Grjótið góða

Grjótið góða

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Algóði himneski faðir, megi það sem ég tala hér í húsi þínu í dag, vera þér þóknanlegt og fólki uppbyggilegt. Minnstu þess Guð minn að ég, þjónn þinn, er aðeins maður.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega páskahátíð!

„Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór.“ (Mk. 16: 1-4)

Ég veit allt um grjót. Eða, kannski ekki allt, en mjög mikið. Ég vann á grjótmulningsvél í mörg herrans ár. Ég skrifaði meira að segja einu sinni menntaskólaritgerð um „Vinnsluhæfni íslenskra bergtegunda“. Það lá beinast við – ég var alltaf í grjótinu. Grjótinu svona almennt séð – ekki í steininum.

Þegar maður situr í stjórnklefa grjótmulningsvélar og skammtar stórgrýti ofan í forbrjótinn, ógurlegt hamrandi gímald með tvo ógnarmikla stálklampa sem taktfast bryðja hvern þann stein sem ofan í kemur – þá fær maður að kynnast því hversu ógnar stórt og þungt grjótið getur verið. Þegar maður sér stórgrýti, allt að því kletta, skoppa til og frá (eins og maísbaunir í potti) og neita að brotna undan þessum ramma kjafti sem knúninn er áfram af 1500 hestafla Caterpillarvél sem hefur þann eiginleika að „regúlera“ eða bæta við sig, án þess nokkur snerti við olíugjöfinni, þegar hún erfiðar sem mest – þá gerir maður sér grein fyrir því hve harka steinsins er svakaleg.

Stundum var það að allt stóð fast, grjótið var of stórt fyrir brjótinn, hann náði ekki að vinna á því; mylja það niður svo hægt væri að mola það enn smærra í möl og sand. Þá voru góð ráð dýr, sóttar stroffur og lásar og reynt að bregða utan um bjargið sem neitaði að láta mylja sig – og svo var það dregið upp úr sílóinu með stórvirkri vinnuvél, t.d. hjólaskóflunni sem hafði mokað því þangað. Eða jarðýtu. Og þar sem þetta stórgrýti drógst með skruðningum og neistaflugi aftur sína leið, þá horfði maður á það, óviss um hvar skyldi standa því hætta var vís ef stroffa slitnaði eða hrykki af grjótinu. En þegar kletturinn var loks kominn frá þá gekk maður stundum að honum, svona eins og til að láta hann njóta þess að hann hefði unnið þessa orrustu – en alls ekki stríðið – og þá undraðist maður oft, stórum, hve hann var í raun lítill. En samt svona þungur – svo mikilvægur í sjálfum sér.

Öll þessi langloka var til þess ætluð að þið öðluðust á því skiling að grjót er hart – og þungt. Og af því leiðir að stórt grjót er mjög þungt. Í guðspjalli dagsins er það undirstrikað sérstaklega að grjótið sem var fyrir grafarmunnanum, var mjög stórt. Enda höfðu þær vinkonurnar áhyggjur af því hver ætti að velta því frá.

Það er nefnilega það: Hver velti því frá?

Ég man ekki eftir því að hafa heyrt talað um það. Púðrið hefur allt farið í hitt, að gröfin var tóm – utan einn engill. Það er svo sem skiljanlegt. Ég geri ekki ágreining um það. Kjarninn í páskaboðskapnum er sá um upprisuna, ekki hinn um grjótið. Burt séð frá því, og jafnvel þrátt fyrir að, ég hafi skrifað ritgerð með heitinu „Vinnsluhæfni íslenskra bergtegunda“. (Mér finnst rétt að geta þess – þótt það komi málinu aðeins óbeint við að ég fékk A fyrir þessa ritgerð.)

Ég ætla samt að tala um grjótið. Hver velti því frá? Hvaða máli skiptir það? Skiptir það kannski öllu máli? Hvaða grjót var þetta?

