Um hver jól erum við minnt á að Jesús fæddist í Betlehem við upphaf tímatals okkar. Tveir guðspjallamenn, Matteus og Lúkas, geyma heimildirnar um fæðingu hans í Betlehem. En mörgum hefur þótt frásagnirnar af fæðingu Jesú passa grunsamlega vel við spádóminn um fæðingu Messíasar í spádómsbók Míka þar sem segir:
„Og þú, Betlehem Efrata, þótt þú sért einna minnst af héraðsborgunum í Júda, þá skal þó frá þér koma sá, er vera skal drottnari í Ísrael, og ætterni hans vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum.“ (sem sagt nýr Davíð konungur) (Míka 5)
Suma grunar að bærinn Betlehem sé tilgreindur í guðspjöllunum sem fæðingarstaður Jesú, til að tengja atburð í lífi hans við spádóm um Messías í Gamla testamentinu, en ekki af því að Jesús fæddist þar í raun og veru.
En grunsemdir eru engin sönnun.
Það mætti alveg snúa þessu við og segja sem svo að Jesú hafi raunverulega fæðst í Betlehem og síðar þegar guðspjöllin voru skrifuð, hafi menn tengt spádóminn við hina raunverulegu atburðarrás. Þó fæðingarsagan sé sett í guðfræðilegt samhengi, þarf það ekki að þýða að hún sé ekki sönn. Hvort tveggja er mögulegt – að hún sé sönn og spádómurinn tengdur við þegar sagan var rituð löngu síðar, og einnig að sagan sé samin upp úr spádómnum.
Samkvæmt báðum fæðingarsögunum fæddist Jesús á meðan Heródes mikli var leppkonungur Rómverja í Ísrael. Það var hann frá árinu 37 fyrir Krist. Nú er það svo að Heródes mikli dó árið fjögur fyrir Krist – fjórum árum áður en Jesús á að hafa fæðst samkvæmt tímatali okkar. Matteus segir svo frá að Heródes hafi sent hermenn til Betlehem til að myrða öll sveinbörn tveggja ára og yngri, eftir að hann hafði fengið fréttina af fæðingu meistarans. Þess vegna hlýtur Jesús að hafa fæðst að minnsta kosti 6 árum fyrir tímatal okkar – 6 árumfyrir fæðingu sína!
„Fæðing Jesú“ er hugtak sem er notað í sambandi við tímatal. Við teljum frá fæðingu Jesú, „á því Herrans ári“ eins og sagt var fyrr. Þetta hugtak er ekki sagnfræðilegt heldur tilbúið, tímapunktur sem menn ákváðu í byrjun 6. aldar – 500 árum eftir fæðingu Krists. Þá misreiknuðu menn sig um 6-7 ár. Dionysius Exiguus hét sá er var falið þetta reiknihlutverk. Hann bjó í Róm. Áður höfðu Rómverjar gefið árunum tölu og heiti miðað við upphaf Rómaborgar eða heiti rómversku keisaranna. Eftir árið 500 var miðað við fæðingu Jesú. En fæðingarár hans var fest við árið 754 eftir upphaf Rómaborgar – sem er 6 -7 árum of seint. Á sama hátt var 25. desember gerður að fæðingardegi hans í stað hátíðar hinnar miklu sólar.Rök Dionysiusar voru þau að Jesús hafi verið fullkominn maður og því hlyti hann að hafa verið getinn á fullkomnum degi. 25. mars var talinn fullkomnasti dagur ársins í Rómaveldi, því þá var álitið að Guð hefði skapað heiminn. Jesús hlaut því að hafa verið getinn 25. mars. Sem þýddi að hann hlaut að hafa fæðst 9 mánuðum síðar, 25. desember.
Ekki má gleyma öðrum mistökum sem skrifast á guðspjallamanninn Lúkas. Lúkas segir að Jesús hafi fæðst árið sem Kýreníus var landsstjóri í Sýrlandi og kallaði alla til skráningar fyrir hönd Ágústusar keisara. Eitthvað ruglar Lúkassaman árum, því Kýreníus varð fyrst landsstjóri í Sýrlandi árið 6 eftir Krist. Líklegast hefur Jesús þá verið orðinn 12 ára gamall. Og ólíklegt er að það ár hafi slík skráning farið fram, því þá logaði allt í óeirðum í landinu helga – eins og löngum fyrr og síðar.
Svo aftur sé vikið að guðspjöllunum tveimur eftir þá Matteus og Lúkas, þá ber frásögnum þeirra af fyrstu hérvistardögum Jesú og uppruna hans á engan hátt saman. Og það er ekkert fjallað um fæðingu hans í Jóhannesar- og Markúsarguðspjalli. Hvergi er minnst á þessa texta, fæðingarsögurnar á öðrum stöðum í Nýja testamentinu. Matteus og Lúkas nefna þá heldur ekki síðar í frásögum sínum. Það er eins og sögurnar hafi verið límdar við handritið, algerlega án samhengis við það sem á eftir kemur. Eiginlega eins og sköpunarsagan í fyrsta kafla Fyrstu Mósebókar sem stendur þar ein og sér.
