Vöxtur og viðgangur

Vöxtur og viðgangur

Biblíudagurinn er runninn upp. Vissuð þið það kæru kirkjugestir? Þegar þið risuð úr rekkju í morgun og undirbjugguð ykkur fyrir daginn – voruð þið þá meðvituð um sérstöðu þessa sunnudags?

Biblíudagurinn er runninn upp. Vissuð þið það kæru kirkjugestir? Þegar þið risuð úr rekkju í morgun og undirbjugguð ykkur fyrir daginn – voruð þið þá meðvituð um sérstöðu þessa sunnudags? Líklega er það ósennilegt og ekki lái ég ykkur það. Hann lætur ekki mikið yfir sér í þjóðlífinu Biblíudagurinn. Ekki er flaggað og engar ræður eru haldnar utan þess sem prestar predika venju samkvæmt í kirkjum. Ekki safnast fólk saman á torgum með blöðrur og flögg. Biblíudagurinn fer líklega framhjá flestum.

Ólíkar aðstæður

Það er jú svo margt sem gengur á, hérna í samfélaginu okkar og margt sem hefur gengið á, hagsveiflur og geðsveiflur þjóðar þar sem skiptast á öldutoppar og dalir. Og mitt í einum slíkum dalnum rennur hann upp þessi dagur – Biblíudagurinn. Á hann erindi til okkar?

Á þeim degi hugleiðum við þekkta líkingu Krists á sáðkorninu sem varpað var í jörðu. Það er ekki laust við að myndir komi upp í hugann þegar sagt er frá sáðmanninum sem sáldrar frækornunum yfir mörkina og svo löngu eftir að hann er farin sína leið liggur kornið eftir á jörðinni. Við sjáum það fyrir okkur, hvernig tíminn líður, fætur arka eftir götunni og áfram er kornið kyrrt á sínum stað – vindur feykir því til og frá. Allir ganga erinda sinna – hver með hugann við sitt, frækornið liggur þarna og er varnarlaust fyrir því hvernig umhverfið tekur því. Fæturnir kremja hluta þess og þarna kemur hópur af fuglum sem á hreinsar upp annan hlutann. Það sem ekki kemst í tæri við gróðurmoldina glatar vökvanum sem af himnum kemur og svo þegar skýin hverfa og sólin ein skín þá skreppur það saman og verður lífvana eins og sandkorn.

Já, þessi saga talar til okkar á sjálfum Biblíudeginum, deginum sem fæstir vita af. Nægir þá ekki að segja fyrri hluta hennar? Er nokkur þörf á að rekja framhaldið? Segir það ekki allt sem segja þarf um Biblíuna hversu litlar viðtökur Biblíudagurinn fær?

Leyndardómur sáðkornsins

En sagan heldur áfram og við drögum myndina nær. Nú sjáum við hvernig svolítil breyting verður á því sem lenti á mjúkri moldinni. Eftir að vætan hefur náð að vekja það af blundi og sólin skinið á það þá verður þessi atburðarrás sem vekur gleði hjá þeim sem fást við gróður jarðar – já þetta sem gerir lífið mögulegt hér á jörðinni. Það er kraftaverkið stóra þar sem erfðaefnið tekur við sér, frumurnar skipta sér og hver þeirra geymir í kjarna sínum upplýsingar sem láta þær starfa eins og eftir úthugsuðum skipunum. Sáðkornið þrútnar út af vökvanum og spírur koma úr endum þess. Já, þetta er sannkallað kraftaverk sem við leiðum hugann alltof sjaldan að. Sumar frumurnar eru umluktar lofti og sól og þær mynda stöngul en aðrar teygja sig í hina áttina, niður í frjósama jörðina þar sem þær verða að rótum og í sameiningu stuðla þær að vexti og viðgangi. Komist þær í tæri við aðra lífveru sömu gerðar leiðir það af sér enn eitt undrið. Útkoman verður slík að reglur samlagningarinnar fara lönd og leið. Einn og einn verður ekki tveir, ekki þrír eða fjórir. Nei tvær lífverur geta af sér gríðarlegt magn afkvæma og þegar horft er til næstu kynslóða verður fjöldinn slíkur að tölu verður ekki á hann komið.