Þessi steinn sem um ræðir lokaði ljósið úti. Þessi steinn átti að loka inni. Þessi steinn var þarna settur svo ekki færu neinir inn í gröfina – síður var reiknaði með því að umferð væri í hina áttina. Þessi steinn stóð fyrir munnanum. Hann stendur fyrir þyngsli, ok, hörku, þunga, dauða, þögn – já þögn, því þá þögn? Jú stuttu áður hafði Jesú vísað til þess sem hins ólíklegasta af öllu ólíklegu að steinar gætu talað. Á pálmasunnudaginn skipuðu farísearnir Jesú að hasta á lærisveina sína þegar þeir sungu honum lof og dýrð, en hann svaraði þeim skipunum með þessum orðum: „Ég segi ykkur, ef þeir þegja munu steinarnir hrópa.“ (Lúk 19:40)

Þetta farg, þetta sem við fáum ekki bifað. Ekki ein. Við þurfum hjólaskóflur, í sumum tilfellum. Stundum jarðýtur. En oftar Guð. Oftast Guð.

Við vitum alveg hver það var sem velti steininum frá gröfinni. Það var sá sami og veltir grjótinu af herðum okkar í dag, sá sami og fjarlægir fargið ofan af okkur þegar við komust hvorki lönd né strönd, sá sami og við heyrum af í kraftaverkum hversdagsins.

Hver velti steininum af ungu konunni, sem var vegalaus og viti sínu fjær af alkóhólisma, þeirri sem horfði á rottuna hlú að ungum sínum í ruslageymslu í Reykjavík og taldi þá rottufjölskyldu sinn eina sanna vinskap – já hver bifaði því bjargi sem ofan af henni var hrundið? Með þeim eftirmála að hún hóf að gefa af sér við kristilegt hjálparstarf og hóf nýja göngu öllum til eftirbreytni, nýsköpun Krists. Okkur var sögð og sýnd saga hennar á Stöð 2 í vetur.

Hver var það sem velti steinunum, þegar vonlausi drykkjumaðurinn og síbrotagemsinn sneri einn góðan verðurdag við blaðinu? Án þess nokkur – og kannski allra síst hann, vissi hvers vegna – nákvæmlega þá. Bara „eitthvað“ gerðist. Hann sagði mér að hann hefði farið „út að reykja“ og þá … já, þá bara datt honum í hug að fara í meðferð í nítjánda sinn. Hann fór í það sinnið í Hlaðgerðarkot. Þar heyrði hann talað um Krist. Bingó!

Steindauður, steinrunninn, grjót haltu kjafti, steinþegiðu, grjótharður, grjótheimskur.

Kristin trú er að stórum hluta trú á kraftaverk, þannig er kraftaverkið um upprisu Krists miðlægt viðfang í guðfræði okkar – enda segir frelsarinn sjálfur: „Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“(Jóh. 20:29b)

Já við trúum á Jesú Krist hinn krossfesta og upprisna Drottinn vorn og frelsara.

Trú i blindni? Nei, trú í trú – trú sem byggir á vitnisburði og festu, kærleik og trausti. Hún gæti virst trú í blindni, sumir sjá hana þannig:

Sagan segir af kristniboða, sem var að störfum í Austurlöndum. Hann var á ferð á bíl sínum. Hann varð bensínlaus en hafði engan brúsa. En, vegna þess að þau hjónin voru með lítil börn, var hann með hlandkopp í bílnum. Hann gekk nokkra kílómetra að bensínstöð og setti bensín í koppinn! Þegar hann var svo að hella úr koppnum á bensíntankinn á bíl sínum nokkru síðar bar þar að tvo olíufursta á risastórum Cadillac, þeir könnuðust aðeins við trúboðann og námu staðar. Horfðu á blessaðan manninn hella úr koppnum, en að lokum sagði annar þeirra, skælbrosandi: „Fyrirgefðu. Þótt vinur minn og ég séum ekki sömu trúar og þú, þá verðum við að segja að við dáumst virkilega að trú þinni.“

Sumir halda að það að vera kristinn, sé að æða bara áfram í blindni. Samsvarandi því að trúa því að bíllinn gangi á því sem venjulega er að finna í hlandkoppum. Kristindómurinn er vissulega trú, en hún er ekki blind heldur byggð á sögulegum vitnisburði. Auk guðspjallanna greina frá sagnaritararnir, Jósefus Flavíus (ca. 37 – 100) og Tacítus (ca. 56 – 117) – svo einhverjir séu nefndir.