Fæðingarsögur guðspjallamannanna eru mjög ólíkar. Matteus og Lúkas virðast aðeins vera sammála um að María hafi verið meyja, trúlofuð Jósef, sem var ekki líffræðilegur faðir barnsins- og að Jesús fæddist í Betlehem.
En síðan leysa þeir vandamál frásagnarinnar hvor á sinn máta. Til dæmis spurninguna um það hvernig stóð á því að Jesús fæddist í Betlehem í Júdeu – þar sem allir vissu að hann var frá Nasaret í Galíleu.
Matteus lætur fjölskyldu Jesú koma frá Betlehem og minnist hvergi á fjárhús eða skráningu skattayfirvalda. Þegar stjörnuspekingarnir hans koma til Betlehem til að heiðra barnið, ganga þeir beint „inn í húsið“ (Matt.2:11).Stjörnuspekingarnir (vitringarnir) og sér í lagi stjarnan sem þeir fylgdu, hafa verið tilefni mikilla vangaveltna í gegnum aldirnar. Hvaða stjarna var þessi jólastjarna sem blikar yfir Betlehem eins og börnin syngja? Því er vandsvarað, en hitt er staðreynd að halastjarna sást á himninum um tveggja mánaða skeið árið 5 fyrir Krist – eða um það leyti sem Matteus segirað Jesús hafi fæðst. Samkvæmt kínverskum stjörnuspekingum var ferill hennar skráður að vori, í mars til apríl – en á þeim tíma hefur Jesús þá líklegast fæðst.
Stjörnufræðingarnir höfðu sagt Heródesi konungi frá hinumnýfædda konungi samkvæmt því sem Matteus segir. Heródeslætur deyða öll sveinbörn tveggja ára og yngri í Júdeu, til að tryggja sig. Heródes vílaði ekki fyrir sér að láta myrða syni sína þegar hann óttaðist að þeir myndu vaxa sér yfir höfuð og taka af sér völdin. Slík barnamorð hefðu þannig ekki verið honum mikið mál. En hvergi í heimildum er sagt frá þessum hræðilegu fjöldamorðum. Hvorki í Biblíunni né annars staðar– nema hjá Matteusi, sem virðist hafa haft sögu Móse sér til fyrirmyndar. Faraó lét myrða öll sveinbörn Hebrea til að ná til Móse sem slapp fyrir kraftaverk. Heródes er látinn gera það sama – og Jesús sleppur fyrir kraftaverk engilsins. Fjölskylda hans flýr til Egyptalands – og síðar kemur Jesús frá Egyptalandi eins og Móse eftir að Heródes er fallinn frá. Þá flyst fjölskyldan ekki aftur til Betlehem því einn af sonum Heródesar situr á valdastólnum, segir Matteus. Fjölskyldan flyst til Nasaret. Og þess vegna er Jesú frá Nasaret, en fæddur í Betlehem.
Málið leyst.
Matteus hefur engar áhyggjur af því að annar sonur Heródesar ræður ríkjum í Galíleu þegar María, Jósef og Jesú koma þangað frá Egyptalandi – og það hefur fjölskylda Jesú ekki heldur.
Lúkas leysir vandamálið með Betlehem með því að láta Maríu og Jósef fara þangað samkvæmt boði keisarans til skráningar.. Lúkas veit ekkert um stjörnuspekinga, barnamorð eða stjörnu á himnum. Hann lætur Jesús fæðast í fjárhúsi og engla boða fæðingu hans. En Heródes mikli kippir sér ekkert upp við englasönginn – eða hefur ekkert af honum frétt og kemur því ekki við sögu. Enda flýr fjölskyldan ekki til Egyptalands. Þvert á móti er farið með Jesú til Jerúsalem, höfuðstöðva Heródesar, þar sem hann er hreinsaður í musterinu. Og Heròdes skiptir sér heldur ekkert af því. Honum er annaðhvort sama um þessa fjölskyldu eða hann hefur ekki haft hugmynd um nærveru hennar.
Tiltækid að kalla alla af ætt Davíðs saman í Betlehem er líka undarlegt. Á þessum tíma logaði allt í illdeilum milli Rómverja og Gyðinga. Rómverjar hefðu aldrei leyft að ættbálkur fyrrum stórkonungs Ísraels hefði fengið að safnast saman á einn stað í hans nafni. Hvað þá hvatt til þess að af slíkum mannsöfnuði yrði! Slíkt hefði verið ávísun á uppþot og ólæti.
Og aðeins að lokum um Jósef.
Í fæðingarfrásögunum fáum við að heyra að Jesús eignast pabba, eða fósturpabba, sem heitir Jósef.
Kannski hét hann í raun og veru Jósef. En kannski bjuggu guðspjallamennirnir nafnið til, einmitt af því að það passaði svo vel við þær áherslur sem þeir vildu koma með. Engill Guðs birtist Jósef aftur og aftur í draumi í fæðingarsögunni hjá Matteusi, til að miðla upplýsingum til hans og koma með leiðbeiningar – og eftir að Jesús fæðist flýr Jósef til Egyptalands með fjölskylduna.
