Umber allt?

Umber allt?

Eftir að ég hafði lokið lestrinum leit hún á mig, tortryggin á svip og spurði: „Bíddu hvað á nú þetta að þýða? ,,Umber allt”?”

Flutt 10. september 2017 í Neskirkju

Óðurinn til kærleikans er fallegur texti. Hann er hluti af framlagi Biblíunnar til bókmenntanna og hann ætti að höfða til fólks með alls kyns trúarlegan bakgrunn og lífsskoðanir. Hér er ekkert yfirborðslegt hjal á ferð eða endurtekið efni. Þótt tónninn sé fagur er þetta engin ballaða sem lofar það sem allir geta sammælst um og bætir þar engu við. Hann er þvert á móti ögrandi og fjallar ekki aðeins um kærleikann sem slíkan heldur stendur einnig eftir sem mikilvægur spegill á okkur sjálf.

Umber allt?

Þessi texti er lesinn við hjónavígslur og eitt sinn er ég var á æfingu með brúðhjónum bað brúðurin mig um að fara með hann í heild sinni. Þau stóðu frammi fyrir altarinu og hlýddu á. Það fór ekki á milli mála að þeim líkaði það sem þau heyrðu, þangað til í blálokin er kom undarlegur svipur á brúðina. Eftir að ég hafði lokið lestrinum leit hún á mig, tortryggin á svip og spurði: „Bíddu hvað á nú þetta að þýða?„Umber allt”?”

Já, eitthvað var nú bogið hér, ef þetta átti að vera leiðsögn eða leiðarvísir fyrir það hjónaband sem þau ætluðu að helga næsta dag að viðstöddu fjölmenni. Var það þá hlutverk hennar og hlutskipti að umbera hverja þá raun sem makinn kynni að leggja á hana um ókomna tíð? Eða er þessi texti eins og ómur úr allt annarri tíð sem nútímafólk á erfitt með að tengja sig við? Á hann eitthvert erindi inn í þann sáttmála sem ástfangið fólk vill helga frammi fyrir altari Guðs þar sem ríkja á jafnræði og gagnkvæm virðing?

Það var þá tilefni til að leiðrétta þann misskilning að óðurinn til kærleikans er í raun ekki hugsaður sem leiðarlýsing fyrir hjónaband tveggja einstaklinga og hann gengur svo langt að eitthvað fleira þarf að koma til ef hann á að nýtast í samskiptum fólks almennt. Þar sem breyskir menn eiga í hlut getur það hreinlega verið öllum til ógagns að „umbera allt” því enginn veit hvaða aðstæður kunna að koma upp. Meira að segja, þá geta hressileg skoðanaskipti og jafnvel svolítil átök geta verið gagnleg innan eðlilegra marka.

Brúðurin gat andað rólegar þótt ég sé ekki frá því nema að það hafi komið svolítill vonbrigðasvipur á gumann. Með þessari athugasemd sinni varpaði hún um leið ljósi á sjálft inntak Óðsins til kærleikans, og ef því er að skipta því hvernig Biblían talar til okkar, sem fólks í heimi takmarkaðra gæða þar sem oft er tekist á og því fer fjarri að allt verði leyst með umburðarlyndi.

Lögmál og fagnaðarerindi

Já, Biblíuna lesum við ekki sem lögbók eða upptalningu á einhvers konar lögmáli. Slíka texta er þar vissulega að finna, en við tölum samt fremur um hana sem fagnaðarerindi. Erindið er að lýsa hinu æðsta og háleitasta, og tengja það inn í verund og vitund okkar sem lifum í heimi sem er takmarkaður á allan hátt, bæði í tíma og rúmi. Fyrir vikið verður förum við á mis við mikið er ef við lesum fagnaðarerindið sem lögmál, og auðvitað á líka á hinn veginn – lesum lögmálið sem fagnaðarerindi.

Jú, í heimi þar sem alls kyns hættur geta leynst, verður að setja einhverjar leikreglur – með öðrum orðum, það er ekki hægt að umbera allt. Við ræðum það gjarnan í fermingarfræðslunni hvernig tilveran væri ef engin væru lögin eða ef enginn gripi inn í ef þau eru brotin. Í fyrstu hugnast sumum börnunum það ágætlega að þurfa ekki að fara eftir neinni stundarskrá eða að lúta nokkru banni eða reglum. Við nánari skoðun þá er niðurstaðan jafnan sú sama: Í heimi þar sem ekkert lögmál ríkir verður lífið hættulegra, erfiðara og styttra en ella væri.

