Á ferð um Garðastræti með hundstönn í eftirdragi

Á ferð um Garðastræti með hundstönn í eftirdragi

Árleg kvikmyndahátíð haustsins er liðin. Tvær kvikmyndir vöktu sérstaka athygli mína fyrir óvenjuleg efnistök. Þær eiga það sameiginlegt að lýsa persónum sem hafa einangrast, sjálfviljugar eða ekki, og þannig komist úr takti við raunveruleikann og veröldina eins og hún er.
fullname - andlitsmynd Íris Kristjánsdóttir
30. september 2009

Árleg kvikmyndahátíð haustsins er liðin. Skemmtileg vika er að baki, nóg við að vera fyrir forfallna kvikmyndaáhugamanneskju. Tvær kvikmyndir vöktu sérstaka athygli mína fyrir óvenjuleg efnistök. Þær eiga það sameiginlegt að lýsa persónum sem hafa einangrast, sjálfviljugar eða ekki, og þannig komist úr takti við raunveruleikann og veröldina eins og hún er.

Garðastræti  Önnur er mexíkanska myndin Parque via, eða Garðastræti. Myndin fjallar um fyrrum þjón, Beto, sem hefur tekið að sér að gæta húss í eigu ríkrar konu sem hann hefur starfað hjá í fjölda ára. Hann dvelur einn í þessu húsi alla daga, einu samskipti hans við umheiminn er við vinnuveitandann og unga ástkonu sem heimsækir hann vikulega. Hann á mjög erfitt með að yfirgefa þennan örugga heim sinn og ef þess reynist þörf, s.s. til innkaupa, þá líður honum afar illa, á í hættu að falla í yfirlið og hvaðeina. Tilveru hans er ógnað þegar húsið er selt og honum er tilkynnt að hann þurfi að flytja. Myndin lýsir því hversu auðvelt er að festast í viðjum vanans, hvernig síendurtekin atvik daglegs lífs, einföldustu hlutir, geta orðið eina haldreipið við raunveruleikann og umhverfið. Beto finnur í lokin á mjög óvenjulegan hátt leið út úr vandanum, leið til að viðhalda hefðinni og vananum án þess að raska um of hinum daglegum athöfnum sínum.

Dogtooth  Hin myndin sem vakti athygli mína er gríska myndin Dogtooth, Hundstönn, sem fjallar um mjög óvenjulegar uppeldisaðferðir foreldra. Þau loka þrjú börnin sín, tvær stúlkur og einn dreng, frá umheiminum og skapa eigin veröld innan hússins og garðsins þar í kring. Unga fólkið fær aldrei að fara út fyrir mörk hússins og eina manneskjan sem þau hitta er ung kona sem foreldrarnir hafa fengið til að fullnægja kynferðisþörfum sonarins. Þessi mynd er afar sérstök, hún sýnir á óhugnanlegan hátt hvernig ótti og umhyggja foreldra gagnvart börnum sínum snýst upp í andhverfu sína þegar einangrun, ímyndaður veruleiki, kúgun og niðurlæging stýrir gjörðum þeirra. Börn þeirra, sem í raun eru engin börn lengur, ungt fólk um eða yfir tvítugt, eru mötuð af upplýsingum um lífið og tilveruna af foreldrum sínum, öllum spurningum er svarað með tilbúningi, öllum mótþróa er svarað með aga og ofbeldi. Eitthvað hlýtur að láta undan, og í lokin brýst eldri dóttirin út úr einangruninni með afdrifaríkum hætti.

Þetta þema um einangrunina vakti athygli mína í myndunum tveimur. Aðlögunarhæfni okkar mannanna er með ólíkindum, við getum vanist ótrúlegum hlutum, bæði góðum og slæmum, og lifað með þeim þar til þeir verða ómissandi hluti tilverunnar. Beto hafði skapað sér sinn eigin heim úr ytri aðstæðum sem hann var sáttur við og gat ekki lifað án. Börnin í Hundstönn höfðu ekkert um það að segja hvernig lífi þeirra var háttað, þau voru algerlega háð lögum og reglum foreldra sinna. Og þó að eitt þeirra hafi að lokum brotist undan því oki, þá voru hin örugg í óttanum, ógninni, aganum. Hvað segir þetta um okkur? Raunsæi sögu Beto er vissulega meiri en hinnar, mér skilst einnig að saga hans sé byggð á sönnum atburðum. Við eigum auðvelt með að setja okkur í spor þessa einangraða manns, við getum ekki kallað hann einmana því það var hann sannarlega ekki. Hann naut einverunnar og þess litla sambands sem hann hafði við umheiminn. Enda var hans heimi ekki þvingað upp á hann, hann átti þátt í að velja og taka ákvarðanir um tilveru sína sjálfur. Allt annað er upp á teningnum í Hundstönn. Unga fólkið hefur ekkert um það að segja hvernig tilveru þeirra er háttað. Og eins og alltaf þar sem kúgun, valdníðsla og undirokun er við völd, þá kraumar undir niðri ótti, siðleysi og óheilbrigði.

Boðskapur myndanna er kannski fyrst og fremst að sýna fram á aðlögunarhæfni mannsins við óvenjulegar aðstæður. Mörgu ráðum við sjálf um framvindan eigin lífs en alls ekki öllu. Við sækjum í öryggi og öryggið felst í því sem við þekkjum og erum vön, jafnvel þó að það sé ekki alltaf gott fyrir okkur. Ég finn mig í sporum Beto sem var sáttur við lífið eins og það var og vildi ekki breytingar. Einveran var það sem hann leitaðist eftir og í henni fann hann friðinn, sáttina. Einmitt það sem við öll viljum, ekki satt?