Upphaf - ekki endalok!

Upphaf - ekki endalok!

Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn! Eftir þunga föstudagsins langa tökum við gleði okkar á ný og fögnum sigri lífsins, sigri alls þess góða yfir þeim mætti sem eyðir og deyðir. Við skoðum atburði föstudagsins langa í ljósi upprisu Jesú frá dauðum. Við sjáum krossinn ekki sem raunaleg endalok heldur sem upphaf. Krossinn er tákn sigurs og markar upphaf þeirrar framtíðar sem Guð er í þann mund að láta verða að veruleika.

Biblíutextar: Jes 25:6-9, 1 Kor 15:1-8 og Matt 28.1-10

Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn. Þannig hljóðar páskakveðjan og í dag hljómar hún um víða veröld. Frá upphafi hefur upprisa Jesú hefur verið fólki ráðgáta. Efasemdaraddirnar heyrast í dag og þær heyrðust strax og vinir og vinkonur Jesú sögðu frá því sem þau höfðu séð og heyrt.

Já það reynist mörgum erfitt að trúa upprisunni, en svo var ekki um mann á miðjum aldri sem ferðaðist til landsins helga ásamt eiginkonu sinni og aldraðari tengdamóður. Undir lok ferðarinnar veiktist tengdamóðirin og lést á sjúkrahúsi. Útfarastjórinn tjáði hjónunum að konan gæti hvílt í landinu helga og það myndi kosta 10.000 krónur, en 500.000 kr. ef þau vildu láta flytja hana heim. Tengdasonurinn var ekki lengi að hugsa málið – sú gamla skyldi jörðuð heima! Útfararstjóranum þótti þetta undarlegt, enda miklir peningar í húfi og spurði: „Af hverju ætlarðu að eyða öllum þessum peningum þegar hún getur allt eins hvílt hér í landinu helga.“ Tengdasonurinn svaraði: „Sjáðu nú til, fyrir 2000 árum var maður jarðaður hér, þremur dögum síðar reis hann upp frá dauðum – Ég tek ekki slíka áhættu!“

Já - Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn! Eftir þunga föstudagsins langa getum við í dag tekið gleði okkar á ný og fagnað sigri lífsins, sigri alls þess góða yfir þeim mætti sem eyðir og deyðir. Við skoðum atburði föstudagsins langa í ljósi upprisu Jesú frá dauðum. Við sjáum krossinn ekki sem raunaleg endalok, hann er upphaf, tákn sigurs og þess vegna syngjum við í dag:

Sigurhátíð sæl og blíð ljómar nú og gleði gefur, Guðs son dauðann sigrað hefur, nú er blessuð náðartíð. Nú er fagur dýrðardagur, Drottins hljómar sigurhrós, nú vor blómgast náðarhagur, nú sér trúin eilíft ljós.

Á krossinum tók Jesús sér stöðu meðal allra sem þjást vegna kúgunar, ofbeldis og ranglætis. Sárin hans eru sárin þeirra, Jesús segir: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ Guð í Kristi tók sér stöðu meðal sinna minnstu barna og lýsti því yfir að hann er fulltrúi þeirra.

En á krossinum gerðist meira, því á krossinum dó Jesús þeim dauða sem syndin leiðir að lokum yfir sérhvern mann. Þeir sem fremja ranglæti, kúga og beita ofbeldi festast í vítahring sektar og sjálfsréttlætingar. Ef hringurinn er ekki rofinn leiðir hann til dauða. Guð í Kristi deyr dauða syndarans og rýfur vítahringinn fyrir okkur. Jesús segir: „Enginn á meiri kærleika en þann að gefa líf sitt fyrir vini sína.“ Á föstudaginn langa deyr Jesús þeim dauða sem syndin hefði að lokum kallað yfir okkur, hann gefur líf sitt fyrir vini sína og vinkonur. Hann gefur líf sitt fyrir okkur, þig og mig.

Matteus guðspjallamaður greinir frá því hvernig konurnar María og María Magdalena, sem vinkonur og lærisveinar Jesú komu að tómri gröf hans. Fylltar sorg og söknuði yfir dauða meistara síns gengu þær niðurlútar til grafar til þess hlúa að líki hans: „En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði.“ Hann er ekki hér, hann lifir og það breytti öllu fyrir þær og það breytir enn þá öllu fyrir okkur í dag.

Atburðir föstudagsins langa kalla fram sorgarviðbrögð, grátur og ótti fylgja honum. En boðskapur engilsins á páskadegi snúa sorg í fögnuð! Óttist hvorki né grátið þessu er ekki lokið, þetta er rétt að byrja, því Kristur er upprisinn! Hann er sannarlega upprisinn! Þær hlupu af stað til þess að segja hinum vinum og vinkonum Jesú frá því sem engillinn hafði sagt þeim og „…allt í einu kom Jesús á móti þeim og segir: „Heilar þið!“ En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. Þá segir Jesús við þær: „Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum og systrum að halda til Galíleu. Þar munu þau sjá mig.“ Og þau sáu hann öll og hann gaf þeim fyrirheitið mikla: „Sjá ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Þetta er boðskapur páskanna og í ljósi hans er leyndardómi föstudagsins langa lokið upp. Upprisa Jesú frá dauðum er ekki góður endir á sorglegri sögu, nei, upprisa hans frá dauðum er upphaf nýrrar sögu. Upprisa Jesú er staðfesting þess að þeir sem dæmdu hann til dauða höfðu rangt fyrir sér, hún er staðfesting þess að ranglætið muni ekki eiga lokaorðið. Upprisa Jesú er mótmæli Guðs gegn ranglæti, þjáningu og dauða í sérhverri mynd. Eins og vorin þegar allt verður nýtt í náttúrunni þá markar upprisa Jesú upphaf þeirrar framtíðar sem Guð er í þann mund að láta verða að veruleika.

Það er auðvelt að láta hugfallast og missa móðinn þegar við lítum í kringum okkur og sjáum óréttlætið, stríðin og hörmungarnar sem geysa, en þá hljóma andmæli páskadagsins: Óttist ekki, grátið ekki, því Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn, hann lifir og er að verki í heimi okkar. Boðskapur páskanna er áskorun til okkar um að koma að krossi Krists og varpa frá okkur hrokanum, mikilmennskubrjálæðinu og öllu því sem við notum til að gera okkur stærri og aðra minni. Vörpum því öllu frá okkur og tökum við því lífi sem Kristur vill gefa okkur. Lífið sem hann gefur er líf sem lifað er í þjónustu við Guð og náungann, líf sem einkennist af trú, von og kærleika. Það er framtíðin sem Guð er í þann mund að láta verða að veruleika.

Í birtu páskadagsins verður allt vonarríkt, því upprisa Jesú staðfestir að Guð ætlar að færa allt til betri vegar!