Reikniskekkja staðfest

Reikniskekkja staðfest

Hugmynd okkar um heiminn var röng, hugmynd okkar um sjálf okkur var röng og það sem við héldum að væri hagvöxtur reyndist vera þjófnaður.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
01. apríl 2018
Flokkar

Flutt 1. apríl 2018

Kæru vinir, ég óska ykkur gleðilegra páska. Páskadagsmorgunn er sannarlega morgunn hinnar björtu gleði - en þó er hann líka morgunn blendinna tilfinninga því þótt páskagleðin sé björt þá er hún hvorki einföld né ódýr. Þetta er morguninn þegar við minnumst fólks sem fyrir meira en tvö þúsund árum tók þátt í tilraun sem gersamlega hafði runnið út í sandinn og endað í angist og dauða. Þau höfðu talið sig þátttakendur í sigurför með meistaranum frá Nasaret, en þvílík firra! Þvílíkir strandarglópar sem þetta fólk var á þessum morgni. Þvílíkir taparar. Páskar eru hátíðin þegar allt snýr á haus og allt sem menn hafa haldið og ætlað reynist marklaust. Páskamorgunn er einhverskonar upphafsreitur í slönguspili vonglaðra taparans. Kristið fólk um allan heim rífur sig á fætur á þessum morgni og fer í sitt fínasta púss til þess að hittast á byrjunarreitnum eina ferðina enn. Koma saman og játa það eina sem við vitum fyrir víst; að ef lífið okkar er í skorðum, þá er það ekki okkur að þakka.

Jesú-prójektið hafði tekið þrjú ár uns allt fór á verri veg. Það er merkilegt til þess að hugsa að við öll sem hér erum í dag erum þátttakendur í risastórri tilraun sem tekið hefur rúm þrjú hundruð ár og alveg nýverið er orðið ljóst að verkefnið er runnið út í sandinn og enginn skilur upp eða niður í stöðu mála. Í meira en þrjúhundruð ár höfum við trúað á tilraun nútímans. Við höfum trúað á hagvöxtinn, tæknina og jafnræðisregluna og treyst því að öllu væri borgið. Að vel yrði fyrir öllu séð, jafnvel með aðstoð hulinnar handar. En nú liggja vísindalegar staðreyndir á borðinu þess efnis að nútíminn með vísindin við hjartastað var tilraun sem hefur mistekist í aðalatriðum.

Þegar stór tíðindi verða og kaflaskil í lífi fjölmennra hópa að ekki sé talað um það þegar heilu menningarheildirnar riða þá tekur tíma að átta sig. Páskamorgunn hinna blendnu tilfinninga getur teygt sig yfir heilu ártugina. Við erum stödd á slíkum stað, slíkum morgni.

Við sem nú erum á miðjum aldri munum flest eftir landakortabókinni sem við fengum í barnaskóla. Okkur var kennt að landamæri væru raunveruleg mörk, að hver þjóð væri sjálfstæð eining sem lifði sínu lífi innan sinna vébanda. Í okkar huga var veröldin stór og til voru fjarlægar þjóðir með framandi siði sem fróðleiksfúst fólk mátti kynna sér ef það gat og vildi. Við litum svo á að hafið væri vítt og djúpt og haft var á orði að lengi tæki sjórinn við, - en nú er allt breytt. E.t.v. má segja að skýrsla sem kennd er við Gro Harlem Brundtland og út kom á vegum Sameinuðu þjóðanna árið 1987 hafi markað dögun þessa morguns.[1] Þar var reikniskekkja nútímans opinberlega staðfest og því lýst að við erum stödd á ægifagurri en lítilli og viðkvæmri kúlu í köldum geimi og ef þróun hnattarins verður ekki sjálfbær er menning okkar að renna sitt skeið.

