Kristur mildar tímann

Kristur mildar tímann

Með það í huga verður kirkja hans staður, sem máir út mörk milli kynslóða, máir út mörk tímans, kirkjan boðar veruleika sem er einn þ.e.a.s. ef hún er trú hlutverki sínu.

Það er nú þetta með tímann. Við áramót og önnur tímamót verður hann gjarnan að umræðuefni. Mikið líður tíminn hratt er viðkvæði þeirra sem finna fyrir árunum. Ég minnist oft á þetta sjálfur og ekki enn orðinn fertugur. Ég neita því ekki að það getur verið gott að brjóta ísinn með þessum vangaveltum, ásamt því að tala um veðrið, en svo er þetta nokkuð sem sækir raunverulega á hugann. Það er sannarlega upplifun mín og annarra að tíminn flýgur áfram. Á æskuárum virðist tíminn ekkert líða, ungdómurinn er líka alltaf að bíða eftir einhverju. Þegar beðið er, líður tíminn löturhægt. Það er verið að bíða eftir því að verða fullorðinn, bíða eftir ökuprófi, lögræðisaldri og ýmsu öðru er snýr að þroska og sjálfstæði. Þegar það er síðan allt í höfn fer tíminn að fljúga. Það er ekki nema þegar áföll dynja yfir, þá hægist á tímanum, þegar svartnætti sorgar umlykur tilveruna. Það þekkja þeir sem reynt hafa og ekkert okkar er undanþegið því að upplifa slíka tíma á einn eða annan hátt. Föstudagurinn langi er t.d.ekki kallaður því nafni vegna þess að hann er lengri en aðrir dagar, heldur vegna þess að það er dagur þjáningar og sorgar, þegar jörðin myrkvaðist vegna þess að ljós heimsins slokknaði. Tíminn er áþreifanlegur, hann er líkamlegur. Tíminn merkir okkur. Þú horfir á hendur þínar og fylgist með þeim taka breytingum, þær eldast, fersk húðin þynnist og þornar með auknum aldri.

“Mínúturnar hníga á hendur mér, dropar sólar og tungls: tímans hér á jörðu. Og hendur mínar eldast hægt, en jafnt og þétt við dropa hvern sem dettur þannig af himni.”

Segir skáldið Hannes Pétursson. Tíminn er skáldum sérlega hugleikinn. Það er líka eitthvað skáldlegt við tímann, í honum felst sköpunarkraftur og drifkraftur. Tíminn er ögrandi og áleitinn. Við óttumst hann, því hann minnir okkur á forgengileikann, með aldrinum færumst við nær dauðanum. Við bregðumst við tímanum á mismunandi hátt en það eru samt að mestu viðbrögð lituð vissum ótta. Sumir hafa engann tíma vegna vinnu, aðrir flýja hann inn í heim afþreyingar og skemmtunar, og ósjaldan verður það þannig að þegar við ætlum að rækta það sem skiptir í grunninn mestu máli þá höfum við ekki tíma. Það er mjög algengt að við sefum ótta okkar gagnvart tímanum, sem líður, með því að vera upptekin. Gæðatími er því miður alltof sjaldgæft fyrirbrigði hjá nútímamanninum sem einmitt hjálpar honum við að takast á við aldurinn og þá staðreynd að dauðinn færist nær. Það er þessi tími sem hægt er að gefa sér með fjölskyldunni og sem má nota til þess að rækta hugsanir um tilgang okkar hér á jörðu. Það er m.a. mjög gefandi að hugleiða tilganginn með þeim hætti að allt það sem þú leggur til í jarðlífi þínu getur ekki verið til einskis, fjölskyldan, starfið, það er einhvern veginn of dýrmætt og stórt svo að ekkert verði þegar líf þitt slokknar hér. Það er gott að spá í mál sem þessi, því það hjálpar þér að vega og meta og leggja rækt við viðfangsefni tilverunnar.

“Þrátt fyrir allt koma aðrir tímar bjartari og betri. Þung sporin þetta háa fjall hver hugsun of veikburða. Minnast þess að seinna verði júlínæturnar blárri himininn hærri og gleðin óspillt alla daga.

