París - Sandgerði

París - Sandgerði

Reynsla þessi sýndi mér það sem aldrei fyrr að einu gildir hvers eðlis skilaboðin eru, veruleikinn sem við okkur blasir eða það sem í hendur okkar er rétt – ef móttakan er ekki sem skyldi. Ef við skellum skollaeyrum við því og látum okkur það í léttu rúmi liggja verður ljósið sem skín í myrkrinu – ljós heimsins sem á að vísa okkur leiðina okkur ekki notadrjúgt.

Nú eru síðustu forvöð að tala um jólin og ætla ég að nýta mér það. Í dag er jú síðasti sunnudagur eftir þrettándann. Næsta sunnudag er hins vegar runnin upp níuviknafasta og nýr tími kirkjuársins runninn upp.  

Jólin formlega að enda

Hverju er þá við bætandi umræðuna um jólin? Hin árvissa jólafasta nútímans er hafin. Fólk skoðar megrunarkúra af miklum áhuga og slegist er um brettin í ræktinni. Hátíðin var auðvitað vel þess virði. Jólin skörtuðu þrátt fyrir allt sínu fegursta, fannahvít víðast um land þrátt fyrir spár um suðvestan storm með úrkomu og hávaða. Og kirkjan ómaði öll. Hér var mikið fjölmenni við þrjár guðsþjónustur á aðfangadag og þéttsetinn bekkurinn aðra messudaga hátíðanna. Á aðventunni komu þúsundir gesta hingað í kirkjuna. Við skynjuðum það sem aldrei fyrr hversu sterka stöðu við höfum hér í samfélaginu. Við eigum svo ríkt erindi hingað.

En við kveðjum helgi jólanna og ber stólræðan að þessu sinni sömu merki. Það er ákveðin megrun í gangi hérna sem víðar en jólin þó enn hugstæð. Umfjöllunarefnið er í senn hversdagslegt og hátíðlegt: Nýjasta jólagjöfin verður hér til umfjöllunar. Sjálfur eignaðist ég slíkan grip fyrir hálfu öðru ári þegar fjölskyldan keypti notaðan bíl hér í bæ. Þá fylgdi með í kaupunum lítið undratæki með skjá og nokkrum tökkum, dæmigerð afurð nútímavísinda sem er í senn gagnleg hjálparhella, leikfang og síðast en ekki síst – gestaþraut sem útheimtir lærdóm, æfingu og eiginleikann til þess að setja sig í ný spor og laga sig að nýjum verkefnum.

Tækið ekki nýtt sem skyldi   Sá þáttur getur oft verið veikur hlekkur í annars óslitnu sigurverki flinkra hönnuða og þúsundþjalasmiða austur í Asíu sem fylla heimili okkar af nýjum og nýjum leiktækjum og endurnýja stöðugt hugmyndir okkar um það hvað er nauðsynlegt og hvað eru nauðsynjar. Stundum er það svo að ekki nema lítið brot af þeim möguleikum sem þeir hafa upphugsað og skapað verður að veruleika í höndum kaupandans sökum vanþekkingar hans.

Þetta var sem sagt leiðsögutæki, þar sem ég átti að geta með einni snertingu valið áfangastað, stillt inn hnit eða skrifað inn eitthvert heimilisfang þangað sem förinni var heitið. Í fljótu bragði virðist ekki mikið á notandann lagt miðað við þau ósköp sem framleiðandinn hefur þurft að leggja á sig. Sjálfur hefði ég seint fjárfest í svona grip. Á slíku er vart þörf á Íslandi, eða hvað? Er einhver staður hér sem svo erfitt er að finna að þörf er á leiðsögutæki? Það væri þá helst í nýjum úthverfum á höfuðborgarsvæðinu. En þar sem ég var orðinn lukkulegur eigandi að slíkum grip hófst ég þegar handa við að læra á hann og reyna að finna einhver hagnýt not fyrir hann.

Og nú var förinni heitið til Frakklands í sumarleyfi þar sem okkar beið hús í úthverfi Parísar og lítill franskur fólksbíll – hvort tveggja létum við í skiptum fyrir hús og bifreið hér heima á klakanum. Okkar beið það lítt öfundsverða verkefni að aka litlum frönskum fólksbíl frá De Gaulle flugvelli að tilgreindu húsi í úthverfi þessarar þéttbyggðu borgar með iðandi mannlífi, götuhornum og blóðheitum bílstjórum. Hvað var þá betra að hafa í farteskinu en litla Garminn – eða svo var ég farinn að kalla hann.

Jesús, Móse og Elía

Þesssi litli hlutur sem skyndilega var kominn í hendur mínar hefur ákveðna tengingu við guðspjall dagsins. Þar er fjallað um ferð Krists ásamt þriggja lærisveina sinna upp á fjall þar sem merkilegir atburðir gerast og sannarlega furðulegir atburðir þar sem skyndilega birtast við hlið hans helstu persónur Gamla testamentisins: Móse og Elía. Hvers konar undur voru þar á ferðinni? Hvaða viðburður var þetta sem átti sér stað frammi fyrir augum þeirra og kom þeim augljóslega í opna skjöldu? Og sjálfur Guð lætur raust sína hljóma af himnu ofan rétt eins og hann hafði gert í önvderðu hjálpræðissögu Krists þar sem hann var skírður í ánni Jórdan. Þarna ummyndaðist Kristur og augu þeirra opnuðust fyrir nýjum veruleika.

