Taktu ákvörðun um að vera öðruvísi
Jólin eru fagnaðarhátíð vegna Jesú sem varð maður og kom til okkar. Taktu ákvörðun um að einbeita þér að því sérstaklega um þessi jól. Gefðu þér tíma til að fagna og gleðjast og íhuga hvað í því felst.
Undirbúðu þig í tíma
Því meiri tíma sem þú gefur þér til undirbúnings fyrir jólin því auðveldara verður að njóta hans. Gjafir, bakstur, skreytingar, þrif og önnur verk sem þú vilt ljúka fyrir jól verða léttari ef þau eru skipulögð vel. Ákveddu hvað þú vilt gera fyrir jólin og gerðu það í tíma.
Fagnaðu aðventunni
Aðventa þýðir koma. Á aðventunni undirbúum við okkur fyrir komu Jesúbarnsins. Við matmálstíma þar sem öll fjölskyldan hittist er t.d. hægt að draga ritningarvers úr „Orð Guðs til þín“–öskjunni eða draga mannakorn eða lesa úr hugvekjubókum. Gaman er að hafa aðventudagatal fyrir alla fjölskylduna sem allir bíða spenntir eftir að opna. Reynið að finna dagatal sem leggur áherslu á innihald jólanna. Það er ekki auðvelt en þau leynast stundum í bókabúðum og fást örugglega í Kirkjuhúsinu.
Notum aðventukransinn ekki aðeins sem fallegt borðskraut heldur reynum að skapa stund helgi og friðar á heimilum okkar þar sem við íhugum boðskap jólanna. Við tendrun á kertum aðventukransins gefst tilvalið tækifæri til að eiga við hann helgistund einu sinni í viku fram að jólum.
Gott er að lesa úr ritningunni, biðja saman og syngja jólasálma. Kertin hafa öll sín nöfn eftir atburðum úr fæðingarsögu Jesú og hægt er að rekja söguna á aðventunni með því að lesa úr Biblíunni viðeigandi ritningarlestra. Fyrsta sunnudaginn er tendrað á spádómakertinu sem minnir á spádómana um komu frelsarans. Jesaja 7.14 og 9.2-6 eða 11.1-10. Annan sunnudaginn er síðan tendrað á Betlehemkertinu sem gefur til kynna hvar Jesús fæddist. Míka 5.2 og Lúkas 2.1-7. Þriðja sunnudaginn er komið að hirðakertinu og hægt að lesa um þá í Lúkas 2.8-20. Fjórða sunnudaginn er kveikt á englakertinu sem minnir á hlutverk englanna í fæðingarfrásögunni, 1. og 2. kafli Lúkasar. Í bænabók hr. Karls Sigurbjörnssonar biskups er að finna góðar leiðbeiningar um helgihald á aðventunni sem og aðra daga ársins.
Farðu í kirkju
Það er til brandari sem segir eitthvað á þessa leið. „Forðist jólaþrengslin. Farið í kirkju allt árið!“ Fyrsta sunnudag í aðventu byrjar nýtt ár í kirkjunni og gott tækifæri til að byrja að sækja kirkju reglulega ef við höfum ekki gert það áður. Gefðu þér tíma til þess að fara í kirkju og láta uppbyggjast og gerðu þér far um að njóta þess fjölbreytta helgihalds sem boðið er upp á.
Komdu öðrum gleðilega á óvart
Það er hægt að gera það með ýmsum hætti, venjulegum og óvenjulegum. Færðu fólki smáglaðning sem á alls ekki von á því. Smákökur í poka fyrir frænda, fallegar orðsendingar með glansmyndum fyrir vinnufélaga, hreingerning fyrir aldraða frænku eða kærkomin heimsókn til einhvers í skammdeginu. Það þarf ekki að kosta mikið. Oft gleður það mest sem ber vitni um umhugsun og undirbúning í kærleika.
Búðu þér til hefðir
Samverur, ákveðinn matur, mæting á ákveðna viðburði og sameiginleg viðfangsefni tengir fólk saman. Hægt er að baka saman, skreyta og föndra fyrir jólin eða fara saman á tónleika eða á aðventukvöld í kirkjunum. Hægt er að föndra músastiga og skrifa inn í þá þakkarefni áður en þeir eru hengdir upp. Það er líka gaman að gera eitthvað allt annað. Gönguferð að kvöldi í þeim tilgangi að skoða jólaljósin og fá sér kakó á eftir, sundferð á Þorláksmessu eða hvað sem er. Foreldrar sem ég heyrði af gefa börnum sínum alltaf nýtt skraut á jólatréið á hverju ári. Jólaskrautið minnir þá stundum á sérstaka atburði sem gerst hafa á árinu hjá viðkomandi barni.
Leggðu áherslu á innihald jólanna
Veldu jólakort með trúarlegum þemum og skrifaðu uppbyggjandi kveðjur í kortin. Ekki líta á það sem kvöð heldur ljúfa þjónustu. Veldu einnig jólaskraut sem minnir á það sem gerðist á jólum. Reyndu að draga fram engla, stjörnur, hjörtu, ljós og önnur kristileg tákn en minnka vægi jólasveinanna. Áhrifaríkt er að setja upp fjárhúsið með Jósef, Maríu og Jesúbarninu. Það fæst á ýmsum stöðum og hægt að kaupa það eða jafnvel búa það til. Sumir hafa þann sið að setja það upp í smááföngum. Fyrst dýrin, svo hirðana, englana o.s.frv þangað til Jesúbarnið kemur síðast á aðfangadagskvöld. Stundirnar í kringum aðventukransinn eru góður tími til þess.
Gefðu af hjarta
Gjafir sem endurspegla umhyggju og alúð gefandans eru alltaf bestar. Reyndu að finna eitthvað sem höfðar til viðtakandans og gefðu þér tíma til þess að gera það. Finndu hjálparstarf og góðgerðarsamtök sem þú vilt sérstaklega styðja fyrir þessi jól og gefðu ákveðið framlag. Síðan er hægt að skrifa það á miða eða kaupa til þess sérstaklega gerð gjafabréf, setja í umslag og setja undir eða á jólatréð til að minna fjölskylduna á að gleði jólanna felst í því að gleðja aðra. Hjálparstarf kirkjunnar býður upp á ýmsar gerðir af gjafabréfum sem hægt er að nota í þessum tilgangi.
Vertu gestrisinn Bjóddu heim fólki en ekki til að heilla það upp úr skónum með flottum mat og fínheitum heldur til þess að eiga gott samfélag. Einföld máltíð í góðra vina hópi gefur mikið.
Hafðu það einfalt
Stundum þarf maður að segja nei, jafnvel við góðum hlutum þegar þeir stangast á við markmið manns um góð og uppbyggjandi jól. Við þurfum að setja mörk og vita hvað við viljum því svo margt er í boði. Betra er að velja færra og gera það vel en að gera allt í stressi og látum. Breyttu ekki öllu í einu. Veldu eitthvað eitt til tvennt sem þú vilt breyta fyrir þessi jól og sjáðu hvernig gengur. Með tímanum er hægt að breyta fleiru.