Þetta skrifaði t.d. Jósefus:

Á þessum dögum var maður nokkur, Jesú að nafni, ef það er þá réttnefni að kalla hann mann, því hann framkvæmdi mörg kraftaverk – var lærimeistari þeirrar gerðar sem menn kjósa að láta fræða sig um sannleikann. Margir gyðingar, en einnig heiðingjar, drógust að honum. Hann var Kristur og þegar Pílatus að tilhlutan æðstu yfirvalda gyðinga dæmdi hann til krossfestingar, hurfu þeir, sem elskuðu hann, ekki frá honum. Hann birtist þeim lifandi á þriðja degi, alveg eins og hinir heilögu spámenn höfðu sagt fyrir um eins og ótölulegan fjölda annarra hluta varðandi hann. Ekki hefur enn tekist að útrýma þessum hópi, sem kennir sig við nafn hans.

En, gáum að því – að við trúum ekki vegna Jósefusar og Tacítusar (enda þeir litlir aðdáendur Krists), heldur vegna hans sem er upprisinn í dag.

Ok, farg, harka, þögn, dauði – en, líka svo margt fleira. Andstaða þessa alls:

Líf, léttir, frásögn, tónlist, mál. „Jesús er bjargið sem byggja má á“ syngja börnin í sunnudagaskólanum. „Bjargið alda, borgin mín, / byrg þú mig í skjóli þín.“ yrkir Matthías. Og séra Friðrik segir í sálminum góða: „Guðs kirkja er byggð á bjargi, / en bjargið Jesús er, / hún er hans undrasmíði, / sem alla dýrð hans ber.“ Og enn má grípa niður í sálmabókina og þá nákvæmlega til þess sem við á í dag:

Það ógnarbjarg er oltið frá,
er yfir gröf vors Drottins lá,
og gröfin opnuð aftur.
Ó, hver tók líka burt það bjarg,
á brjósti mér er lá sem farg?
Það gjörði, Guð, þinn kraftur.
Jesús, Jesús,
bjargið trausta, hetjan hrausta,
hjartakæra,
bjarg sem enginn burt skal færa.

Hér sameinar Valdimar Briem þá sundurlausu hugsun sem hér hefur verið færð í tal – þetta er sama bjargið, tákmynd þess bjargs, sem Frelsari okkar og Guð afléttir á degi hverjum af okkur syndugum, þjáðum og hjálparvana – í eigin mætti. En til alls búin með hjálp hans sem okkur styrk gjörir.

Í Jóhannesarguðspjalli segir frá því þegar Andrés fer með Símon Pétur bróður sinn á fund Jesú: „Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: „Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas,“ en Kefas, Pétur, þýðir klettur.“(Jóh. 1:42)

Þannig varð Pétur kletturinn í samstarfinu – ekki þegar hann efaðist og tók að sökkva; ekki þegar hann afneitaði meistara sínum á meðan palestínski landnámshaninn galaði úr sér fóarnið. Heldur síðar, þegar hann tók upp merki Krists og hélt áfram störfum hans. Þegar hann hélt ræðuna fyrsta kristna hvítasunnudaginn þegar heilagur andi kom yfir lærisveinana, þegar hann varð einn af leiðtogum frumkristninnar.

Þannig eru líkindi með Pétri og klettinum sem ég gat um í upphafi, þessum sem nær ekki að verða efni í möl eða sand í gegnum mulingsvélina þegar honum er ætlað það í fyrstu – hann er dregin til baka og virðist til einskis nýtur um stund. En hans tími kemur. Stundum þarf bara að velta honum við, snúa honum ögn, sprengja hann eða sníða til. Til svo margs brúklegur – berandi svo fjölbreytilegar táknmyndir.

Nú, ef þið eruð hissa góðir kirkjugestir á langlokunni, þá spyr ég bara eins og Frelsarinn sjálfur:

„Hafið þið aldrei lesið í ritningunum:
Steinninn sem smiðirnir höfnuðu
er orðinn að hyrningarsteini.
Þetta er verk Drottins
og undursamlegt í augum vorum.
(Mt 21:42)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda, Amen.