag og mynd heilags anda er lýst í Postulasögunni sem undri, hvítasunnu-undrinu, fæðingarstundu kirkjunnar.

Þessi, frásögn, sagnahefð kristinnar kirkju í heiminum er tilraun til að ramma inn og setja kristna trú í röklegt samhengi. Tilraun sem tókst. Kristin trú er útbreiddasti og fjölmennasti átrúnaður mannkynssögunnar og heldur þeirri stöðu til þessa dags. Þær spurningar, hvernig að kristin trú varð til sem átrúnaður og hvernig að jaðartrú fámenns hóps gyðinga á útjaðri rómverska heimsveldisins náði þeirri stöðu að verða ríkistrú þess á tveimur öldum eru að mínu áliti áhugaverðustu spurningar kristinnar guðfræði.

Upphaf kristindómsins er hinsvegar ekki eins einfallt og snuðrulaust ferli og þessi framsetning felur í sér. Þegar fræðimenn á sviði biblíuvísinda hafa skoðað þau rit sem að varðveitt eru frá fyrstu árum kristins átrúnaðar kemur í ljós fjölbreytt safn rita sem eru svo ólík að ljóst er að mismunandi hópar fólks, með fjölbreyttar áherslur og heimsmynd liggur að baki þeim. Ég leyfi mér að fullyrða að engin persónu í fornöld hafi orðið hvatinn að eins viðamiklu ritstarfi og hugmyndasmíðum og Jesús frá Galíleu. Þau rit og ritsöfn eiga það eitt sameiginlegt að spyrja sömu spurningar: Hver er þessi Jesús?

Það verkefni að átta sig á samhengi frumkristni er líkt og að endurgera ævafornt teppi þar sem margir lykilþræðir hafa trosnað, glatast eða verið fundinn framandi staður af þeim höfundum og hugmyndasmiðum sem á eftir komu. Ljóst er að með ritun guðspjalla Nýja testamentisins, hófst nýtt skeið í kristnum átrúnaði en þau eru skrifuð sem viðbrögð við krísu þeirri sem kom upp í samfélagi gyðinga þegar Rómverjar lögðu musterið í Jerúsalem í rúst árið 70. Musterið hafði þá stöðu í átrúnaði gyðinga að vera híbýli Guðs á jörðu og með eyðileggingu þess voru allar trúarhugmyndir þeirra settar í uppnám.

Í kjölfar þessa úrslitaatburðar urðu til þær tegundir gyðingdóms og kristinnar trúar sem að varðveist hafa til okkar daga en Markúsarguðspjall, elsta guðspjall Nýja testamentisins, er talið vera ein elstu varðveittu viðbrögðin við falli musterisins. Þau hundruð rita sem að varðveitt eru eða varðveittar heimildir eru um frá fyrstu öldum kristindómsins má með mikilli einföldun skipta í þrjá flokkar. Það eru í fyrsta lagi rit sem að falla að eða gera tilkall til hins unga rétttrúnaðar kirkjunnar, þá rit sem að standa nær gyðinglegri lögmálshefð en meginstofn kristninnar (gyðing-kristin rit) og loks rit sem vísa í hugmyndaheim sem gerir ráð fyrir að efnisheimurinn sé óæðri sköpun falsguðs og Jesús þá, einn eða ásamt öðrum, andavera af æðri tegund, svokölluð gnóstísk rit. Fjölbreyttni rita og hugmynda innan þessara flokka er mjög mikil.

Teppið verður trosnaðra og endurgerð þess flóknari eftir því sem eldra tímaskeið er skoðað og af heimildum sem varðveita hefðir frá árunum fyrir ritun guðspjallanna má greina sjö hópa sem eru ótrúlega fjölbreyttrar gerðar en allir gera tilkall til Jesú. Fyrst ber þar að nefna Pál Postula en áhersla fylgjenda Páls, sem og þeirra forvera sem að hann vísar til, var á Krist sem með dauða sínum og upprisu innleiddi frelsun þeim sem á hann trúa. Safn bréfa Páls og bréfa kennd við Pál fylla heilan þriðjung af Nýja testamentinu auk þess að Lúkasarguðspjall-Postulasagan, sem fyllir annan þriðjung þess, leggur megináherslu á boðunstarf hans og guðfræði. Áherslur Páls voru því grundvallandi fyrir þann meið kristinnar trúar sem að varð að hinni almennu kirkju.

