Tveir hópar, með eða á móti

Tveir hópar, með eða á móti

Fræin í sögunni voru kannski mjög lík áður en þau spruttu upp og kannski erfitt að þekkja þau í sundur, en fullvaxin skiptust þau aðeins í tvo hópa… við getum séð sáðmanninn fyrir okkur dreifa fræjunum og óvininn koma á eftir og dreifa sínum fræjum yfir sama svæði… fræin tákna boðskap, annars vegar fagnaðarerindi Guðs og hins vegar allan annan átrúnað eða vantrú… það eru bara tveir hópar… og þeir skiptast ekki í vonda og góða… heldur hvort við trúum á Jesú eða ekki.

Slm 145.1-7, Post 4.32-35 og Mrk 16.9-14

Prédikun     Tveir hópar, með eða á móti. 

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.

Textinn í postulasögunni sagði að postularnir og aðrir sem höfðu tekið trú á Jesú, hafi fengið vonina aftur þegar hann reis upp og… þeir hófu að vitna um hann af miklum krafti… Dæmisögur og kenningar Jesú fengu byr undir báða vængi… þeim hafði aukist skilningur á ritningunni og fólk flykktist að þeim. Frásögnin segir að fólk hafi selt allar eigur sínar og afhent postulunum… Eitthvað höfðu menn samt misskilið Jesú. Hann hafði sagt að Hann myndi koma aftur þegar hann hefði búið þeim stað… þeir voru byrjaðir að bíða… en tíminn leið og ekkert bólaði á endurkomu hans… Svo hvað var það sem postularnir misskildu?  

Eftir að Jesús steig upp til himins, fóru þeir til Jerúsalem og biðu þar… á Hvítasunnudag var heilögum anda úthellt yfir þá og þeir fengu aukinn kraft til að prédika og fólk flykktist að þeim… og eins og texti dagsins sagði… þá seldi fólk allar eigur sínar og byrjaði að bíða eftir Jesú… Fólkið var með einum huga, eitt takmark og safnaðist allt saman á einum stað… í Jerúsalem…

Munið að Jesús sagði að við værum salt jarðar… þarna var allt saltið komið í eina skeið… Lærisveinarnir sem eru nefndir postular eftir að heilagur andi kom yfir þá… voru valdir af Jesú, til þess að læra af honum og miðla þekkingunni áfram… Í Post (1:8-9) segir: þið munuð öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir ykkur og þið munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ Þegar hann (þ.e. Jesús) hafði mælt þetta varð hann upp numinn að þeim ásjáandi og ský huldi hann sjónum þeirra… Þetta voru síðustu orð Jesú… svo þarna lá misskilningurinn?  þeir áttu ekki að setjast niður og bíða… þeiráttu að fara í trúboð… allt til endimarka jarðar

Guð á himnum er Guð allra… þess vegna þurfa allir, að fá að vita að þeir hafi kost á eilífu lífi í Ríki Guðs… Þetta trúboðs-verkefni stendur enn yfir… við boðum trúna og kennum að Ríki Guðs stendur öllum til boða… Guð gaf okkur ekki frjálst val, sem er merkingarlaust… eða… til þess að taka þetta val af okkur strax eftir dauðann… alla ævi okkar erum við að velja fótsporin okkar hér á jörðu en mikilvægast er að átta sig á að ,,í þessu lífi” þurfum við að velja hvar við ætlum að vera í eilífðinni…

Jesús kenndi í dæmisögum… og allar hvetja þær okkur til að taka afstöðu… varðandi átrúnað… Við prédikum að Guð sé kærleikur og í kærleika sínum leyfir Guð okkur að velja… það kemur fyrir að við erum ekki sátt við val barnanna okkar… en við vonum í lengstu lög að þau sjái að sér… Við erum börn Guðs… hann vonar í lengstu lög að við veljum Ríki hans. Í dag flæða yfir okkur upplýsingar í gegnum netið og oft erfitt að sjá hvað er falsfrétt og hvað er satt. Í því sambandi er farið að kenna fólki að lesa fréttir með gagnrýnum augum og þekkja falsfrétt… það sama gildir um átrúnað… en ein af dæmisögum Jesú sýnir svipað dæmi… það er dæmisagan um sáðmanninn…Matt 13:24-30 

Aðra dæmisögu sagði Jesús þeim: „Líkt er um himnaríki og mann er sáði góðu sæði í akur sinn. En er menn voru í svefni kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt kom illgresið og í ljós. Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið? Hann svaraði þeim: Þetta hefur einhver óvinur gert. Þjónarnir sögðu við hann: Viltu að við förum og reytum það? Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið gætuð þið slitið upp hveitið um leið. 30 Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því en hirðið hveitið í hlöðu mína.“

Fræin í sögunni voru kannski mjög lík áður en þau spruttu upp og kannski erfitt að þekkja þau í sundur, en fullvaxin skiptust þau aðeins í tvo hópa… við getum séð sáðmanninn fyrir okkur dreifa fræjunum og óvininn koma á eftir og dreifa sínum fræjum yfir sama svæði… fræin tákna boðskap, annars vegar fagnaðarerindi Guðs og hins vegar allan annan átrúnað eða vantrú…  það eru bara tveir hópar… og þeir skiptast ekki í vonda og góða… heldur hvort við trúum á Jesú eða ekki. 

Ekkert annað en fræðsla um Guðs Orð getur hjálpað okkur að sjá hvaða boðskapur kemur frá Guði… svo að rétta fræið, fræ fagnaðarerindisins fái næringu og skjól til að vaxa í hjartanu…  þannig tökum við sinnaskiptum, verðum nýjir einstaklingar sem vaxa upp í sannri trú á Guð föður. Texti dagsins sagði okkur að við eigum ekki að setjast niður og bíða eftir endurkomunni heldur eigum við að láta alla vita um Guðs ríki.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.Amen 

Vegna samkomutakmarkana, tekið upp heima... ekki heima með Helga, heldur ,,Heima með presti" 
https://www.youtube.com/watch?v=8D5WTwzSVCA&t=16s