,,Hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?”

,,Hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?”

Guðspjall: Lúk. 10. 25-37 Lexia: Sálm 25. 2-14 Pistill: Gal. 3. 15-22

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hvað á ég að gjöra, spyr lögvitringuinn, til þess að öðlast eilíft líf. Þetta vissi hann ekki, þó kunni hann lögmálið nánast utan að. Í það minnsta gekk Jesús úr skugga um það að lögvitringurinn kynni hið tvöfalda kærleiksboðorð. En Jesús vissi að hann skorti tileinkunina sem einungis er möguleg í samfélagi við annað fólk. Enginn getur af sjálfum sér öðlast eilíft líf. Þetta vissi lögvitringurinn ekki og því var ekki um neina tileinkun að ræða hjá honum á hinu tvöfalda kærleiksboðorði. En Jesús sagði við hann: Gjör þú þetta og þú munt lifa. Jesús bauð honum að tileinka sér þetta boðorð en lögvitringurinn var ekki búinn að gera sér grein fyrir því hvað felst í því að elska Guð og náunga sinn eins og sjálfan sig. Þess vegna sagði Jesús honum dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. En þessi dæmisaga er sögð til þess að sýna okkur hvað felst raunverulega í því að tileinka sér hið tvöfalda kærleiksboðorð í samfélagi við annað fólk.

Sagan af miskunnsama Samverjanum stendur okkur ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Það er mjög eftirminnilegt hvernig Samverjinn bregst við aðstæðum hins dauðvona manns sem liggur á veginum. Samverjinn sveigði ekki framhjá likt og presturinn og levítinn heldur kenndi í brjósti um hann, bjó um sár hans og flutti til gistihúss og ól þar önn fyrir honum. Slíkur var kærleikur hans að halda mætti að Samverjinn stæði í mjög mikilli þakkarskuld við þennan mann. Og ekki spurði Samverjinn manninn um nokkurn hlut heldur gerði það sem hann vissi að honum bar að gera.

Þessi mynd af Samverjanum er mjög lík frásögnum guðspjallanna af Jesú Kristi sem lét sér annt um allan hinn þjáða heim. Hvarvetna gat að líta hungraða einstaklinga, sjúka og lamaða, útskúfaða og fangelsaða. Jesús Kristur, sonur Guðs, spurði einskis. Hann vissi hvað honum bar að gera. Jesús gekk inn í þeirra kjör og læknaði þá og huggaði.

Þannig hvetur þessi dæmisaga okkur til eftirbreytni, um að fylgja fordæmi Krists og gefa okkur að þeim sem eru líknar og hjálparþurfi.

En þessi dæmisaga felur í sér dýpri sannindi en þetta. Þessi sannindi varða ókunna ódauðvona manninn sem Samverjinn lét sér annt um. Hver er hann? Lögvitringurinn spurði Jesú: Hver er náungi minn?

Eitt sinn átti ég eftirminnilegt símtal við aldraða konu sem hringdi á elliheimili sem ég vann á. Gömlu konunni var mikið niðri fyrir og kvaðst sér og sínum manni vera allar bjargir bannaðar úr þessu sökum sjúkleika og elliglapa. Hún spurði mig hvort þau hjónin gætu ekki komist inn á elliheimilið.

Mér varð fátt um svör því að ég vissi að elliheimilið var yfirfullt. Ég ráðlagði henni að að tala við stjörnendur elliheimilisins. Símtalið varð ekki öllu lengra. Ég heyrði á gömlu konunni að henni var mjög brugðið. Eftir á fannst mér ég hafa brugðist gömlu konunni. Þá komu upp í huga minn orð Jesú Krists: "Hvað sem þér gjörið einum mínum minnstu bræðra það gjörið þér mér". Á því andartaki fannst mér ég hafa brugðist Jesú Kristi sjálfum.

Í huga okkar hljóma orð Jesú: "......það gjörið þér mér".

Hér er hreyft við djúpum og miklum sannindum sem varðar kærleiksboðorðið en allt okkar líf á að byggjast á þessu boðorði. Og hver er nú mynd okkar af ókunna manninum sem Samverjinn tók að sér í kærleika? Við viljum örugglega segja það sem er svo satt og rétt að ókunni maðurinn birtir okkur Jesú Krist þar sem hann liggur í vegkantinum, barinn, hálfnakinn og dauðvona. Hann þarfnast hjálpar okkar. Hann er náungi okkar.

Við erum öll kölluð til kærleiksþjónustu. Sú þjónusta á að vera án nokkurra verðleika af okkar hálfu því að Jesús Kristur gerði svo mikið fyrir okkur með krossferli sínum að enginn megnar að ganga þessi sömu spor. Engu að síður býður Jesús okkur að fylgja sér og honum verðum við að treysta og hlýða. Upp í huga okkar koma e.t.v. orð sr. Hallgríms Péturssonar:

,,Krossferli að fylgja þínum fýsir mig Jesús kær væg þú veikleika mínum þó verði ég álengdar fjær. Þá trú og þol vill þrotna þrengir að neyðin vönd reis þú við reyrinn brotna og rétt mér þína hönd".

Guð hefur að fyrra bragði auðsýnt okkur meiri kærleika en við getum nokkurn tíma auðsýnt honum, þ.e. þegar Guð í Jesú Kristi úthellti blóði sínu í okkar stað á krossi og fyrirgaf okkur syndir okkar. Þar rétti hann okkur sína sáttarhönd. Fyrir þetta stöndum við í ævarandi þakkarskuld við hann.

Með þeim hætti endurlífgaði Jesús Kristur okkur til lifandi samfélags við sig. Þetta samfélag er kirkjan, söfnuður Jesú Krists. Margir eru hjálparþurfi á Húsavík sem annars staðar. Margir búa við sorgir, þraut og böl. Þetta vitum við öll. Þrátt fyrir það eru þeir margir sem láta neyðina í kringum sig ekkert varða. Þessir einstaklingar ganga framhjá líkt og presturinn og levítinn í guðspjallstextanum. Sumir einstaklingar halda því fram að þeir megni ekkert að gera þótt þeir vilji því að neyðin sé svo mikil og stór. En minnumst þess að Guð gerir mikið og stórt úr hinu smæsta. Það er hans vilji.

Orð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi lýsa þessu einkar vel:

Gef þig á tal við bláeyga barnið sem býr til myndir úr leir Þar er heilagur vilji að verki sem vex meðan grasið deyr.

Guð mun sjá um að þjónusta okkar vaxi og blómgist. Þegar við gefum okkur á tal við þá sem búa við neyð þá skulum við minnast þess að þá þjónum við Kristi sjálfum. E.t.v. skynjaði Samverjinn að kærleiksþjónusta sín væri sjálfsögð og réttmæt uppfylling á boðorðum Guðs.

Lögvitringurinn vildi eignast eilífa lífið.

Kristur benti honum á að eilífa lífið væri fólgið í þessari kærleiksþjónustu. Eilífa lífið byrjar hér og nú þegar við tileinkum okkur hið tvöfalda kærleiksboðorð með lífi okkar og starfi. Og þegar við göngum út úr Húsavíkurkirkju þá höfum við myndina af þjónustu Samverjans fyrir hugskotssjónum okkar og orð Jesú Krists hljómandi í huga okkar: "Far þú og gjör hið sama". Megi Guð gefa okkur náð til þess að svo megi verða. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

sr. Sighvatur Karlsson flutti þessa kynningarprédikun í Húsavíkurkirkju 24. ágúst 1986.