Í þokukenndri veröld

Í þokukenndri veröld

Hún sat fyrir framan mig, þessi fallega kona. Það var reisn yfir henni. Marblettirnir og bólgið andlitið gátu ekki falið það. Það vantaði líka stóran blett í hárið á henni þar sem maðurinn hennar hafði rifið stykki úr. Ég velti því fyrir mér hvort hárið mundi vaxa aftur eftir slík átök.

Í ÞOKUKENNDRI VERÖLD

Hann krefst þess að ég slíti tengslin við vini mína og heldur því fram að þeir notfæri sér mig og baktali mig. Hann segir mér frá þessu vegna þess að hann elskar mig og reynir að hjálpa mér. ... Þetta ruglar mig í ríminu. Þegar ég er ein upplifi ég þetta sem stjórnsemi af hans hálfu. Veruleika sem hann vill að ég geri að mínum, en þegar hann útskýrir þetta fyrir mér blíðlega og ástúðlega finnst mér sem um ímyndun hafi verið að ræða. ... Ég lifi í ótta við að espa hann upp. Að anda er það eina sem ég geri af sjálfsdáðum, allt annað þarf ég að gera vegna hlýðni við hann. ... Ég veit ekki hvað gerðist, ég veit það ekki, en augnaráð hans myrkvaðist og hinn persónuleiki hans kom fram.

Þetta textabrot er úr bók Elena Stoyanova Dagbók óttans. Hún lýsir hér andlegu ofbeldi sem hún bjó við. Frásögn hennar er samhljóma reynslu margra kvenna sem búa við andlegt ofbeldi. Andlegt ofbeldi lýtur að stjórn og er gjarnan sett í búning gæsku, og greiðasemi. Vinarþel og góðsemi, en þar erum við hvað varnarlausust. Vefurinn er vafinn án þess að vörnum verði við komið enda erfitt að koma auga á hann og enn erfiðara að losna úr hinum vandlega spunna vef.

Saga Elenu fer með mig aftur í tímann og ég minnist sögu skjólstæðings míns.

Hún sat fyrir framan mig, þessi fallega kona. Það var reisn yfir henni. Marblettirnir og bólgið andlitið gátu ekki falið það. Það vantaði líka stóran blett í hárið á henni þar sem maðurinn hennar hafði rifið stykki úr. Ég velti því fyrir mér hvort hárið mundi vaxa aftur eftir slík átök. Einhvern veginn er það svo að þessi skallablettur hefur staðið mér ljóslifandi fyrir sjónum öll þessi ár sem liðin eru.

Orðin hennar hafa þó leitað meir á mig er hún sagði: Ég held ég hafi verið heppin að hann lamdi mig. Mér er einhvern veginn létt.

Lögnu síðar eftir mikla sjálfsvinnu útskýrði hún orð sín og upplifanir og sagði:

Ég hafði verið á göngu þar sem ég sjálf var smátt og smátt var að hverfa. Ég fann það,en gat bara ekki sett puttann á hvað var að. Hann hafði aldrei lamið mig, og hann var alltaf svo ljúfur og góður. Eða oftast. Þegar lífið var samkvæmt hans uppskrift. Ef honum misbauð frysti hann mig og talaði ekki við mig svo vikum skipti. Ég lærði því snemma að láta allt vera samkvæmt hans vilja. Gerði í raun hans vilja að mínum. Og þá var allt gott. Við rifumst til að mynda aldrei, og friður ríkti á heimilinu enda var bara ein skoðun í hjónabandinu og því engin ástæða til að takast á. Við vorum samhent og stundum „leyfði“ hann mér að gera eitt og annað sem ég hafði áhuga á. Svo sem að hitta vinkonur eða fara í ferðalög. Vinkonur mínar fóru þó fljótlega að týna tölunni. Ég held þær hafi fundið að honum var illa við þær, enda var maðurinn minn snillingur í að frysta fólk. Við mig lá hann ekki á skoðun sinni um þær. Sérstaklega var honum illa við konur ef þær voru sterkar og sjálfstæðar. Kannski var hann hræddur um að þær hefðu áhrif á mig og mig langaði til að líkjast þeim. En kannski var ástæðan sú að hann sjálfur átti ekki vini. Hann sagði að ég væri honum nóg. Eins og ég sagði áðan var hann í raun ljúfur og góður. Til að mynda var hann gjafmildur og keypti oft handa mér gjafir og hlóð á mig fötum. Sem hann hafði valið af kostgæfni. Hann var líka afspyrnu greiðvikinn. Og keyrði mig gjarnan þangað sem ég þurfti að fara.