Framhaldið er öllum ljóst. Þessi undur felldu í eina samfellu fyrir þeim allan þann veruleika sem fagnaðarerindið snýst um. Þarna birtist þeim sá veruleiki sem hafði verið að brjótast um í huga þeirra þar sem þeir fylgdu eftir meistara sínum, sáu hann vinna undur og heyrðu hann flytja boðskapinn um Guðs ríkið. Þessi texti er dæmigerður fyrir þá nálgun sem guðspjallamaðurinn tekur þegar hann ræðir um Krist. Hann líkir honum gjarnan saman við Móse, leiðtoga Ísraelsmanna, og kostar kapps um að fá gyðinga til þess að greina samhengi hjálpræðissögunnar í þessum efnum.

Ljós heimsins

Þarna ummyndaðist hann og af honum lýsti. „Ljós heimsins“ köllum við hann. Þegar við hefjum guðsþjónustur hér í Keflavíkurkirkju rifjum við upp þann veruleika. Við tölum um í því sambandi að hver sá sem fylgi því gangi ekki í myrkri heldur hafi ljós lífsins. Það er einmitt málið með þessa frásögn. Undrið mikla uppi á fjallinu birtir okkur þá tvo menn sem höfðu leitt þjóðina áfram. Móse sem bjargaði henni burt úr þrælahúsinu í Egyptalandi og leiddi hana allt til þess er fyrirheitna landið blasti við augum hennar. Og Elía, spámaðurin mikli sem hafði beint þjóðinni frá braut örvæntingar og hjáguðadýrkunar og haldið henni á hinum braut Guðs mitt í þrengingum og hallæri.

En Kristur er annað og meira. Hann er hinn elskaði sonur Guðs sem hann hefur velþóknun á. Í því felst sú afstaða sem við köllum kristindóm. Hún snýst ekki eingöngu um það sem fyrir skynfæri okkar ber, heldur það hvernig við tökum við því. Hvaða áhrif það eru sem kristinn maður verður fyrir af ritningunni? Af þeim texta sem honum er fluttur. Það er aðra höndina boðskapur guðspjallsins. Það að vera kristinn er að taka við leiðsögninni sem Kristur færir okkur. Barnið sem hér var borið til skírnar fær það í gjöf og það fylgir því í gegnum lífið. En allt þetta byggir á því hvernig viðtökur okkar eru. Hvernig fögnum við því sem okkur hefur verið fært og gefið?

París – Sandgerði

Það er ekki svo ósvipað því þegar okkur áskotnast flókinn smíðisgripur sem færustu hönnuðir og smiðir hafa sniðið og sett saman – en svo fer hann í hendur einhvers sem ekki gerir réttu hlutina og þá virkar það ekki sem skyldi. Og ég var staddur þarna á hraðbraut í Frakklandi, með fjölskylduna í pasturslitlum smábíl innan um trukka og sportbíla á leið frá flugvellinum í eitthvert íbúðarhús sem ég hafði aldrei komið í rétt fyrir utan miðborgina.

Já, þarna hafði tæknin heldur betur létt mér lífið. Ég hafði gert nokkrar lauslegar tilraunir til þess að læra á hann áður en lagt var af stað að heiman en jafnan fékk ég upp sömu göturnar – höfnina við Sandgerði þar sem fyrri eigandi bifreiðarinnar hafði greinilega starfað. Það olli mér þó ekki miklum áhyggjum. Hann hlyti að finna sinn stað í tilverunni þegar til Frakklands væri komið og ég fylgdi öllum leiðbeiningum. Leiðsögnin myndi vart bregðast þegar á hólminn væri komið og mest þyrfti á henni að halda.

En þegar mest á reyndi og ég hafði slegið inn að ég hélt að nú væri leiðin greið á áfangastað, upp runnin ögurstund, sveik tækið heldur betur. Í stað franskra götuheita, hraðbrauta, mislægra gatnamóta og fyrirmæla um beygjur og annað nauðsynlegt – sýndi garmurinn mér Sandgerðisbæ með höfnina og iðnaðarsvæðið þar í kring. Lítið gagn af því! Við komumst þó við illan leik á áfangastað með hjálp gamaldags korts og hafandi farið ófáa hlykki á leiðinni.

Ef við kunnum

Reynsla þessi sýndi mér það sem aldrei fyrr að einu gildir hvers eðlis skilaboðin eru, veruleikinn sem við okkur blasir eða það sem í hendur okkar er rétt – ef móttakan er ekki sem skyldi. Ef við skellum skollaeyrum við því og látum okkur það í léttu rúmi liggja verður ljósið sem skín í myrkrinu – ljós heimsins sem á að vísa okkur leiðina okkur ekki notadrjúgt.

Nú þar sem við kveðjum hátíðina og höldum inn í hversdaginn með öllum sínum kostum og göllum er vert að leiða hugann að því að Kristur á erindi til okkar á öllum tímum í öllum aðstæðum. Hann leiðir líf okkar áfram eftir þeirri braut sem farsælust er og leiðir til velfarnaðar ... aðeins ef við kunnum að taka við leiðsögninni.  

 

Textar: 5Mós. 18.15, 18-19; 2.Pét.1.12-19 (20-21) og Mt. 17.1-9