Tvær hefðir má greina í Markúsarguðspjalli sem eru það ólíkar að líklegast varðveita þær áherslur mjög ólíkra hópa. Í Markúsarguðspjalli er varðveitt safn kraftaverkasagna hóps sem að hefur séð mikilvægi Jesú í þeim lækningarundrum er hann framkvæmdi. Þá er þar að finna yrðingar (Pronouncement stories) sem að svipa mjög til orðræðu hinna grísku kýnika en hjá þessum hópi hefur Jesús verið heimspekingar af þeirri gerð sem snéri gildismati samfélagsins á haus.

Í guðspjöllum Matteusar og Lúkasar er að finna ummælahefð Jesú, Fjallræðuna og Slétturæðuna, sem varðveita leiðsögn um hvernig lifa megi réttu lífi og boðun um eftirfylgni við ríki Guðs. Að baki þessum hefðum er rit sem kallað hefur verið Ræðuheimildin en það er talið koma frá hópi sem hafði mjög sterka eftirfylgniskröfu við boðskap Jesú og túlkaði persónu hans á grundvelli stefja í Gamla testamentinu. Annarsvegar stefi um að Guð sendir ítrekað spámenn sem þjóðin hafnar og hinsvegar stef um yfirvofandi dóm. Skylt þessum ummælahefðum er Tómasarguðspjall en margt er sameiginlegt með ritunum, ummælahefð og boðun um ríki Guðs, þó að túlkunarlykillinn sé annar. Tómasarguðspjall sækir ekki í gyðinglegar hefðir heldur í Tímeus, sköpunarsögu Platóns, í leit að svörum við því hvernig beri að skilja Jesú. Loks er hópur sem samanstóð af hinum sögulegu Pétri, Jóhannesi, og Jakobi bróður Jesú en þeir veittu söfnuðinum í Jerúsalem forystu. Söfnuðurinn í Jerúsalem var áhrifamesti söfnuður frumkirkjunnar fram að falli musterisins en við innrás Rómverja í borgina leystist hann upp og missti áhrif sín. Í bréfum Páls er sagt frá deilum sem hann átti við ,,máttarstólpana í Jerúsalem" meðal annars um matar- og hreinsunarákvæði gyðingdóms þess tíma en þó áherslur þeirra hafi ekki farið saman hugmyndafræðilega voru þeir einhuga um mikilvægi þess að sinna þurfandi og fátækum við boðun trúarinnar.

Þessi mynd sem lesa má úr þeim heimildum sem varðveittar eru í ritum frumkirkjunnar sýnir að kristindómurinn var ekki átrúnaður sem hófst í samhangandi sannleika og var treyst fyrir tólf lærisveinum. Upphaf kristindómsins er mósaík hugmynda sem kepptust um að skýra áhrif þessarar persónu og svo fjölbreyttar eru þær að það er ógjörningur að segja nákvæmlega til um hverjar þeirrar eiga uppruna hjá hinum sögulega Jesú.

Ritstörf guðspjallamanna, bréfritara og höfunda frumkristinna rita eru allt tilraunir til að mynda heildstæða mynd úr áhrifum þeirrar óvenjulegu persónu sem að Jesús er og var. Þær tilraunir héldu áfram með samsetningu regluritasafns Nýja testamentisins, samruna þess við grískar þýðingar á ritsafni gyðingdóms við myndun Biblíunnar, og ritstörfum kirkjufeðranna. Kirkjufeðurnir lásu úr hinu nýja ritsafni Guð sem birtist á þrennan hátt. Föður sem að Jesús talar svo oft um og er skapari himins og jarðar, soninn sem birtist í sögunni af Jesú og heilagan anda Guðs sem persónugervist í meðförum guðspjallamannanna. Heildarmynd kristindómsins og sú hjálpræðissaga sem að kirkjan boðar, frá aðventu til þrenningarhátíðar er slík tilraun. Tilraun til að svara og setja í sögulegt samhengi spurningarnar: Hver var og er þessi Jesús? og á hvern hátt birtir hann Guð í samfélagi manna?

