Trú eða óregla

Trú eða óregla

Samræmist það trú að misnota skjólstæðinga í meðferð og að einstaklingar noti fé, sem á að fara til líknar, í eigin rekstur? Nei. Að flagga biblíuorðum og hafa hátt um trú tryggir ekki siðsemi, fjármálavit eða meðferðarvit. Trúin er tengslamál, sem setur mörk og eflir líf.

Að ruglast trú og óreglu

Hvað er trú og hver eru mörk trúar? Hvar eru forsendur trúar og hvernig iðkar maður trú? Settur landlæknir segir, að trúarsamtök eigi ekki að reka meðferðarheimili. Yfirlæknir á SÁÁ-setrinu Vogi segir vafasamt, að trúarhreyfing eigi að reka meðferðarheimili. Tilefni ummælanna er harmsaga Byrgisins. Niðurstöður læknanna eru þó órökréttar. Það var ekki trú, sem brást í Byrgismálinu, heldur virðist dómgreind fjölda fólks hafa brugðist, fagmennska hafi verið gerð útlæg, stjórnsýsla verið í molum og stjórnvöld og embættismenn hafi brugðist. Óreglan virðist hafa verið regla á flestum sviðum. Það er slæmt þegar menn ruglast á óreglu og trú og gildir einu hverjir rugla.

Í fjölmiðlum hefur Byrgismálið verið tengt trú. Vegna málsins hafa margir tjáð sig kröftuglega í fjölmiðlum, líka þau, sem hafa ofnæmi fyrir trúuðu fólki og hnerra þegar þau sjá kirkju. En hefur Byrgismálið eitthvað með trú að gera? Ég held, að flestir geri sér fulla grein fyrir, að sú mynd sem dregin hefur verið upp í því máli sýnir andhverfu trúar. Byrgið tengist ekki þjóðkirkjunni en skiptir alla máli, sem láta sig varða heill fólks og velferð samfélags. Ég geri kröfur til trúarhreyfinga um vönduð vinnubrögð. Ég geri kröfur til stjórnsýslunnar um góða stjórnsýslu og ég harma rökrugling og slæmt greiningarvit þessara lækna. Ég geri þá kröfu til þeirra, að þeir missi ekki marks, hrapi ekki að röngum og óröklegum niðurstöðum. Og víst er, að Guð væntir þess, að trúmenn geri skyldu sína. Við þurfum að staldra við og íhuga hinn klassíska trúarboðskap til að fóta okkur í umræðunni og huga að merkingu trúar og eigin trú. Það er jú viðfangsefni texta þessa dags.

Trú-magn-gæði

Í guðspjallstextanum biðja postularnir Jesú um, að trúarauka. Þeir sögðu: “Auk oss trú!” Sem sé, “gefðu okkur meiri trú” eins og hægt hafi verið að hella í þá gígabætum eða teravöttum af trú. Þeir voru jú beintengdir þarna við hlið orkumiðju veraldar. Í guðspjallinu segir svo: “En Drottinn sagði: Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.” Við fáum ekki að vita af hverju menn ættu að vilja fá tréð niður að sjó, var kannski bátasmiðjan timburlaus?

Í ljósi þessa og álíka texta hafa margir síðan talið, að trú vaxi eins og tré af fræi, geti orðið gríðarstór og nægilega öflug til að gera hið ótrúlega. Því miður ruglast margir og halda að sá eða sú, sem hefur hátt um trú geti með trúarkrafti sínum læknað krabbamein eða sjúkdóm ef hann eða hún leggur hendur á. En lækningahæfni hefur ekkert með vattafjölda trúar að gera, ekkert með gígabæt sálar heldur.

Kreddutrú

Trúarhugmyndir eru fjölbreytilegar og fjöldi skilgreininga til. Margir halda, að trú sé það að samsinna ákveðnum hugmyndum, kreddum, sem varði himnaríki og helvíti og líf í heimi. Þessu tengd er gjarnan sú afstaða, að trú sé ljómandi fyrir börn og einfeldninga, en ekki þroskað upplýst fólk. En þessi trúarskilningur er fjarri sjálfsskilningi kristinnar og meiningu höfundar hennar.

Loðunarþáttur samfélagsins

Aðrir skilja trú, sem samloðunarþátt samfélagsins, það sem getur mótað hóp og gefið honum merkingu. Kristnin var og hefur verið siður þjóðarinnar, mótað samfélag og verið samhengi í merkingarkerfi okkar Íslendinga um aldir. Matthías Jochumsson lýsir þessu með einföldum hætti í sálmi 519 í sálmabókinni. Þar segir í einu versinu: “Ein trú, eitt ljós, / einn andi í einu fósturlandi.” Svona samfélagsskilningur trúarinnar á undir högg að sækja í fjölmenningarþjóðfélagi. Ein trú og einn andi fósturlandsins er ekki lengur mögulegur. Það er ljómandi og samfélaginu gott þegar einn andi ríkir, en trú er þó annað en það.