Segir annað skáld, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson. Tíminn sækir á hann eins og Hannes og Aðalsteinn Ásberg horfir til framtíðar en á bak við hana hvílir vonin. Þess vegna getum við óhikað talað um kristna trú sem trú vonar. Kristur mildar tímann, með honum verður til nýr tími, nýtt upphaf og eilífð sem aldrei endar. Hann horfir fram á við sbr. í undursamlegri Fjallræðu: “Sælir eru sorgbitnir, því þeir munu huggaðir verða.” “Sælir eru hógværir, því þeir munu jörðina erfa.” Kristur biður þig um að óttast ekki og það á ekki bara við um lífið sjálft, heldur einnig tímann, sem snertir þig á degi hverjum. Það er engin tilviljun að Kristur hafi birst heiminum sem barn. Óttaleysi einkennir hvítvoðung, nýtt upphaf einkennir hann líka, sakleysi, hreinleiki, einlægni, trú, já einlægt traust. Þú gleymir stund og stað þegar þú horfir á hvítvoðung, það er gæðatími, þú hugsar ekki um tímann sem ógn, því barnið er svo nýr veruleiki, nýr einstaklingur, sem á allt lífið framundan. Og allt sem Kristur boðar er nýtt. Engillinn á Betlehemsvöllum sagði við hirðana: “Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð”, sem bendir á nýtt erindi, nýtt fagnaðarerindi, sem gerir alla hluti nýja. Með Kristi virkar tíminn ekki lengur sem ógn, sem við höfum ekki stjórn á, Kristur leiðir okkur áfram með þeirri hvatningu er snýr að óttaleysi, með því að minna stöðugt á gæðatímann og með því að benda á þann nýja tíma, sem honum tilheyrir og fylgir, það er eilífðin. Og hvað er svo eilífð? Það er enginn venjulegur tími. Til þess að gera langa sögu stutta, þá notar Nýja testamentið eilífðarhugtakið aðallega til þess að lýsa Guði, sem ríkir yfir sögunni, sem er hafinn yfir tíma og rúm, sem er upphafið og endirinn. Þar af leiðandi er Jesús Kristur í gær og í dag hinn sami og um aldir. Með það í huga verður kirkja hans staður, sem máir út mörk milli kynslóða, máir út mörk tímans, kirkjan boðar veruleika sem er einn þ.e.a.s. ef hún er trú hlutverki sínu. Þar kemur fólk saman og aldur, staða, kjör og ýmislegt annað það sem aðgreinir okkur í heiminum skal ekki skipta máli, því í kirkju Krists erum við öll eitt, þar fáum við að eiga skjól gagnvart ógnum tímans og öðrum ógnum þessa heims. Kirkjan hefur lengi þjónað því hlutverki að vera griðarstaður. Á ófriðartímum áður flúðu menn inn í kirkjur og nutu griða þar, það þótti mesta hneisa að vega mann og annan í kirkjuhúsi, í dag njótum við þar griða m.a. gagnvart hraða og hávaða nútímans, já gagnvart hraða tímans og öðru því sem kallar á óttaviðbrögð. Þar fær sál okkar rými til að anda, já þar mildar Kristur tímann. Og enn og aftur kemur tíminn við sögu og það í góðri og umhugsunarverðri dæmisögu.Víngarðsmaðurinn bað víngarðseigandann um meiri tíma fyrir fíkjutréð sem hafði ekki borið ávöxt í þrjú ár. Ræktun tekur víst tíma og það tekur tíma að sjá og upplifa ávöxtinn, meira en þrjú ár, meira en þrjátíu ár, jafnvel allt lífið. Víngarðsmaðurinn bað ekki einvörðungu um meiri tíma, hann bað um miskunn, hann bað um það sem litar tímann gæðum og fegurð og hann var reiðubúinn að gera bót, grafa um tréð og bera að áburð, með þeim hætti verður miskunnin virk í lífi okkar og með þeim hætti mildar Kristur tímann, með miskunn sinni og náð. Tíminn verður við það innihaldsríkari og betri, það er sannkallaður gæðatími. Guð er með þér í þeirri stóru umbreytingu, sem slíkt ferli veitir, rétt eins og sáðkorninu er umbreytist í jurt. Það er gott að fá að treysta því, það er gott að geta hugsað til þess við tímamót eins og þessi þegar við finnum áþreifanlega fyrir tímanum, hugsum um liðið og spáum í hið ókomna. Sr. Björn Halldórsson í Laufási dregur þennan boðskap vel saman í kvæði er ber titilinn Áramót:

“Enn hverfur ár, ó, Herra kær, og hinsta stund míns lífs er nær, enn krýndir þú með miskunn mig, þótt mínar syndir styggðu þig. Því bið ég heitt af hjartans rót: Lát hulin brot mín þér á mót og gef mér náð að gjöra bót.” Guð minni þig á hvað má læra af hinu liðna þannig að það nýtist í framtíðinni. Guð gefi þér og þínum gleði, birtu og gæðatíma á nýju ári 2011 í Jesú nafni. Amen.