Sköpum birtu í kringum okkur og góðar minningar

Sköpum birtu í kringum okkur og góðar minningar

Hafnfirðingur nokkur var skríðandi við ljósastaur, augljóslega leitandi að einhverju, þegar maður gekk að honum og baðst til að hjálpa honum við leitina: –Já, takk ég finn ekki lyklana mína. Ég skil þig og hvar misstirðu þá?
fullname - andlitsmynd Guðni Már Harðarson
24. desember 2013

Hafnfirðingur nokkur var skríðandi við ljósastaur, augljóslega leitandi að einhverju, þegar maður gekk að honum og baðst til að hjálpa honum við leitina: –Já, takk ég finn ekki lyklana mína. -Ég skil þig og hvar misstirðu þá? – Jú, þarna í brekkunni hinu megin við hólinn! -Nú af hverju í ósköpunum ertu þá að leita hérna við ljósastaurinn? –Jú, sjáðu til það er bara miklu betra ljós hérna við ljósastaurinn!

Manneskjan hefur alla tíð leitað í ljósið. Þetta finnum við sterkt nú þegar jólaljósin lýsa í skammdeginu og veita aukna birtu.

Birtan sem stafar frá hinum fyrstu jólum er falleg, sagan um móðurina ungu sem mitt í vosbúð og vanefnum, hjúfrar barnið að sér og meðtekur hlýju þess, andardrátt og kærleika. Barnið sem spáð var að yrði undraráðgjafi, friðarhöfðingi og frelsari. Barnið sem Davíð Stefánsson orti síðar um: Frá þínum ástareldi fá allir heimar ljós.

Hátíð ljóss og friðar, minnir okkur á að í lífinu þurfum við leiðarljós. Við þurfum að vita hvert er stefnt, hvað eykur á gleði okkar og blessun. Kristin trú boðar þetta leiðarjós. ,,Ég er ljós heimsins“ segir Kristur og býðst til að lýsa okkur veg réttlætis og góðra verka. ,,Því hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkrinu heldur hafa ljós lífsins“ segir Jesús.

Hafnfirðingurinn þráði ljósið en bar það ekki áfram þangað sem vandinn lá. Okkar hlutverk er sjá birtu Guðs og jólanna og láta hana skína áfram. Myrkur getur ekki hrakið myrkur á brott, það getur ljósið eitt gert, hatur getur að sama skapi ekki hrakið hatrið á brott það gerir bara kærleikur og góðvild. Njótum jólanna, sköpum birtu í kringum okkur og góðar minningar.

Gleðileg jól!