Öryggisnet einstaklingsins

Þriðji trúarskilningurinn er meira á einstaklingssviðinu, að trú hjálpi einstaklingum að öðlast traust gagnvart tilverunni, að frumtraust bernsku geti síðar þroskast í tengslaafstöðu, sem gefi sátt við sjálf, umhverfi, þjóðfélag og það megi kalla trúarlega afstöðu. Trúin gefi einstaklingunum öryggi gagnvart átökum lífsins og síðan öryggisbúnað fyrir hinstu ferðina inn í eilífðina. Þetta er of sjálfhverf og einstaklingsleg nálgun hins trúarlega og ekki í samræmi við trúarskilning Jesú.

Trúarskilgreiningar eru fleiri og hleypidómar um trú og trúariðkun eru í ýmsum útgáfum. Um þau efni verður ekki fjölyrt í dag, heldur skoðaðar hinar biblíulegu frumheimildir.

Pistis trú

Orðið, sem notað er um trú, pistis, kemur oft fyrir í Nýja testamentinu, mig minnir 244 sinnum! Þegar orðnotkunin er greind og trúarversin skoðuð kemur í ljós, að Jesús var ekki upptekinn af réttri kenningu og postularnir álitu ekki sjálfa sig vera neina trúarlögreglu. Trúin var ekki heldur skilin sem samfélagslím eða hagnýtt félagsmótunartól. Trúin var því síður skilin í ljósi einkaafstöðu eða út frá persónuþörfum einstaklingsins. Trúin verður aldrei einkaeign og aldrei einskorðuð við einstakling.

Sambandshugtak

Trúarorðið pistis kemur líka víða fyrir í grískum ritum, t.d. Aristótelesar, Platóns og Heródótosar. Í grískuorðabók, sem kennd er við Liddel og Scott og flestir guðfræðinemar á Íslandi og margir grískunemendur á Vesturlöndum nota, sést að aðalmerking orðsins pistis er traust, sem beinist að persónu eða persónum. Þessi vídd persónutengsla rímar vel við skilning Jesú og Gyðinga. Trú var túlkuð, sem tengsl og oftast í sambandi herra og þjóns. Þetta er mikilvægt atriði og vert að muna eftir. Tengslaþáttur sambands þjóns og herra er trú, pistis. Í því trausti var fólgin hollusta, festa, hlýðni og öryggi.

Nútímalegur skilningur á persónulegri trú einstaklings, sem velur sér trúarefni út frá eigin þörfum og löngunum, er víðsfjarri hugarheimi Gyðinga og þar með Jesú. Slíkur einstaklings-trúarskilningur er nútímaafurð. Trú skv. Nýja testamentinu er tengsl við leiðtoga, sem ákvarðar lífshætti hins trúaða. Trúin er skuldbindandi og lífsmótandi samband, en ekki einhver innri tilfinning eða innri stemming.

Trú og bæn eru samlokur

Samkvæmt þessu eru það ekki þarfir einstaklings, sem skilgreina hversu mikil trúin er og hvað hún megnar. Þegar trúarvers Nýja testamentisins eru skoðuð kemur í ljós, að trú er gjarnan tengd bæn. Hvað er bæn, jú samtal við Guð. Bænin er mál tengsla. Hinn trúaði setur sig alltaf í samband við herra sinn til að grennslast fyrir um hlutverk sitt og skilja það. Hinn trúaði lærir, að hlutverk trúar er að þjóna en ekki að drottna.

Hver er vilji Guðs

Jesús sagði, að það sem menn biðji um í hans nafni veitist þeim. Merkir það, að menn geti bara byrjað að lesa sig niður þarfalista sjálfselskunnar? Getum við bara þulið í kirkjunni það sem okkar langar í og svo detta svörin af himnum? Eru lögmál neyslunnar reglur trúarinnar? Eru hvatir einstaklingsins það, sem hann eða hún hefur rétt á? Nei, það væri að snúa öllu á hvolf. Hinn trúaði biður í ljósi þess, sem hann eða hún væntir að sé vilji Guðs.

Bænir Biblíunnar afmarka trú. Faðir vorið setur t.d. mörk um bænir lærisveina Jesú. Nútíma neysluseggurinn segir í bæn sinni: Gef oss á hverju ári nýjan Range Rover, en trúmaðurinn biður um grunnþarfir: “Gef oss í dag vort daglegt brauð.” Enginn þjónn í góðu sambandi biður Guð um milljarð króna í eigin þágu, vinning í lóttóinu eða nýjan bólfélaga í hverjum mánuði, heldur biður fyrir velferð fólks, talar við Guð um hvernig hægt sé að nota fjármuni vel og í þágu lífsins, hinna þurfandi, hvernig hægt sé að efla velferð samfélagsins, allra þessara, sem Biblían kallar náunga okkar.

