Hvernig líf viltu?

Hvernig líf viltu?

Tímaskil skerpa. Stærsta sorg fólks á dánarbeði er jafnan að hafa ekki átt fleiri stundir með sínum nánustu eða ekki notað tímann til hins djúpsækna. Fæstir harma við brottför úr heimi, að hafa ekki náð að kaupa einhver tæki, fyrirtæki eða fermetra. Hvað þráir þú?

Börn spyrja oft sláandi spurninga og opna nýjar gáttir í hugum okkar. Mér þótti umhugsunarvert þegar fimm ára sonur minn settist í fang mér og horfði á föður sinn fullur trausts og trúnaðar og sagði: “Pabbi, þú verður að vera duglegur að fræða mig. Ég er svo nýkominn og ég þarf að vita svo margt.” Og pabbinn reynir að vera dulegur að fræða þennan nýorðna og nýkomna ferðalang í heimi tímans. Við þörfnumst vissulega fræðslu en líka næðis og tíma til að vinna úr og móta stefnu.

Áramót veita hlé og skjól til að stilla stefnuvitann og forgangsraða. Auðvitað eru uppgjör oft erfið og margir veigra sér við að horfast í augu við þungbæra atburði, sem breyta lífinu. Hvernig bregðst þú við og hvernig nýtir þú tímann? Þorir þú að vitja þíns innri manns? Þorir þú jafnvel að taka sinnaskiptum og breyta um stefnu?

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta” segir í bæn guðsmannsins Móse, þeim stórkostlega sálmi, sem er nr. 90 í Davíðssálmum og er lexía þessa dags. Hvers óskar þú, í hvað þyrstir þinn innri maður? Hvað skiptir þig máli og hvernig viltu lifa?

Eftirlaunatími um þrítugt! Netið miðlar ýmsu og margt merkilegt er þar að finna og nýta. Ég sá fyrirlestur á netinu, sem hreif mig. Hann var um hvernig við getum notið tímans, breytt lífsmynstrinu til að njóta lífsins betur. Fyrirlesarinn minnti tilheyrendur á, að flest þrískiptum við æfinni. Fyrst koma bernsku- og náms-árin, sem er í okkar heimshluta oft 20-25 ár. Annar hlutinn er síðan starfsæfin – gjarnan um eða yfir fjörutíu ár. Þar á eftir koma eftirlaunaár og elli. Margir vilja og stefna að því að fara snemma á eftirlaun. Til hvers? Jú, til að geta gert það, sem þeim þykir skemmtilegt, taka því rólega, teygja úr tánum og slaka á. Er svona þrískipt líf það sem hentar best? Er svona þrenna örugglega best fyrir lífshamingju þína?

Fyrirlesarinn sagði frá því, að hann hefði ákveðið að fara aðra leið í eigin lífi, fara reglulega á eftirlaun - en vinna þó lengi! Hvernig má það vera? Hann fór á efirlaun þegar hann var liðlega þrítugur, en aðeins í eitt ár. Svo tók við vinna í sjö ár og þá tók hann sér nýtt náðarár til að gera það, sem hann langði mest til og gerði honum best. Hann tók sem sé ákvörðun um að taka sér alltaf ársleyfi á sjö ára fresti. Hann lokaði hönnunarstofunni sinni, sem hann rekur í New York, er þá búinn að safna fé til fríársins og allir á stofunni njóta svipaðs leyfis, dreifði eftirlaunatímanum yfir alla starfsæfina og stefnir að því að vinna fram eftir ef honum endist líf og heilsa til.

Hvað ávinnst þessum manni að fara reglulega í hvarf eða leyfi frá vinnu? Er þetta gerlegt og efirsóknarvert? Já, hvíldin og tilbreytingin er honum kærkomin og endurhæfing starfsgleðinnar mikil. Fjárhagslega hefur gengið mun betur en fyrirlesarinn hafði búist við því gæði vinnunnar urðu meiri en áður og annars hefði orðið. Svo fæst tími til íhugunar, lífsendurskoðunar, hamingjuræktar og til eflingar innri manns óháð hasar daganna - hér er slóðin.

Tími til eflingar Ég varð hugsi við þessa frásögn um annars konar lífshlaup og lífsskipan. Á fyrri hluta ársins, sem er að líða, naut ég námleyfis, sem ég nýtti eins vel og ég gat. Slíkur náðartími er ekki frí heldur skipulagður til að andinn eflist, verkin gangi og markmið náist. Reglulegur eflingartími er nauðsynlegur rétt eins og við þörfnumst heilsuræktar líkamans. Við ættum að reyna að skipa málum ára og æfi okkar svo að við getum notið tímans, sjálfra okkar, fólksins okkar og þess sem í okkur býr. Mörgum - jafnvel flestum - er það mögulegt því allir eiga sér frelsi innri anda, hvernig svo sem ytri kjör okkar eru. Þetta róttæka frelsi er mjög mikilvægt að varðveita og nýta.