Við, sem fyrir skemmstu vorum bara Íslendingar sem kunnum að þreyja þorra og góu og fagna páskasól; nú erum við ekki einungis jarðarbúar heldur erum við orðin að geimverum! Ný heimsmynd hefur troðið sér inn í vitund okkar gegnum Hubblessjónaukann og við sjáum okkur í samhengi himingeimsins sem hluta af óravíddum Miklahvells. Fyrir skömmu vorum við, homo sapiens, miðdepill alls og helsta dýrmæti heimsins en sjáum okkur allt í einu bara sem þátttakendur í ristastóru vistkerfi - og raunar í kerfum vistkerfa sem m.a. sést á því að núna er viðurkennt að ein helsta leiðin til þess að vinna gegn loftslagsbreytingum til langframa, stöðva bráðnun jökla, hækkun og súrnun sjávar og hefta áður óþekktan veðurofsa er sennilega sú að efla menntun stúlkna og kvenna á jarðkúlunni! Já, náttúruvísindamenn halda því fram í blákaldri alvöru að bókstaflega allt sé svo órofa tengt í gagnvirku samhengi að ef drengir en einkum stúlkur í þróunarlöndum læri að lesa, skrifa og reikna og öðlast þekkingu á næringarfræði o.fl. þáttum þá muni þær eiga færri börn er fram líða stundir því menntaðar þjóðir með lágan ungbarnadauða fjölga sér ekki. Með lækkandi fæðingartíðni og afnámi fátæktar telja vísindamenn að umgengni mannkyns við umhverfið geti orðið sjálfbær þannig að við hættum að fella skóga og riðla milljóna ára gömlu jafnvægi vatnasviða og rugla samsetningu andrúmsloftsins með útblæstri. Líffræðilegur fjölbreytileiki plánetunnar getur þá kannski glæðast að nýju og eyðimerkurnar sem vaxið hafa í takti við eyðimerkur mannshugans fá að græðast upp. Þetta hljómar eins og rugl en þetta er víst ekki rugl því ein aðal reikniskekkja nútímans er sú að halda að veruleikinn sé allur í aðgreindum þáttum. Í ljós er komið að það var dýrkeyptur misskilningur. Núna vitum við t.d. að hagtölur segja u.þ.b. ekkert. Svo nefndur hagvöxtur er orðinn að súru aðhlátursefni af því að hann mælir bara fjárstreymi en segir ekkert um veruleikann að öðru leyti, segir fjarska fátt um raunhag fólks og hvað þá vistkerfisins. Nú er komið á daginn að á meðan við höfum fagnað eigin framförum, byggt skýjakljúfa, hannað breiðþotur og aukið lífslíkur tegundarinnar með læknavísindum þá höfum við á sama tíma safnað himinhárri vistkerfisskuld sem við erum engir borgunarmenn fyrir en afkomendur okkar munu súpa seyðið af þegar við erum dauð. Menning okkar flokkar allt og aðgreinir en ber ekki skynbragð á tengsl, skilur ekki samhengi og því eru kvíðaraskanir og einsemd orðin að menningarheilkenni í samfélagi þar sem allir eru frjálsir að því að vera ólíkir í einrúmi.

Það var skekkja í vinnutilgátu nútímans, og nú er hann liðinn.

Á þessum morgni voru þau saman komin, vinir og nemendur Jesú, og þeim var orðið ljóst að öllum var ljóst að það sem þau höfðu ætlað var ónýtt. Allt var ónýtt. Ekki síst mynd þeirra af sjálfum sér og hugmyndin sem þau höfðu haft um eigin framtíð. Á örfáum dögum höfðu þau orðið vitni að algjöru hruni, líkt og verðbréf gufi upp af köldum skjá, þannig höfðu þau séð vonina hverfa fyrir augum sér. Nei, þau höfðu skynjað meira. Þau höfðu heyrt hamarshöggin og þekkt röddina hans í kvalastunum þegar naglarnir voru ristir í gegnum sinar og hold. Í miðri sturluninni höfðu þau fengið fréttirnar af vini sínum, Júdasi. Vinarsvik, vinardauði. Þau höfðu heyrt fótleggi ræningjanna tveggja mölvaða og séð spjótlagið upp í kvið Jesú svo út rann vatn og blóð. Grimmdin, heimskan og vanvirðan höfðu smogið inn í innstu sálarfylgsni og þau hafa klárlega verið þjáð af áfallastreituröskun með endurupplifunum. Það eina sem allir vissu var að þessu var lokið og að tapið var glórulaust.

