Sanngirnilegt?

Sanngirnilegt?

Fórn Abels þótti Guði vera girnilegri en sú sem Kain færði honum. Var það sanngirnilegt?
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
15. september 2014
Flokkar

Er lífið sanngjarnt? Já, svo sannarlega er lífið sanngjarnt. Sú er að minnsta kosti niðurstaðan ef við rifjum upp sögur, ævintýri, leikrit og kvikmyndir sem við höfum lesið og séð.

Endar vel

Sígild uppbygging slíkra frásagna er oftar en ekki á þann veg að persónur eru kynntar til leiks. Þær eru misgóðar eins og gengur, sumar eru réttnefndar söguhetjur og aðrar eru skúrkar. Allar hafa sínu hlutverki að gegna í sögunni. Hún flækist síðan og fléttast sem skapar vandamál, háska og alls kyns óvissu. Góður sögumaður kann að segja frá þannig að sá sem fylgist með lifir sig inn í hlutskipti persónanna. Hann finnur fyrir ótta þegar þær lenda í vandræðum, verður sorgmæddur þegar raunir herja, fyllist réttlátri reiði þegar eitthvað gengur á sem er hreinlega ekki sanngjarnt og svo enda velflestar sögur á því að höfundurinn rekur upp flækjuna og nýtir að lokum fallega slaufu.

Já, allt er gott sem endar vel. Góð saga fær góðan endi. Elskendur sameinast, auður kemst í góðra manna hendur, bófar fá makleg málagjöld og heimurinn er jafn góður ef ekki betri en hann var í upphafi sögunnar.

Veruleiki og skáldskapur

En er lífið svona? Erum við kannske búin að lifa okkur svo oft inn í slíkan söguþráð að við erum farin að ganga út frá því að allt endi vel. Finnst okkur að lífið hljóti að vera sanngjarnt fyrst sögurnar eru það? Það væri nú ekki ósennilegt, miðað við hversu mikil áhrif má ætla að allar þessar sögur hafi haft á okkur.

Lífið er auðvitað alls ekki sanngjarnt og veruleikinn er ólíkur hinum uppskálduðu frásögnum. Við þurfum ekki annað en að gægjast í fréttir utan úr heimi til að kynnast hörmulegu hlutskipti systkina okkar í stríðshrjáðum löndum til þess að skynja að engin trygging er fyrir því að réttlæti og sanngirni ríki í tilverunni. Okkur nægir að glugga í sögubækur af frásögnum af grimmum örlögum fólks í þessu landi sem glímdi við náttúruöfl og yfirvöld sem gátu hrifsað frá því eignir, limi og líf þegar minnst varði. Fjölmargir einstaklingar hér á Íslandi á okkar dögum þurfa að þola raunir sem þeir hafa á engan hátt kallað yfir sig og verðskulda ekki.

Já lífið sjálft er ekki eins og skáldskapurinn og í því liggja einmitt töfrar hans. Við sækjum í þessar sögur til þess að gleyma okkar stundarkorn og fáum gleði út úr því að upplifa farsæl og réttlát endalok þar sem allt gengur upp eins og það á að gera.

Raunsæi Biblíunnar

Biblían geymir margar frásagnir sem myndu seint teljast réttlátar. Að því leyti er hún meira raunsæisrit en margar aðrar bókmenntir. Þar er að finna hugleiðingar um þá hlið tilverunnar sem er svo ólík skáldskapnum.

Sagan af Kain og Abel er dæmi um slíka texta. Þar kynnumst við því hversu vanmáttugur maðurinn er andspænis hinu ógnarlega valdi Guðs. Já, Drottinn birtist okkur í þessari sögu sem duttlungafullur Guð. Honum geðjast betur að fórnum Abels en Kains. Af hverju?

Abel var hjarðmaður en Kain ræktaði jörðina. Þetta er svolítið merkilegt vegna þess að hún tengist einhverri stærstu byltingu sem hefur orðið í sögu mannsins – nefnilega þegar hann hætti að ferðast um, að veiða sér til matar eða fylgja búsmala á milli beitarhaga og tók sér fasta búsetu þar sem hann ræktaði jörðina. Þessi bylting leiddi til þess að menn fóru að deila með sér verkum, skrifuðu, geymdu matvæli og byggðu upp flóknari samfélög. Landbúnaðarbyltingin er ein sú stærsta sem orðið hefur í sögu mannsins og gerði honum kleift að ná tökum á tilveru sinni og umhverfi.

Kain og Abel eru að þessu leyti eins og fulltrúar tveggja tíma. Annar stendur fyrir hirðingjann sem lifir í tengslum við móður náttúru. Kain er fulltrúi hins nýja, þess sem lætur jörðina starfa fyrir sig og ræktar hana.