Mikil áhrif

Biblían, hvað segir þetta okkur um hana? Í raun er þessi samlíking Krists svo einstaklega raunsönn og lýsandi fyrir það hvernig viðtökur hin helga bók hefur fengið hjá þeim sem hefur fengið tækifæri til þess að kynna sér hana. Frækorn sem fellur til jarðar í þeim tilgangi að vaxa og bera ávöxt er svo merkilega líkt dýrmætu riti sem gengur manna á milli. Það vissu þeir ekki, hinir fyrstu áheyrendur þessarar sögu að í korninu býr þetta ótrúlega flókna kerfi upplýsinga svo að þyrfti langan doðrant til þess að skrásetja þær allar niður. Svo hversdagslegt sem það er – og við finnum þau svo víða í kringum okkur – á trjánum í görðunum okkar, á biðukollunni, kornið sem við setjum út á súrmjólkina á morgnana þetta er samanþjappað magn upplýsinga sem liggur í dvala og bíður eftir því að geta fjölfaldað sig.

Biblían er í margra augum fjarlægt rit og margir hafa hana uppi í hillu án þess að taka hana niður, opna hana og kynna sér upplýsingarnar sem í henni liggja. Samt býr svo mikið í henni, já saga okkar væri svo gerólík ef þessi bók hefði ekki verið rituð. Engin leið er að gera sér í hugarlund Ísland án Biblíunnar. Tunga okkar væri ekki söm, því ritöldin hófst í klaustrunum og útgáfa Guðbrands biskups á Biblíunni markaði meiri þáttarskil fyrir tungu þessarar þjóðar en heilu háskólarnir hefðu getað gert. Siðavitund okkar og löggjöf væri að sama skapi frábrugðin mjög. Tónlistin, myndlistin og annað það sem maðurinn stundar til þess að túlka veruleikann og færa hann upp á æðra plan. Hvar væri þetta statt ef ekki væri fyrir hið auðuga myndmál Biblíunnar. Enn í dag lesum við bækur, horfum á kvikmyndir, hlýðum á tónverk og dáumst að listaverkum sem með beinum og óbeinum hætti byggja á sögum þessarar bókar.

Martin Luther King

En þar er þó ekki nefnt hið veigamesta og mikilvægasta. Biblían er innblástur þeim sem vilja rækja það hlutverk sitt í lífinu sem Kristur boðar okkur. Þeir sem mæta náunga sínum í kærleika þrátt fyrir allan mótbyr og alla hættu eiga sér fyrirmynd í Kristi eða jafnvel öðrum persónum sem ritningin segir frá. Það er þetta sem Kristur kallar stöðugleika. Kannast einhver við þessi orð úr spádómsritinu Jesaja?

Greiðið Drottni veg um eyðimörkina, ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni, sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólar verði að jafnsléttu og hamrar að dalagrundum.

Ekki þarf að hlýða lengi á óratoríuna Messías eftir Handel til þess að heyra þessi orð, þar sem þau koma fyrir í fyrstu aríunni. Ræðan fræga sem markar upphafið að baráttu blökkumanna í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum sækir líka til þessara orða. Séra Martin Luther King lýsti þar draumi sínum um veruleika þar sem hvítir og svartir gætu verið saman í starfi og leik án þess að horfa til húðlitarins. Og þar sem hann telur upp hindranirnar á veginum tekur hann sér þessi orð í munn. Brautin verður bein í auðninni og leiðin til réttlætis verður hindranalaus.

Hann vitnaði líka til sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna frá 1776 þar sem því er lýst yfir að allir menn séu skapaðir jafnir í mynd Guðs. Hvaðan fengu menn þær hugmyndir? Jú, frá fyrstu Mósebók – í upphafi Biblíunnar. Allir menn skapaðir jafnir – og allir menn eiga að vera jafnir, þetta er áréttað þegar í upphafi ritningarinnar. Þótt græðgin, heimskan og hatrið rísi eins og þyrnar upp úr jörðinni og nái um tíma að kæfa slík frækorn frelsis, býr vitundin enn í huga okkar og hver kynslóð sækir í sjóð Biblíunnar uns tíminn er fullnaður. Jarðvegurinn hefur safnað í sig raka og geislarnir brjótast undan skýjaþykkninu. Þá rísa menn upp og sækja í þennan dýrmæta sjóð upplýsinga – rétt eins og frumurnar í sáðkorninu gera þegar það tekur að spíra.