Á þessum páskadagsmorgni er mannkyn í viðlíka stöðu og vinir Jesú hinn fyrsta páskadag. Okkar kynslóð hefur orðið vitni að meira ofbeldi og vanvirðu en nokkur kynslóð á undan okkur svo að jafn vel þrjátíu ára stríðið á 17. öld bliknar í samanburði. Byltingarnar í Rússlandi og Kína og heimsstyrjaldirnar tvær á 20. öld með sínum ólýsanlegu hörmungum og mannfalli búa í taugakerfinu á okkur. Líka Balkanstríðið á 10. áratugnum og svo flóttamannastraumurinn á Miðjarðarhafi eða fáránleikinn í austurlöndum nær sem orðinn er að slíkri martröð - fyrst Írak svo Sýrland - að ekkert af öllu því sem fram kom við Jesú er okkur ókunnugt í lýsingum á öðru venjulegu fólki og myndir af blóðugum börnum með stjarfa í augum og bleyjubarni liggjandi á grúfu í flæðarmáli á Miðjarðarhafsströnd eru brenndar inn í vitund okkar. Grimmdin, heimskan og vanvirðan er sest að í taugakerfi okkar og öllum er ljóst að það er eithvað mikið að, það er skekkja í vinnutilgátu menningarinnar. Hugmyndir okkar um veruleikann eru ekki að gera sig og tapið er svo glórulaust að „náttúran stynur og hefur fæðingarhríðir“[2], jöklar bráðna og sjávarborð hækkar.

Hugmynd okkar um heiminn var röng, hugmynd okkar um sjálf okkur var röng og það sem við héldum að væri hagvöxtur reyndist vera þjófnaður.

Á eftir ætla ég að taka plastið utan af páskaeggjunum handa barnabörnunum og reyna að flokka allt eftir veislu dagsins; plast í plast, pappír í pappír, gler í gler. Svo langar mig bráðlega að fara með þau í Flórídaferð, taka með þeim eitt ristastórt kolvetnisspor af því að ég elska þau svo heitt. Á sama tíma veit ég að barnabörnin þeirra, langa-langfabörnin mín, munu horfa hvert á annað eftir fimmtíu ár og spyrja í forundran: Hvað var þetta fólk að pæla?!

Kæri samferðamaður og geimvera, frétt páskanna er þessi: Allt mun fara vel, það er ekki okkur að þakka en við eigum val um að taka þátt.

Nútíminn trúði á manninn og efaðist um Guð. Eftirnútíminn efast um manninn og þarf að fá að heyra um Guð sem elskar allt sem lifir og hefur sameinast sjálfu vistkerfinu í einu varnarlausu bleyjubarni.

Börnin sem nú heilsa breyttri framtíð skulu fá að vita að þau mega trúa á góðan Guð sem ekki er fjarlægur heldur alnálægur og hefur gert örlög heimsins að sínum örlögum og allt fólk að bræðrum og systrum í manninum Jesú. Á morgni hinna blendnu tilfinninga stendur hann frammi fyrir vinum sínum og segir Friður sé með ykkur og réttir fram hendurnar til að sýna okkur sárin sín. - Sjáið mig, vinir mínir, sjáið mig. Lærið að þekkja hvernig sár gróa. Snertið mig og skiljið hvernig grimmdin, heimskan og vanvirðan er afmáð en ástin, viskan og samlíðunin gengur sigrandi fram.

Þegar innsigli keisarans rofnaði við það að steininum var velt frá gröf Jesú var í eitt skipti fyrir öll staðfest að hið rétta vald í þessum heimi er ekki valdið sem stjórnar með þvingunum. Eftir að við urðum geimverur og kvöddum hið þrönga sjónarhorn nútímans sjáum við manninn heldur ekki lengur sem stjórnanda og eiganda heimsins en miklu fremur sem þátttakanda í vistkerfi. Eftir að við urðum geimverur vitum við, líkt og trúað fólk hefur vitað á öllum öldum en haft ríka tilhneigingu til að gleyma, að ef lífið okkar er í skorðum þá er það ekki okkur að þakka heldur Guðs gjöf.[3] Hinn særði og upprisni Guð býr í hverri sál, hverri lífveru og ekkert mun gera okkur viðskila við kærleika hans.[4] Fæðing, dauði og upprisa Jesú staðfestir að frá innsta atómkjarna að ysta rykkorni alheimsins er elskandi Guð alnálægur og því getur alltaf í öllum aðstæðum eitthvað nýtt og stórkostlegt komið fram. Sagan af Jesú staðfestir að kvíði og einsemd er misskilningur, sjálf Jörðin er systir okkar og alheimurinn er frændgarður sem við erum kölluð til að elska og þjóna á meðan höfundur lífsins leiðir allt sem er til móts við sitt eilífa ljós.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.


[1] Skýrsla Brundtland nefndarinnar, Our Common Future:

http://www.un-documents.net/our-common-future.pdf  (22.1.2017)

[2] Róm 8. 22
[3] Efesus 2. 8
[4] Róm 8. 37-39