Íþróttir og mannréttindi

Íþróttir og mannréttindi

Hér á landi hefur til að mynda átt sér stað gríðarleg eignatilfærsla á liðnum árum sem án efa þolir ekki nákvæma skoðun með sjónglerjum hins ýtrasta réttlætis ...
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
05. september 2008

Í Kína reyndu íþróttamenn með sér á Ólympíuleikunum í ágúst. Íslendingar hafa staðið sig vel í handbolta og gera það vonandi áfram. Í Kína er ekki bara keppt í íþróttum því þar eru einnig margir sem vilja keppa að betra heimi og gera það með því að tala um mannréttindi og mannréttindabrot en mega það ekki fyrir stjórnvöldum þar í landi. En vonandi hafa leikarnir, þrátt fyrir afstöðu stjórnvalda í Kína, jákvæð áhrif á þróun mála og efla mannréttindi í heiminum. Kínverjar virðast eiga erfitt með að skilja afstöðu Vesturlandabúa til mannréttinda og félagslegra framfara. Og við eigum um leið erfitt með að skilja hugsunarhátt þeirra.

Hvaðan er okkur Vesturlandabúum komin þessi áhugi á mannréttindum? Fullyrða má að með hverri manneskju búi vitund um rétt og rangt. Ætli réttlætisvitundin sé okkur ekki meðfædd að miklu leyti og sé þar með gjöf Guðs? Kristin trú hvetur fólk til að finna til samstöðu með öðru fólki og vinna að eflingu mannréttinda. Auðvelt er að benda á hina Gullnu reglu Jesú sem aflvaka í þeim efnum: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra. Og Tvíþætta kærleiksboðorðið sem hvetur okkur til að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf.

Um allan heim er til fólk sem á sér draum um betri heim. Eru það eintómir draumórar? Þegar við horfum á heiminn þá sjáum við að kúgun er beitt á ýmsum stöðum. Harðstjórar eru víða við völd og kúga fólk. Um allan heim maka menn krókinn á kostnað annarra. Hér á landi hefur til að mynda átt sér stað gríðarleg eignatilfærsla á liðnum árum sem án efa þolir ekki nákvæma skoðun með sjónglerjum hins ýtrasta réttlætis. Enda þótt séum laus við harðstjórn hér á landi á sér samt stað valdabarátta og harðvítug hagsmunagæsla. Og stundum gleymist hagur heildarinnar í þeirri baráttu.

Hvenær mun réttlætið ná fram að ganga? Er vonin um betri heim aðeins draumsýn? „Imagine“, söng John Lennon. Hugsaðu þér, söng hann, reyndu að sjá fyrir þér nýjan heim. Já, þið kallið mig kannski draumóramann, bætti hann við, en ég er ekki sá eini.

Já, þau sem þrá frið og réttlæti eru mörg. Hvenær mun réttlætið ná fram að ganga? Hvenær verður hin fullkomna veröld til? Samtímamenn Jesú sáu djarfa fyrir nýrri veröld í orðum hans og verkum. Þeir töluðu um nýja tíma, um nýja veröld. Nýr sáttmáli Guðs og manna varð til, ný skil í sögunni, með nýrri von og trú um betri heim. Jesús fór um sveitir og bæi með kyndil nýrra tíma. Ný öld var runnin upp. Við lifum enn þessa nýju öld. Og við höfum verk að vinna í þessum heimi, erum kölluð til að stuðla að réttlæti, friði og sanngirni. Við erum öll keppendur á Ólympíuleikum réttlætisins. Keppum þar til sigurs!