Smám saman taka svo við reglur en það eru þá hagsmunir hinna sterku sem ráða. Því sanngjörn lög vernda fyrst og fremst hina veiku. Það að umbera ranglæti, ofbeldi og misgjörðir af ýmsum toga felur í sér samfélagið leysist upp. Gildir þá einu hvort það er heilt þjóðfélag eða hjónaband tveggja einstaklinga.

Hvert er þá inntak Óðsins til kærleikans? Í raun er hann útlegging postulans á lífi Jesú frá Nazaret sem launaði illt með góðu, boðaði hin háleitustu markmið og lifði eftir þeim. Ritningin lýsir því hvernig hann lagði líf sitt í sölurnar fyrir mannkyn og bað fyrir þeim sem ofsóttu hann. Það er hann sem umbar allt og það er hann sem bað fyrir óvinum sínum þar sem hann þjáðist á krossinum. Textar dagsins skína eins og bjartur stjörnuhiminn. Þeir veita okkur bæði fegurð, leiðsögn um leið og þeir tróna svo hátt yfir höfðum okkar að við munum aldrei ná að fanga þá frekar en himinfestinguna.

Elskaðir óvinir

Hið sama má segja um texta guðspjallsins: heiðingjar elska þá sem standa þeim næstir. Það er auðvitað ekkert sér-kristilegt við slíka háttsemi. Nei, elskið þá sem ofsækja yður! Aftur er markið sett svo hátt að við þurfum að hugsa vandlega okkar gang er við speglum hegðun okkar í þeirri leiðsögn sem hér er gefin. Allt ber þar að sama brunni. Kærleikurinn er ekki leið til að öðlast eitthvað annað – hann er markmið í sjálfu sér. Ef við þykjumst bera af í manngæsku um ágæti þá er alltaf hægt að benda á eitthvað meira, merkilegra og göfugra sem við getum gert að fundið fyrir.

Hér er því lýst hinni háleitustu kröfur kærleikans, markmið sem standa í efsta stigi og verður ekki dregið úr. Því það er gegnumgangandi í sögu kristinnar trúar og birtist okkur jafnframt í Biblíunni að fólk gerir lögmálið að fagnaðaerindi. Það lítur svo á að boðskapur Guðs til okkar sé sá að greina á milli þeirra sem fara eftir reglum og allra hinna. En Jesús setur markið hærra. Hann bendir á það hversu vonlaust það er manninum að réttlæta sig í krafti eigin verka.

Dómharka

Um leið og sú hugsun nær tökum á okkur er stutt í að maðurinn fyllist hroka og dómhörku í garð þeirra sem honum finnst ekki ekki standa sér jafnfætis. Ennfremur verður hið siðferðilega gildi góðra verka marklaust ef þau eru aðeins unnin í þeirri von að kaupa sér inn velvild á himnum. Þótt ég gæfi allar eigur mínar og framseldi sjálfan mig, en hefði engan kærleika - væri ég engu bættari. Óðurinn til kærleikans er ekki endurtekið efni. Hann leiðarljós, pólstjarna sem við getum tekið mið af, en um leið verður það hlutskipti okkar að leiðrétta ranglæti, rísa upp gefn ofríki og kúgun. Ekkert slíkt má umbera enda verður lögmálið að vera til staðar svo að allt haldist í föstum skorðum.

En speglarnir leynast víðar. Hér áðan hlýddum við á orð spámannsins sem talar fyrir mun Drottins og lýsir því hversu fánýtar fösturnar eru og allt það prjál sem maðurinn færir fram fyrir Guð. Svo kemur hinn biblíulegi boðskapur að við hýsum bágstadda hælislausa menn. Hversu sterkt tala þau orð til okkar nú þegar stúlkubörn, átta ára og ellefu ára, eru send út í dauðans óvissuna og ekkert svigrúm virðist vera til að víkja frá dauðum bókstaf lögmálsins? Er ekkert rúm fyrir fagnaðarerindi í samfélagi okkar?

Kærleiksverkin eru ávextirnir sem vaxa á því tré sem býr að góðu upplagi. Og þessi dagur er einmitt helgaður þeim ávöxtum í kirkjunni, dagur kærleiksþjónustunnar þegar við erum minnt á að þjóna í skilyrðislausum kærleika, rétt eins og náð Guðs veitist okkur fyrir trúna eina.