Ef mér líkaði ekki það sem hann keypti eða reyndi að afþakka greiðasemi hans varð hann svo sár að ég var fljót að skipta um skoðun og þakkaði fyrir gjafir og greiða. Smekkur hans varð því fljótlega smekkur minn. Allar ákvarðanir voru teknar af honum og mér fannst hann í raun ávallt taka réttar ákvarðanir. Ef ég lagði eitthvað til kom hann með betri tillögu, sem ég var venjulega sammála. Enda fannst mér ég varla vera fær um að taka réttar ákvarðanir.

Hann hafði talið mér trú um að ég væri bæði hvatvís, og kærulaus. Eyðslusöm og jafnvel löt og ofdekruð. En sagði gjarnan góðlátlega að hann elskaði mig nú þrátt fyrir það. Mér fannst ég heppin að eiga þennan þolinmóða mann. Innst inni fann ég þó að eitthvað var að og þegar hann lét fyrsta höggið ríða áttaði ég mig á ég hafði búið við ofbeldi öll þessi ár. Ég vissi það ekki. Þegar ég hugsa til baka finnst mér ég hafa lifað í þokukenndri veröld. Mér dettur sú veröld í hug þegar ég heyri minnst á Burka sem svo margar konur þurfa að bera. Þurfa að bera vegna þess að allt samfélagið sem þær tilheyra krefst þess að þær hverfi sjónum manna. Við hinar sem búum í samfélagi þar eðlilegt telst að við sjáumst, heyrumst og tölum. Samfélagi þar sem ofbeldi og kúgun er hafnað, við megum ekki, megum aldrei, gangast inn á að persónuleiki okkar og sjálfsforræði hverfi.

Í ársskýrslu Samtaka um kvennaathvarf kemur fram að algengasta orsök þess að konur leita þangað er sú að þær hafa verið beittar andlegu ofbeldi. Í skýrslunni segir:

Andlegu ofbeldi hefur verið líkt við köngulóarvef sem er ósýnilegur í fljótu bragði og vandlega spunninn. Þannig er vísað til þess hve erfitt er að koma auga á þess konar ástand, jafnvel fyrir þá einstaklinga sem sjálfir eru flæktir í vefinn.

Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar kemur fram að alþjóðlegar rannsóknir á ofbeldi gegn konum hafa að mestu fjallað um líkamlegt ofbeldi vegna þess að auðveldara er að skilgreina það og mæla. Rannsóknir hafa þó gefið til kynna að sumum konum finnst mun erfiðara að upplifa andlegt ofbeldi en líkamlegt. Það er því afar mikilvægt að opna augu okkar fyrir hinum ýmsu birtingarmyndum ofbeldis. Einungis með því að þekkja eðli og birtingarmyndir ofbeldis getum við tekist á við það og vonandi upprætt það með öllu.

HEIMILDIR Samtök um kvennaathvarf: Ársskýrsla 2000, Reykjavík 2000. Samtök um kvennaathvarf: Ársskýrsla 2001, Reykjavík 2001. Stoyanova, Elena: Diario del miedo: El relato estremecedor de una mujer maltradada, Ediciones Temas de Hoy, Madrid 2002. Walker, Lenore E.: The Battered Woman, Harper og Row Publishers, New York 1979. World Health Organization: World report on violence and health, summary. Genf, 2002.

Birt með leyfi skjólstæðings og með kærri þökk. Ragnheiður Karítas Pétursdóttir Sóknarprestur