Ef við förum í leyfi reglulega krefst það þess, að við skipuleggjum fjármál og líf okkar með öðrum hætti en fólk gerir almennt. Fjárfestingin verður andleg og féð fest til framtíðar. Peningar verða settir til hliðar og með forsjálni til síðari tíma. Fjármunir eru þá notaðir til andlegrar iðju fremur en eignakaupa eða sókn í sýndarmál. Áhættan er enginn en gróðinn mikill.

Mig grunar að við æfilok telji flestir, að eignir hafi skipt minna máli í lífinu en andleg og óefnisleg lífsgæði. Stærsta sorg fólks á dánarbeði er jafnan að hafa ekki átt fleiri stundir með sínum nánustu eða ekki notað tímann til hins djúpsækna. Fæstir harma við brottför úr heimi, að hafa ekki náð að kaupa einhver tæki, fyrirtæki eða fermetra. Hvað er þér mikils virði og fyrir hvað viltu lifa? Við getum alltaf valið, hvar sem við erum stödd á æfiveginum. Tímaskil gefa andrúm til íhugunar. Hvernig væri hafa reglu á eflingu og lífsgæðastyrkingu? Hið mikilvæga er að skoða og íhuga æfihrynjandi þína og takt daganna. Reyndu að staldra við og helst skrifa niður styrkleika þína og veikleika, ógnanir og hvaða tækifæri þú sérð. Reyndu síðan að ákvarða, hvernig þú vilt lifa, hvers þú óskar og hvað þú þráir. Settu þinn kúrs, nefndu markmið þín og skipaðu í forgangsröð. Stefna er mikilvæg því skipulag hefur tilhneigingu til að rætast, skipulag er eins og skýr bænalisti, sem hrífur bæði himin og jörð. Komandi ár Þegar hafið var kyrrðardagastarf í Skálholti á níunda áratug síðustu aldar var það til að gefa fólki tök á að fara í hvarf og skoða eigin veg og stefnu, hvíla sig og eiga næði með Anda Guðs. Við þurfum að skoða lífskort okkar reglulega, ákvarða leið, huga að nesti og því sem gagnast okkur. Hvíld og næring skipta líka máli. Mitt ráð er að þú metir þarfir innri manns það mikils að þú setjir í forgang að taka frá tíma til innri vinnu, bæði á nýju ári og reglulega á æfinni. Má bjóða þér relgulegan unað, sjálfseflingu, lífsgleði? Dreifing eftirlaunaára á starfsæfinni eru valkostir, en regluleg ræktun innri manns er allra manna þörf.

Nýkominn og á leiðinni Hvers þarnfast þú? Þinn innri maður kallar á hamingju. Allir menn verða fyrst að fullnægja frumþörfum – en allir menn leita lífsfyllingar, sem ekki verður náð með yfirborðsgæðum eða sýndarmálum. Eitt af biblíuskáldunum orðaði æfiverkefni okkar allra svo: “Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.” Dagar koma, dagar hverfa. Árin líða líka inn í mistur fortíðar, ástvinir fæðast og eru síðan slitnir úr höndum okkar fyrr en varir. Gjafir eru okkur gefnar og svo hverfa þær. Tíminn hríslast í lífi okkar og fyrr en varir erum við á heimleið inn í himininn.

Barnið segir af visku sinni: “Pabbi, þú verður að vera duglegur að fræða mig. Ég er svo nýkominn...” Og hvað þarf barn að vita? Jú, heilmikið um náttúruna, um dýr, fugla, plöntur, um lestur, vísur, um eldgos og stórar sprungur í jöklum, um hvernig lífið deyr og hvað fer “niður” og hvað “upp.” Og svo þarf barnið að vita hvað er hollt og hvað er fyrir bestu og hvað ekki. Svo þarf að kenna gleðiefni, siði, venjur og hvað ber að varast, ábyrgðarmál og siðsemi. Og svo reynir pabbinn að kenna drengnum sínum að greina samhengi hlutanna, tengslin í lífinu, bæði gagnvart fólki, dýrum, náttúru, móður, bróður og systkinum.

Merkilegastar eru samræðurnar um eðli lífsins, Guð og manngildið. Þau, sem hafa mestan áhuga á Guð,i eru börn og gamalmenni. Börn eru svo nýkomin frá Guði, að þau hafa í sér guðsneista spurninga og ævintýra. Gamalt fólk er á leið til Guðs og hefur því vaknandi áhuga ferðalangsins við ferðarupphaf. “Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.” Guð kallar við tímaskil: “Til hvers lifir þú og fyrir hvað?” Þú svarar með lífi þínu. Guð geymi þig. Amen

Prédikun í Neskirkju 31. desember, gamlársdegi, 2010

Lexía: Slm 90.1-4, 12 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“ Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka. Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.

Pistill: Róm 8.32a-39 Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Það er eins og ritað er: Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn og við metin sem sláturfé. Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall: Lúk 13.6-9 Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“