Um trúvæðingu og Vinaleið í skólum

Um trúvæðingu og Vinaleið í skólum

Nokkuð hefur verið rætt um „Vinaleiðina“ sem einstaka söfnuðir Þjóðkirkjunnar hafa boðið upp á í nokkrum grunnskólum. Hefur hún verið gagnrýnd með þeim rökum að um trúboð væri að ræða. Í „Vinaleiðinni“ felst að eiga samleið með barninu, hlusta og mæta því á sínum eigin forsendum og setja sig í spor þess. Þessi stuðningur hefur einnig verið nefndur sálgæsla.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
21. október 2006

Nokkuð hefur verið rætt um „Vinaleiðina“ sem einstaka söfnuðir Þjóðkirkjunnar hafa boðið upp á í nokkrum grunnskólum. Hefur hún verið gagnrýnd með þeim rökum að um trúboð væri að ræða.

Hvað er Vinaleiðin?

Vinaleiðin er verkefni sem var þróað í samvinnu kirkju og skóla í Mosfellsbæ. Frumkvöðull þeirra starfsemi var Þórdís Ásgeirsdóttir djákni og leikskólakennari.

Í verkefninu felst að eiga samleið með barninu, hlusta og mæta því á sínum eigin forsendum og setja sig í spor þess. Þessi stuðningur hefur einnig verið nefndur sálgæsla. Stuðningurinn eða sálgæslan er ólík meðferð á þann hátt að skjólstæðingnum, í þessu tilviki barninu er hjálpað til að finna sínar eigin lausnir. Í meðferð grípur meðferðaraðilinn meira inn í með sínar lausnir. Vinaleiðin er ávallt kynnt foreldrum og forráðamönnum barna og byggir á trúnaði. Þó getur þagnarskyldan og sú upplýsingaskylda er hefur meðferð barnsins að leiðarljósi tekist á og er barninu gerð grein fyrir því. Ef um meiri háttar vanda er að ræða er barninu komið til meðferðaraðila, s.s. sálfræðings í samvinnu við skólann. Að þessu leyti svipar Vinaleiðinni til annarra faghópa innan skólans, t.d. námsráðgjafa. Þá má á það benda að Vinaleiðin er visst framhald þess samstarfs sem tekist hefur með kirkju og skóla við áföll og missi.

Munur er á trúboði og þjónustu

Nokkurs misskilnings gætir í gagnrýni á Vinaleiðina. Hún er þjónusta við náungann en ekki boðun. Sá munur byggir á því að starf kirkjunnar hefur frá öndverðu verið með þrennum hætti: Í fyrsta lagi hefur kirkjan frá upphafi vissulega boðað trú á Guð eins og hann birtist okkur í Jesú Kristi. Um það verður ekki deilt.

Í annan stað hefur kirkjan ávallt lagt áherslu á fræðslu um trúarsannindin. Með tíð og tíma varð sú áhersla upphafið að fyrstu háskólum Evrópu, og lærdómi hér á landi á þjóðveldisöld og síðar. Fræðslan var rík hjá siðbreytingarmönnum og allar götur síðan með þeim árangri að Íslendingar voru flestir læsir og skrifandi á síðustu öldum. Rætur íslensks skólastarfs eru þannig að finna í fræðsluhefð kirkjunnar.

Í þriðja lagi hefur þjónusta við náungann alltaf verið talin einn af hornsteinum kirkjunnar. Þá er ekki spurt um trúarskoðanir. Sagan um miskunnsama Samverjann segir að sérhverjum skal hjálpað, jafnvel þvert á trúarviðhorf. Vestrænt heilbrigðiskerfi og spítalar sækja einmitt í þann arf. Starf kirkjunnar kemur því fram með ólíkum hætti þótt samhengi sé á milli. Náunganum skal þjónað án tillits til aðgreiningar. Og samt er það trúin á Krist sem er hvati þeirrar þjónustu. Fræðsla kirkjunnar byggir á skynsamlegri þekkingarleit, einnig þegar fjallað er um trúarsannindin.

Gagnrýni á Vinaleiðina

Í Morgunblaðinu 14. október s.l. er Vinaleiðin gagnrýnd á eftirfarandi hátt:

  1. Þjóðkirkjan er að stunda trúboð innan grunnskólans.
  2. Það er óhæft að hægt sé að senda barn í trúarlegt sálgæsluviðtal án þess að samþykki foreldra/forsjármanna liggi fyrir.
  3. Prestar og djáknar eiga ekki að hafa skrifstofu innan skóla.
  4. Einkaviðtöl við börn eru alltaf meðferðarúrræði. Prestar og djáknar eru ekki meðferðaraðilar.

Varðandi trúboðið skal bent á aðgreind verkefni kristinnar kirkju, auk þeirrar stefnu Þjóðkirkjunnar að eiga samstarf við skólann á hans eigin forsendum.

Um það að senda barnið í trúarlegt sálgæsluviðtal þá er því til að svara að hún þarf ekki að vera trúarleg að öðru leyti en því að það er prestur eða djákni sem hlustar. Hér má benda á ákveðna hliðstæðu við störf sjúkrahúspresta. Víst eru þeir fulltrúar kristninnar, en þeim ber að virða trúararf skjólstæðinga sinna og veita stuðning á forsendum þeirra.

Um aðstöðu í grunnskólum: Það leiðir af sjálfu sér að vilji skólarnir bjóða nemendum upp á sálgæslu þá hlýtur hún að vera innan veggja skólans.

Að einkaviðtöl við börn séu alltaf meðferðarúrræði er ekki hægt að fallast á, sbr. framangreindan skilning á sálgæslu og meðferð. Við prestar og djáknar teljum þá sálgæslu sem við veitum vera til þess að hlusta og styðja á forsendum skjólstæðingsins sjálfs. Þá er það hluti af okkar námi að greina alvarleg tilvik þar sem við vísum skjólstæðingum áfram til meðferðaraðila.

Það fólk sem að Vinaleiðinni kemur hefur fengið faglega þekkingu í sálgæslu, auk þess að hafa mjög mikla reynslu af störfum með börnum. Innan Þjóðkirkjunnar er mikill reynslubrunnur varðandi barnastarf og þeir sem starfa með börnum lúta sérstökum siðareglum. Þar er einnig mikil þekking á sorg og áföllum, ekki síst barna. Þá skal á það minnt að einn helsti gúrú sálgæslufræða hjá námsráðgjöfum, Carl Rogers, var prestur.

Sú gagnrýni sem fram er komin á Vinaleiðina stafar af misskilningi á þjónustu kirkjunnar. Þó skal hlustað á alla gagnrýni því hún brýnir Þjóðkirkjuna í fagmennsku. Loks má minna á þörf barna fyrir stuðning á tímum „hins magnaða nihilisma samtímamenningar“ svo vitnað sé í Pælingar Páls Skúlasonar heimspekiprófessors. Þeirri þörf vill Þjóðkirkjan sinna nú þegar bernskan á undir högg að sækja.