Nákvæmlega eins og annar þekktur Jósef í sögu Ísraels – ættfaðirinn Jósef, sonur Jakobs í Mósebókunum. Einnig hann fékk vitranir í draumi og var seldur sem þræll til Egyptalands. Þetta undirstrikar ættartré Jesú sem Matteus birtir. Þar kemur fram að faðir Jósefs, afi Jesú, heitir einmitt – Jakob! Tilviljun? Og þó Matteus láti Jesú fæðast í Betlehem – kannski til að uppfylla spádóma Míka – þá er staðreynd að Jesús var frá Nasaret, en Nasaret var í Galíleu. Og Galílea er hluti af hinu forna Norðurríki, Ísrael, sem varð til árið 922 fyrir Krist þegar Ísraelsríki Sáls, Davíðs og Salómons klofnaði. Þar átti ættkvísl Efraíms heima samkvæmt hefðinni. Efraím var sonur ættföðursins Jósefs. Afkomendur hans voru allir taldir „synir Jósefs“. Samkvæmt því var Jesús einnig „sonur Jósefs“, af ættkvísl Jósefs.
Sem þarf ekki endilega að þýða að Jósef hafi ekki verið fósturfaðir Jesú.
Þetta er alveg þess virði að íhuga, því guðspjöllin voru skrifuð í ákveðnum tilgangi og með hliðsjón af helgisögu Ísraels.
Ég minntist á ættartöflu Jesú hjá Matteusi. Lúkas birtir líka sína ættartöflu yfir forfeður Jesú. Matteus rekur ættir Jesúgegnum konunga og allt til Abrahams. Lúkas rekur ættartengslin til spámanna og presta. Ættartré Lúkasar nær allt aftur til Adams, hins fyrsta manns samkvæmt helgisögu seinni sköpunarsögunnar í Fyrstu Mósebók. Það gerir Lúkas til að leggja áherslu á að koma Jesú sé ekki aðeins fyrir gyðinga, heldur alla menn. Með því að rekja ætt Jesú til Abrahams verður Abraham fyrir tilstuðlan Matteusar ættfaðir allra kristinna manna. Rétt eins og hann var ættfaðir gyðinga. Og átti síðar eftir að verða talinn ættfaðir múslíma gegnum son sinn Ísmael sem hann átti með ambáttinni Hagar. En múslímar kenna að Ísmael sé sá sonur sem Abraham hafi í raun ætlað að fórna Guði til að sýna trú sína – en ekki Ísak – sem varðættfaðir gyðinga.
Með því að rekja ættir Jesú eins og Matteus og Lúkas gera, í gegnum Jósef, annars vegar til Davíðs og Abrahams og hins vegar til Adams, vilja þeir sýna að Jesús hafi verið konungborinn, af ætt presta og konunga og spámanna. Þessar ættartöflur voru mikilvægar fyrir gyðing- kristna hópa frumkirkjunnar sem trúðu því að Jesús væri af ætt Davíðs og efuðust ekki um að Jósef væri líffræðilegur pabbi hans. Um leið lenda guðspjallamennirnir í athyglisverðri mótsögn. Til að ættartöflurnar sýni réttar ættir Jesú, verður Jesús að vera líffræðilegur sonur Jósefs. En um leið segja guðspjallamennirnir að hann sé sonur Guðs. Guð er þannig pabbi Jesú, en það er Jósef líka. Og afi Jesú heitir Eli hjá Lúkasi en Jakob hjá Matteusi. Enda birtast englar ekki Jósef hjá Lúkasi, heldur Maríu, sem er aðalpersóna fæðingarsögu Lúkasar.
Sem sagt – fæðingarfrásögurnar líta ekki út fyrir að vera sögulega sannar – heldur helgisögur settar saman úr spádómum Gamla testamentisins og guðfræði höfundanna. Hvað vitum við þá með vissu um fæðingu og ætterni Jesú?
Við vitum það eitt að móðir Jesú hét María – eða Mirijam – og að líklega fæddist Jesús árið 6 – 4 fyrir Krist.
Örugglega að vori. Að minnsta kosti ekki 25. desember, sem er fæðingarhátíð Krists samkvæmt Vesturkirkjunni. Aðfangadagur, 24. desember, verður dagur fæðingarhátíðarinnar hjá okkur því það er eini dagur ársins þar sem miðað er við hið forna dagatal gyðinga. Samkvæmt gyðingum byrjar nýr dagur kl.18.00 að kveldi. Þannig byrjar 25. desember kl.18.00 þann 24. desember, - ein einmitt þá hringjum við jólin inn á Íslandi.
Líklegast fæddist Jesús í Nasaret.
Pabbi hans hét kannski Jósef.
Kannski er nafn Jósefs búið til síðar vegna táknrænnar merkingar þess.
Annað vitum við ekki um fyrstu æviár Jesú, bernsku og æsku – í raun og veru – ekki fyrr en hann kemur til Jóhannesar skírara fullorðinn maður og lætur skírast í ánni Jórdan.