Ástæður þess að kristin trú er til þessa dags útbreiddasti og fjölmennasti átrúnaður mannkynssögunnar eru ugglaust margar og svarið við þeirri spurningu hvernig að kristindómurinn náði útbreiðslu sinni og vinsældum ekki einfaldar. En ég er þess fullviss að hið röklega samhengi hjálpræðissögunnar, þrenningarlærdómsins og kirkjuársins eru ekki ástæður vinsælda kristins átrúnaðar. Nýja testamentið miðlar í frásögnunum af Jesú og í frásagnahefð Jesú sannleika sem er dýpri öllum tilraunum til að setja boðskap Jesú í röklegt samhengi. Jesús miðlar með lífi sínu og boðun trúarlegrar reynslu, reynslu sem hægt er að setja í röklegt samhengi en er handan rökhugsunar. Guðspjall dagsins varðveitir ummæli Jesú sem á uppruna sinn í fyrrnefndri Ræðuheimild. Þar segir: ,,Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.” Í þessum texta opinberar Jesús grundvallarlögmál í þekkingu og reynslu af Guði, lögmál sem er andstætt þekkingarfræði. Í vísindum og sannleiksiðkun er það lögmál að viðfangsefni er hægt að nálgast með rannsóknaraðferðum og þekkingarleit sem gerir þann sem iðkar sín fræði að sérfræðingi í sinni grein. Það á ekki við um Guð. Guðfræðingar eru sannarlega sérfræðingar í sinni grein, sem eru rannsóknir og þekkingaröflun á trúarlegum textum, hefðum og trúarlegu athæfi, en þeir eru ekki sérfræðingar í Guði.

Hafir þú reynslu af Guði, hafir þú mætt Guði eða hann mætt þér, er ljóst að þann atburð þarf að skýra. Skýra og setja í röklegt samhengi. Trúarleg reynsla, meðvitund um tilvist og nálægð Guðs vekur upp fleiri spurningar en hún svarar. Ráðgátur heimsins um tilvist illskunnar og óréttlæti heimsins, eru auðskýranlegar sé viðhöfð sú heimsmynd að heimurinn hafi orðið til af tilviljun og að engin merking eða æðri tilgangur sé að baki undri lífsins - en andspænis trúarlegri reynslu og afstöðu verður sú ráðgáta að óleysanlegri krossgátu.

Trú er hægt að setja í röklegt samhengi og ræða af skynsemi og röksemd, sú iðkun er ein tegund guðfræði, en hún verður aldrei leidd út af skynsemisrökum. Trú er einungis hægt að öðlast með trúarlegri iðkun og að undangenginni ákveðinni afstöðu. Trúarlega iðkun kunna allar manneskjur eðlislægt en of fáir iðka trú fram á fullorðinsár. Það eru lögmál þess: að iðka samtal við guðdóminn með því að orða trú sína í bæn og gefa Guði gaum í íhugun; að iðka sannleiksleit með því að lifa heiðarlegu lífi og skrifta gagnvart einhverjum traustsins verðum um syndir sínar og vonbrigði; að iðka þjónustu við náungann með því að gefa af tíma sínum og verðmætum í þágu þeirra sem þurfa þess við og að iðka boðun með því að vitna fyrir öðrum reynslunni af Guði. En afstaða trúarlegrar iðkunar er fágætari hnoss sem erfiðara er að nálgast. Rétt afstaða við trúarlega iðkun er auðmýkt sem auðnast börnum og smælingjum en ekki spekingum og hyggindamönnum.

Það er ekki tilviljun að börn eiga auðvellt með að meðtaka og miðla nærveru Guðs og það er heldur ekki af ástæðulausu að við alvarleg veikindi eða áföll upplifir fólk að trúariðkun þeirra og reynsla hafi öðlast endurnýjun. Sú manneskja sem í afstöðu sinni telur að hann eða hún sé of upplýst til að efast um heimsmynd sína, hvort sem hún er trúarlegs eðlis eða trúlaus, skortir þá auðmýkt sem krafist er til að öðlast reynslu af Guði. Sá eða sú, sem að eigin áliti er spekingur og hyggindamaður, er haldinn hindrun í trúarlegri leit. Áföll í lífinu opinbera hroka slíkrar afstöðu og í áföllum upplifum við mörk þeirrar heimsmyndar sem að við lifum við. Spurningin sem er ofar allri guðfræði, er spurningin um þig. Hver er þín reynsla af lífinu og Guði og þjónustar mynd þín af samhengi tilveru þinnar þér í áskorunum lífsins? Ef ekki er tími til að endurskoða þína guðfræði. Guð opinberar sig smælingjum. Sá sem leitar Guðs með afstöðu þess sem ekki býr yfir svörum heldur spurningum, þess sem ekki reiðir sig á eigin getu í glímunni við lífið heldur þiggur leiðsögn og aðstoð Guðs og manna og þess sem lagt getur af hroka, reiði og sektarkennd, farartálmum á trúarlegri vegferð, mun upplifa Guð. Guð sem er að finna í sannleikskjarna kristinnar trúar. Guð sem er með í för, ,,alla daga allt til enda veraldar”.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.