Það er einmitt þetta sem segir í niðurlagi Guðspjallsins. Þeir sem taka við orðinu bera ávöxt „með stöðuglyndi“. Sjáum við ekki þetta stöðuglyndi þegar við hugleiðum verk manna eins og séra Martin Luther King? Það þessi ótrúlega dýrmæti eiginleiki að fylgja köllun sinni jafnvel þótt það kosti – eins og hann fékk sjálfur að reyna fáum árum síðar.

Fall Berlínarmúrsins

Skoðum annað dæmi um stöðuglyndið: Í haust vorum við hjónin í Berlín þar sem menn minnast nú 20 ára afmælis falls Berlínarmúrsins með margvíslegum hætti. Fróðlegt var að lesa umfjöllun heimamanna um þessa atburði og horfa á stóra myndfletina sem sýndu atburðina sem þá áttu sér stað. Umhverfið minnti nokkuð á dæmisögu Krists um sáðkornið sem ýmist skrælnaði, étið upp eða kafnaði í þyrnigróðrinum. Allar stofnanir samfélagsins féllu undir hramm einræðisins. Skipti þar engu hversu göfugt hlutverk þeirra var. Skólakerfið, íþróttafélögin, stjórnmálaflokkar og stéttarfélög – alræðið kæfði þetta allt og beitti fyrir vagn sinn. Ekkert andóf var að finna þaðan þótt þjáningar fólksins væru miklar og færu vaxandi.

Ein stofnun átti sér viðreisnar von í þessu umhverfi og það var kirkjan – hin evangelíska lútherska kirkja í Austur-Þýskalandi. Hún átti svo djúpar rætur og svo mikla næringu sem hún gat sótt í, að aldrei tókst þeim að berja hana til hlýðni. Þegar tók að rofa til og tök flokksins minnkuðu fylltust kirkjurnar af fólki sem vildi tjá frelsislöngun sína. Bænastundir voru haldnar og Biblíur gengu frá manni til manns með þeim afleiðingum að áður en varði gerðist það sem enginn hafði átt von á að myndi gerast næsta mannsaldurinn og framhaldið þekkjum við. Stöðuglyndið er þar aftur að verki. Árin líða og áratugirnir, aðstæðurnar eins erfiðar og hugsast getur en þeir standa stöðugir sem eiga þetta orð í hjarta sínu.

Rómanska-Ameríka

Hið sama má segja um atburðarrásina í Rómönsku-Ameríku þar sem herforingjar tróðu á mannréttindum. Þar predikuðu prestar í kirkjum og sumir þeirra voru jafnvel ráðnir af dögum – stundum fyrir framan altarið í guðsþjónustu. Þeir vitnuðu í hina helgu bók og fordæmdu þá sem hatast við náungann en elska hann ekki. Þeir fordæmdu þá sem beita ekkjuna og munaðarleysingjann órétti og láta sér í léttu rúmi liggja þótt fólk sé svipt eigum sínum og hrakið á vergang. Aftur sækja menn í djúpan jarðveg sem orðið sprettur upp úr og horfa upp eftir digrum stönglinum sem teygir sig hátt til himins. Aftur sama sagan. Hér eru ekki tækifærissinnar og vindhanar sem snúa sér eftir því sem vindarnir blása – heldur traustir og stöðugir einstaklingar sem ekki láta hugfallast.

Biblíudagurinn er að kvöldi kominn. Líf okkar væri svo frábrugðið því sem það er ef ekki væri fyrir heilaga ritningu. Hérna á Íslandi sem víðar hafa menn staðið í mikilli naflaskoðun. Hegðun sem eitt sinn þótti djörf og aðdáunarverð er nú fyrirlitin og þjóðin horfir með hryllingi upp á það hversu lítil virðing hefur verið sýnd miklum verðmætum. Hvað kemur út úr þessu endurmati er ekki gott að segja. Eitt er þó víst að við ættum ekki að stíga inn í framtíðina án þess að horfa til þess mikla fjársjóðs sem orð Guðs er:

[Sáðkornið] er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.

Já, þessir eiginleikar mæta þeim sem varðveitir orð Guðs. Þeir taka við því í sitt góða hjarta og þeir bera ávöxt. Þeir bera ávöxt í stöðuglyndi. Sannarlega á Biblíudagurinn erindi til okkar. Biblían leitar inn í hvert það góða hjarta og gefur því festu og stöðugleika til þess að geta miðlað kærleikanum áfram til umhverfisins hvernig sem vindarnir blása.

Flutt við kvöldguðsþjónustu í Keflavíkurkirkju á Biblíudaginn.