Trú er það, að innlífast hinum guðlega vilja og leita lífshátta, sem ríma við þann vilja. Trú er það að vera beintengdur inn í elsku Guðs og þiggja þaðan mörk fyrir eigin neyslu, hugsun, tilfinningar, þarfir og störf. Enginn í Palestínu hefði farið að biðja um að fjall væri flutt í eigingjörnum tilgangi eða vegna einkaerinda. Engum hefði dottið í hug að flytja tré niður að strönd bara svona til að skemmta sér og vinunum. Hin sjálfhverfa trúarnálgun var bara ekki til í veröld Biblíunnar. Hinn trúaði reynir hins vegar að þjálfa sig í tengslunum, reynir að skilja í hverju vilji Guðs með lífi hans eða hennar er fólginn.

Trú og meðferð

Er það í samræmi við bæn, að misnota skjólstæðinga í meðferð? Er það í samræmi við vilja Guðs að einstaklingar noti fé, sem á að fara til líknar í eigin rekstur? Nei. Að flagga biblíuorðum og hafa hátt um trú tryggir ekki siðsemi, fjármálavit eða meðferðarvit. Hinn kristni mannskilningur hefur aldrei verið bláeygur á eðli manna og breyskleika - og gerir ráð fyrir, að jafnvel bestu menn, já dýrlingarnir líka, geti fallið á prófum lífsins. Í kristninni er hvati til að gera strangar kröfur til allra stofnana samfélagsins, líka þeirra sem vinna í fólki og nota almannafé. Gildir einu hvort þær eru á vegum sveitarfélaga, ríkis, trúfélaga eða einkaaðila. Eftirlit þarf að vera gott og í samræmi við góða dómgreind. Við setjum reglur og lög til að tryggja góðar leikreglur og góða meðferð. Í Byrgismálinu voru gerð mistök og af þeim verður að læra.

Trú og verk Guðs

Við biðjum fyrir fólki hér í Neskirkju af því að við teljum að það sé í samræmi við vilja þess, sem við trúum á. Við berum angistarefni, mein, sjúka og sorgmædda fram fyrir Guð. Við ætlum okkur ekki að lækna heldur biðjum Guð um líkn. En svo eru til æsingamenn með guðsorðahávaða sem þykjast geta unnið kraftaverk. Ef menn læknast ekki er viðbáran: Trú þín er ekki nógu mikil.” Þar er mein og villa þessara mann. Trúin er ekki mismikil. En mennirnir eru hins vegar mismiklir hvað þroska varðar, misnæmir, misillir og misglöggir. Ég held, að trúmenn þurfi að læra að gjalda varhug við öllum þeim, sem tala hátt um trú og sérstaklega ef menn ætla að starfa í krafti trúartöfra.

Trúin og tengslin

“Ja, ég á nú mína barnatrú, ” segir fólk stundum – nánast eins og það sé að afsaka sig. En hvað er rangt við barnatrú? Ekkert, hún er meira að segja dásamlega góð því hún er svo hrein, skýr og sterk. Hún er hluti af vaxtarhæfni barnsins, sem lærir að tengjast, fetar sig út í flókna veröld hluta, samskipta, náms, skilnings – alls þessa sem fylgir því að vera þroskuð fullveðja manneskja í heiminum. Það er gott að eiga sér barnatrú, en hún þarf læra, verða skynsöm og þroskuð eins og barnið og í samræmi við vilja Guðs. Barnatrú er ekkert annað flokks. Það sem fólk kannski er að segja að það viti ekkert mjög mikið – að það hafi ekki lesið svo mikið eða bætt við sig í guðfræði eða trúfræðslu. Trúin er nógu góð en þekkingu má alltaf bæta og rækta. Við þurfum öll að grafa okkur út úr Byrgi óreglunnar. Stjórnvöld þurfa að draga lærdóm af málinu, sjálfstæðar stofnanir þurfa að læra af þessum mistökum. Kirkjan hefur sjálfsagt ekki vandað sig að kenna trúarvíddirnar nægilega vel. Við þurfum að gera betur, til að fólk geti enn betur varað sig á þeim sem flagga trú en koma óorði á hana. Trú er annað hvort trú til Guðs, samband við Guð eða ekki.

Amen

Lexían Hós. 2.19-26 Og ég mun festa þig mér eilíflega, ég mun festa þig mér í réttlæti og réttvísi, í kærleika og miskunnsemi, ég mun festa þig mér í trúfesti, og þú skalt þekkja Drottin. Og á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn. Ég mun bænheyra himininn, og hann mun bænheyra jörðina.

Pistillinn Heb. 11.1-3,6 Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð.Fyrir trú skiljum vér, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð.En án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.

Guðspjallið Lk. 17.5 -10 Postularnir sögðu við Drottin: Auk oss trú! En Drottinn sagði: Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn, gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður. Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann, þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, gyrð þig og þjóna mér, meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið.Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gjöra það, sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.