Girnilegri fórn?

Og það er eins og Guð sjái einhverja spillingu fólgna í hinni stórstígu framþróun. Honum geðjast ekki að fórnum Kains. Hvað veldur því? Eru þetta forn varnaðarorð um að ganga varlega inn í nýja tíma með nýjum tækifærum? Eða þótti honum fórn Abels á einhvern hátt girnilegri – já var þetta nokkuð sanngirnilegt, svo maður vitni nú í eina ævintýrafrásögn. Var hlutskipti Kains einfaldlega hið sama og svo margra annarra í tilverunni. Hann vann sitt starf, reyndi að gera sitt besta eins og við öll en svo er það bara einhvern veginn ekki nóg. Ef til vill eins og svo margir hafa mátt reyna í lífinu. Hafa lagt sig fram, byggt upp sín verðmæti en fyrir einhverjar hremmingar sýnir tilveran á sér hliðar sem eru svo óréttlátar og framlag okkar verður einskis metið.

Hver kannast ekki við það?

Fyrir Guði var þetta ekki flókið eins og fram kemur í sögunni. Ef þú ert réttlátur og hefur unnið þitt verk, þarftu ekki að iðrast neins. Kain sætti sig ekki við óréttlætið og brást reiður við. Þá fyrst verður frásögn þessi að réttnefndum harmleik. Fyrsta mannsmorðið varð að veruleika eins og Biblían birtir það og aftur myndast hugrenningartengsl við framstig mannsins í sögunni. Hið þróaða sigrar hið frumstæða. Sjálfsagt hafa hinir fornu sögumenn orðið sjálfir vitni að því hvernig samfélög akuryrkju réðust gegn lítt skipulögðum hirðingjahópum og yfirbuguðu þá. Hið harða hlutskipti alls sem lifir er að lúta í lægra haldi fyrir hinum sterkari og smám saman víkur eitt og annað tekur við. Sú varð raunin í sögunni.

En reiði Kains beindist að því að hann skyldi ekki fá það sem hann taldi sig verðskulda. Hann sætti sig ekki við þær hliðar tilverunnar sem eru að sönnu ósanngjarnar eða í samhengi þeirra fórna sem þeir færðu til Drottins – ekki sanngirnilegar. Og í fari hans skynjum við hrokann sem brýst í gegn. Hann á meira skilið. Ekkert svigrúm er fyrir það sem maðurinn fær ekki stjórnað.

Bæði lexía dagsins og guðspjallið geyma frásagnir af ofbeldisverkum þar sem fórnarlambið var saklaust og átti sannarlega ekki skilið að hljóta þessa meðferð. Undirliggjandi tónn í þessum sögum er óréttlætið sem er svo ríkur hluti af tilverunni. Guð Biblíunnar er ekki slíkur höfundur sem tryggir það að allir hljóti þau laun sem okkur finnst þeir eiga skilið. Því miður er raunin ekki sú. Lífið er miklu flóknara en svo, eins og við ættum öll að vita.

Sá veruleiki skilur okkur í sérstakri stöðu. Annars vegar er hlutskipti okkar það að taka ákveðnum þáttum tilverunnar með æðruleysi. Sumu fáum við ekki breytt og áskorun lífsins er að fallast á þá staðreynd. Fórn Abels þótti Guði vera girnilegri en sú sem Kain færði honum. Var það sanngirnilegt? Nei, en lífslistin felst jú í því að horfast í augu við þá staðreynd að lífið er einmitt ekki klippt og skorið. Hið besta fólk mætir stundum hinu versta mótlæti sem getur kallað fram hinar verstu hliðar en einnig þær bestu.

Samverjinn

Kristur lýsir því hvernig saklaus maður varð fyrir grimmilegu óréttlæti. Ekki var það sanngjarnt hlutskipti. Og hann lýsti því einnig hvernig trúarleiðtogarnir tveir, presturinn og levítinn, gengu framhjá og komu hinum slasaða manni ekki til aðstoðar. Voru þeir ef til vill uppteknir af þeirri fölsku lífssýn að lífið sé sanngjarnt og að fórnarlamb ræningjanna hefði kallað með einhverjum hætti yfir sig þessi ósköp?

En Samverjinn, söguhetjan fræga, leit á slasaða manninn augum kærleikans. Hann gekk inn í aðstæður ranglætis og bætti það sem hann gat bætt. Fordæmið sem hann gefur okkur er mikilvægt. Við dæmum ekki systkini okkar. Við mætum tilverunni með því æðruleysi að lífið er ekki sanngjarnt en við sýnum kjark þegar við getum breytt aðstæðum til hins betra. Og þá höfum við að sönnu uppfyllt tilganginn með jarðvist okkar.